Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Bækur — Anno Domini MMXVII

Bækur — Anno Domini MMXVII

Á ári hverju tekur Sýsifos þátt í svokallaðri lestraráskorun á bókasamfélagsmiðlinum Goodreads. Þar setur maður sér markmið og reynir að klára eins margar bækur upp í markmiðið og maður getur. Sýsifosi hefur tekist að uppfylla kvótann í þrjú ár af undangengnum fjórum og hefur þegar uppfyllt markmið ársins. Í þessari stuttu grein verður farið yfir bestu bækurnar sem Sýsifos lauk við þetta árið og ástæður taldar upp fyrir því hvers vegna þið ættuð að lesa þær. Allan leslista ársins 2017 má svo skoða með því að smella hér. Bækurnar eru flokkaðar eftir tegund en birtast ekki í neinni sérstakri röð, þ.e., bók eitt er ekki betri eða verri en bók tvö upptalningarinnar vegna. Njótið vel.

Málverkið í haus heitir Book of Wisdom og er eftir Nicholas Roerich, 1924.


Heimspekiverk

1. The Gay Science eftir Friedrich Nietzsche

Der Fröhliche Wissenschaft er mögulega Nietzsche-legasta verk Nietzsche frá upphafi. Í henni kynnir hann fyrst til sögunnar hugtak sitt um hina ævarandi endurkomu (e. eternal recurrence) og hvetur lesendur sína til að byggja sér bústaði í hlíðum Vesúvíusar — að lifa hættulega. Byrjun og endalok bókarinnar skarta þess að auki stórskemmtilegri ljóðlist höfundarins. Verkið er prýðilega vel þýtt af Walter Kaufmann, frægum Nietzsche-fræðimanni, en mér fannst honum ekki takast jafn vel að þýða Hegel, eins og ég snerti betur á neðar í þessari grein. Ég mæli með hinum Kátu vísindum fyrir allt áhugafólk um hið góða líf, hið sanna og hið þekkjanlega, heiminn allan og tilgang alls — auk margs fleira.

2. Ethics eftir Baruch Spinoza

Spinoza er sannkallaður prins heimspekinnar, eins og Russell kallar hann. Siðfræði hans er samtímis frumspekileg útlistun á eðli Guðs og afleiðingum frumspekinnar fyrir allt annað: þekkingarfræði, siðfræði, sálfræði og raunveruleikann sjálfan eins og hann leggur sig. Í stuttu máli telur Spinoza Guð eða Náttúruna vera uppsprettu alls þess sem er og hafnar þannig kartesískri tvíhyggju hugar og líkama. Einnig skrifar hann upp flókna og að mér fannst einstaklega nákvæma kenningu um tilfinningarnar — gerandi þeim aðdáunarverð skil. Það var nautn að lesa þetta verk þótt það sé nokkuð flókið — Spinoza reynir að „sanna“ allt þetta með rúmfræðilegri röknákvæmni. Mæli algjörlega með þessari. Ég hugsa að ég skrifi kannski lengri vangaveltu um Siðfræðina síðar meir.

3. Eros the Bittersweet eftir Anne Carson

Eros the Bittersweet er verk sem kom mér mjög á óvart. Áður en ég byrjaði hugsaði ég með mér að það væri líklega frekar þurrt og lítt spennandi yfirlitsverk um hugtakið Eros eins og hann hefur birst okkur gegnum tíðina. Guð, hvað mér skjátlaðist. Carson sýnir skýrt að hún er gædd umfangsmiklu vitsmunaafli og býr yfir undursamlegu ímyndunarafli í þokkabót. Hún skiptir milli ljóðrænu og fræðimennsku hratt og snyrtilega, eins og atvinnubílstjóri skipti um gír á vandmeðförnum fornbíl. Ég hef skrifað dálítið um verkið annarsstaðar (smellið hér til að lesa nánar um það) en mæli eindregið með að allir eignist eintak af þessu frábæra hugverki og lesi það gaumgæfilega. Ég mun líkast til aldrei gleyma því, svo djúpt snart það mig.

4. Diogenes the Cynic: Sayings and Anecdotes eftir Diogenes frá Sínópu

Hundinginn Díógenes er hefur hlotið þann vafasama heiður að vera viðfang hausmálverks Sýsifosar á snjáldrunni — en hann er einn stórskemmtilegur fýr og jafn undarlegur og hann getur skemmt manni. Skemmtilegust fannst mér sögubrotin af því hvernig hann áreitti Platón og stóð endalaust uppi í hárinu á honum, nöldrandi og gjammandi, stórfenglega hrokafullur hundingjaskeptíker. Mæli með fyrir allt áhugafólk um heimspeki.

5. Outlines of the Philosophy of Right eftir G.W.F. Hegel

Eins og öllum lesendum mínum hefur verið ljóst síðasta árið eða svo hefur Réttarspeki Hegels fest sér ærlegan sess í huga mér sem stjórnspekilegt meistaraverk. Það hefur verið einstaklega gefandi að lesa þetta verk og það hefur fært mér ferska og skarpa sýn á það hvað stjórnspeki er og um hvað hún snýst þegar öllu er á botninn hvolft: mannlegan vilja. Ég hef ekki enn lokið við yfirferð mína á verkinu (næsti hluti er væntanlegur bráðlega) svo þið megið búast við að fá að heyra meira um þessa bók í nákominni framtíð. Ég veit að þið eruð jafn spennt fyrir því og ég!

Shortlist: The Dialectic of Sex: The Case for Feminist Revolution eftir Shulamith Firestone, Essays in Idleness eftir Kenko, Fear and Trembling eftir Søren Kierkegaard.


Skáldverk

1. Hyperion eftir Friedrich Hölderlin

Hyperion er skáldsaga í sendibréfaformi — saga um ungan rómantíkus að nafni Hyperion sem berst fyrir sjálfstæði Grikklands gegn Tyrkjaveldi, verður ástfanginn af konu að nafni Díótíma, tekur þátt í lífshættulegum bardögum og sigrast á sorgum sínum og áhyggjum innan um gríska náttúruna. Ekki misskilja, þetta er engar hasarbókmenntir — heldur öllu heldur fagurbókmenntir frá a til ö. Hver einasta lína er gómsæt fegurðarsmíð — ég man ekki eftir að hafa nokkru sinni fyrr krotað inn í og brotið svo oft upp á skáldsögu. Hyperion er í ofanálag fremur heimspekilegt og háleitt verk, auk þess sem það er falleg ástarsaga — ég held að ég muni lesa þessa margoft það sem eftir lifir og þið ættuð öll að gera það sama. Svo það sé nefnt er til önnur bók að sama nafni eftir Dan Simmons sem á ekkert skylt við þessa utan titilsins — en hún er frábær sömuleiðis.

2. Blind Willow, Sleeping Woman og Men Without Women eftir Haruki Murakami

Tvö smásagnasöfn eftir Murakami — hið fyrra kom út fyrir löngu og ég hafði átt eftir að lesa það en hið seinna kom fyrst út í enskri þýðingu í ár. Hvað getur maður sosum sagt annað en að í þessum smásögum sé Murakami firnasterkur — hann veit hvað hann er að gera og framkvæmir það listilega vel. Sumar sögurnar eru mjög eftirminnilegar, sérstaklega „Man-eating Cats” úr BWSW — ég man betur eftir henni þar eð ég las hana í síðasta mánuði meðan MWW las ég í vor. Mæli eindregið með þeim báðum fyrir alla aðdáendur Murakami og fyrir þið ykkar sem ekkert hafið snert eftir hann.

3. Saint Joan eftir Bernard Shaw

Saint Joan er leikverk byggt á lífi Sánkti Jóhönnu af Örk, stundum betur þekkt sem mærin af Orléans. Langur og ítarlegur formáli Shaw fannst mér stóráhugaverður og innihélt marga góða punkta um samband trúarbragða og vísinda. Leikritið sjálft er vel skrifað og persónurnar þrívíðar. Allt í allt finnst mér þetta leikverk stórgott. Ég myndi vilja sjá það á stóra sviðinu.

4. Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson

Svartfugl er þungt verk. Því verður ekki neitað. Það er grátt og blautt og kalt og þungt. Það er ekki gaman að lesa það, þótt vald Gunnars á íslenskri tungu sé vissulega hrein nautn að upplifa. Skáldsagan fjallar um Sjöundármorðin svokölluðu og mætti segja að Svartfugl sé ein fyrsta glæpasagan sem skrifuð var af íslenskum höfundi. Hún byggir á sönnum og skelfilegum atburðum. Veit ekki beint hvort ég myndi mæla með henni. Hún er samt góð.

5. Stranger in a Strange Land eftir Robert A. Heinlein

Þetta var stórfenglega undarlegt skáldverk. Til að byrja með var það mjög skemmtilegt, svo varð það undarlegra og undarlegra með hverjum kaflanum og undir lokin virkaði það hálf-farsakennt. Góð skemmtun samt og áhugaverð hugleiðing um eðli trúarbragða, mannlegrar meðvitundar og þekkingarfræðilegar takmarkanir okkar. Heinlein hefur einnig skrifað hina frægu Starship Troopers sem ég hef áður skrifað dálítinn ritdóm um hér á Sýsifos. Skemmtileg vísindaskáldsaga en ansi undarleg þó.

Shortlist: The Snowman eftir Jo Nesbo, Engar smá sögur eftir Andra Snæ Magnason, Blátt blóð eftir Oddnýju Eir.


Ljóðlist

1. Selected Poems and Fragments eftir Friedrich Hölderlin

Það mætti segja að árið 2017 hafi verið árið sem ég uppgötvaði Hölderlin. Þetta ljóðasafn (í fallegri Penguin Classics útgáfu) inniheldur öll hans helstu ljóðverk og ókláruð brot. Ljóðin eru birt bæði í enskri þýðingu og á þýska frummálinu svo maður getur rannsakað orðalagið meðan maður les. Þýðandinn er að mér skilst vel að sér í textum Hölderlin og að því er ég fæ best skilið á mínum einfeldningslega lestri á frumtextanum tekst honum mjög vel upp með verkefnið.

2. If Not, Winter eftir Saffó (þýð. Anne Carson)

Anne Carson, rétt eins og Hölderlin, á tvær færslur á þessum stutta lista. Þýðingar hennar á Saffó eru vægast sagt frábærar og ég mæli eindregið með þeim. Hún þýðir lesbíska skáldið listilega vel og býður upp á endurlestur ofan á endurlestur:

And with sweet oil

costly

you anointed yourself

and on a soft bed

delicate

you would let loose your longing

3. Birtan yfir ánni eftir ýmsa höfunda (þýð. Gyrðir Elíasson)

Gyrðir er með virkari ljóðaþýðendum íslensku þjóðarinnar og þýðir ljóð hvaðanæva að. Kínversk, mið- og austur-evrópsk, bandarísk, kanadísk, — og svo framvegis. Maður finnur alltaf sama Gyrðisblæinn yfir verkunum sem hann kýs að þýða, og svo smitar hann enn meira út frá sér gegnum þýðinguna sjálfa. Maður fær því einmitt það sem maður var að leita að: góðan snert af hughrifum Gyrðis sjálfs. Ég kann að meta það, eins og alltaf. Hann er einn af mínum uppáhalds. Skrifar fallega og einlægt og dularfullt og undarlega. Birtan yfir ánni er góð bók.

4. Bónus ljóð eftir Andra Snæ Magnason

Eignaðist eintak af þessari klassík í fyrsta sinn vegna þess að hún var endurútgefin fyrir skömmu. Ég veit ekki í hversu miklu upplagi en það væri gott af ykkur að fara og næla ykkur í eitt slíkt. Bókin er uppfull af stórskemmtilegum ljóðahugmyndum — gagnrýni á neyslusamfélagið mætti kannski segja, en það væri of klisjukennd lýsing til að hún gæti verið sönn. Hún er leikur með neyslusamfélagið, neysla gerð kynferðisleg, skemmtileg og fyndin, neysla sem látbragð, súpermarkaðurinn sem félagsheimili. Skemmtileg bók sem allir ættu að blaða gegnum.

5. New Selected Poems eftir Shuntaro Tanikawa (þýð. William I. Elliott)

Ég er að reyna að koma mér betur inn í japanska ljóðlist og Tanikawa virtist mér góður byrjunarreitur þegar ég eignaðist eintak af þessu samansafni ljóðaþýðinga á verkum hans. Hann er módern og hugmyndaríkur, þenkjandi og yfirvegaður. Mér finnst verk hans notaleg og að miklu leyti þögul. Þetta safnverk er einnig ágætlega þýtt (þótt ég taki fram að ég hef ekki lesið frumtextann né hef ég hann til viðmiðs) að því leytinu til að textinn er góður og vel skrifaður og miðlar sannarlega ljóðrænu.

Ég hef ekki verið nægilega duglegur með ljóðlistina í ár og því er enginn shortlist að þessu sinni. Annað sem ég las hefur verið ófullnægjandi og/eða ég á eftir að klára það.


Verstu verk 2017 (hingað til) — mæli ekki með þessum

Anthem eftir Ayn Rand

Þetta var hlægilega lélegt. Sem betur fer var það mjög stutt. Ég endurtek, hlægilega lélegt. Líklega versta bók sem ég hef lesið í tvö eða þrjú ár. Uppsprettan var eins og nóbelsverk miðað við þetta. Og Uppsprettan er léleg.

Sleeping Giants eftir Sylvain M. Neuvel

Algjörlega litlaus og hundleiðinleg vísindaskáldsaga. Skemmtileg hugmynd aftan á kápu, hræðilegt í prentverki.

Assholes: A Theory eftir Aaron James

Titlað heimspeki — á ekkert skylt við heimspeki. Drepleiðinlegt drasl. Pseudo-intellectual.

Hegel: Early Texts and Commentary í þýðingu Walter Kaufmann

Arfaslök þýðing á formála Fyrirbærafræðinnar og grein Hegels „Who thinks abstractly?”. Stöðluð Phäno-þýðing Miller er margfalt betri. Haldið ykkur við hana. Greinin er allt í lagi.

The Alchemist eftir Paulo Coelho

Innihaldslaust og þvælukennt sorp. Eyddi sem betur fer ekki miklum tíma í að lesa hana enda rennur hún hratt í gegn eins og hvert annað fransbrauð. Mæli ekki með.


Goðsagnir, bein og ummyndanir: Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur

Goðsagnir, bein og ummyndanir: Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur

Þankar um örheima — fyrsti kapítuli

Þankar um örheima — fyrsti kapítuli