Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Meðvitund, líf og minni

Meðvitund, líf og minni

Meðvitund, hugtak sem við notumst við frá degi til dags, merkir oftast einskonar ástand lífveru, ástand sem einkennist af því að lífveran sé vakandi og eftirtektarsöm. Þá væri meðvitundarlaus manneskja einmitt ófær um að svara tilteknu áreiti sem berst henni úr umhverfinu, hún lægi eða sæti einfaldlega og tæki ekki eftir umheiminum. Þetta er ríflega sú merking sem við leggjum í hugtakið hversdagslega. Þegar við hugsum svona um hugtakið eins og það birtist okkur beint og milliliðalaust í daglegri notkun vakna þó upp einhverjar athugaverðar spurningar. Til að mynda gætum við spurt okkur að því hvort ýmis skordýr eða plöntur geti talist til meðvitundarvera, og umhugsunarlaust virðist fólk fært um að skipa sér játandi eða neitandi afstöðu til spurninga af þessu tagi. Það er eins og við höfum einhverja tilfinningu fyrir undirliggjandi merkingu orðsins meðvitund, sem ekki ríkir samhljóðan um hver er nákvæmlega. Ég vil kanna þetta hugtak örlítið nánar og reyna svo síðar meir að tengja það heimspekilega við hugtökin um minnið og lífið.

Til að byrja með er vert að gefa því gaum að ef til vill er hugtakið meðvitund eins og við notum það frá degi til dags ekki sérlega nákvæmt. Kannski myndi það því þjóna okkur vel að gera greinarmun á tvennskonar formum meðvitundar. Það er í fyrsta lagi hægt að tala um sjálfsvitund, einskonar skynbragð sem við höfum fyrir meðvitund okkar eða yfirsýn, meðvitund um meðvitund — og í öðru lagi er hægt að tala um einfalda vitund, sem er það sem við erum meðvituð um þegar við búum yfir sjálfsvitund. Við getum sumsé ekki ímyndað okkur að búa yfir sjálfsvitund án þess að búa yfir vitund, en það er að minnsta kosti hugsanlegt að búa yfir vitund án þess að búa yfir sjálfsvitund. Ef til vill skýrir þessi greinarmunur strax aðgreininginn sem myndast milli fólks þegar það er spurt út í meðvitund ákveðinna annarra lífvera eins og plantna eða skordýra. Mörg hver viljum við einfaldlega meina að skordýr og plöntur séu að líkindum ekki sjálfsvitundarverur, en flest myndum við samþykkja að skordýr og plöntur séu að einhverju leyti vitundarverur. 

Til þess að afmarka umhugsunarefnið betur skulum við því einblína á hugtakið vitund innan ramma þessa pistils í stað þess að velta fyrir okkur sjálfsvitund. Það sem verður nefnilega einna áhugaverðast er hvernig afstöður okkar skiptast jafnvel þegar við höfum afmarkað okkur við einfalda vitund, því línurnar milli vitundarveru og dauðs hlutar eru heldur ekki milliliðalaust svo skýrar! Það er kannski einna helst þessi grundvallarlína sem er einna áhugaverðust — hvar hefst vitundarveran, og hvar endar hún? Hvaða einkenni þarf fyrirbæri að hafa til þess að geta talist vitundarvera? Flest væri fólk sammála um að spendýr séu öll með tölu vitundarverur. Þau vita af heiminum í kringum sig, jafnvel þótt deila megi um hvort þau viti af sér í heiminum. Línurnar verða einmitt óskýrar um leið og við förum að hugsa út í skordýr og plöntur, hef ég fundið. Margt fólk getur ekki fallist á það að skordýr séu vitundarverur. Fyrir mörgum eru skordýr áþekk litlum líffræðilegum maskínum sem bregðast við á vélrænan hátt — eins og steinn sem veltur niður brekku eftir að honum er ýtt. Hið sama á við um plöntur — margir eru þeirrar skoðunar að plöntur séu einfaldlega lífrænar vélar.

Því dýpra sem við förum, því erfiðara verður að samþykkja að vitund sé til staðar. Hvað, til dæmis, um frumur? Eru frumur vitundarverur? Veirur eru svo annað álitaefni. Það er ekki einu sinni víst að veirur séu lifandi, jafnvel þótt þær búi yfir erfðaefni, þar eð þær reiða sig á lifandi frumur til þess að fjölga sér. Jafnvel orðanotkunin „fjölga sér“ virðist eitthvað undarleg þegar við beitum henni yfir fyrirbæri eins og veiru — hefur vírusinn einhverja vitund um fjölgunina? Væri ekki nákvæmara að segja að fjölgun eigi sér stað? Hér verður þetta einmitt afskaplega flókið. Það sem gerir þetta svona vandkvæðasamt er að við eigum til með að hugsa okkur þetta á þann hátt að ef lífveran sem við höfum til skoðunar taki ekki á einhvern hátt sjálf ákvörðunina um að gera eitt um fram annað geti hún ekki verið með vitund. Það er, í grunninn eru athafnir lífverunnar ekkert nema efnahvörf — vélrænir atburðir sem við hugsum okkur að gerist óháð því hvað lífveran veit eða veit ekki. Lífvera sem samanstendur af nægilega einföldum efnahvörfum, eins og fruma eða veira, virðist okkur því ekki geta verið vitundarvera — hún er bara efnahvarfakássa sem tekur á sig ásýnd vitundarveru.

Ég vil hins vegar reyna að hugsa þetta á annan hátt, með því að beita fyrir mig hugtakinu um minnið. Það mætti nefnilega hugsa sér vitundarveruna fyrst og fremst sem minnisveru, veru sem man eftir heiminum og þekkir hann, veit um hann, þótt hún viti ekki endilega af honum eða af sjálfri sér í honum. Ef til vill erum við þá komin með annað stig vitundar — minnisveran er þá einföldust, vitundarveran flóknari, og sjálfsvitundarveran margslungnust. Í öllum föllum vil ég meina að það sé ekki eðlismunur þar á milli heldur stigsmunur, og að öll þessi fyrirbæri einkennist af einhverju formi vitundar, sama hversu einföld þessi vitund er. Ef þetta reyndist nú svo rétt hjá mér, og ég geri mér grein fyrir því að þetta kann að virðast ansi fjarstæðukennd hugmynd fyrir mörgum, þá verðum við sömuleiðis að samþykkja að frumur, veirur, plöntur og skordýr séu öll vitundarverur í krafti þess að þessar verur muni eftir heiminum, búi yfir þekkingu á honum, jafnvel þótt það sé ekki þekkingin sem við sjálfsvitundarverurnar erum vön.

Strax verður okkur þó ljóst að það dugir ekki einfaldlega að segja að minnið sé forsenda vitundarinnar — því það er enn óljóst hvað ég á við með minninu. Varla er hægt að segja að fruma eða veira geti munað eitthvað — er það nokkuð? Ég held að ég vilji segja að jú, það sé einmitt hægt að segja að frumur og veirur búi yfir einskonar minni! Ég á þó augljóslega ekki við minni á við hið hversdagslega minni okkar sjálfsvitundarveranna. Það sem við munum er allt annað en minnið sem ég er að hugsa mér. Fruma eða veira getur augljóslega ekki munað eins og við munum. 

Ég á fremur við frumstæðara form minnis — erfðaefnið (þótt hér sé spurning um hvaða tiltekna form erfðaefnis við ætlum að halda okkur. Það mætti einbeita sér betur að vandamálunum sem spretta upp úr þessari spurningu síðar meir — t.d. hvað varðar greinarmuninn á RNA og DNA, sjálfsafritun, endurkvæmni o.s.frv.). Hvað er erfðaefni ef ekki minni? Erfðaefnið er eins og minnislykill, gagnabanki sem geymir upplýsingar um það hvernig lífvera er uppbyggð. Erfðaefnið er fyrsta minnið um heiminn, dýpsta minnið — fyrsta forsenda vitundarinnar — því til þess að vita þarftu að geta geymt upplýsingar, þarft að geta munað. Erfðaefninu er fyrst og fremst miðlað gegnum lífverur sem geta afkvæmi, afkvæmi sem á einhvern hátt eru löguð að heiminum á lífvænlegan hátt. Þetta hlýtur að vera (segi ég með smá hýperbólu!) ef eitthvað er að marka þróunarkenninguna og lögmál náttúruvalsins. Sjá https://sci-hub.tw/10.1086/413216. Erfðaefnið geymir því í rauninni ekki bara jákvæðar upplýsingar um það hvernig lífveran á að vera, heldur fela þessar upplýsingar einmitt í sér neikvæðar upplýsingar um það hvernig heimurinn er sömuleiðis — þessar upplýsingar eru upplýsingar um lífið-í-heiminum. Erfðaefnið er þannig eins og nibban á púsluspili lífverunnar sem passar einmitt inn í gatið á púsluspili heimsins. 

Erfðaefni, eftir allt saman, er það sem tryggir endurtekningu formgerðar lífsins í gegnum tímann. Stöðugt streymi lífsins, árstraumur þar sem hver kynslóð fæðist, eignast afkvæmi og deyr svo að lokum, er ein löng og óslitin keðja ferlis sem á í stöðugum samningaviðræðum við náttúruna, efnisheiminn. Í gegnum þetta ferli myndast ákveðnar formgerðir lífsins, tegundirnar sem við könnumst við allt í kringum okkur, og þessar tegundir lifa aðeins og dafna ef þeim er miðlað upplýsingum um það hvernig þær eiga að viðhalda sér. Plantan er vitundarvera vegna þess að hún býr yfir ákveðnum inngreyptum verkferlum sem forfeður hennar, eða forrætlingar hennar, hafa miðlað henni í gegnum óravíddir tímans. Hún veit hvað gera skal — hún kann að bregðast við vandamálunum sem tilvistin hendir í átt til hennar. Hún veit hvað hún er sjálf, og þessi vitneskja hennar er tilvera plöntunnar sem slíkrar, kjarni hennar eða eðli hennar.

Við mannfólkið þekkjum það vel hvernig lífið og minnið eru samtvinnuð fyrirbæri. Að verða til er að vissu leyti að muna, að lifa er að eiga hlutdeild í ur-minninu, erfðaefninu. Að eiga hlutdeild í erfðaefninu er að hafa aðgang að upplýsingum sem hafa verið varðveittar í efninu, greyptar í kraftana sem verka milli sameinda — raunar er það að vera þessar upplýsingar holdgerðar. Minnið er það sem raunverulega lifir, það sem heldur sér við — við einstaklingarnir erum fátt annað en hýslar fyrir þetta frumminni sem við viðhöldum svo í gegnum fjölgunina. Það sem við mannfólkið skiljum eftir okkur er ekkert annað en þessar minningar — við tökum þátt í gífurstórum strúktúrum, minnisstofnunum, sem varðveita allt hið nýja sem við sköpum upp úr því sem við erfum. Fjölskyldan, listin, hugsunin, — hvað sem er — allt virðist þetta snúast fyrst og fremst um framfleytingu og varðveislu minnisins.

Jafnvel fyrirbæri sem okkur virðast fullkomlega efnisleg —  fyrirbæri eins og byggingar, svo dæmi sé tekið — hafa varanleika sinn í kerfisbundnu og sameiginlegu minni lífsins. Byggingin sem slík stendur aðeins svo lengi sem hún gerir vegna þess að í gegnum minnið hefur hún formgerð, hún er strúktúr sem samanstendur af aldagömlu varðveislukerfi upplýsinga. Við tökum við byggingum forfara okkar rétt eins og við tökum við hugmyndum þeirra og tungutaki, við erfum formgerðirnar sem við fæðumst inn í. Bókmenntir, tónlist, arkitektúr, læknisfræði, trésmíði — allt eru þetta áþreifanlegar iðkanir sem við munum, iðkanir sem líf okkar samanstendur af. Þessar iðkanir eru í raun ekkert annað en líffæri sem mannshugurinn hefur tileinkað sér í gegnum langt sögulegt minnisferli sitt, á sama hátt og deoxýríbósakjarnsýran hefur tileinkað sér útlimi mannslíkamans (rétt eins og ótal aðra mismunandi líkama hinna ótal tegunda sem litið hafa dagsins ljós) í gegnum sitt eigið náttúrusögulega minnisferli. Við erum ekkert handan þess sem við munum, hvorki líkamlega né andlega — ef slík tvískipting á einu sinni rétt á sér. Öll mannleg merking og þekking er mótuð af því sem við munum. Rétt eins og fruman man í gegnum erfðaefni sitt hvernig hún fjölgar sér og notar umhverfi sitt sem næringu munum við slíkt hið sama þegar við eignumst börn eða stundum landbúnað eða skrifum skáldsögu. Í báðum tilfellum er um sömu skipulögðu iðkunina að ræða — endurkvæmt efnaferli samkvæmt nákvæmri uppskrift sem upplýst er af, tja, upplýsingum, sem geymdar eru í minnisbanka.

En aftur að vitundinni. Ef til vill er ég því að vinna með e.k. hughyggju þegar ég vil draga mörkin milli óvitandi efnis og vitundar sem slíkrar við erfðaefnið — því erfðaefnið felur ekkert annað í sér en þessa „verkferla“. Erfðaefnið er verkferill fyrir annars „dautt“ (eða ólífrænt) efni, og er einstakt sem slíkt — að því leytinu til sem það vistar upplýsingar um efnið í heiminum. Greinarmunurinn á efnaskiptum, almennt á litið, og svo erfðaefni, er þannig að mínu viti sá að í „verkferli“ erfðaefnisins búi einhver innri nauðsyn, eitthvað sem skilgreinir sjálfstæða virkni eða virki-leika í verunni (annars ómeðvituðu efninu) um fram efnaskipti almennt séð, sem eru vissulega orkuhlaðin fyrirbæri í stöðugum venslum og verðandi en þó í algjörri tilfallandi. Það er þannig einhver hugmynd falin í erfðaefninu, hugmynd sem okkur sjálfsvitundarverunum er ljós — einhver ratio eða logos — hugmynd sem stýrir því hvað gerist.

Þessi hugmynd er sprottin upp úr tilfallandinni — það er, hún sjálf er alls ekki nauðsynleg — en um leið og hún er komin á sjónarsviðið skilgreinir þessi hugmynd sjálf hvað nauðsyn er í raun og reynd: nauðsyn er þessi innri drifkraftur lífsins, hugmyndin um að „verða að“ (í tvöföldum skilningi — að verða í þeim skilningi að vera tilneyddur (deontológískt) og að verða í þeim skilningi að verða eitthvað nýtt) safna saman, innbyrða, brjóta niður, skipta, fjölga o.s.frv. Öll þessi ferli eru skilgreind af efninu sem man, efninu sem skipar sér sjálft í form eða lagar sig eftir því hvernig það sjálft er (Hér liggur svo auðvitað beint við að segja: sem lagar sig þar með eftir því hvernig heimurinn er). Ef til vill þarfnast þessi hugmynd um að erfðaefnið „muni“ nánari útskýringar eða útlistunar.

Gerum þá grófa tilraun til útlistunarinnar: í efnisheimi sem er í grunninn ekkert annað en tilfallandi árekstrar orkueinda um óravíðáttur tómarúmsins hefur fyrir algjöra tilviljun orðið til sameind, flókin og samtvinnuð heild orkueinda. Þessi sameind er samsett á þann máta að þegar aðstæður leyfa getur orðið af henni afrit, ný og aðskilin sameind sem geymir sama strúktúr og upprunalega sameindin. Mögulegt er að besta vísindalega skýringin sem falli að þessari hugmynd minni sé hugmyndin um “RNA-heiminn”: “Many isolated mixtures of complex organic molecules failed to achieve self-replication, and therefore died out (indicated by the arrows leading to extinction.) The pathway that led to self-replicating RNA has been preserved in its modern descendants.” Sjá: https://cshperspectives.cshlp.org/content/4/7/a006742.full.pdf+html. Þetta afritunarferli er algjörlega „vélrænt“ efnahvarf, en þrátt fyrir það býr það yfir geymd — efnahvarfið sem slíkt geymir efnahvarfið (ef til vill er þetta orð skárra en „minni“ þegar um grundvallar sjálfs-afritun er að ræða. Geymdin er þá e.t.v. forveri minnisins, forfari þess). Með öðrum orðum: við kjöraðstæður er efnahvarfinu kleift að varðveita sína eigin formgerð. Þessa varðveislu formgerðar sem felst í virkri sjálfs-afritun efniseinda myndi ég skilgreina sem e.k. frum-minni eða fyrstu endurkvæmni. Þetta er þó auðvitað ekki minni á við það sem við sjálfsvitundarverur þekkjum. Fremur er þetta eins og fyrsta forsenda tilurðar minnisins, fyrsta forsenda þess að unnt sé að tala um fyrirbæri á við „upplýsingar“ og „minni“ sem slík.

Hér verður virkilega áhugavert að hugsa um hver vensl minnis og vitundar gætu verið. Að vissu leyti er þessi geymd jú ekkert annað en varðveisla formgerðar. Strax verður manni þó spurn að því hvort varðveisla formgerðar sé eftir allt saman varðveisla upplýsinga. Líkur eru á því að svarið sé neikvætt: varðveisla formgerðar í gegnum afritun felur ekki í sér neitt sem við gætum kallað upplýsingar. Það er því ekki um upplýsingavarðveislu að ræða heldur aðeins um varðveislu formgerðar sameindarinnar sem slíkrar. Það er engin vitund þar að baki. Formgerðinni verður líklega að vera beitt, ef það er rétta orðið, til þess að hægt sé að tala um að um upplýsingar og þar með minni sé að ræða. Þess vegna er líklegt að þótt þessi geymd eða þetta frumminni sé nauðsynlegt skilyrði vitundar sé það þó alls ekki fullnægjandi skilyrði. Til þess að efni geti búið yfir einfaldri vitund verður það sömuleiðis að vera lífvera — eða í það minnsta heildræn lífræn vél sem býr yfir einhverri einingu sem gerir okkur kleift að greina hana frá öðrum fyrirbærum, að geta séð hana sem „sitt eigið fyrirbæri“ sem býr yfir sínum eigin algrímum eða markmiðum (þannig gæti veira t.a.m. talist vitundarvera jafnvel þótt hún væri ekki talin til lífvera). 

Helsti veikleiki þessarar afstöðu liggur því beint við: hann er sá að ég ætti erfitt með að útskýra greinarmuninn á (lífeðlisfræðilegum) vélum og lífverum — þar eð á einhverjum tímapunkti klippum við á milli og segjum: „þetta er vél og ekki lífvera“. Hin ýmsu frumulíffæri, til að mynda, teldust langtum frekar til véla en til lífs — ekki einvörðungu í samræmi við skilgreiningar líffræðinnar á því hvað telst til lífveru sem slíkrar, heldur einnig  í samræmi við mína eigin afstöðu sem ég hef gert tilraun til að skýra hér að ofan. Reynist mér ófært um að gera almennilegan greinarmun á þessum tveimur fyrirbærum hefur það alvarlegar siðfræðilegar afleiðingar í för með sér, afleiðingar sem þið ættuð að geta gert ykkur milliliðalaust í hugarlund en hér verða þær ekki raktar í frekari smáatriðum.

Til þess að leysa þennan helsta akkillesarhæl afstöðunnar þarf ég því líkast til að leita á slóðir frumspekinnar og grundvalla hana í fyrstu frumsendum sem útskýra eða gera út af við greinarmuninn (þótt auðvitað sé afstaða mín þó alltaf þegar grundvölluð í þessari frumspeki, hvort sem ég geri grein fyrir því eður ei). Það sem ég vil gera, sem er ekkert annað en það sem mig hefur alltaf langað að gera frá því að ég las Descartes, er að nálgast einhyggju í stað kartesískrar tvíhyggju (sem er að mörgu leyti drottnandi, ekki aðeins í hversdagshugmyndum fólks almennt heldur innan vísinda sömuleiðis, frumspekilega jafnt sem þekkingarfræðilega). Eins og Descartes hugsaði sér það voru dýr önnur en maðurinn ekkert annað en vélar, mekanismar sem framkvæmdu athafnir fyrir lífeðlisfræðilega eða einfaldlega eðlisfræðilega nauðsyn, meðan maðurinn var skynsöm meðvitundarvera sem bjó yfir óefnislegri sál og skynsemi sem engin önnur jarðnesk lífvera gat búið yfir. Fyrir honum voru tvær mismunandi verundir eða súbstansar, tveir mismunandi veruhættir — líkami og sál — sem gerðu grein fyrir því hvers vegna maðurinn, að því leytinu til sem hann bjó yfir þessari óefnislegu sá, gat hugsað og munað og þekkt Guð og svo framvegis.

Í stað þessarar afstöðu vil ég gera tilraun til þess að feta í fótspor annarra hugsuða á við Spinoza, Nietzsche og Deleuze. Fyrir þeim eru frumspekilegu landamærin milli hins lífræna og hins vélræna annað hvort mjög óljós eða mjög gljúp, og það er einmitt vegna þess að þeir hugsa sér veruna sem einradda og orkuna sem flæðir um heiminn sem eina og sömu þrána: conatus, wille zur macht eða production désirante. Hvort þessi þrá flæðir um eitthvað sem við almennt kölluðum vél eða lífveru gildir einu hvað varðar eðli þessara fyrirbæra; þau væru þrátt fyrir það alltaf lítið annað en birtingarmyndir sama frumspekilega súbstansins innan íveru-einhyggju (e. immanent monism) þessara hugsuða.

Ef til vill væri hins vegar mesti frumspekilegi ávinningurinn af því að hætta einfaldlega að greina þessa tilveruhætti í sundur og gera hið lífræna vélrænt og við vélræna lífrænt — til að mynda með því að eigna einni og sömu verundinni hátt virkileikans… hátt sem kenna mætti við virkni, virka ákvarðanatöku í ljósi innri fyrirmæla eða nauðsynjar. Verkefni af slíku kalíberi yrði líklega að fela í sér tilraun til þess að samþætta efnishyggju-afstöður þeirra S, N & D við einhverja raunhyggju um hugtök eða rökrænu/rökvísi eins og finna mætti í hughyggju Hegels. Það er þetta sem ég á við þegar ég tala um „innri nauðsynina“ eða „verkferlana“ (Sem mætti einfaldlega kalla líf-rökvísi lífverunnar til einföldunar) sem einkenna vitundarveruna — einhverja frumlæga lógík sem mætti þá einnig kalla hugmynd lífverunnar, eininguna sem heldur henni saman frammi fyrir og í heiminum, lógík sem er í stöðugri flæðandi gegnum óslitna keðju lífsins.

Reynum að rekja aftur hugsanaganginn: vitundarveran hefur geymdina eða minnið, eiginleika sem við finnum í erfðaefninu, að nauðsynlegu skilyrði sínu. Þrátt fyrir það er geymdin ein og sér ekki nóg til þess að hægt sé að segja að um vitund sé að ræða. Til þess að um vitund sé að ræða verður því að vera einhver heild, eining samansett úr mörgum lífrænum vélum (eins og frumulíffærum, etc.) sem uppfyllir einhver lágmarksskilyrði. Hver eru þessi lágmarksskilyrði sem vera þarf að uppfylla til þess að geta talist vitundarvera í krafti minnis síns? Við gætum strax hugsað okkur að veran þurfi að geta fjölgað sér, viðhaldið sér, brugðist við heiminum í kringum sig, og svo framvegis. Mér virðist óljóst hver greinarmunurinn á vitundarveru og lífveru er, þótt unnt sé að spekúlera um skýringar. Til að mynda er hugsanlegt að sammælast mætti um að veirur, til að mynda, séu vitundarverur en ekki líf, þar eð þær séu nær lífeðlisfræðilegri vél en lífveru. Þrátt fyrir það er vert að velta því fyrir sér hvort hugtakið „líf“ gæti ekki verið nægilega plestið — eða þjált, ef svo má að orði komast — til þess að við getum hugsað okkur að okkar þekktu dæmi um líf séu ekki tæmandi fyrir það hvað gæti talist til lifandi veru. 

Það má því vel vera að hugtak mitt um lífið og skilgreining mín á hugtaki minnisins eða vitundarinnar gæti virst mörgum sem ansi uppgerðarlegt eða full-ljóðræn túlkun á því hvað líf og minni eru eða gætu talist vera. Það finnst mér allt í lagi. Markmið mitt hér er alls ekki að reyna að betrumbæta hið nytsamlega hugtak um líf sem raunvísindin byggja á og notast við. Heimspekileg hugtök sem slík eru alls ekki tilraunir til þess að lýsa því sem er fyrir hendi á eins nákvæman og praktískan hátt og unnt er. Þvert á móti sé ég hugtök, í heimspekilegum skilningi og samhengi, sem tilraunir til þess að skapa opna frásögn um það hvað lífið getur mögulega verið. Óhjákvæmilega verður slíkt hugtak bundið túlkun þess sem þróar það og setur það fram, og í túlkun felst alltaf ónákvæmni og einhver snertur af ágiskun eða tilfinningu. En það þarf auðvitað ekki að vera galli á hugmyndinni, heldur þvert á móti getur það verið afar nytsamlegt þegar hugsa þarf nýjar víddir. 

Hvað er lífið sjálft ef ekki túlkunarþrungið, eftir allt saman? Þegar lífvera beitir skynfærum sínum til þess að vinna úr upplýsingum sem umhverfi hennar ljáir henni neyðist hún sífellt til þess að túlka þetta sama umhverfi. Túlkun hennar, sem byggir auðvitað á minni hennar (erfðafræðilegu sem og fyrirbærafræðilegu minni hennar) ljáir henni ákveðið gildismat sem hún mátar svo við þessar upplýsingar og stýrir atferli hennar svo að lokum. Hún þarf að taka ákvörðun um það hvað gera skuli við upplýsingarnar sem eru henni fyrir hendi — er þessi hlutur ætur, eða mun hann skaða mig? Sjáið til að mynda skordýrin sem þróast hafa til þess eins að miðla misvísandi upplýsingum til rándýra — þau spila á túlkun rándýranna, þau búa yfir sínu eigin mót-minni gagnvart minni rándýranna, mót-minni sem gerir þeim kleift að láta rándýrin mis-minna. Tegundir sem herma eftir apósematisma annarra tegunda eru fullkomin dæmi um þetta.

Látum þetta gott heita í bili. Margt má eflaust betur fara hér — hvort heldur sem um er að ræða afstöðu mína til þess sem ég kalla minni eða geymd, afstöðu mína til greinarmunarins (eða skortsins þaðan af) á lífrænni vél og lífveru, nú eða hvað varðar afstöðu mína til vensla geymdar eða minnis og vitundar. Það eru svo fleiri þættir sem mætti taka inn í reikninginn — eins og hvað varðar eiginleikann endurkvæmni. Ef til vill er vitundarveran fyrst og fremst endurkvæm: fær um að fara í gegnum sjálfa sig, svo að segja, og spretta svo aftur út endurtekin, samsömuð — en þrátt fyrir það mismunandi (eins og gerist í þróun). Annað sem mætti taka í reikninginn er sálgreiningarhugtakið óvitund (Unbewusstsein). Líf okkar mannanna er líkast til langtum ómeðvitaðra en við höldum — og hvað á okkur þá að finnast um ómeðvitaðar athafnir líkama okkar? Er líkaminn meðvitaður þegar hann bregst við áður en sjálfsvitundin getur áttað sig á því sem var að eiga sér stað? Gæti þetta svo ekki varpað einhverju ljósi á vensl sjálfsvitundar og vitundar sem slíkrar? Sjálfsvitund er jú oft hugsuð sem æðri — en svo þarf einmitt alls ekki að vera.

Upphaf vitundarverunnar og minnið

Upphaf vitundarverunnar og minnið