Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Margin of Safety

Margin of Safety

Seth Klarman er bandarískur fjárfestir. Hann er sjóðsstjóri Baupost Group, vogunarsjóðs sem stofnsettur var árið 1982. Hann stýrir 29 milljörðum Bandaríkjadala eða tæplega 3.600 milljörðum íslenskra króna. Klarman er þekktur í fjármálaheiminum einna helst fyrir störf sín sem sjóðsstjóri Baupost Group, sem hefur aflað honum talsverðra tekna - hann er metinn á 1,38 milljarða Bandaríkjadala eða 171 milljarð íslenskra króna - en auk þess hefur hann vakið talsverða athygli fyrir ritstörf sín.

Klarman, eins og venjan er meðal sjóðsstjóra, skrifar hluthöfum í sjóði sínum árlegt bréf, en það eru ekki þau ritstörf sem um ræðir hér - heldur bók sem hann skrifaði árið 1991 sem ber nafnið Margin of Safety: Risk-Averse Value Investing Strategies for the Thoughtful Investor. Bókin var gefin út í aðeins 5.000 eintökum. Í fyrstu hlaut bókin ekki mikla athygli, sem Klarman kennir markaðssetningu bókarinnar um, en með tíð og tíma varð hún einstaklega vinsæl meðal sérstaks hóps fólks - grunngreiningarfjárfesta.

Arðbær fjárfesting

Verð á hvert eintak bókarinnar rauk upp og nú fæst notað eintak af bókinni á heila 1.600 Bandaríkjadali - 200 þúsund krónur - á vefuppboðssíðunni Ebay. Nýtt eintak kostar eitthvað í kringum 2.900-3.000 dali eða 372 þúsund krónur. Upphaflega kostaði eintakið 25 dali í bókabúðum og því mætti segja að ávöxtun bókarinnar frá útgáfu hennar til þessa dags, sé miðað við verð nýs eintaks, sé 11.900% - ekki amaleg fjárfesting fyrir bók um fjárfestingar.

Upprunalegir kaupendur bókarinnar sem hangið hafa á eintaki sínu til þessa dags hafa eflaust séð kaldhæðnina í því að hafa keypt bók um fjárfestingaherkænsku sem síðar varð ein þeirra allra besta fjárfesting, í prósentum talið, frá upphafi.

Undirritaður hefur komist yfir eigið eintak af þessari fágætu bók - þótt rafrænt sé - og er hún hin ágætasta lesning hvað sem verðlagningunni líður. Bókin fjallar um grunngreiningarfjárfestingastefnuna sem Benjamin Graham gerði fræga með bókum sínum Security Analysis og Intelligent Investor. Helst til einbeitir Klarman sér að því hvernig fjárfestar ættu að hugsa, en sérstaklega talar hann mikið um hvernig þeir ættu alls ekki að hugsa.

Gagnrýni Klarman er víðtæk og snertir flesta fleti fjárfestingaheimsins. Hann nefnir svo fátt eitt sé nefnt hlutabréfamiðlara, fjárfestingaráðgjafa, bandaríska verðbréfaeftirlitið, seðlabankann vestanhafs, hjarðhegðun, gíraðar yfirtökur, tryggingafélög, skuldabréf í ruslflokki, EBITDA, vísitölusjóði og jafnvel Warren Buffett - sem hann telur fara villur vegar þegar hann tekur óáþreifanlegar eignir eins og t.d. Coca-Cola formúluna inn í verðmat sitt á fyrirtækjum.

Komu að kaupum Bakkavarar

Klarman og Baupost hafa þá aukreitis komið við sögu í íslenskum fjármálaheimi. Félagið BG12 slhf. var stofnað af Arion banka í kjölfar hrunsins í þeim tilgangi að halda utan um eignir bankans í félaginu Bakkavör Group. Það voru þeir Lýður og Ágúst Guðmundssynir sem stofnuðu Bakkavör árið 1986. Félagið sérhæfði sig þá í útflutningi fiskafurða til Skandinavíu.

Bræðurnir stofnuðu síðar meir fjárfestingafélagið Exista árið 2005. Það átti aðallega hluti í Kaupþingi fyrir hrun og var skráð á markað árið 2006. Nýlega var hlutur bankans í Bakkavör seldur og voru það þeir Lýður og Ágúst sem keyptu hann - ásamt vogunarsjóði nokkrum sem kallast Baupost Group og er eins og fyrr segir undir sjóðsstjórn Seth Klarman. Hluturinn sem Baupost og fyrirtæki Bakkavararbræðra keypti nam einhverjum 30 milljörðum króna.

Fjórða besta ávöxtunin

Óháð íslensku viðskiptalífi hefur Klarman aflað sér góðs orðspors í fjármálaheimunum fyrir natni í fjárfestingum. Af öllum vogunarsjóðum á heimsvísu þá er Baupost Group með fjórðu hæstu ávöxtun allra þeirra sem starfa í dag þegar tekið er mið af ávöxtun eigna frá stofnun sjóðsins. Frá upphafi hefur árleg ávöxtun sjóðsins verið að meðaltali 19%, en hann hefur verið rekinn í 34 ár og því má áætla að ávöxtun frá upphafi hafi verið ríflega 646%.

Baupost Group fjárfestir talsvert í skuldabréfum sem fallið hafa verulega í verði. Baupost starfar eftir boðskap grunngreiningar í fjárfestingum. Því telja Klarman og samstarfsfélagar hans að skuldirnar sem sjóðurinn kaupir upp séu undirverðlagðar á markaði - sem hann talar oft um að sé óskilvirkur í bók sinni.

Áhugavert væri að spyrja Klarman sjálfan hvort hann myndi nú kaupa sína eigin bók sjálfur. Hann er naskur við eignastýringu - og því er forvitnilegt að vita hvort honum finnist sín eigin ráðgjöf vera meira en 200 þúsund króna virði.

Ef raunin er sú að með því að kaupa rándýru og sjaldgæfu bókina sem hann skrifaði muni maður standa sig betur við stýringu eigin eigna - og hvað þá ef hún kennir manni að fjárfesta eins og Klarman sjálfur - þá kann að vera hyggilegt að fjárfesta í eintaki.

Bókin sjálf

Bók Klarman er rituð eins og samansafn greina eða ritgerða sem raðað er upp í kafla um hvert og eitt viðfangsefni. Eins og segir að ofan fjallar hann um mjög víðtækan flokk málefna og heldur uppi málefnalegri gagnrýni og er fylgismaður skeptísks hugsunarháttar út alla bókina. Ég hef gaman að henni - sem leikmaður á ég auðvelt með að skilja það sem Klarman er að tala um, þar eð aðeins grundvallarþekkingar á fjármálaheiminum er krafist til þess að hægt sé að lesa hana og skilja.

Klarman er enginn listamaður og prósi bókarinnar er að mestu þurr og leiðinlegur en þannig er viðfangsefnið líka. Höfundar sem skrifa um fjármál og viðkomandi hliðargeira gerðu sjálfum sér grikk ef þeir skrifuðu í of laufguðu máli og það á vel við hér sem annarsstaðar. Mestu máli skiptir að bókin sé skýr í lestri og auðveld skilnings þannig að hver sem er, amatörar sem atvinnumenn, geti lesið hana sér til gagns og hagnýtingar.

Vegna þess hve skýr bókin er en auk þess vegna góðs hugsunarháttar sem Klarman viðheldur gegnum alla bókina - til að mynda leggur hann mikla áherslu á að vera þolinmóður og þrjóskur í sannfæringum sínum þegar þess er nauðsyn - vil ég mæla með þessari bók fyrir alla sem hafa áhuga á fjárfestingum eða fjármálaheiminum sem slíkum. Verðmiðinn, þótt brattur sé, á ekki að láta neinn stoppa sig. Ef þú kæri lesandi átt rafbók eða einhver sem þú þekkir á rafbók sem þú getur fengið aðgang að þá er hægt að niðurhala eintaki af bókinni með því að smella hér.

---

Das Kapital Vol. 1 - Peningar, græðgi og Guð

Das Kapital Vol. 1 - Peningar, græðgi og Guð

The Quantum Thief

The Quantum Thief