Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Þankar um örheima — fyrsti kapítuli

Þankar um örheima — fyrsti kapítuli

Argentínski smásagna- og ritgerðahöfundurinn Jorge Luis Borges er einn af mínum eftirlætis rithöfundum. Hann smíðar stuttar textaperlur sem hægt er að gjörsamlega glata sér í — hvort sem um er að ræða smásögur hans eða ritgerðir. Fyrir þá sem ekki vita er titill vefsíðunnar, „Babýlon,“ vísun í eina af smásögum hans: „The Library of Babel“ — þar sem alheimurinn er gífurstórt bókasafn, stútfullt af skruddum sem innihalda flestar ekkert nema hrognamál, endalausa strengi bókstafa sem mynda ekkert skiljanlegt — sem er augljóslega líking fyrir leit mannsins að röð og reglu í óreiðukenndum alheimi. Stundum rekumst við á hluti sem virðast hafa einhverja meðvitaða uppbyggingu, einhverja ætlun.. en efinn nagar okkur, því við getum aldrei verið viss um hvort við séum bara að búa það til í hausnum á okkur. En aftur að Borges:

Það er, að mínu mati, ekkert sérstaklega heillandi við textasmíð Borges sjálfa. Hann er enginn Nabokov — stíllinn er hversdagslegur og óskáldlegur, tekinn einn og sér — að minnsta kosti eru ensku þýðingarnar á verkum hans það oftast nær. Þær eru vel skrifaðar, en það er enginn ljóðrænn blær yfir textanum sjálfum. Hann er formlegur og gefur af sér blæ víðlesins menntamanns, en þau eru ekki falleg eins og texti John Keats, Charles Baudelaire, Friedrich Hölderlin — enda er markmið Borges alls ekki að hrífa lesendur upp úr ljóðrænum skónum. Fremur er það hinn frjói hugur Borges sem heillar í hvert einasta skipti sem maður tekur eitthvað upp eftir hann — hvort sem maður er að lesa í fyrsta sinn eða áttunda. Oftar en ekki kemst maður að einhverju nýju með því að endurlesa smásögurnar hans, rýna nánar í þær, hella þeim í sig mörgum í einu, eða húka yfir einni smásögu tímunum saman. Þær eru eins og konfektkassi sem þú stútar öllum í einu, og yfirleitt getur maður verið viss um að rekast á einhvern ófyrirséðan, brenglaðan snúningur í endann — kassinn utan um konfektið er sjálfur gerður úr súkkulaði og þú getur borðað hann líka — sem hnýtir alltaf gómsæt endalok á textanammið.

Vegna þess hve áhugaverður og ástkær Borges er fyrir mér langar mig að skrifa litla ritröð um smásögurnar hans — þær þeirra sem hafa sérstakan sess í hjarta mér — og leyfa ykkur að lesa þankaganginn. Ég ætla að gera mitt besta að hlekkja alltaf PDF eða url að smásögunni sjálfri fyrst svo að þau sem ekki hafa lesið geti gætt sér á þessu vitsmuna/bókmenntalega góðgæti áður en þau lesa mitt auðmjúka hugsunarframlag. Fyrsta umfjöllunin mín verður um smásöguna Tlön, Uqbar, Orbis Tertius, sem er ein fyrsta smásaga Borges sem mér fannst ég raunverulega smella við. Einnig vil ég skrifa um sögurnar Pierre Menard, Author of the Don Quixote, og The House of Asterion, en þessar þrjár eru að líkindum með þeim allra betri sem ég hef lesið. Ef einhver er að lesa þetta hjá mér og vill meira skal ég svo glaður skrifa um fleiri smásögur en ég held að ég láti þessar þrjár gott heita til að byrja með. Að neðan byrjar umfjöllun mín um TUOU — svo ég mæli með því að þið SMELLIÐ HÉR og sækið PDF-útgáfu af sögunni ef þið hafið ekki lesið hana. Ég fer yfir söguþráðinn í grófum dráttum og það gæti skemmt fyrir þeim sem eru Borges ókunnugir. Caveat lector! 


Í Tlön, Uqbar, Orbis Tertius lýsir sögumaður — Borges sjálfur, eða útgáfa af honum — því hvernig vinur hans minnist á Uqbar í hendingu. Uqbarskur villutrúarleiðtogi eða heresíarkur átti þá að hafa sagt að speglar, sem og samfarir, væru andstyggilegar — því bæði fjölfölduðu þau mannkynið, juku við fjölda þess. Þegar Borges heimtar sönnur á því að þetta svokallaða Uqbar sé til, og við það hefst löng og ítarleg leit að heimildum fyrir tilvist þessa lands. Að lokum kemst sögumaðurinn Borges yfir ellefta bindi alfræðiorðabókarinnar um Tlön, plánetu sem Uqbar á að því er fullyrt er að vera staðsett á — og þaðan taka heimspekilegir órar Borges við. Á Tlön eru allir hughyggjumenn, efnisheimurinn er samsæri á við það sem okkur finnst flestum um hughyggju Berkeley og nafnorðum er fleygt út fyrir sagnorð. Tunglið heitir ekki tunglið, heldur er það tunglandi — það tunglar í kvöld, myndi maður segja, eða að það sé fulltunglandi einu sinni í mánuði. En það er svo bara á öðrum hnatthelmingnum — hinum megin eru lýsingarorðastrengir notaðir í staðinn fyrir einstök nafnorð. Fullt tungl gæti þá verið „kringlótt-bjart-nátt-silfurgrátt“. Og svo framvegis.

Tlön, Uqbar, Orbis Tertius er ein af mínum uppáhalds Borges-perlum. Í byrjun smásögunnar fara hann og vinurinn, Adolfo Bíoy Casares (sem var rithöfundur í raunheimum og skrifaði m.a. nóvelluna La Invencion de Morel) á bókaleit um söfn og búðir, grúskandi í gömlum alfræðiorðabókum og heimsatlösum, forvitnin étandi þá upp að innan — fullkomin lýsing á því hversu óþolandi það getur verið að finna ekki það sem maður leitar að. Það er svo eitthvað skondið við að þeir leiti að upplýsingum um þennan ritaða heim, Tlön, í alfræðiorðabókum — sem eru í sjálfum sér nánast eins og heilir heimar, ritaðir kosmósar mannlegrar þekkingar. 

Rétt eins og villutrúarleiðtoginn sem Casares minnist á í byrjun sögunnar, sá sem talaði um andstyggð speglanna, er Borges einskonar heresíarkur — hann skapar alheima, þvert á það sem við trúum, þvert á alla möguleika. Hann er eins og demíúrgos gnostíkera, heimssmiður sem leikur sér að eldi, óviss um hvað hann er að skapa meðan hann vinnur. Sérstaklega finnst mér skondið hvernig hann lýsir ljóðlistinni á Tlön í TUOT: ljóðskáldin smíða eitt gífurstórt orð, logos, sem, í takt við ídealismann, er einskonar ljóðhlutur — einstök og heil hugmynd falin í einu orði sem hefur sömu hrif og ljóð. Það skondna er að þetta gæti allt eins átt við smásöguna sjálfa. — gífurstóra orðið Tlön, heimur í sjálfu sér, sem kveikir nú upp hugrenningartengsl hjá öllum þeim sem muna eftir sögunni, heyra orðið í líðandi samtali, hugsa til Borges. 

Auðvitað kemur svo í ljós í lok smásögunnar að Tlön hafi aldrei til — örheimurinn var skáldað skáldverk, gervismíð inni í gervismíð. Uppljóstrunin minnir mann á stærðfræðilegar brotamyndir, veröld inni í veröld — eins og ef maður smækkaði sig nægilega mikið gæti maður uppgötvað kosmósa í bilinu milli kvarkanna sem mynda róteind. Hönnuðir Uqbar, demíúrgosarnir í smásögu demíúrgossins Borges, voru hugsuðir á sautjándu öld — Berkeley meðal þeirra — og verkefnið varð að einskonar arfi sem gekk milli kynslóða þar til það fann milljónamæringinn Ezra Buckley, sem hnussar yfir lítillæti verkefnisins. Það yrði að vera pláneta, eða tilgangurinn væri enginn! Hann hét því að helga verkefninu auðæfum sínum. Verkefnið lifði áfram gegnum alfræðiorðabækur, eins og þá sem Borges kemst höndum yfir í smásögunni. Heimarnir skarast svo af og til — eins og þegar prinsessan af Faucigny-Lucinge fékk áttavita, á hvern var letrað bókstafur úr einu af stafrófum Tlön. Hula leyndardómsins hélt þó sambandi Tlön og Terra óskýru og lítt þekktu — en meðlimir Orbis Tertius halda starfi sínu áfram.

Meginþemu sögunnar eru augljóslega heimssmíðar sem slíkar, en einnig frásagnarhæfileiki mannsins og hlutverk ímyndunaraflsins í hugmyndafræði og skilningi okkar. Hvað er raunverulegt og hvað er óraunverulegt? Hvað er saga og hvað er raunveruleiki? Er okkur yfir höfuð mögulegt að greina á milli þessarra tveggja laga skilningsins? Margir nútímamenn virðast sannfærðir um að við búum í svokölluðu póst-hugmyndafræðilegu samfélagi — þjóðfélagi sem byggir ekki á neinum hugmyndafræðilegum lygasögum, samfélagi sem hugsar bara í staðreyndum — falskleika og sannleika, einum og núllum — þjóðfélagi sem hafnar öllum gervivísindum, kukli, þjóðtrúm og spámönnum — samfélagi sem hefur drepið Guð. Þetta tel ég vera hugveilu — algjöran misskilning — og ég held að Borges hafi talið slíkt hið sama. 

Sögurnar sem við segjum okkur eru lykilatriði í hugarheimi okkar, akkeri í sólvindum algeimsins, tilgangur í óreiðukenndum stormsveipum kaldranalegrar tilvistar. Það að segja að við höfum hafnað sögum er bara enn ein sagan: sagan af því hvernig við töldum okkur trú um að það væri eitthvað þarna úti sem héti Satt með stóru s-i, en ekki bara sammæli um frásagnir sem hentuðu að hverju sinni. Þessi yfirlýsing kann að hljóma farsakennd vegna þess hve mjög hana skortir rökstuðning, og ég er meira en tilbúinn að samþykkja þá skoðun — því ég held að það sé engu betur hægt að rökstyðja það sem er órökrænt, það sem gengur ekki upp — þetta frummennska sem kraumar undir niðri, handan kældrar hraunskorpunnar sem við göngum yfir hraunkvikuna á. Ur-mennskan er ekki rökræn, hún er hreint drif, orka sem við teljum okkur geta hent reiður á — en þegar allt kemur til alls er það egóið sem stjórnast af kvikunni en ekki öfugt.

Enn eitt hugtakið sem Borges minnist á af og til í smásögunni eru talnaritunarkerfi: tylftarkerfið, auk sextugakerfisins (sem, svo það sé nefnt, var notað í Babýlon til forna). Þau byggja á því að nota tólf, í fyrra tilfellinu, eða sextíu, í því seinna, sem grunntölu talnakerfis síns. Tylftarkerfið skrifar töluna tólf sem 10, þar sem einn táknar eina tylft og núll táknar enga einingu. Þrettán er ritað sem 11, fjórtán sem 12, og þaðan fram eftir götunum. Til að mynda minnist Borges á það í neðanmálsgrein að ein öld á Tlön séu í raun 144 jarðnesk ár (í okkar hefðbundna talnaritunarkerfi, það er) — sem gengur upp þegar tólf er grunntala ritunarkerfisins. Það sem er áhugavert við að Borges minnist á talnaritunarkerfi í samhengi smásögunnar er að þau eru í raun engin alvöru breyting — þótt ég kjósi að skrifa tólf sem tíu er ég samt alltaf að vinna með tólf, sama hugtak, sama magn, bara með öðruvísi rithætti. Mögulegt er að hugmyndin um Tlön sé einskonar ísómetrísk jörð, „talnaritunarkerfi“ fyrir mannleikann, umritun á samfélaginu sjálfu — allt eins en allt öðruvísi.

Ég ætla að láta þetta gott heita fyrir þessa einu sögu — þótt svo kynngimögnuð sé að hægt væri að skrifa talsvert meira um hana. Ég vona að þið hafið lesið hana og notið góðs af umfjöllun minni. Næst skrifa ég um Pierre Menard, Author of the Don Quixote. Þar til þá!

Málverkið efst heitir Siesta og er eftir Joan Miró. 1925, olía á striga.

Bækur — Anno Domini MMXVII

Bækur — Anno Domini MMXVII

Hátíðarbragur og hástafir

Hátíðarbragur og hástafir