Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

The Hour of The Star

The Hour of The Star

Einn af mínum betri vinum mælti með Hour of the Star eftir Clarice Lispector við mig, og lánaði mér jafnvel eintakið sem ég las - fallega Penguin Classics útgáfu. Í ljós kom að hún er stutt en torveld bók. Þrátt fyrir að vera aðeins um 80 blaðsíðna löng þá tók hún mig þriggja daga lestur - svo mikið fannst mér ég þurfa að melta úr textanum.

The Hour of the Star er nefnilega örstutt saga um sögu - eins konar meta-saga - þar sem rithöfundur berst við að glæða sögupersónuna Macabéa lífi. Það reynist rithöfundinum erfitt á tímum, en með puði brýst Macabéa fram úr tóminu og heimtar, með veikri röddu þó, að vera til. Sagan er í senn bæði um ritferlið og lífsbaráttuna.

Macabéa er fátæk stúlka frá norðanverðri Brasilíu - en býr í Rio. Hún starfar sem ritari á skrifstofu fyrir lúsarlaun og býr með fjórum öðrum stúlkum sem allar heita Maria í vesælu herbergi. Líf hennar er snautt og innantómt við fyrstu sýn, en Macabéa kemur á óvart. Hún er forvitnari en hún þorir að viðurkenna og þótt höfundur tönnlist sífellt á því hve dauf og sljó hún er þá fannst mér við lesturinn eins og persónan Macabéa sem slík vildi streitast á móti því sem rithöfundurinn í sögunni, sögumaðurinn, meinti að hún væri.

Lispector málar höfundinn oft á tíðum sem miðil fremur en skapara - þannig að Macabéa og Olimpícó, ógeðslegi kærastinn hennar, eigi sér sjálfstæða tilvist og hann sé bara að staðfesta hana á pappírnum. Hann talar oft um að sagan hafi átt sér stað áður - eins og hún sé ekki skálduð - heldur sé hann að fá sýnir um söguna sem hann svo skrifar. Sú var í það minnsta mín tilfinning.

Lispector talaði stuttlega um bókina í eina sjónvarpsviðtalinu sem hún gaf um ævina. Þar sagði hún að bókin fjallaði um „mölvað sakleysi og nafnlausa vesæld,” sem mér finnst fanga þemu bókarinnar ágætlega. 

Þótt fátækt og vesæld hafi verið meginþema bókarinnar, þá fannst mér sem einhver birta lægi undir niðri - dauf lífsgleði - þótt mögulegt sé að ég, forréttindahlaðinn lesandinn, sé að blætisgera þjáningu fátækra í eitthvað fagurfræðilegt skrípi sem slitið hefur verið burt frá því sem þjónaði sem innblástur sögunnar.

Mikið var fjallað um, í formálanum, hvernig ritstíll Lispector væri allt að einstakur og byltingarkenndur. Henni er þá lýst sem færri um að skrifa eins og hún hafi nýfundið upp ritlistina sjálfa. Í eftirmála bókarinnar segir þýðandi hennar þá að torvelt geti verið að þýða bókina - hún er upprunalega skrifuð á portúgölsku - vegna þess að sérviska Lispector á aðeins við á móðurmáli hennar. 

Minnst er á að auðveldar sé fyrir þann, sem enga portúgölsku kann, að lesa hana á frummálinu, en Portúgala sjálfa - svo undarleg sé orðaröð Clarice og svo undarleg sé málnotkunin. Við lesturinn fannst mér ég draga eitthvað skyn um þessa staðreynd, þótt lítil væri, en ég óskaði þess að ég vissi betur við hvað þýðandinn ætti.

Lispector notar tungumálið nokkurn veginn eins og barn oft á tíðum. Það er sem hún sé að streitast við að koma einhverju til skila á tungumáli sem hún skilur ekki nægilega vel - en raunin er líklega sú að hún skilji tungumálið of vel. Í það allra minnsta þá hefur hún eitthvað alveg einstakt sjónarhorn á það hvað tjáning er og hvernig við beitum henni til þess að eiga samskipti.

Ég hugsa mér að ég lesi eitthvað annað eftir hana. Hún er góður rithöfundur og greinilega sneisafull af tilfinningum og hugmyndum. Ég sé fram á gera dauðaleitir að eintökum bóka hennar í gömlum fornbókabúðum, stökkvandi hæð mína af hamingju þegar ég loksins finn eitthvað eftir hana. Hún er þannig rithöfundur. Og svo er hún agalega falleg líka.

The Quantum Thief

The Quantum Thief

Starship Troopers

Starship Troopers