Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um verufræðilega stöðu listaverksins

Um verufræðilega stöðu listaverksins

List er órjúfanlegur hluti tilverunnar fyrir okkur nútímafólkinu. Við búum flest við þann áður óhugsanlega lúxus að geta notað persónulega símtækið okkar til þess að hlusta á svo gott sem hvaða tónlist sem er, hvenær sem er — hið sama gildir um kvikmyndir, bækur, ljósmyndir, leikrit og margt fleira. List er okkur aðgengileg — við getum sótt í hana, upplifað hana, á netinu. En svona hefur þetta auðvitað ekki alltaf verið. List var lengi vel nánast aðeins aðgengileg þeim sem fóru með vald í samfélaginu. Aðeins hinir efnuðu eða þau sem fara með stjórnmálavald gátu farið í óperuna, keypt málverk eða höggmyndir, og svo framvegis. Listin var enn fremur skilgreind út frá því hver hafði aðgengi að henni — sum list flokkaðist sem hámenning meðan önnur taldist til lágmenningar. Svona er þetta hins vegar ekki nú til dags. Aðgengi að list hefur aldrei verið meira, eins og við vitum öll. Þessi pistill gæti jafnvel talist til ritlistar, ef ég er mjög örlátur við sjálfan mig, og það er verið að útvarpa honum til landsins alls. Ekki amalegt, satt best að segja.

Þessi breyting á aðgengi er mjög áhugaverð fyrir margar sakir, en að mínu mati er einna helst áhugaverðast hvernig hún varpar ljósi á staðreyndir um eðli listarinnar. Þetta verður sérstaklega ljóst þegar við gerum okkur grein fyrir því að hvaða tegundum listar aðgengi hefur verið bætt og hverjum ekki. Það er nefnilega greinarmunur enn á listum sem auðvelt er að afrita og þeim sem ómögulegt er að afrita. Tónlist og ritlist sem og ljósmyndalist verður öll auðveldlega afrituð, meðan höggmyndalist og málaralist verður ekki afrituð með neinu réttlætanlegu móti nema í skyni skrumskælingar eða minjagripa. Þegar við hlustum á tónlist eftir listamann á Spotify erum við raunverulega að hlusta á tónlist listamannsins, en ef við viljum sjá Stjörnubjarta nótt eftir Van Gogh þurfum við að ferðast til Nýju Jórvíkur til þess að raunverulega sjá listaverkið. Það er auðvitað hægt að finna mynd af verki Van Gogh á netinu í mjög góðri upplausn, en það er ekki listaverkið sjálft — listaverkið sem slíkt er efnisheild og einstakt sem slíkt, olía á striga sem er staðsett í rúmtíma.

Hið sama gildir um Davíð eftir Michelangelo sem er staðsett í Flórens, Satúrnus sem gleypir börn sín sem er staðsett í Madríd, verk Bernini sem eru staðsett í Róm, og svo framvegis. Öll þessi verk eiga það sameiginlegt að vera efnislega einstök, jafnvel þótt þau séu alveg jafn mikil listaverk og tónverk eftir Bach eða Radiohead fyrir það. Það er semsagt eitthvað sem greinir þessi efnislegu verk frá öðrum óefnislegri verkum, þótt þau séu sameinuð undir nafninu „list“. Þetta opnar á ótal spurningar — eins og spurninguna um það hvað það er við öll þessi verk sem sameinar þau undir hugtaki listarinnar. Heimspekingurinn Erlendur Jónsson skrifaði einmitt grein um þetta frá árinu 2010 í Hug, tímarit félags áhugamanna um heimspeki — en greinin heitir einfaldlega „Verufræði listaverksins“. Í greininni færir Erlendur rök fyrir því að það sem þessi listaverk eigi öll sameiginlegt sé eitthvað sem hann kallar formgerð.

Formgerð listaverka á við tónverk er því innri strúktúr eða rökræna verksins sem slíks — uppröðun tóna sem fluttir eru í gegnum tíma með tilteknum takti og í ákveðnum lykli, og svo framvegis. Ljóðverk væri þá myndrænn texti sem fylgir ákveðnum stöðlum eftir því hvert ljóðformið sem slíkt er að hverju sinni. Hið sama gildir svo auðvitað um kvikmyndir og skáldsögur og svo áfram mætti telja. En hvað um formgerð listaverka eins og höggmyndastyttu eða málverks? Eru þau frábrugðin að því leyti sem þau eru efnisleg? Búa þau þá ekki yfir formgerð, eða er formgerð þeirra ef til vill á einhvern hátt óafritanleg? Það þarf nefnilega alls ekki að vera. Formgerð efnislegra listaverka eins og málverka eða höggmynda eru ekki óafritanleg í eðli sínu, heldur eru þau aðeins óafritanleg vegna tæknilegra aðstæðna okkar. Við getum auðveldlega hugsað okkur framtíð þar sem unnt er að skanna hvert einasta málningarlag málverks og þrívíddarprenta það með nálægt eitt-hundrað-prósenta nákvæmni.

Spurningin er þó þessi: getum við hugsað okkur að slík afritun gæti raunverulega afritað málverkið sem slíkt? Gætum við hengt fullkomið afrit af Mónu Lísu eða Stjörnubjartri nótt upp á stofuvegginn og hugsað með okkur: „Þetta er Móna Lísa“, eða „Þetta er Stjörnubjört nótt“? Það er að segja, hvað er það nákvæmlega sem afritun fangar og hvað er það sem hún skilur eftir? Málverkin sem um ræðir eru eftir allt saman handverk sem sköpuð voru með raunverulegum meistarabrag — og svo búa þau líka yfir sögulegu virði ofan á hið fagurfræðilega. Við myndum líkast til búa yfir sambærilegum tilfinningum gagnvart fyrsta handriti Bach að Branderborgarkonsertum sínum og gagnvart Mónu Lísu sem hangir nú í Louvre, jafnvel þótt við getum sammælst um þá heimspekilegu niðurstöðu að tæknilega séð megi afrita innri listrænu formgerðir þessara verka án þess að neitt sem er þeim raunverulega eðlislægt sem listaverkum glatist í þýðingunni.

Þýski heimspekingurinn Walter Benjamin skrifaði svo auðvitað ritgerð sem er nátengd þessu viðfangsefni, en hún heitir „Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslunnar“. Þar lýsir Benjamin því hvernig listaverk bjuggu yfir einhverju sem hann kallar „áru“, einhverju fagurfræðilegu kennivaldi listaverkanna sem slíkra, meðan þau voru einstök, meðan ekki var mögulegt að afrita þau — kennivald sem stafar af rúmtímalegri nærveru listaverksins sem slíks, samhengisins sem það er sett í, eins og listasafn, sem og stöðunnar sem við veitum því sem einstökum rúmtímalegum hlut sem okkur ber að varðveita. Afritunin og fjöldaframleiðslan gerir út af við þessa áru — skyndilega verður listaverkið eitthvað eins og óefnisleg formgerð sem má miðla með upplýsingum einum saman, óháð efnislegri tilvist okkar eða aðstæðum að hverju sinni.

Við getum því ef til vill endurheimsótt hugsunartilraunina okkar með þetta hugtak árunnar í huga — við gætum haft Mónu Lísu í fullkomnu afriti uppi á stofuvegg, en það væri aldrei sama listaverkið og þetta einstaka sem hangir núna á vegg í Louvre, vegna þess að á meðan ómögulegt er að afrita Mónu Lísu fullkomlega varðveitir hún áruna sína. Ára hennar, þetta aukaskilvitlega yfirbragð listaverksins — það sem bætist ofan á verkið fyrir það eitt að það sé einstakt — það hverfur um leið og málverkið verður afritanlegt eins og texti er afritanlegur, eins og ljósmyndir eru afritanlegar, og svo framvegis.

Hvað fyndist ykku, kæru lesendur, um það að geta átt nákvæmt afrit af eftirlætis klassíska málverkinu ykkar inni í stofu eða svefnherbergi? Fyndist ykkur það gera lítið úr upprunalega málverkinu sem afritað var? Eða gætuð þið notið þess á nákvæmlega sama hátt og þið njótið þess að lesa afrit af frumtexta rithöfundarins, á nákvæmlega saman hátt og þið hlustið á hljóðupptöku af flutningi hljómsveitarinnar? Myndi afritið varðveita listaverkið sem slíkt? Mig grunar að þetta sé eitthvað sem hver og einn verður að gera upp við sjálfan sig. Fyrir mitt leyti fyndist mér ekkert minnkandi í garð hinnar upprunalegu Mónu Lísu að ég ætti nákvæmt og fullkomið afrit inni í borðstofunni minni. Ég myndi að líkindum hugsa um afritið sem varðveitandi og miðlandi fyrir meistaralegt handbragð Leonardo Da Vinci, og ég fyndi líklega til þakklætis og sáttar við að geta notið listarinnar sem þessi málari gaf af sér fyrir mörgum árhundruðum síðan án þess að þurfa að fara alla leið til Parísar. Ég bíð þá að minnsta kosti spenntur eftir því að þrívíddarprentarar og skönnunartækni geri mér þetta kleift.

Ríkisvald, auðvald og kapítalismi

Ríkisvald, auðvald og kapítalismi

Að endurtaka og að endurtaka

Að endurtaka og að endurtaka