Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Goðsagnir, bein og ummyndanir: Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur

Goðsagnir, bein og ummyndanir: Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur

Ég er hér

Ljóðabókin Ég er hér er fyrsta bókin sem ég les eftir Soffíu Bjarnadóttur. Ég fékk hana í jólagjöf frá ástkonu minni, sem sagði mér að hún teldi líklegt að mér myndi líka við ljóðlistina. Hún hafði rétt fyrir sér. Mér líkar mjög vel við ljóðlistina — svo vel, raunar, að ég finn mig knúinn til að skrifa um hana dálitla umsögn.

Byrjum á staðreyndunum. Ég er hér er ljóðabók eftir Soffíu Bjarnadóttur. Bókin er gefin út af Máli og menningu í Reykjavík árið 2017. Myndskreytingar innan um textann eru eftir Sigtrygg Berg Sigmarsson. Verkið er 68 blaðsíður að lengd. Skáldið hefur áður gefið út eina skáldsögu, Segulskekkju, og eina ljóðabók, Beinhvít skurn.

Ljóðverk um goð, bein og breytingar

Ég er hér er ljóðverk um líkamann, um jörðina og um goðsögur. „Af moldu eruð þið komin og til moldarinnar munuð þið aftur snúa,“ segir rödd skáldsins okkur, „en þar til þá mun ykkur dreyma um guði og sálir og krossa og sólir — ykkur mun blæða og bein ykkar munu brotna, þið eruð endalaus og fullkominn hringur án upphafs og án enda.“

Til hvers vísar titill bókarinnar — Ég er hér —? Hvar ert þú? Hver er ég? Hvar er ég ef þú ert þar? Skáldaröddin hefur staðvist, hún er sannfærð um það — hún er þar, hvar sem „þar“ er. Röddin er á jörðinni, föst í búri beina (22, 28, 34), hana þyrstir (8, 12, 40, 41).

Einna mest hreif það mig hvernig höfundur meðhöndlar þessa stórfenglega undarlegu upplifun sem er að vera líkami, vera í líkama, vera bundinn líkama — geta aðeins það sem líkaminn getur, vera takmarkaður við líkama. Við byrjun verksins tjáir skáldaröddin okkur eftirfarandi: 


Ég erfði taugakerfi sem hangir í einni flókabendu

um borgina Kaoz. Rafmagnið fer af mörgum sinnum

á dag. Hér eru engir ljósastaurar og hundarnir gelta.
 

Það er snemma morguns og ég hlusta á krákurnar

kallast á. Kýrnar jórtra á rykugum götum. Ég drekk

mitt Masala-te og finn þunga lykt ná inn í blóðrásina.
 

Sagt er að þeir sem unna vorinu þekki veturinn. 

Við erum í hjóli þjáningarinnar. En þetta eru ekki

slæm tíðindi.


Hún segist hafa „[erft] taugakerfi sem hangir í einni flókabendu um borgina Kaoz.“ — Kaoz er ef til vill staðsetningin, þetta „hér“ í titli verksins Ég er hér — taugarnar eru allar í ringulreiðinni Kaoz: ginnungagapið sem taugakerfið hangir í einni flókabendu um. Höfundur virðist vísa til þessarar frumneindar sem við upplifum í hvert sinn sem við upplifum verund.

Fyrsta ljóðinu lokar hún svo á því að segja að við „[séum] í hjóli þjáningarinnar. En þetta eru ekki slæm tíðindi.“ Mér finnst eitthvað djúpúðugt við þessa byrjun — hún leggur línurnar fyrir verkið allt. Við höfum líkamsþáttinn (taugakerfið), svar við spurningunni „hvar ertu?“ umfram „ég er hér,“ við höfum vísanir í goðafræði — búddíska sem og gríska, sem sendir okkur skilaboð um hvaða stað hið yfirnáttúrulega eða goðasagnakennda hefur innan verksins: goðin eru óhjákvæmilega vefuð saman við líf okkar mannanna — við erum jú óendanlegir hringir (24, 25), við erum á lífi og það er okkur fögnuður (8), okkur vaxa horn út úr ennum (43). 

Frumspekileg ljóðsmíð

Soffía slær svo frumspekilegan tón í lok verksins og gerist gott ef ekki taóísk: Í gær heyrði ég að myrkrið væri ekki

andstæða ljóssins

myrkrið er

vagga ljóss
 

bjartast frá kviku.


Hér finnst manni sem ljósið tákni verundina, myrkrið neindina — myrkrið sem vagga ljóss, neind sem upphaf verundar — og höfundur minnir mig á það sem Heidegger skrifaði í frægri ritgerð sinni „Hvað er frumspeki?“:

„Einungis vegna þess að neindin er opinber í grunni tilverunnar, getur hinn fullkomni framandleiki þess sem er komið yfir okkur.“ (Þýðing Magnúsar Diðriks Baldurssonar úr „Hugur — tímarit um heimspeki“ 2011, s. 109 - 120 — skáletrun undirritaðs)

Metamorfósur

Soffía vísar tvisvar til þess að stefna upp, bæði á bls. 65 og á bls. 57 — jafnframt talar hún um umbreytingar (og vísar á einum stað í verkinu til Óvíðs, bls. 44) — en eftirfarandi ljóð, bls. 57, fannst mér einstaklega fagurt:


Þrá eftir guðlegri nánd eftir ummyndun

í annað form. Að færast úr stað.

Sameinast. Stefna hærra

upp, upp.
 

Þegar ljósið streymir upp úr jörðinni og myndar línu

þá verður þú að gefa eftir. Deyja og endurfærðast sem

annað. Leyfa grunntóni heimsins að stíga upp úr þér

upp, upp.


Fortíðin verður alltaf

hluti af okkur.

Umbreytingin lifir.


Með hlekkina við fótskör

dreg ég glóandi línu

skref fyrir skref.


Að tala um að „Leyfa grunntóni heimsins að stíga upp úr [sér]“ snart mig djúpt þegar ég las það fyrst og það snertir mig enn. Sérlega finnst mér ég tengja við þetta ljóð sem hegelíti — ljóðið reynir að fanga breytingar, ummyndanir, upphafningar — eins og díalektík reynir að gera. Hvert einasta skref á vegferð okkar er framlenging á glóandi línunni sem við drögum á eftir okkur — fortíðin mótandi framtíðina — upphafning sem varðveitir og neitar í senn. Mjög fallega ort.

Endurholdgun og ást

Hugmyndin um endurholdgun er rauður þráður gegnum verkið — bæði í ljóðinu að ofan og því fyrsta, sem ég birti fyrst — en einnig á fyrstu síðu bókarinnar þar sem er tilvitnun í bókina tíbetsku um lifendur og dauða og svo einnig í ljóðinu á bls. 41 þar sem rödd skáldsins virðist fylgjast með Jesú deyja áður en líkaminn sem hýsir röddina gengur inn í líkama frelsarans — gegnum síðusárið sem rómverski hermaðurinn Longínus veitti honum er hann hékk á krossinum — og eignar sér hann.

Sérstaklega minnir endurholdgun mig á orðskviður eftir rúmenska heimspekinginn Emil Cioran: „When one is devoured by such an appetite for suffering that to satisfy it would take thousands of existences, we realize out of what hell must have arisen the notion of transmigration.“

Ástin er eitt meginstef verksins sömuleiðis. Hún er lostafull, eins og á bls. 16 - 19 og 33, en jafnframt er hún rómantísk, eins og á bls. 26, 30 og 53. Ástin er brotakennd, eins og á blaðsíðu 66 þar sem rödd skáldsins sér sjálfa sig fyrir sér sem táldjöful (e. succubus) með horn á höfði og hófa í stað fóta — standandi í gljáandi svartri olíu upp að nára inni í myrkum dropahelli — hjartað nánast heilt. Nánast. Í stuttu viðtali við Egil Helgason í Kiljunni hefur Soffía sagt að ljóðin séu að einhverju leyti ein heil ástarsaga þótt brotakennd sé — og það er ljóst. Ummyndanirnar, hreyfingarnar eru slíkar að fátt annað en ást gæti orsakað þær.

Myndir, umbrot — lokaniðurstaða

Myndskreytingar verksins eru hreint út sagt fullkomnar — það er langt síðan ég hef séð svo viðeigandi myndskreytingar við ljóðabók. Bókin sjálf er eiguleg og smekklega brotið um hana — en einna skemmtilegast fannst mér notkun hálfgagnsæs pappírs á blaðsíðu 54, á hvern er prentað textabrot eftir Björk Guðmundsdóttur. Það minnti mig á það hvernig ljóðskáld forðum voru vön að setja þunna hálfgagnsæja pappírsræmu fyrir ljósmyndina af sér fremst í bókinni — frá því ég eignaðist mína fyrstu fornbók hefur þessi siður ávallt heillað mig og fannst gaman að sjá svona hálfgagnsæjan pappír í nútímaljóðverki.

Ég er hér heillaði mig upp úr skónum. Mér fannst ég stíga inn í draumaheim þegar ég las hana og finnst að vissu leyti eins og mig dreymi enn. Mér fannst goðsagnakeimurinn frábær og sýn höfundar var töfrandi. Þemu verksins snertu mig svo einstaklega djúpt bæði vegna þess hve hugleikin þau hafa verið mér en einnig vegna þess hve vel höfundur fer með þau. Mér fannst þau laus við klisjur og frumleg. Ég er hér er besta ljóðabók ársins 2017 að mínu mati. Ég mæli sterklega með að þið lesið bókina.

Með því að smella hér má sjá og heyra Soffíu lesa upp lokaljóð verksins á tímanum 00:50-2:10 inni í myndbandinu. Ekki skil ég hvers vegna hún fær ekki heilt viðtal í Kiljunni hjá Agli — hún ætti að fá heilt viðtal. 


Myndverkið í haus er eftir William Blake og er úr myndskreytingum hans á Hinum guðdómlega gleðileik frá árinu 1827. Þessi tiltekna mynd er af öðrum hring Vítis, þar sem hinum lostafullu er refsað, úr Canto 5.

Bækur — Anno Domini MMXVII

Bækur — Anno Domini MMXVII