Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Starship Troopers

Starship Troopers

Starship Troopers er vísindaskáldsaga eftir rithöfundinn Robert A. Heinlein. Hún var gefin út árið 1959 og fjallar fyrst og fremst um Johnnie Rico, ungan mann sem skráir sig í herinn rétt eftir að hann útskrifast úr menntaskóla. Sagan gerist í framtíðinni og eins konar alræðisstjórn hefur tekið við völdum á Jörðinni. 

Mennirnir hafa lagt undir sig stjörnurnar, eða reyna það í hið minnsta, sem gengur upp og ofan. Þeir hafa komist í tæri við geimverur sem í daglegu tali eru einfaldlega kallaðar „pöddur", en fræðilega heita þær "Arachnids" - sem þýðir áttfætla. Þó má ekki rugla þeim saman við áttfætlur jarðarinnar - flokk dýra sem inniheldur meðal annars köngulær og sporðdreka - vegna þess að geimpöddurnar eru augljóslega mjög greindar.

Pöddurnar búa í iðnvæddu og tæknilegu samfélagi og eru færar um að smíða geimskip - sem þær nota svo til þess að gera árás á Jörðina. Stríð geisar milli tegundanna tveggja gegnum bókina, og þegar Rico ákveður að skrá sig í herinn er stutt gengið á stríðið.

Rico gerist jú stríðsmaður en áður en hann er sendur til fremstu víglína er hann þjálfaður upp og honum kennt að berjast, þrauka og hugsa sem peð á taflborði jafnt sem kóngurinn sjálfur. Þetta er honum kennt vegna þess að dánartíðni fótgönguliða er gífurlega há og mikil velta er á leiðtogum hverrar herdeildar fyrir sig. Þannig er hann tilbúinn að gegna flestum hlutverkum.

Ekki ætla ég að segja mikið meira um framvindu bókarinnar, enda er markmið mitt hér að dæma verkið sem slíkt en ekki endursegja atburðarás Heinlein - þannig væri ég að taka burt frá ykkur hina mestu nautn lestursins.

~ ~ ~

Bygging sögunnar er góð. Heinlein opnar á klassískan máta, in medias res, þegar verið er að skjóta Rico úr geimskipi á sporbraut. Hann lýsir því að mikill ótti sé fólginn í því að láta „sleppa" sér - sem er ljóst - og þar með er lesandinn dreginn inn í söguna. Eftir stutta lýsingu á bardaga fer höfundur svo aftur með lesandann til raunverulegs upphafs sögunnar, þar sem Rico er rétt við það að ljúka við menntaskóla.

Þetta heppnaðist vel og út alla söguna fannst mér eins og fyrr segir uppbygging og spenna sögunnar vera til mikillar fyrirmyndar. Það er engin furða að Heinlein sé oftar en ekki stillt upp með þeim Asimov og Clarke sem hinum þremur feðrum vísindaskáldskaparins - því þeim tókst að færa það sem flestum fannst vera óttaleg vitleysa inn í heim vel metinna bókmennta (að mestu leyti, það er að segja - sumum finnst vísindaskáldskapur ekki vera alvöru bókmenntir - de gustibus non est disputandum).

Aðalpersóna sögunnar er Rico, eins og ég segi hér að ofan. Heinlein er sparlátur á innsýnir í hugarheim Rico, finnst mér, sem gerir persónuna áhugaverða og leyndardómsfulla. 
Herdeildirnar sem Rico er hluti af setja það í forgrunn að byggja upp bræðralagsanda - esprit d'corps, eins og það er kallað í franska útlendingahernum - sem gerir samband hermannanna sín á milli gífurlega áhugavert. 

Þetta gildir jafnt fyrir þá sem engum herskyldum hafa gegnt og að öllum líkindum einnig fyrir þá sem hafa áður verið í her og upplifað slíkt hið sama. Það sem mestu máli skiptir innan deildarinnar er að sem allra flestir komist upp í skipið heilir á húfi og til þess verður að hlýða foringjanum í einu og öllu. Yfirmaðurinn verður svo að vera traustsins verður, á móti, ef jafnan á að ganga upp. 

Rico á svo félaga innan herdeildarinnar og utan hennar, og hver og einn þeirra hefur sinn persónuleika, sem er líflegur. Við lesturinn virtist sem svo, að þessir persónuleikar séu sannarlega meðlimir geimherdeildar fótgönguliða fasísks framtíðarríkis í stríði við geimpöddur hinum megin við vetrarbrautina, og því gef ég þeim hina ágætustu einkunn.

~ ~ ~

Sumir gagnrýnendur bókarinnar hafa haldið því fram að stjórnskipulagið sem Heinlein lýsir sé líkara fasisma en lýðræðinu sem hann segir það vera - en það virkar á þann hátt að aðeins hermenn sem hafa þjónað í ákveðið mörg ár mega kjósa í lýðræðislegum kosningum. Hvort það er lýðræðislegt eður ei verður hver lesandi að meta fyrir sig.

Hugmyndin er sú að aðeins þeir sem hafi heiður, dug og þor til þess að gegna herþjónustu ættu að mega hafa áhrif á stjórnskipan og ákvarðanatökur. Þannig er þegnum ríkisins skipt í venjulega íbúa og svo ríkisborgara - aðeins ríkisborgararnir, þeir hergengnu, hafa rétt til þátttöku í stjórnkerfinu.

Raunar fannst mér sem það ríkti meiri vafi á því hvort skipulagið væri fasískt eður ei í bókinni en í samnefndri kvikmynd sem var að einhverju leyti byggð á sögunni - Paul Verhoeven leikstýrði henni og við áhorfið er augljóst að um fasisma er að ræða, en það var ekki svo augljóst í bókinni. Hvað sem þið gerið ættuð þið þó ekki að horfa á myndina. Hún er sorp, miðað við bókina, og ég mæli eindregið gegn áhorfi.

Mögulega er það snilld Heinlein sem rithöfundar að þakka, að lesandinn sekkur svo djúpt inn í persónu Rico að hann trúir öllu því sem Rico trúir - og Rico myndi aldrei líkja stjórnskipan Sambandsins (e. Federation) við fasisma. Þessu mætti e.t.v. líkja við tilfinninguna sem maður fær þegar maður les Lolita e. Nabokov, þar sem ritsnilldin er svo grípandi að maður nánast trúir því sem Húmbert segir, um að fjórtán ára stúlka dragi hann á tálar.

Auk þessara vangavelta um stjórnmálakerfi kynnir Heinlein til leiks hugmyndina um vélræna ytri beinagrind. Hann hlýtur að hafa verið með þeim fyrstu til þess að skrifa um hugmyndina - ef ekki sá allra fyrsti - vegna þess að fyrsta vélræna ytrigrindin var þróuð af General Electric í samstarfi við bandaríska herinn árið 1960, eftir útgáfu bókarinnar! Auk þess er hugmyndin um geimhermenn, sem skotið er úr sporbaug til plánetu, upprunalega frá Heinlein, að mér skilst.

~ ~ ~

Til samantektar, þá finnst mér Starship Troopers vera hin ágætasta saga. Söguþráðurinn og atburðarásin eru bæði grípandi og spennandi, og sagan er fljótlesin. Persónurnar eru lifandi og manni líður eins og maður sé meðal þeirra í þröngri ytrigrind að skeggræða herkænsku á fjarlægri plánetu. Auk þess fannst mér, eins og mér finnst yfirleitt, það vera mjög góð hugmynd að bæta við hana þessum góða snert af pólitískri heimspeki, sem Heinlein gerir. Það gerir hana áhugaverðari og maður er neyddur til að velta vöngum yfir fleiri víddum en bara hasarnum sem tekur þó meginpláss textans.

Bókin er ekki fyrir alla, held ég, en fyrir þá sem hafa áhuga á vísindaskáldsögum er þessi algjör klassík sem má helst ekki láta fram hjá sér fara - hún er í sama flokki og Foundation, 2001: A Space Oddyssey og fleiri af því kalíberi - Heinlein er einn helsti frumkvöðull vísindaskáldsagnanna.

Ég mæli sterklega með Starship Troopers og gef henni einkunnina 3,75 af 5 stigum mögulegum. 

Hér að neðan má hlusta á hljóðbókina á Youtube - eða í það minnsta fyrstu tíu mínúturnar eða svo, til þess að dæma hvort verkið sé fyrir ykkur eður ei.

~ ~ ~

The Hour of The Star

The Hour of The Star

In fieri...