Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

„Varnið þeim eigi“ – málsvörn fyrir barnalýðræði

„Varnið þeim eigi“ – málsvörn fyrir barnalýðræði

„Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki.“

(Matt. 19:14, Mark. 10:14, Lúk. 18:16)

Fleyg orð í tíma töluð – sem Matteus, Markús og Lúkas höfðu allir eftir frelsaranum, hvor í sínu guðspjallinu. Þetta eru vissulega göfuglynd og háleit orð, en fögur fyrirheit um handanheima virðast hingað til hafa dugað börnunum skammt í heiminum hér og nú, í heiminum þar sem þau lifa og hrærast. Börnum er nefnilega meinaður aðgangur að ríki mannanna, jafnvel þótt ríkið kalli sig lýðræðislegt, ríki þar sem manneskjan fær að ráða sér sjálf.

Börn fá ekki sæti við borðið þegar kveðið er á um stefnu og gildi samfélagsins til framtíðarinnar, því í augum samfélagsins eru börn aðeins hálfmenni, vofukennd fyrirbæri sem eru einhversstaðar mitt á milli þess að vera manneskja og dýr. Samfélagið gefur sér að börn séu of óþroskuð, heimsk og óreynd til þess að geta haft marktæka skoðun á eigin örlögum, þó þau séu rétt nógu greind til þess að læra það sem fyrir þeim er haft.

Við sussum á börn og segjum þeim að þegja, nauðbeygjum þau til að sitja stillt, prúð og þolinmóð þar til við sem vitum betur gefum þeim góðfúslegt leyfi til að taka þátt í lýðræðinu. En hvenær á eiginlega að ljá þeim leyfið ljúfa? Jú, þetta kemur allt með kalda vatninu, sjáið til: frá fæðingardegi er börnum gert að þola gerræðisvald fullorðinna þar til þau hafa lifað rúma 6500 daga, dagafjölda sem jafngildir um það bil 18 hringferðum kringum sólina. Börnum er gert að halda kjafti þar til kemur að þeim, jafnvel þótt það gæti orðið um seinan þegar og þá ef það kemur að þeim yfir höfuð.

Hvers vegna varð þessi tiltekna tala fyrir valinu? Eitthvað hlýtur það að vera, ekki satt – því ekki má 17 ára og 364 daga gamalt barn ganga til kosninga. Það hlýtur þá að vera einhver mjög góð ástæða, einhver stór breyting sem á sér stað hjá barninu sólarhring síðar, eða hvað? Því miður er svarið hins vegar jafn einfalt og það er ískyggilegt – það er bara engin sérstaklega góð ástæða. Talan gæti jú allt eins verið 19, 17, 25 ára – og raunar var einmitt miðað við 25 ára aldurinn árið 1915.

Hvers vegna var talan hærri árið 1915 en árið 2022? Hefur einhver lífeðlisfræðileg stökkbreyting átt sér stað síðustu 100 árin sem flýtir fullþroska barna um þessi sjö ár sem munar á milli aldurstakmarkanna? Því miður er svarið einfaldlega nei. Aldurstalan er alfarið valin út frá geðþótta full-orðinna, geðþótta þeirra sem eru stærri og sterkari og reyndari en börn, sem eru ekki full-orðin heldur kannski bara hálf-orðin. Talan er ekki rökstudd að neinu leyti í stjórnarskrá eða í lögum – hún er einfaldlega tilgreind án nokkurra haldbærra skýringa.

Skýtur þetta ekki skökku við? Börnin eru óumdeilanlega lýðurinn rétt eins og við hin sem erum orðin eldri, alveg óháð því hvort þau hafi náð einhverjum tilfallandi aldri – hvort sem það er 18 árin sem til þarf fyrir þátttöku í Alþingiskosningum eða 35 ára aldurinn sem er tilgreindur fyrir þátttöku í forsetakosningum.

Raunar má færa sterk rök fyrir því að börn eigi meira tilkall til þess að vera „lýðurinn“ en þau okkar sem hafa náð hærri aldri – þau eiga jú meiri hlutdeild í framtíð lýðræðisríkisins en fullorðið fólk einfaldlega vegna þess að þau eiga fleiri ár eftir af henni ólifuð að meðaltali; 10 ára barn á óumdeilanlega fleiri ár eftir ólifuð sem lýðræðisþegn en sá sem er orðinn áttræður.

Þrátt fyrir það gera stjórnarskráin og samfélag okkar allt einfaldlega ráð fyrir því að börnum sé ekki treystandi fyrir því að taka ákvarðanir um eigin framtíð. Samkvæmt þessu fyrirkomulagi er einstaklingi sem nær 18 ára aldri á kjördag fullkomlega treystandi fyrir því að hafa skoðun um eigin framtíð, en ekki 17 ára einstaklingi sem yrði 18 ára gamall daginn eftir kjördag.

Einföld en aðkallandi hugmynd

Að þessu sögðu vil ég gerast ansi frakkur og leggja til hugmynd, kæri lesandi, sem þú mættir gjarnan japla á og jórtra:

Ættum við ekki einfaldlega að leggja niður aldursákvæðið fyrir fullt og allt og leyfa hverju því mannsbarni að kjósa sem getur farið inn í kjörklefa einsamalt, sett X við valkost og sett seðilinn svo í kjörkassann?

Nú er upplagt að hugsa nánar út í málið. Hvaða rök eru með og á móti þessari hugmynd? Hvers vegna ættum við að hafa aldurstakmark yfir höfuð, og ef það ætti að vera aldurstakmark, hvers vegna ætti það að vera sú tala sem þér þykir ákjósanleg en ekki einhver önnur?

Ég legg þessa hugmynd fram sem efni í hugleiðingu, ekki sem óhjákvæmilega niðurstöðu. Ástæðan er sú að ég hef ekki getað lagt hana frá mér síðan mér flaug hún í hug einhverntímann – og ég held í alvörunni að við hefðum gott af því að íhuga hana. Hvers vegna viljum við takmarka aðgengi barnsins að ákvarðanatökuferli lýðræðisins á þennan hátt?

Af mótrökum og mótmótrökum

Auðvitað er svo mjög auðvelt að ímynda sér flest þau mótrök sem spretta upp jafnharðan og þessi hugmynd dúkkar upp:

Börn hafa ekki náð fullum þroska, sem þýðir að þau séu of áhrifagjörn, svo þau myndu kjósa það sem foreldrar þeirra, stórfjölskylda eða kennarar segja þeim að kjósa – þau eru of hvatvís, og atkvæði þeirra væru því óúthugsuð og ómarktæk, þau eru of óreynd, og vita þar með ekki hvað sé þeim fyrir bestu og létu þar með ginnast af óraunhæfum, innihaldslausum og heimskulegum loforðum. Börn eiga enn fremur að vera frjáls undan ábyrgð í lýðræðinu, því börn eiga ekki að vera neydd til að taka þátt í málefnum ríkisins, lýðræði er fúlasta alvara og börn eiga að fá tíma til að vera saklaus og að leik, og börnum finnst lýðræði ekki skemmtilegt og vilja frekar gera annað við tíma sinn.

Án þess að ég ætli að tæta þessi rök í sundur lið fyrir lið á tæmandi hátt vil ég þó benda á nokkrar mótbárur, ykkur til hægðarauka meðan þið meltið og veltið fyrir ykkur hugmyndinni um að afnema aldursákvæðið.

Mótrakaknippið sem snýr að þroska felur til að mynda í sér talsverðan vanda. Til að byrja með liggur í augum uppi að rökin eiga sömuleiðis langflest (ef ekki öll!) alveg jafn vel við um ótal margt fólk sem þó teldist fullorðið, fólk sem hefur náð 18 ára aldri. Þekkjum við ekki öll fullorðið fólk sem kýs gegn eigin hagsmunum, kýs í hvatvísi eða lætur vilja annarra hafa áhrif á eigið atkvæði?

Ef eitthvað er ættu þroskarökin raunar að knýja okkur til þeirrar niðurstöðu að kosningaaldurinn ætti að vera hærri en hann er núna. Við vitum, til að mynda, að framheilinn þroskast allt til 25 ára aldurs, og við vitum sömuleiðis að með aldrinum verður fólk almennt öruggara og rökstuddara í sínum afstöðum.

Ef þroski er fyrirstaðan, ættum við þá ekki að takmarka atkvæðaréttinn við þroskaðasta fólkið? Segjum svo að við komumst að þeirri niðurstöðu. Hvernig leggjum við þá mat á þroska? Segir aldur til um þroska? Ættum við að leyfa elsta fólkinu einvörðungu að kjósa – með þeim fyrirvara þó að þetta sama fólk verði að geta sýnt fram á að þjást ekki af neinskonar heilabilun eða búi yfir líkamseinkennum sem takmarkar þroska þess? Þið sjáið hvernig þessi rökleiðing ber okkur að niðurstöðum sem okkur hugnast flestum helst til illa.

Það má sömuleiðis íhuga inntak röksemdanna sem snúa að því að frelsa börnin undan ábyrgð. Þeim má ósköp einfaldlega svara með þeim hætti að það sé enginn að tala um að „neyða börnin til að bera ábyrgð“ á lýðræðinu, eða að þrýsta þeim gegn vilja sínum út í gráan og gugginn heim alvörugefna fullorðna fólksins sem hefur glatað sakleysi sínu og lit lífs síns. Þvert á móti er hugmyndin einfaldlega að gefa börnum kost á að taka þátt, en þau fá einfaldlega ekki um það að velja eins og staðan er í dag. Þau þurfa ekki þar með sagt að taka þátt, ekki fremur en ég sem er orðinn fullorðinn og hef oft sleppt því af fúsum og frjálsum vilja að ganga til atkvæðagreiðslna fyrir ýmsar ástæður.

Að því sögðu þá eru þetta tilfinningarök, og þau eru fullgild sem slík – en að lokum hlýtur merking þeirra að felast í gildunum sem þau endurspegla: að börn séu þetta tæra og saklausa fyrirbæri sem myndi skemmast ef það kæmist í snertingu við heim stjórnmálanna. Hvaða innri tilfinning er það í okkur sem kemur í veg fyrir að við opnum okkur fyrir því að treysta barninu til þess að taka þátt? Erum við „full-orðna“ fólkið ef til vill „orðin-full“ af ótta, full af skömm frammi fyrir bernskunni, frammi fyrir eigin bernskubrekum? Hvaða harðneskjulaga hjartalag höfum við neyðst til að höggva út til þess að komast að þeirri niðurstöðu að barnæskunni verði að hlífa fyrir þátttöku í lýðræðinu okkar, í lífinu okkar, framtíðinni okkar? Er þetta ekki vandamál sem á rót sína í lýðræðinu, fremur en í barninu – og gæti lýðræðið ekki jafnvel haft gott af því að fá væna skvettu af barnslegri upplifun út í allan alvarleikann?

Spurt að leikslokum

Látum það gott heita að íhuga mótbárurnar. Þær eru vitaskuld margtum fleiri og ég get alls ekki svarað öllum mögulegum mótrökum hér. Til að mynda má ímynda sér margar aðkallandi spurningar sem við þyrftum að kljást við í kjölfarið; spurningar um merkingu sjálfsákvörðunarréttar, tengingu réttarins við hæfileikann til þess að taka ákvörðun um sjálft sig, öll þau önnur lög sem fyrir liggja um aldurstakmarkanir, spurningin um það hvort þú ættir að fá að kjósa ef þú borgar ekki skatta, osfrv., osfrv., – af nógu er að taka.

Vegna þess að ég get ekki tekið allt fyrir hér vil ég hvetja ykkur eindregið til þess að bera þessar spurningar og fleiri upp við fólk sem er ykkur nákomið, og þá sér í lagi börnin í ykkar lífi. Berið lýðræðið undir börnin, spyrjið þau hvað það er, hvers vegna það er, hvort þeim þætti betra eða verra að fá að kjósa, taka þátt, og svo framvegis. Spyrjið fólk hvort þeim fyndist aldurstakmörkunin góð eða ekki, og hver talan ætti þá að vera, og svo út frá því hvers vegna þau velja þá tölu en ekki einhverja aðra. Við getum gert þetta að mjög auðgandi og áhugaverðu samtali ef við leggjumst á eitt við það.

Barnanna er Guðs ríki, sagði Jesú – en það gleymist oft að í Lúkasi og Markúsi fylgir merkilegur viðauki með orðunum fleygu:

„Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ 

(Mark. 10:15, Lúk. 18:17)

Hér er Jesú auðvitað að tala um einhverslags andlegan heim – það verður ekki skautað hjá því. Hvort sem um er að ræða bókstaflega túlkun, þar sem ódauðleg sál okkar ferðast til heims handan heimsins eftir að líkaminn gefur sig – eða þá að um symbólískari heim sé að ræða, það ríki Guðs sem er nú þegar innra með okkur og fullaðgengilegt þegar við lifum í algjörum náungakærleik með augnablikinu sem líður – þá er Jesú ekki að tala um veraldlega heiminn, lýðræðisríkið.

Þrátt fyrir það tel ég að sannleikur yrðingarinnar – að aðeins sé hægt að taka við ríkinu sem barn – eigi jafn vel við um andlegan heim frelsarans og veraldlegan heim lýðræðisríkisins. Þegar okkur er beinlínis meinaður aðgangur að þátttöku í lýðræðinu fyrir 18 ára aldur er ríkið gert að annarlegu og undarlegu fyrirbæri þau fyrstu 18 ár ævinnar, auk þess sem það sendir börnum þau skilaboð að þau séu á einhvern hátt ekki nóg, að þau séu ófullkomin miðað við fullorðið fólk.

Ef til vill væri lýðræðisvitund ungs fólks sterkari ef því væri skýrt allt frá blautu barnsbeini að það sjálft sé þetta ríki, að þau séu lýðræðisríkið. Ef til vill væri lýðræðið sterkara fyrir vikið, réttlátara og rökréttara – óháð því hvort okkur þættu svo hugsanlegu pólitísku niðurstöðurnar sem kynnu að fylgja þátttöku barna „betri“ eða „verri“. Þær koma málinu nefnilega í rauninni ekkert við – því það sem við erum að ræða hérna er réttmæti þess að takmarka aðgengi að lýðræðislegri þátttöku fyrir ákveðinn þjóðfélagshóp – réttmæti þess að geðþóttakennd breyta eins og tiltekinn aldur fái að stýra því hvort einstaklingur sé fullgildur lýðræðisþegn eður ei.

Í öllum föllum bið ég ykkur — að hugsa málið.

Málverkið í haus greinarinnar heitir Suffer the Little Children come to Me og er eftir Juliaan de Vriendt. Það var málað á tímabilinu 1863 - 1935.

Inngangur að þýðingu á Formála að Réttarspeki Hegels

Inngangur að þýðingu á Formála að Réttarspeki Hegels