Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

The Quantum Thief

The Quantum Thief

The Quantum Thief er vísindaskáldsaga eftir finnska rithöfundinn og vísindamanninn Hannu Rajaniemi. Hún er sú fyrsta í þriggja bóka röð. Bókin var fyrst gefin út árið 2010 og hefur hlotið þrjár tilnefningar og ein verðlaun fyrir gæði sín. Sala bókarinnar hefur ekki verið sú allra besta - en það segir sosum lítið um hve vel skrifuð hún er. 

Eins og flestir mínir lesendur hér á alnetinu vita þá er ég mikill aðdáandi vísindaskáldsagna almennt. Þær heilla mig upp úr skónum. En staðreyndin er sú að þær hafa ekki gert það frá ómunatíð - þvert á móti er ást mín á vísindaskáldsögunni tiltölulega nýtilkominn. Það var ekki fyrr en ég var ríflega fjórtán eða fimmtán ára sem ég uppgötvaði listformið og naut þess fyrir alvöru. Lestur minn tók sér nokkurra ára pásu meðan ég fór í unglingadeild í grunnskóla og hafði betri hluti að gera (hugsa um stelpur, reyna að greiða hárið rétt, velja flottar Carhartt buxur, passa upp á mæspeisið mitt) en að lesa skruddur. Það gat beðið, hugsaði ég mér.

Svo var ég í Eymundsson einn daginn og greip Quantum Thief með mér. Hún leit undarlega út - það var eitthvað á forsíðunni sem minnti á köngulóarvef og geimskip á sama tíma, og nafnið var áhugavert - þannig ég byrjaði að lesa hana.

Quantum Thief fjallar aðallega um tvo menn - þá Jean Le Flambeur og Isidore Beautrelet. Le Flambeur er þjófur, og söguþráðurinn hans megin fjallar um rán sem hann hyggst fremja. Beautrelet hins vegar er rannsóknarlögreglumaður sem reynir að koma í veg fyrir að Jean takist ætlunarverk sitt. Til annarra stærri persóna teljast Mieli, tæknibætt stríðskona frá Oort-skýinu (ísbelti sem umlykur stjörnukerfi okkar í 5000 AU vegalengd frá Sólinni) og Perhonen, sem er gervigreind og/eða lifandi geimskip (línurnar verða stundum óskýrar í Quantum Thief).

Bókin er þess eðlis að höfundurinn hikar ekki við að fleygja lesandanum endilöngum beint ofan í djúpu laugina. Frá fyrstu blaðsíðum bókarinnar nánast drukknar maður í óskiljanlegum tækniorðum sem mörg hver eru algerlega tilbúin og eiga sér nánast enga hliðstæðu - og ef hliðstæða er til staðar þá er hún í óljósu horni einhverrar vísindagreinar, og maður þarf að vera tiltölulega víðlesinn til að skilja það sem Rajaniemi meinar strax. Hins vegar verður virkni og tilgangur þess sem hann lýsir ljós með tímanum og lestri bókarinnar, og eftir rúmlega þriðjung ættu allir að vera með á nótunum hvað Rajaniemi meinar.

Þetta er eiginleiki sem mér finnst alltaf mjög heillandi í vísindaskáldsögum. Mér finnst það draga úr áhuga mínum þegar allar upplýsingar um það sem er að gerast eru matreiddar ofan í mig, eins og ég sé smábarn sem þarf að gefa eplamauk að borða vegna þess að ég sé enn að taka tennur. Sumir fíla kannski svoleiðis - en ekki ég. Sagan er gífurlega spennandi og dularfull, persónurnar eru djúpar, raunverulegar og heillandi - þrátt fyrir að vera framtíðarfólk með framtíðarþarfir, þrár og möguleika - og maður á erfitt með að leggja bókina frá sér þegar maður kemst upp á lagið með að þekkja öll tæknilegu orðin, hópana og samtökin sem Hannu hefur skapað í huga sér. Til að mynda hafa myndast stór og valdamikil samtök fjöldahlutverkaleikjaspilenda (MMORPG) sem kalla sig „Zoku" og rekja menningu sína til World of Warcraft og annarra leikja í sama dúr.

Þá er einnig til hópurinn „Sobornost", hverra nafn er rekið til slavófíla sem fannst að einstaklingshyggju ætti að hafna í þágu félagshyggjunnar. Sobornost-menn fylgja „Fyodorovisma" (sem einhver ykkar hafa kannski séð mig blaðra um) - sem er sú skoðun að dauðinn sé það eina sem standi í vegi fyrir mannkyninu og að um leið og við sigrumst á honum gegnum vísindin verði mannkyn fullkomnað. Sobornost hafa svo sér til valda milljarða svokallaðra „gógola" - sem eru mannlegar meðvitundir, vistaðar á tölvudrif! Orðið Gogol er vísun í rússneska rithöfundinn Nikolai Gogol og bók hans „Dead Souls," sem ég mun e.t.v. skrifa um hér einhverntímann síðar - verandi meistaraverk.

Mynd af  Fyodorov .

Mynd af Fyodorov.

Hverjum sem er verður fljótlega ljóst að bókin er byggð á gífurlega víðlesnum og ímyndunarríkum huga Rajaniemi og er ekkert lamb að leika sér við. Tilvísanir eru á hverju strái og maður lærir meira af ósamstæðum (og stundum hálf þvælukenndum) staðreyndum í Quantum Thief bókunum en í nokkurri annarri skáldsögu. Ég naut þess í botn að lesa Quantum Thief og báðar framhaldssögurnar, sem heita Fractal Prince og Causal Angel - og ég mæli innilega með þeim við hvern sem hefur áhuga á bókmenntum, vísindum, mannkynssögu og hugsun almennt.

4,5/5 mögulegum.

Margin of Safety

Margin of Safety

The Hour of The Star

The Hour of The Star