Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Das Kapital Vol. 1 - Peningar, græðgi og Guð

Das Kapital Vol. 1 - Peningar, græðgi og Guð

Karl Marx er stórt nafn. Risastórt, raunar. Flestir þekkja hann og félaga hans Friedrich Engels með nafni og mjög margir hafa lesið eitthvað eftir hann. Helst ber að nefna Kommúnistaávarpið, sem nýtur einna helst vinsælda vegna þess að það er stutt og auðvelt lesningar - kenningar þeirra niðursoðnar í það sem kalla mætti pólitísk “soundbites”. Auk þess hefur Marx auðvitað verið bendlaður við kommúnisma 20. aldarinnar - byltingarmenn á borð við Lenín, Castro og Maó hafa stundað það að bæta nafninu sínu með bandstriki aftan við marxismahugtakið til að gefa sjálfum sér vægi. Dæmi um hugtakaskrípi af slíku tagi má nefna Marxist-Leninist-Maoist/Thirdworldism, nánast merkingarlaust samkrull sem er bundið mjög tiltekinni pólitískri og efnahagslegri stefnu og nánast gagnslaust, lamað í stærri myndinni sem slíkt. Þessi tilhneiging segir margt um Marx og áhrif hans en að mínu mati segir hún meira um þá menn og konur sem hneigjast að því að gefa sjálfum sér og hugmyndum sínum vægi með marxismahugtakinu, bandstriki og smá hugmyndafræðilegu límstifti.

Þegar ég var fimmtán ára eða svo fór ég að gefa mér tíma til að hugsa um pólitík. Foreldrar mínir hafa frá því að ég man eftir mér verið hægrihneigð og mér fannst ekkert að því að byrja bara þar, á sama stað og þau. Hvorugt þeirra er mjög öfgakennt í hægriskoðunum sínum en það liggur þó enginn vafi á því hvar þau standa hugmyndafræðilega. Eftir að hafa fengið þau til að útskýra fyrir mér hvað fælist í hægrimennsku með tilliti til vinstrimennsku og öfugt hugsaði ég með mér að það skaðaði engan að gerast einfaldlega hægrimaður. Það er ákvörðun sem ég stóð við í tvö ár eða svo. Ég fór á SUS-fundi, kynntist nokkrum hægrimönnum sem eru enn góðir vinir mínir þótt ég hafi beygt af hægri brautinni, reifst á netinu og reifst við vinstrisinnaða vini og reifst við blöðin. Það er nánast fullt starf að vera kappsamur og innblásinn hægrimaður - allur heimurinn virðist misskilja mann, þarfnast leiðréttingar, útskýringar. Nei, sjáðu til, þetta er vegna framboðs og eftirspurnar. Nei, það er glapræði að leyfa ríkinu að sjá um eitt né neitt. Já, ég tel mig hæfan um að endurskilgreina einn míns liðs hvað þjófnaður er og ég tel mig geta ábyrgst þá skilgreiningu. Ég komst að meira að segja á það stig, um 16-17 vetra gamall, að kalla mig anarkó-kapítalista. Já, ég barðist fyrir því með kjafti og klóm. Ég las þó ekki Ayn Rand fyrr en síðar, og þá með varkárari augum, svo ég var ekki svo langt leiddur.

Meðan ég var hægrimaður passaði ég þó að lesa líka um hina hliðina - vinstrimennskuna. Ég las í fyrsta lagi Kommúnistaávarpið, en svo las ég einnig bókina Kommúnisminn eftir prófessor við Harvard-háskóla sem heitir Richard Pipes. Hvorug þeirra varð til þess að sannfæra mig um verðleika vinstristefnunnar, svo ég ákvað í fordómafullum flýti að hún hefði upp á lítið annað að bjóða en fjöldamorð, hungursneyð og háfleyg en innantóm manifestó. Mér fannst það líka bara allt í lagi og finnst það enn í dag. Maður á rétt á því að fara sínar eigin leiðir í mótun hugsunar og mér finnst maður ekki eiga að vera dæmdur fyrir það sem maður var einu sinni og er ekki lengur. Heimurinn verður svo leiðinlegur þegar maður hugsar þannig - eins og sá sem var einu sinni flokksmeðlimur Vinstri grænna sé ævarandi kommúnisti og sé ófær um að skipta einfaldlega um skoðun með 180 gráðu viðsnúningi. Það er sannarlega hægt, eins og ég komst að árið 2014! Ég var í Eymundsson á Skólavörðustíg - og þessi minning er brennimerkt í huga mér, vegna þess hve mikil áhrif þessi tiktúra mín átti eftir að hafa á hugsunarheim minn - og kom þar auga á tvær þykkar bækur. Þær voru Capital eftir Karl Marx og Wealth of Nations eftir Adam Smith. Ég sá að þær kostuðu bara 2000kr hvor sem mér fannst ótrúlegt verðlag miðað við stærð þeirra. Báðar voru þær yfir 1000 blaðsíður að lengd. Ég hugsaði með mér að kannski ætti ég bara að næla mér í þær á þessu gjafverði, þær væru hvort eð er báðar klassískar bókmenntir og hver veit nema ég gæti notið þess að lesa þær. 

Útgáfan mín af Capital eftir Karl Marx er frá Wordsworth Classics of World Literature, sem gefur jafnan út falleg eintök, en mitt er frá 2013. Framan á kápunni er mynd af einskonar stalínískri herskrúðgöngu - sem mér finnst nokkuð óviðeigandi þegar tekið er tillit til efnistaks bókarinnar sem er kapítalismi fremur en kommúnismi. Eintakið inniheldur fyrsta og annað bindi Capital, en þau urðu alls fjögur talsins. Aðeins hið fyrsta var fullklárað af Marx, meðan hið annnað, þriðja og fjórða voru sett saman úr handritum og glósum Marx af Engels og Karl Kautsky eftir dauðdaga höfundarins. Að mínu mati er það því aðeins fyrsta bindið sem er að öllu leyti marktækt og ég tel hæpið að ég muni einu sinni leggja í að lesa annað og þriðja bindið. Fyrirætlun Marx var sú að gera yfirgripsmikla og algilda lýsingu á efnahagskerfinu, ekki aðeins í grundvallaratriðum þess eins og fyrsta bindið snertir á heldur einnig á fíngerðari hlutum þess - þeim sálfræðilegu, heimspekilegu, siðferðilegu - og svo framvegis. Það er synd að verkinu sé ólokið. Þrátt fyrir það hefur fyrsta bindið hlotið mikla athygli, lof jafnt sem last, og verið þrætuepli og bitbein pólitískra hagfræðinga allt frá upprunalegri útgáfu þess árið 1867.

Ég byrjaði að lesa Capital 18 ára gamall og átti þá erfitt með lesturinn. Mér fannst hann ganga hægt - 15 blaðsíður á 40 mínútum eða svo - en þrátt fyrir það var ég hugfanginn strax í fyrsta kafla. Marx setti upp skýr dæmi um það hvernig fjármagn virkar og eykur við sig, stækkar í sífellu, eins og lifandi súrefnisneytandi lífvera. Marx sjálfur var í raun ekki hinn upprunalegi hugmyndasmiður sumra kenninga sem hann notast við í bókinni en hann notast við kenningar Smith og Ricardo í samtvinningi við Hegelíska díalektík til þess að sýna fram á hversu þversagnakenndar réttlætingar kapítalistanna og borgarasinnuðu hagfræðinganna voru á þeim tíma. Ég ætla ekki að fara mjög djúpt í efni bindisins, enda er góð ástæða fyrir því að það er 500 blaðsíður að lengd. Það sem Capital gerði fyrir mig var að hún opnaði augu mín fyrir því að vinstrimenn væru ekki einfaldlega rökþrota og tilfinningasinnaðir vesalingar heldur þenkjandi og greinandi vitsmunaverur. Það sem Marx skrifaði um samræmdist minni sýn á kapítalismann, það sýndi mér að hugtakið um eignarétt væri kannski ekki svo fullkomið eftir allt saman, það sýndi mér að það væri raunverulega dýpri grunnur fyrir vinstrimennsku en einfaldlega pólitískt tilbrigði af kristintrú, náungahugtakið ríkisvætt, skattlagning réttlætt með kærleika í huga - Capital sýndi mér líka að kapítalismi væri ekki hið óvíkjandi og algöfga markmið mannlegra framfara sem okkur virðist hann svo oft vera. Það er líf handan kapítalismans rétt eins og það var líf handan lénskerfisins, handan borgríkjaskipulags forngrikkja, handan allra stofnana og kerfa sem birtast okkur sem tímalaus og endanleg. Það var mjög mikilvægt fyrir mig að komast í skilning um að svo væri. Ég á ef til vill að þakka Hegel fyrir þessa uppgötvun, ef uppruni hennar er leiddur til lykta, en það var Marx sem kynnti mig fyrir henni svo listilega og svo vitsmunalega!

Eftir að ég byrjaði að lesa Capital varð ég sífellt vinstrisinnaðri, þar til ég endanlega náði botninum og var næstum farinn að þræta fyrir að Sovétríkin hefðu bara átt fullkominn rétt á sér og að það sem varð á mótunartíma þeirra hafi verið fullkomlega réttlætanlegt. Þá dró ég andann djúpt og hætti að kalla mig kommúnista, þótt það hafi nú verið í hálfgerðu gríni - andlitsgríma sem ég setti upp til að kynnast stefnunni og þankaganginum enn betur. Ég hélt samt áfram að lesa vinstrisinnaðri texta - Lenín, Engels, Eagleton, Harvey, Adorno… Og ég held áfram að hjakka mig gegnum þetta lið. Rosa Luxembourg bíður mín og ég á eftir að fá Deleuze/Guattari í pósti einhverntímann í næsta mánuði! Það er nóg að sýslast og lesa þegar maður er með opinn huga og reynir að mæta höfundum fordómalaus og áhugasamur um hugsanir þeirra. Ég er gífurlega þakklátur fyrir að hafa rekist á Capital þennan örlagaríka dag í Eymundsson. Hver veit hvernig manneskja ég væri í dag ef ég hefði ekki keypt hana? Það er aldrei að vita. Hún hefur nefnilega mótað mig meira en ég þori að viðurkenna - ekki á þann hátt að ég hafi gleypt við öllum doktrínum Marx hljóðalaust - heldur þannig að ég er krítískari í hugsun, ég fer lengri leiðir áður en ég felli dóma um hluti, ég reyni að hugsa um þá frá öðrum sjónarhornum og helst þeim sem ég hef aldrei reynt áður.

Takk fyrir mig, Marx. Fyrsta bindi ókláraðs meistaraverks þíns fær 5 af 5 stjörnum mögulegum frá mér. Ég les svo Grundrisse og German Ideology einhverntímann síðar. Hlakka til að kynnast þér betur þá. 

~ Sýsifos

Snjórinn féll á Hebron

Snjórinn féll á Hebron

Margin of Safety

Margin of Safety