Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Hátíðarbragur og hástafir

Hátíðarbragur og hástafir

Gleðilegar hátíðir, kæru lesendur! Ég vona að þið hafið átt góð bókajól. Sjálfur fékk ég hitt og þetta að gjöf og er sáttur við mitt hlutskipti, átti góðan aðfangadag með mínum nákomnustu og hef varið eftirliggjandi dögum í tölvuleikjum, bókmenntum og heimspeki en fyrst og fremst hreinræktaðri leti eins og hún gerist best á jólunum.

Ég hef þó verið að lesa þó nokkrar ljóðabækur á síðustu mánuðum og datt í hug að taka saman stuttan lista yfir það sem ég hef lesið með dálítilli gagnrýni og/eða meðmælum við hverja og eina þeirra. Mér líst vel á ljóðabækurnar í ár, þær eru fjölbreyttar og margslungnar, fjalla um hitt og þetta, og ég er að kynnast mörgum nýjum nöfnum. Hér að neðan skoða ég tíu verk nánar:

Uss eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur

Ég sef ekki í draumheldum náttfötum eftir Eyþór Árnason

Smá eyríki eftir Henry Alexander Henrysson

Óvissustig eftir Þórdísi Gísladóttur

Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Rimbaud í þýðingum Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar

Vertu heima á þriðjudag eftir Berg Ebba Benediktsson

Tímaskekkjur eftir marga höfunda

Mundu, líkami eftir ýmisleg forngrísk og rómversk skáld í þýðingu Þorsteins Vilhjálmssonar

Þungi eyjunnar eftir Virgilio Piñera í þýðingu Kristínar Svövu Tómasdóttur

Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur

Líkhamur eftir Vilborgu Bjarkadóttur

__________________________________________________________________

Uss eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur

USS er fyrsta ljóðabók Steinunnar og er gefin út af bókaútgáfunni Sæmundi. Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, tónlistarkona og skáld, hefur löngum ort ljóð og smíðað lög. Þau hefur hún víða gert heyrinkunn í lifandi flutningi en einnig látið að sér kveða í heimi ljóðaútgáfu með birtingu í tímaritinu Stínu.

Mér fannst Uss ekki sitja eftir í minni mínu, sem kann að segja ýmislegt um hvað mér fannst varið í innihaldið — sem ég veit að er slæleg og ódýr gagnrýni — en ég hreinlega gleymdi að skrifa hjá mér punkta meðan ég las hana, eins og ég geri venjulega. Já, aumkunarverð ritrýni. Þó finnst mér ég geta sagt að þó mér hafi ekki fundist sérlega mikið varið í hana, þá hafi mér ekki heldur fundist hún hreint út léleg — ég er handviss um að með næstu útgáfum geti höfundi tekist að hreyfa betur við mér. Þetta var jú, eins og ég segi að ofan, hennar fyrsta bók!

Ég get því aðeins mælt með að þú kæri lesandi setjist á kaffihús og pantir þér kaffibolla, gluggir í Uss og metir út frá fyrsti tíu ljóðunum eða svo hvort ykkur finnist hún þess verð að þið klárið hana.

**/***** (tvær stjörnur af fimm mögulegum)

__________________________________________________________________

IMG_8046.JPG

Ég sef ekki í draumheldum náttfötum eftir Eyþór Árnason

ÉG SEF EKKI Í DRAUMHELDUM NÁTTFÖTUM er fjórða bók Eyþórs. Hún inniheldur tæplega 60 ljóð. Þau eru að mestu leyti lík að efnistaki, en þau fjalla flest um líf skúlptúra á höfuðborgarsvæðinu. Hvað er Skúli að hugsa á Fógetatorgi? Hvað er Vatnsberinn í Laugardalnum að sýslast? Hvernig líður Hannesi fyrir utan Stjórnarráðið?

Ljóðin bera öll sama íslenska keiminn. Þau vísa oft í staði úti á landi eða sögulega atburði. Langflest voru þau nú afskaplega fallega orðuð, málnotkun Eyþórs er til stakrar prýði. Það kæmi mér heldur ekki á óvart ef hann hirti ljóðaverðlaun Tómasar Guðmundssonar þegar næst kemur að því að afhenda þau — hann jafnvel vísar í einu ljóðinu til höggmyndarinnar af honum í Hljómskálagarðinum. Mæli með þessari.

****/*****

__________________________________________________________________

IMG_8047.JPG

Smá eyríki eftir Henry Alexander Henrysson

SMÁ EYRÍKI eftir Henry Alexander er fyrsta ljóðabók höfundar, hver er einnig heimspekingur og kenndi mér áfangann Gagnrýnin hugsun þetta misserið í Háskólanum. Áður hef ég lesið eftir Henry heimspekiverk hans Hugleiðingar um gagnrýna hugsun (fyrir áfangann) sem mér fannst satt best að segja lítið varið í, en svo ég gæti sanngirni þá skrifaði hann þá bók saman með Páli nokkrum Skúlasyni, en mér hefur alltaf fundist ritstíll hans með öllu ómögulegur, svo ef til vill er ekki við Henry að sakast þar. En hver veit.

Höfundur notast mikið við rými í ljóðum sínum í Smá eyríki. Landfræðilegar lýsingar, staðsetningar, hæðir og hólar. Verkið inniheldur einstaka heimspekilegar vísanir en einskonar forvitnilegur spurningartónn hljómar gegnum allt verkið, eins og hún sé eitt stórt spurningamerki lagt fram við alheiminum sem blasir við okkur. Bókin sjálf er fallega hönnuð. Ljóðatitlarnir gripu mig — frumlegir.

Mér fannst verkið ekki hreyfa við mér, fann engin hrif af því (já, afsakið þetta skammarlega orðaplögg, einhvernveginn verð ég að koma þessu í umferð). Verkið var mjög vitsmunalegt, augljóslega, en kaldranalegt — mér fannst ég komast í snertingu við huga en ekki manneskju við lesturinn. Ég myndi ekki mæla með því að þið keyptuð hana, en eins og Uss eftir Steinunni Arnbjörgu er hún prýðilegur kaffihúsalestur.

**½/*****

__________________________________________________________________

IMG_8048.JPG

Óvissustig eftir Þórdísi Gísladóttur

Þórdísi þarf ég ekki að kynna fyrir ykkur; hún er einstaklega fær listakona og hefur fengið viðurkenningu sem slík fyrir fyrri bækur sínar. Það var ef til vill þess vegna sem ég hafði nokkuð háar væntingar fyrir Óvissustig — en það var bara fyrir skömmu sem ég las verk hennar Tilfinningarök (2014, að mig minnir), og fannst það einstaklega vel heppnað, alveg fjarki af fimm — en mér fannst þessi nýjasta ljóðabók hennar ekki standast (etv. of háar) væntingar mínar.

Raunar, hvað varðar Óvissustig, finnst mér Þórdís vera að fikra sig nær prósum en ljóðum — og verkið hefði að mínu mati notið sín betur, svona sem heildræn hugmynd, sem prósaverk. Sem slíkt er það mjög gott. Ljóðin í Óvissustig eru mjög frásagnarleg — ég veit að ljóð Þórdísar geta verið það að miklu leyti, svona almennt, en mér fannst þau sérstaklega vera það í þessu verki — og segja öll grípandi sögur af fólki.  Þemu bókarinnar eru meðal annars hjónabönd, einmanaleiki og tilgerð, og snúast flestar ljóðafrásagnirnar um slík viðfangsefni. Í lok verksins eru svo sjö ríflega blaðsíðulöng textabrot, „yfirheyrð sitjandi á bekk,” og mér fannst þau fanga anda verksins betur en ljóðin sem komu á undan.

Allt í allt er Óvissustig falleg ljóðabók eftir höfund sem hefur frábært tak á íslenskri tungu og einstakan skilning á þessum séríslenska mannsanda. Ég mæli með að þið kaupið hana — kápuhönnunin er til fyrirmyndar (man ekki hver hannaði) og almennir hriffræðilegir tilburðir bókarinnar eru mjög hrífandi. Eitt eða tvö ljóð alveg bræddu mig.

***/*****

__________________________________________________________________

IMG_8049.JPG

Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Rimbaud í þýðingum Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar

Bókin UPPLJÓMANIR & ÁRSTÍÐ Í HELVÍTI er í raun samútgáfa tveggja verka eftir Rimbaud í einu — þýðendurnir eru tveir og ritar hver um sig, auk þýðinga sinna, formála og eftirmála. Lesandi verður að hafa í huga að þar eð þetta er þýðing er ég að mestu að skrifa um íslenskuna í verkinu fremur en verkið sjálft, þar eð ég er ekki hæfur til að lesa það á frönsku og dæma það sem slíkt. Takið gagnrýninni með ögn af salti.

Arthur Rimbaud er titlaður eitt fremsta skáld fransmanna — og réttilega svo. Hann ritaði verk sín öll mjög ungur og hætti svo skyndilega að skrifa, flutti til Mið-austurlanda og gerðist vopnasali, hvar hann dó. Hann átti í stormafullu ástarsambandi með öðru skáldi að nafni Verlaine sem endaði með því að Verlaine hleypti af byssu sem hæfði hann í hendina. Seinna verkið, Árstíð í helvíti eða Une Saison en Enfer, er langt prósaljóð sem er mögulega uppgjör við þetta samband höfundar við Verlaine, og var gefið út af höfundi sjálfum. Illuminations eða Uppljómanir er hins vegar prósaljóðasafn sem var gefið út af Verlaine þó nokkrum árum síðar.

Illuminations inniheldur falleg ljóð — mörg hver súrrealísk og stundum sundurlaus — sem fjalla um nánast allt milli himins og jarðar: náttúruna, mótmæli, fýsnir og angist. Þýðing Sigurðar Pálssonar finnst mér þó aðeins í meðallagi, sem ég er hræddur um að dragi úr verkinu. Ég segi þetta þó, eins og ég minnist á hér að ofan, með þeim fyrirvara að ég hef ekki lesið Rimbaud í upprunalegu frönskunni — svo ég er ekki hæfastur dómara um þetta mál.

Une Saison en Enfer hins vegar er betur þýtt, að mér fannst — eða kannski fannst mér það bara betra verk — og er hugmyndalega heildstæðara. Að mér finnst er það margtum þrungnara táknmyndum og myndmáli. Mér fannst það mjög eftirminnilegt — ljóðskáldið titlar sig sem sjáanda í hlekkjum hugaróra og ofskynjana og fer stóran um dvöl sína í eldum helvítis innan um djöfulinn og aðra lágt setta drýsla.

Ég ætla ekki að hafa þetta brot mikið lengra en vil enda á að segja að mér finnst verkið allt í allt fremur gott og vel unnið. Þó finnst mér vera nokkrar aðfinnslur hvað varðar þýðinguna sem ég fílaði ekki (bendi aftur á fyrirvara) en einnig finnst mér bókin sjálf og snið hennar einkar ljótt, og verð hennar allt of hátt — svo ég mæli með því að bíða með að kaupa hana að minnsta kosti þar til verðið hefur lækkað umtalsvert.

**½/*****

__________________________________________________________________

IMG_8050.JPG

Vertu heima á þriðjudag eftir Berg Ebba

VERTU HEIMA Á ÞRIÐJUDAG er önnur ljóðabók höfundar og átjánda meðgönguljóðabókin í útgáfu Partus Press. Eintakið mitt er númer 146 af 200 sem gefin voru út. Bergur Ebbi er þekktur fyrir listileg pistlaskrif sín sem og aðild sína að uppistandshópnum Mið-Ísland.  

Mér fannst ljóðin í bókinni mjög falleg og það var eitthvað hriflegt sem sveif yfir þeim öllum. Þau voru úthugsuð og hljómfögur og það voru fallegar lýsingar á hlutum, stöðum og ástöndum í þeim. Mér líkaði þessi stutta bók vel — sérstaklega var eitt ljóð eins og hnefi í magann. Ég veit samt ekki alveg hvers vegna. En það hreyfði við mér og ég kann að meta ljóð sem hreyfa við mér.

Verkið var örlítið dýrara þegar ég keypti það en það er nú í bókabúðum, svo ég mæli eindregið með því að þið skottist út í Eymundsson og nælið ykkur í eintak áður en þau hverfa öll fyrir fullt og allt — það voru eftir allt saman aðeins 200 stykki gefin út!

***½/*****

__________________________________________________________________

IMG_8051.JPG

Tímaskekkjur eftir marga höfunda

TÍMASKEKKJUR er samvinuverkefni meistaranema í ritlist og er efni hennar eins og við er að búast frá slíku verki — upp og niður eftir fólki. Alls eru höfundar tíu talsins en ég hafði ekki heyrt minnst á nokkuð þeirra áður en ég fékk þessa bók að gjöf í tilefni afmælis míns í október. Þau eru Ásdís Ingólfsdóttir, Una Björk Kjerúlf, Sigrún Elíasdóttir, Fjalar Sigurðarson, Einar Leif Nielsen, Þóra Björk Þórðardóttir, Jóhanna María Einarsdóttir, Tryggvi Steinn Sturluson, Jóhannes Ólafsson og Birta Þórhallsdóttir. Upplag þessarar bókar var 400 stykki.

Verkið inniheldur smásögur, prósa, ljóð og prósaljóð. Eins og áður segir eru þau misgóð en allt í allt er lesturinn þess virði. Valin verk eftir Fjalar Sigurðsson, Þóru Björk Þórðardóttur, Ásdísi Ingólfsdóttur, Birtu Þórhallsdóttur og Jóhannes Ólafsson hafa staðið uppúr fyrir mér — vandlega unnin og lýsa góðri beitingu á ritmáli, hugmyndaflugi og tilfinninganæmni.

Ég mæli með að kíkja á verkið í bókabúðinni og lesa yfir nokkur ljóð eða eina sögu eftir hvern höfund, til að fá smjörþefinn af heildrænu yfirbragði bókarinnar. Eins og ég minntist á að ofan er verkið í takmörkuðu upplagi og verður að líkindum ekki gefið aftur út svo söfnurum og sérstöku áhugafólki um bókmenntir er ráðlagt að eigna sér eintak áður en verður um seinan — mögulegt og jafnvel líklegt er að í verkinu leynist upprennandi stjörnuskáld sem mun eiga hug og hjarta íslensku þjóðarinnar!

***/*****

__________________________________________________________________

IMG_8052.JPG

Mundu, líkami eftir ýmis forngrísk og rómversk skáld í þýðingu Þorsteins Vilhjálmssonar

Bókin MUNDU, LÍKAMI er önnur þriggja verka á þessum lista sem eru gefin út af Partus Press, sem hafa staðið sig með afburðum vel þetta árið. Bókin samanstendur af textabrotum eftir forngrísk og rómversk skáld í spánnýrri þýðingu Þorsteins Vilhjálmssonar, og það má segja að þýðingin sé góð á allflesta vegu.

Ég var sjálfur ekki hrifinn af nútímavæðingunni, ef svo má að orði komast — sem birtist einna helst í orðum á við „fíla“ eða „bíkíní“ — en að öðru leyti naut ég hennar mjög. Ljóðin, sem eru eftir Saffó, Katúllus, Martialis og Óvíð meðal annarra, eru flest ástarkvæði sem snerta á eros eða amor, en sum þeirra eru iambísk eða svokölluð níðkvæði, hvar höfundar blóta öðrum í fúlt.

Undirtitillinn er sérlega áhugaverður, en hann heldur því fram að ljóðin séu óritskoðuð — og það er forvitnilegur inngangur að bókinni sem segir frá því hvernig útgefendur forðum ritskoðuðu allt hið klámfengna í verkum þessara skálda sem ortu níðyrki og ástarbrag.

Bókin er falleg og stílhrein, prentuð á gæðapappír og sómir sér vel uppi í bókahillu. Mæli með að kaupa, og ef ekki, þá að lesa — sum þeirra eru svo góð að maður finnur lostann í þeim hristast um líkamann.

***¾/*****

__________________________________________________________________

IMG_8053.JPG

Þungi eyjunnar eftir Virgilio Piñera í þýðingu Kristínar Svövu Tómasdóttur

Þýðing Kristínar Svövu á ÞUNGA EYJUNNAR er, að mér finnst, mjög vel heppnuð. Þessi bók er gefin út af Partus Press og er sú þriðja og jafnframt síðasta í þessari samantekt sem ég tek fyrir. Kápa verksins er í stíl sambærilegum við Mundu, líkami, og er eflaust hönnuð af sömu konu, nafn hverrar ég man ekki eins og stendur.

Þýðanda tekst að draga upp andrúmsloft upprunalega ljóðsins af mikilli kænsku, og manni líður eins og maður hafi töfrast á örskotsstundu til djúpra fena hinnar röku og hlýju Kúbu, hvar hafið umlykur eyjuna eins og veggur og eyjarskeggjar stunda heitfengin kynmök innan um páfagauka og krókódíla, hvar maður getur útvegað sér vindil og horft á múlatta dansa í takt við claves, hvar eyjan snýst í kringum sólina og er hulin myrkri og sveipuð sólargeislum á víxl.

Ég sé eftir því að hafa ekki keypt verkið — ég einfaldlega hef ekki efni á því, því mjög miður — því ég vildi geta lesið það aftur og aftur.. Það er svo vel unnið, og upprunaleg ljóðlist Piñera svo hrífandi! Mæli eindregið með.

****/*****

__________________________________________________________________

IMG_8054.JPG

Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur

GÓÐFÚSLEGT LEYFI TIL SÍGARETTUKAUPA er þriðja ljóðabók Eyrúnar Óskar sem hefur þá einnig gefið út tvær skáldsögur. Auk þess sem hún er rithöfundur er hún leikari og leikstjóri — ég man þó ekki eftir að hafa séð hana á stóra sviðinu, en ég fer nú þó ekkert afskaplega oft í leikhúsið.

Satt best að segja líkaði mér aðeins eitt ljóð í þessari bók, og fannst það þó ekki svo eftirminnilegt að ég gæti þulið upp um hvað það var eða hvað það einu sinni hét. Nánast öll ljóðin fjölluðu um barnalega hjátrú og afleiddar hugmyndir en brellan varð þreytt eftir svona ríflega 10 ljóð af þeim 60 eða svo sem bókin innihélt. Það var fátt sem snart við mér.

Höfundur gæti hafa nýlokið við bók Rainer Maria Rilke hvar hann ráðleggur skáldinu unga að rifja upp barndóminn, æskuna, og hverfa inn í sjálft sig.. Það var þannig yfirbragð á bókinni, eins og hún væri æfing fremur en metnaðarfullt verk. Hafandi sett saman eina eða tvær heildrænar æfingar sjálfur án þess að gefa þær út finnst mér ég geta sett puttann á Góðfúslegt leyfi sem slíka æfingu — þótt ég kunni að virðast hrokafullur meina ég það ekki illa — en Eyrún hefði kannski átt að leggja handritinu í skúffuna og fikta með það í ár í viðbót eða svo til þess að fínpússa það. Verkið hefði nefnilega getað verið betra.

*½/*****

__________________________________________________________________

IMG_8055.JPG

Líkhamur eftir Vilborgu Bjarkadóttur

LÍKHAMUR fangaði athygli mína þar sem hún lá á bókahillunni innst í IÐU bókakaffi og ég ákvað að lesa hana í gegn. Vilborg Bjarkadóttir, um hverja er rituð stutt lína aftast í bókinni, er með háskólagráðu í einhverju sem ég man ekki hver var, og þetta er hennar fyrsta ljóðabók — ef ég man rétt. Kápuhönnunin er lagleg og mig minnir að það hafi verið bókaútgáfan Sæhestur sem gaf út.

Mér fannst ljóðin vera of „skemmtileg“ eða „hnyttin,“ ef svo má að orði komast — þau voru ekki nógu listræn fyrir minn smekk og aðeins of vitsmunalega miðuð, og þó ekki einu sinni miðandi að svo djúpum þankagangi. Þótt mér hafi ekki líkað sérlega vel við verkið fannst mér ég sjá augljósa vísa að miklum hæfileikum höfundar. Hana vantar einfaldlega tíma og vinnu til að rækta þá upp í sér. Vonandi gefur hún út meira svo við fáum að sjá hana vaxa og sennilega blómstra.

*½/*****

__________________________________________________________________

Já, svona er þetta nú kæri lesandi — það er misgott á pappírnum. Að lokum vil ég eindregið mæla með því að þið fáið ykkur bara kaffibolla á næsta bókakaffi og lesið eitthvað af þessu, til þess að dæma um listina sjálf — ekki láta mig mata ykkur á minni hálfkáksskoðun. Svo vil ég benda á að ég sleppi því að fjalla um nýjustu bók Gyrðis Elíassonar hér fyrir ástæðu, og sama gildir um Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson. Ég hyggst taka bæði ljóðabók og prósabók Gyrðis fyrir í einni sérfærslu þegar mér loksins gefst næði til að ljúka við Langbylgju. Sigurður verður að bíða þar til ég klára hann — ekki vil ég skrifa gagnrýni eða meðmæli við bók sem ég hef ekki lesið! Ég er spenntur að byrja á honum, sérstaklega eftir að hann hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þar til næst!

Þankar um örheima — fyrsti kapítuli

Þankar um örheima — fyrsti kapítuli

Snjórinn féll á Hebron

Snjórinn féll á Hebron