Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Frumspeki Hegels: Fyrirbærafræði andans og Rökvísindin

Frumspeki Hegels: Fyrirbærafræði andans og Rökvísindin

Því hefur verið haldið fram að Hegel hafi í reynd aðeins skrifað tvær bækur: Fyrirbærafræði andans sem kom út árið 1807 og Rökvísindin sem kom fyrst út milli 1812 og 1816 en var endurútgefin árið 1832 eftir að Hegel lauk við að uppfæra og endurskrifa fyrstu bók verksins viku fyrir andlát sitt í nóvember 1831.

Önnur stærri verk eftir hann, textar á borð við Réttarheimspekina og Alfræðina, voru hins vegar ekki „gefin út“ nema sem kennslubækur fyrir nemendur hans við Berlínarháskóla, þótt það þýði auðvitað ekki að þær séu verri fyrir vikið — en þessi verk voru ekki búin til prentunar sem heilsteyptar bækur á sama vegu og Rökvísindin og Fyrirbærafræði andans. Það eru hins vegar þessar tvær bækur Hegels sem eru einna áhugaverðastar vegna þess hve óáþreifanlegar, flóknar og tyrfnar þær eru — en sérstaklega vegna þess hve gefandi og andríkar þær eru, eins og hver heimspekilega þenkjandi lesandi Hegels getur komist að af sjálfsdáðum.

Þessi tvö verk eiga í mikilvægum venslum sín á milli — Fyrirbærafræðin leggur nefnilega til grundvöllinn að Rökvísindunum. Til þess að geta skilið heimspekilega afstöðu Hegels er því nauðsynlegt að kanna stuttlega hver þessi vensl eru, til þess að unnt sé að sjá hvaðan Hegel leggur upp þegar hann kynnir frumspeki sína (sem hann útlistar í Rökvísindunum) til leiks. Í þessari stuttu greinargerð munum við í fyrstu kanna vensl og markmið verkanna tveggja, áður en við rannsökum upphaf og framvindu fyrstu díalektísku hreyfingarinnar sem finna má í Rökvísindunum.

Fyrirbærafræðin

Fyrsta útgefna verk Hegels var Fyrirbærafræði andans, árið 1807. Aðstæðurnar sem Hegel ritaði verkið við voru ekki þær allra æskilegustu — hann var nánast gjaldþrota, auk þess sem Napóleon var við það að hertaka Jena, heimaborg Hegels um þessar mundir, þegar leið að skilafresti til útgefanda. Það er raunar kraftaverk að verkið komst til skila yfir höfuð miðað við allt umrótið sem átti sér stað er Hegel póstlagði eina handrit verksins sem til var. Það var mikil lukka að ekkert varð til þess að þetta einstaka heimspekirit glataðist. Fyrirbærafræðin er tilraun Hegels til þess að lýsa sögulegri þróun andans svokallaða (þ. Geist) er hann tekur á sig hinar ýmsu formgerðir meðvitundar. Verkið hefst á því að lýsa algjöru milliliðaleysi meðvitundar sem er djúpt sokkin í heim skynjunarinnar, skynvissu svokallaða — og í framhaldi af því kemst meðvitundin til meðvitundar um sjálfa sig og verður sjálfs-meðvitund. Í kjölfarið tekur svo við stærsti hluti verksins, skynsemin, en í þeim hluta snertir Hegel á æði fjölbreyttum viðfangsefnum: vísindum, rökfræði, sálfræði, höfuðlagsfræði, gríska harmleiknum, siðlegu lífi, menningu, siðferði og trúarbrögðum.

Að lokum nær ferill meðvitundarinnar hápunkti sínum í hinni algjöru vissu (þ. das absolute Wissen). Hin algjöra vissa Fyrirbærafræðinnar átti upprunalega að vera eins konar inngangur að vísindalegu heimspekikerfi Hegels, og þjóna sem útskýring á hinu sögulega þróunarferli meðvitundar sem leiddi til þess að hugsunin gæti fangað sjálfa sig í Rökvísindunum. Eins og Hegel segir svo í formálanum að fyrstu útgáfu Rökvísindanna átti Fyrirbærafræðin að vera fyrsti hluti kerfisins, og Rökvísindin auk hinna fyrirætluðu verka um náttúruspeki og heimspeki andans áttu svo að vera annar hlutinn. Þessi áætlun fór þó um þúfur, þar eð Rökvísindin þarfnaðist sífelldra viðbóta, svo margra raunar að hann óskaði sér að geta endurskrifað hana sjötíu og sjö sinnum til viðbótar. Hegel gerði þó tilraun til þess að fanga heimspekikerfið í heild sinni síðar meir með Alfræði sinni, sem kom út helst sem kennslubók fyrir nemendur hans en var í stöðugri endurskoðun.

Hugtak Hegels um algjöra vissu eins og það birtist okkur í Fyrirbærafræðinni krefst eilítið nánari útskýringar svo unnt sé að skilja vensl verksins við Rökvísindin, enda er þetta eitt hans alræmdasta og að mínu mati eitt hans misskildasta hugtak. Eins og segir að ofan rekur Hegel sögulega þróun meðvitundar upp að þessum æðsta punkti algjörrar vissu, sem nær yfir allar aðrar birtingarmyndir meðvitundar og hefur þær upp (þ. aufheben) í eins konar altækt sjónarhorn. Eins og Hegel segir þá snýst algjör þekking einfaldlega um það að meðvitund hafi tekist að þekkja sjálfa sig og hafi þannig náð hugtakandi vissu (þ. begreifendes Wissen) og þekki sig þannig.

Algjör þekking er því í reynd ekkert annað en niðurstaðan sem meðvitund eða andi kemst að eftir að hafa kannað sögulega tilurð sína, og þessi niðurstaða er sú að fyrirbæri meðvitundar og meðvitund sjálf séu á djúpstæðan hátt eitt og hið sama: að sjálfsveran sé undirstaða (undirstaða í skilningnum súbstans eða verund), og að undirstaðan sé sjálfsveran — svo við leyfum okkur að daðra við klassískt hegelskt krossbragð (e. chiasmus).

Niðurstaða Fyrirbærafræðinnar leggur því grunn að verkefni Rökvísindanna að svo miklu leyti sem hún grundvallar vísindalega þekkingu í sjálfsverunni. Er sjálfsveran kemst að því að hún hafi í reynd aðeins verið að leita að sjálfri sér — eftir allan þennan tíma, eftir alla þá vinnu hins neikvæða  sem farið hefur fram — getur hún gert sjálfa sig (að því leytinu til sem hún þekkir sjálfa sig sem grundvöll alls þess sem til er) að rannsóknarefninu, og það er þar sem Rökvísindin koma til sögunnar — þau eru jú rannsókn á kvíum hugsunar sem eru um leið verufræðilegir hættir raunveruleikans. 

Þessi afstaða Hegels, að sjálfsveran sé undirstaðan, er oft kennd við algjöra hughyggju. Hughyggja er vandasamt hugtak og gildishlaðið og þannig hefur það lengi verið. Vert er því að skilgreina örlítið nánar hvað það er sem felst í forskilvitlegri hughyggju Kants og hinni algjöru hughyggju sem Hegel kynnir svo síðar meir til sögunnar. 

Hin forskilvitlega hughyggja heldur því fram að formgerðir hugsunar og formgerðir verunnar sem birtist hugsun eigi í óaðskiljanlegum venslum, að upplifun okkar af verunni sé skilyrt af einhverjum grundvallarkvíum hugans. Forskilvitleg hughyggja Kants gengur þó ekki svo langt að halda því fram að vera í sjálfri sér sé skilyrt af huganum, heldur að öll möguleg fyrirbæri, það sem við getum yfir höfuð upplifað, séu skilyrt af huganum. Kant gefur því handanheiminum ákveðið verufræðilegt svigrúm, þótt það sé aðeins neikvætt skilgreint rúm, ekki svo ólíkt svartholi sem hefur ákveðin skynmörk og handan þeirra er svo ómögulegt að tala um það sem á sér stað. Algjör hughyggja Hegels gerir aftur á móti engan greinarmun á fyrirbærum og verunni í sjálfri sér, sem hefur það í för með sér að formgerðir hugsunar eru einnig formgerðir verunnar, og það í heild sinni.

Nú vitum við hvernig Fyrirbærafræðin grundvallar Rökvísindin. Þá er ráð að kanna í grófu yfirliti hvert verkefni Rökvísindanna er, og að rekja í afar stuttu máli hvernig að því er farið.

Rökvísindin

Verkefni Rökvísindanna er tvíþætt: annars vegar vill Hegel framkvæma svokallaða forskilvitlega afleiðslu í anda Kants þar sem hann leiðir grundvallarkvíar hugsunarinnar hverja út frá annarri og ljóstra þar með upp um nauðsynlegt innra samhengi þeirra — en hins vegar og raunar samtímis er hann að smíða verufræðilega kenningu, kenningu um það sem er. Hann fylgir Kant eftir að svo miklu leyti sem hann samþykkir „kóperníkusarbyltingu” hans sem gerir forskilvitlega rannsókn kvíanna að hinni einu marktæku frumspeki, en leiðir þeirra skilja þegar kemur að því hvernig eigi að framkvæma slíka rannsókn. 

Gagnrýni Hegels á kenningu Kants er í megindráttum sú að sá síðarnefndi leyfi sér að gefa sér kvíarnar — hann telji sig geta gripið kvíarnar, grundvallarhugtök meðvitundar, beint úr reynslu okkar af hinum ýmsu háttum dóma (þ. Urteil). Þetta þýðir þó ekki að Kant leiði kvíarnar einfaldlega af reynsluhugtökum okkar — hann telur þær auðvitað forskilvitlegar og eiga uppsprettu sína í skilningsgáfunni (þ. Verstand), og að sem slíkar séu þær ekki eitthvað sem við leiðum af reynslu — sem væri fremur afstaða raunhyggjusinna á borð við John Locke, sem telur meðvitund mannsins við fæðingu vera á við autt blað sem skapar sér svo hugmyndir og hugtök út frá reynslu sinni af heiminum. Hins vegar telur Kant þekkingu okkar á því hvernig kvíarnar virka innan dóma sem við höfum reynslu af — dómar eins og „blómið er hvítt,” svo dæmi sé tekið — duga til þess að geta leitt þær út. Hann sér að undirstöðuatriði rökfræðinnar, kvíarnar sem slíkar, eru að verkum í þessum dómum og lætur þá sér nægja þegar kemur að því að leiða út tæmandi upptalningu á forskilvitlegum kvíum hugarins, en þær eru tólf talsins í Gagnrýni hreinnar skynsemi.

Hegel gagnrýnir Kant fyrir þetta — hann heldur því fram að Kant hafi ekki réttlætt byrjunarreit sinn, að hann hafi ekki sýnt fram á að dómsvald skilningsgáfunnar geti verið fullnægjandi grundvöllur fyrir afleiðslu kvíanna. Þetta er eitthvað sem Kant hefði þurft að færa rök fyrir, telur Hegel. Með Rökvísindunum reynir hann að gera nákvæmlega það — hann reynir að sýna fram á nauðsynlega tilurð hinna ýmsu kvía með því að byrja á algjörlega óræðri byrjun og leiða svo út eina kví á fætur annarri út frá þessum byrjunarreit. Rökvísindin skiptast svo í þrjá hluta eða þrjár kenningar sem leiðir hverja út á fætur annarri í undarlegu, endurkvæmum hringvenslum: rannsóknin á upphaf sitt í verunni, eða í verukenningunni, sem leiðir svo til eðliskenningarinnar, og henni lýkur svo á hugtakskenningunni.

Forskilvitleg afleiðsla Hegels hefst því á róttækt óákvarðaðri hugsun, á ófullkominni setningu, eiginlega á setningarbroti: „Vera, hrein vera — án allrar frekari ákvörðunar.“ Þetta einstaka upphaf gefur tóninn fyrir verkið í heild sinni, sem er í reynd aðeins ferli þessarar hreinu veru á vit frekari ákvörðunar. Eitt það merkilegasta við þessa byrjun er einmitt hvernig Hegel forðast jafnvel að ákvarða veruna að því leytinu sem hún er óákvörðuð. Setning, skilgreiningu samkvæmt, inniheldur ávallt sögn, en þar eð tengisögnina (kópúluna „er“) skortir í brotinu tekst Hegel að láta form yfirlýsingarinnar endurspegla innihald hennar, og mynda áhugaverð vensl milli forms og innihalds. Vera, óákvörðuð, getur ekki verið sögð vera eða heyra undir einhverja umsögn, þar eð slíkt myndi einmitt ákvarða hana um leið.

Auðvitað er þetta á sinn hátt lítið annað en skemmtilegur orðaleikur, þar eð með þankastrikinu (þ. Denkenstrich) kemur Hegel upp um ákvörðun verunnar — ákvörðun óákvörðunarinnar („án frekari ákvörðunar“). Þrátt fyrir það virðist manni mikil hugsun hafa farið í þessa einu tilteknu setningu — og því hefur jafnvel verið haldið fram að Hegel gæti hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að hafa þankastrik bæði við lok Fyrirbærafræðinnar og við upphaf Rökvísindanna.

Í öllu falli er þessi byrjun ekki aðeins úthugsuð heldur er hún, og það sem mikilvægara er, sömuleiðis hugsuð, og það í tvöföldum skilningi: hún lýsir bæði hugtaki hinnar hreinu og óákvörðuðu veru og verufræðilega hugarástandinu sem er þessi hugsun — því auðvitað eru hugur og hugtak ekki aðskilin fyrirbæri, eins og niðurstöður Fyrirbærafræðinnar sýna. Hugurinn er því jafnframt hugsunin um þessa óákvörðuðu veru — hugurinn er hrein vera, hugurinn er. Til frekari skýringar mætti bera þetta upphaf saman við niðurstöðu gagnrýninnar rannsóknar Descartes, en þar gerir hann tilraun til þess að reisa bjarghyggju sína á „óvéfengjanlegu“ setningunni „ég hugsa, þess vegna er ég.“ Í samanburði við byrjun Descartes er upphaf Hegels langtum róttækara: það er ekki einu sinni neitt „ég“ heldur er einvörðungu hægt að hefja leika á hinni tæru óákvörðuðu hugsun sem slíkri. Ef marka má Hegel þá mistókst Descartes enda þótt hann hafi tekið mikilvægt skref í átt að krítískri heimspeki í rannsókn sinni — hann fór ekki nægilega langt í því að hafna öllum sínum gefnu og viðteknu skoðunum og skautaði algjörlega hjá því að rannsaka hvort hægt væri að tala milliliðalaust um eitthvert „sjálf“ sem hugsar við upphaf rannsóknarinnar. Upphaf Rökvísindanna má því á vissan hátt skilja sem róttæka endurskoðun á cartesianisma.

Díalektík veru, neindar og verðandi

Eins merkileg og þessi byrjun er þá er hún þó alltaf aðeins það: bara byrjun. Það sem gerist í kjölfarið er svo kjötið á beinunum, það safaríka — svo við skulum fara stuttlega yfir hina fyrstu díalektísku hreyfingu verksins. 

Samkvæmt aðferðafræði Hegels ættum við einfaldlega að leyfa þessari byrjun byrja, leyfa henni að breiða úr sér frammi fyrir okkur, gefa henni pláss til þess að vera það sem hún er. Samkvæmt Hegel er besta leiðin til þess að iðka heimspekilega hugsun af þessum toga og hann beitir henni sannarlega í Rökvísindunum. Við skulum því taka Hegel á orðinu fyrir röksemdafærslunnar sakir og leyfa honum að segja okkur frá því hvað gerist með hina algjörlega óákvörðuðu hugsun verunnar í blábyrjun.

Vera, hrein, óákvörðuð vera — hvað er óákvörðuð vera eiginlega? Hún getur ekki verið þessi stóll eða þetta glas — því þá höfum við þegar ákvarðað veruna með tilliti til rúmtaks, tíma, formgerðar, efnis, og ótal annarra þátta. Við ættum að halda okkur við hreint ákvörðunarleysi og halda því til haga að veran sé alls ekki ákvörðuð að neinu leyti. Þessi einskæra, tæra vera er því í reynd fullkomið tóm eða neind, algjört innihaldsleysi, form hugsunarinnar eitt og sér, algjörlega óáþreifanleg — hún er ekkert tiltekið, hvorki þetta né hitt — það er að segja, hún er ekkert.

Af verunni, óákvarðaðri, einni saman, hefur hugurinn leiðst til þess sem virðist hinni hversdagslegu meðvitund vera andstætt hugtak: neindarinnar. Neindin blasir við okkur. Hún er ekki, hún er skortur á tilvist. Þrátt fyrir það virðist svo sem neindin, að einhverju leyti, sé — hún er til staðar, við getum talað um hana, neindin er — sem þýðir að við erum að því er virðist komin aftur á byrjunarreit, hugurinn er á ný rétt eins og í byrjun. Þegar við hugum svo aftur að verunni komumst við þó aðeins aftur að neindinni, og frá neindinni komumst við aðeins aftur að verunni. Þannig förum við stöðugt í hring. 

Hvernig gætum við losnað úr þessum vítahring ákvörðunarleysisins? Það er hér sem „galdur” Hegels kemur til sögunnar — í ljós kemur, þegar að er gáð, að við vorum allt frá upphafi handan vítahringsins: er hugurinn leyfir þessum horfum eða háttum að leika um sig finnur hann nefnilega nýja kví, nýtt hugtak, nýja formgerð verunnar, sem er hreyfingin milli þessara horfa eða hátta sem slík — og þessi hreyfing er verðandin.

Er hugurinn reynir að einblína á veruna verður hann neind, og þegar hann reynir að einbeita sér að neind verður hann vera. Hringurinn er hreyfing, og hreyfingin er verðandi. Það verður því ekki hjá því komist að hugurinn hvorki er né er ekki — heldur verður hann. Hugmyndin er því sú að hugurinn hvorki sé né sé ekki þar eð hann var frá upphafi alltaf verðandi. Hér verður okkur hugtak Hegels um upphafningu (þ. Aufhebung) ljóst — það er ekki svo að hugurinn sjálfur „yfirstígi“ veru og neind, heldur er æðri sannleikur þessara hugarkvía sá að hugurinn hafi aldrei bara verið hin óákvarðaða vera eða ekki verið í hinni óákvörðuðu neind, heldur hafi hann alltaf orðið og horfið, sem eru tvær ákvarðanir verðandinnar: þegar veran verður neind hverfur hún, og þegar neindin verður veran hefur hún orðið.

Það er óþarfi að fara mikið dýpra í þessar tilteknu hreyfingar innan verukenningarinnar, þar eð markmið þessarar ritgerðar er ekki að greina frá díalektísku ferli Rökvísindanna í heild sinni. Það er þó afar áhugavert að reyna að skilja hvað er að eiga sér stað í verkinu sem slíku, og fyrsta skrefið í hinni díalektísku þróun hugsunarinnar, sem greint var frá hér að ofan, er líklega einfaldasta og skýrasta sýnidæmið: það er hugsunin sjálf sem er, er ekki og verður. Við komumst að hugtaki verunnar með því að tæma hugann og einfaldlega vera, við komumst að hugtaki neindarinnar með því að reyna að vera en grípa í tómt, við komumst að hugtaki verðandinnar með því að taka eftir órólegu hreyfingunni milli ástandanna eða hugtakanna tveggja.

Forskilvitleg afleiðsla er fyrst og fremst rannsókn á grundvallarskilyrðingum hugsunar, sem þýðir að meðvitundin, fyrir hverri hugtökin birtast, er ávallt þegar skilyrt af þessum kvíum. Það er því ekki hægt að hugsa sér meðvitund handan grundvallarskilyrðinganna, enda er meðvitund í grunninn ekkert annað en þessar grundvallarskilyrðingar. Vert er að minnast þess í gegnum ritgerðina að öll hugtökin sem Hegel leiðir af upphaflegri óákvarðaðri veru eru ekkert annað en fágaðri birtingarmyndir þessarar veru — sem þýðir að það er sama grundvallarhreyfingin, sama undirstöðudíalektíkin, sem á sér stað gegnum Rökvísindin gjörvöll. Verðandin er ávallt að verki, frá upphafi til enda. Það sem virðist vera hlýtur alltaf að koma í ljós að sé í verðandi, sé að endingu það sem er annað.

Þaðan mallar rannsóknin svo áfram — en hér skulum við láta gott heita. Ef til vill getum við farið nánar út í hreyfingar Rökvísindanna í komandi greinargerðum, ef áhugi er fyrir því.

Upphaf vitundarverunnar og minnið

Upphaf vitundarverunnar og minnið

Trú og átrúnaður

Trú og átrúnaður