Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Upphaf vitundarverunnar og minnið

Upphaf vitundarverunnar og minnið

Meðvitund, hugtak sem við notumst við frá degi til dags, merkir oftast einskonar ástand lífveru, ástand sem einkennist af því að lífveran sé vakandi og eftirtektarsöm. Þá væri meðvitundarlaus manneskja einmitt ófær um að svara tilteknu áreiti sem berst henni úr umhverfinu, hún lægi eða sæti einfaldlega og tæki ekki eftir umheiminum. Þetta er ríflega sú merking sem við leggjum í hugtakið hversdagslega. Þegar við hugsum svona um hugtakið eins og það birtist okkur beint og milliliðalaust í daglegri notkun vakna þó upp einhverjar athugaverðar spurningar. Til að mynda gætum við spurt okkur að því hvort ýmis skordýr eða plöntur geti talist til meðvitundarvera, og umhugsunarlaust virðist fólk fært um að skipa sér játandi eða neitandi afstöðu til spurninga af þessu tagi. Það er eins og við höfum einhverja tilfinningu fyrir undirliggjandi merkingu orðsins meðvitund, sem ekki ríkir samhljóðan um hver er nákvæmlega. Það er þessi undirliggjandi merking hugtaksins sem ég vildi kanna örlítið nánar í dag með því að greina hugtakið og það sem það virðist gefa í skyn.

Til að byrja með er vert að gefa því gaum að ef til vill er hugtakið meðvitund eins og við notum það frá degi til dags ekki sérlega nákvæmt. Kannski myndi það því þjóna okkur vel að gera greinarmun á tvennskonar formum meðvitundar. Það er í fyrsta lagi hægt að tala um sjálfsvitund, einskonar skynbragð sem við höfum fyrir meðvitund okkar eða yfirsýn, meðvitund um meðvitund — og í öðru lagi er hægt að tala um einfalda vitund, sem er það sem við erum meðvituð um þegar við búum yfir sjálfsvitund. Við getum sumsé ekki ímyndað okkur að búa yfir sjálfsvitund án þess að búa yfir vitund, en það er að minnsta kosti hugsanlegt að búa yfir vitund án þess að búa yfir sjálfsvitund. Ef til vill skýrir þessi greinarmunur strax aðgreininginn sem myndast milli fólks þegar það er spurt út í meðvitund ákveðinna annarra lífvera eins og plantna eða skordýra. Mörg hver viljum við einfaldlega meina að skordýr og plöntur séu að líkindum ekki sjálfsvitundarverur, en flest myndum við samþykkja að skordýr og plöntur séu að einhverju leyti vitundarverur. 

Til þess að afmarka umhugsunarefnið betur skulum við því einblína á hugtakið vitund innan ramma þessa pistils í stað þess að velta fyrir okkur sjálfsvitund. Það sem verður nefnilega einna áhugaverðast er hvernig afstöður okkar skiptast jafnvel þegar við höfum afmarkað okkur við einfalda vitund, því línurnar milli vitundarveru og dauðs hlutar eru heldur ekki milliliðalaust svo skýrar! Það er kannski einna helst þessi grundvallarlína sem er einna áhugaverðust — hvar hefst vitundarveran, og hvar endar hún? Hvaða einkenni þarf fyrirbæri að hafa til þess að geta talist vitundarvera? Flest væri fólk sammála um að spendýr séu öll með tölu vitundarverur. Þau vita af heiminum í kringum sig, jafnvel þótt deila megi um hvort þau viti af sér í heiminum. Línurnar verða einmitt óskýrar um leið og við förum að hugsa út í skordýr og plöntur, hef ég fundið. Margt fólk getur ekki fallist á það að skordýr séu vitundarverur. Fyrir mörgum eru skordýr áþekk litlum líffræðilegum maskínum sem bregðast við á vélrænan hátt — eins og steinn sem veltur niður brekku eftir að honum er ýtt. Hið sama á við um plöntur — margir eru þeirrar skoðunar að plöntur séu einfaldlega lífrænar vélar.

Því dýpra sem við förum, því erfiðara verður að samþykkja að vitund sé til staðar. Hvað, til dæmis, um frumur? Eru frumur vitundarverur? Veirur eru svo annað álitaefni. Það er ekki einu sinni víst að veirur séu lifandi, jafnvel þótt þær búi yfir erfðaefni, þar eð þær reiða sig á lifandi frumur til þess að fjölga sér. Jafnvel orðanotkunin „fjölga sér“ virðist eitthvað undarleg þegar við beitum henni yfir fyrirbæri eins og veiru — hefur vírusinn einhverja vitund um fjölgunina? Væri ekki nákvæmara að segja að fjölgun eigi sér stað? Hér verður þetta einmitt afskaplega flókið. Það sem gerir þetta svona vandkvæðasamt er að við eigum til með að hugsa okkur þetta á þann hátt að ef lífveran sem við höfum til skoðunar taki ekki á einhvern hátt sjálf ákvörðunina um að gera eitt um fram annað geti hún ekki verið með vitund. Það er, í grunninn eru athafnir lífverunnar ekkert nema efnahvörf — vélrænir atburðir sem við hugsum okkur að gerist óháð því hvað lífveran veit eða veit ekki. Lífvera sem samanstendur af nægilega einföldum efnahvörfum, eins og fruma eða veira, virðist okkur því ekki geta verið vitundarvera — hún er bara efnahvarfakássa sem tekur á sig ásýnd vitundarveru.

Ég vil hins vegar reyna að hugsa þetta á annan hátt, með því að beita fyrir mig hugtakinu um minnið. Það mætti nefnilega hugsa sér vitundarveruna fyrst og fremst sem minnisveru, veru sem man eftir heiminum og þekkir hann, veit um hann, þótt hún viti ekki endilega af honum eða af sjálfri sér í honum. Ef til vill erum við þá komin með annað stig vitundar — minnisveran er þá einföldust, vitundarveran flóknari, og sjálfsvitundarveran margslungnust. Í öllum föllum vil ég meina að það sé ekki eðlismunur þar á milli heldur stigsmunur, og að öll þessi fyrirbæri einkennist af einhverju formi vitundar, sama hversu einföld þessi vitund er. Strax verður okkur þó ljóst að það dugir ekki einfaldlega að segja að minnið sé forsenda vitundarinnar — því það er enn óljóst hvað ég á við með minninu. Varla er hægt að segja að fruma eða veira geti munað eitthvað — er það nokkuð? Ég held að ég vilji segja að jú, það sé einmitt hægt að segja að frumur og veirur búi yfir einskonar minni! Ég á þó augljóslega ekki við minni á við hið hversdagslega minni okkar sjálfsvitundarveranna. Það sem við munum er allt annað en minnið sem ég er að hugsa mér. Fruma eða veira getur augljóslega ekki munað eins og við munum.

Ég á fremur við frumstæðara form minnis — erfðaefnið. Hvað er erfðaefni ef ekki minni? Erfðaefnið er eins og minnislykill, gagnabanki sem geymir upplýsingar um það hvernig lífvera er uppbyggð. Sem slíkt getur erfðaefni aðeins verið miðlað gegnum lífverur sem geta afkvæmi, afkvæmi sem á einhvern hátt eru löguð að heiminum á lífvænlegan hátt. Þetta hlýtur að vera ef eitthvað er að marka þróunarkenninguna og lögmál náttúruvalsins. Erfðaefnið geymir því í rauninni ekki bara upplýsingar um það hvernig lífveran á að vera, heldur geymir það upplýsingar um það hvernig heimurinn er sömuleiðis. Erfðaefnið er fyrsta minnið um heiminn, dýpsta minnið — fyrsta vitundin. Ef þetta reyndist nú svo rétt hjá mér, og ég geri mér grein fyrir því að þetta kann að virðast ansi fjarstæðukennd hugmynd fyrir mörgum, þá verðum við sömuleiðis að samþykkja að frumur, veirur, plöntur og skordýr séu öll vitundarverur í krafti minnisins um heiminn.

Erfðaefnið, eftir allt saman, er það sem tryggir endurtekningu lífsins í gegnum tímann. Stöðugt streymi lífsins, árstraumur þar sem hver kynslóð fæðist, eignast afkvæmi og deyr svo að lokum, er ein löng og óslitin keðja ferlis sem á í stöðugum samningaviðræðum við náttúruna, efnisheiminn. Í gegnum þetta ferli myndast ákveðnar formgerðir lífsins, tegundirnar sem við könnumst við allt í kringum okkur, og þessar tegundir lifa aðeins og dafna ef þeim er miðlað upplýsingum um það hvernig þær eiga að viðhalda sér. Plantan er vitundarvera vegna þess að hún býr yfir ákveðnum inngreyptum verkferlum sem forfeður hennar, eða forrætlingar hennar, hafa miðlað henni í gegnum óravíddir tímans. Hún veit hvað gera skal — hún kann að bregðast við vandamálunum sem tilvistin hendir í átt til hennar. Hún veit hvað hún er sjálf, og þessi vitneskja hennar er tilvera plöntunnar sem slíkrar, kjarni hennar eða eðli hennar.

Enn sitja eftir spurningar — eins og um það hvað upplýsingar eru, sem slíkar. Okkur mun því ljóslega ekki takast að fjalla um alla þá ótal mörgu slóða sem þetta umræðuefni gæti leitt okkur niður. Vonandi hefur okkur þó tekist að vakna til eilítillar umhugsunar um eðli meðvitundar og vitundar — flókins umræðuefnis sem krefst talsverðrar athygli og tíma.

Meðvitund, líf og minni

Meðvitund, líf og minni

Frumspeki Hegels: Fyrirbærafræði andans og Rökvísindin

Frumspeki Hegels: Fyrirbærafræði andans og Rökvísindin