Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Ríkisvald, auðvald og kapítalismi

Ríkisvald, auðvald og kapítalismi

Orðræða um stjórnmál er forvitnilegt fyrirbæri. Það er margt sem hægri og vinstri vængir geta átt erfitt með að sammælast um — og ber þar einna helst að nefna efnahagsmál og eðli ríkisins, svo fátt eitt sé nefnt. Vinstrið leggur meiri áherslu á ríkisumsvif en hægrið, sem vill fremur auka þátt markaðar og auðvalds en þátt ríkisvalds. Um þetta deila stjórnmálaflokkar á hartnær hverjum einasta degi á þingi og á sviði opinberrar umræðu — ættum við að liðka um reglugerðir í þágu einkaframtaksins, ættum við að veita auknu fjármagni til opinberra stofnana, hversu miklu skattfé ættum við að verja í velferðarmálefni? Þessi togstreita milli ríkis og markaðar er auðskilin — ríkið hefur aðra hagsmuni en markaðsaðilar og stundum rekast þessir hagsmunir á: ríkisvaldið þarfnast aukins skattfjár fyrir einhverjar sakir en auðvaldið vill síður greiða hærri skatta vegna þess að það kæmi niður á arðsemi fyrirtækjanna sem skattlögð yrðu.

Þó er þessi togstreita oft skilin ranglega, að mínu mati. Það má oft finna dæmi um það í pólitískri orðræðu að ríkisvaldið og auðvaldið séu skilin sem verandi í mótsögn hvort við annað. Helst heyrir maður þessar túlkanir frá hægrimönnum fremur en vinstrinu, í minni reynslu — en þá er samband ríkis og einkaaðila skilið sem svo að ríkisvaldið stundi einhverja glæfralega en löglega fjárkúgun á hendur auðvaldsins. Skattar eru ofbeldi, segja sumir jafnvel. Enn fremur er stundum talað um að ríkisvaldið sé sósíalískt, meðan auðvaldið sé kapítalískt. Afstaða með auknum ríkisumsvifum er þá kallað að vera sósíalisti, meðan afstaða með auknu svigrúmi auðvaldsins er kallað að vera kapítalisti.

Það sem mér finnst kannski einna helst ankannalegt við þessa nálgun eða túlkun er að hún krefst þess að litið sé fram hjá ýmsum mikilvægum þáttum í sambandi ríkis og markaðar, með það að markmiði að uppmála annað valdsviðið, svið ríkisvaldsins, sem kúgara — meðan hitt sviðið tekur á sig hlutverk einskonar fórnarlambs. Þessi nálgun misskilur samspil valdsviðanna tveggja og setur upp einfaldaða mynd af sameiginlegum stjórnhagfræðilegum veruleika okkar. Í þessum pistli mun ég leitast við að sýna fram á það hvers vegna það er misvísandi að tala um að ríkið sé sósíalískt meðan markaðurinn er kapítalískur, auk þess sem ég vil reifa vensl þessarra valdsviða og samspil þeirra í heildinni sem við köllum oftast þjóðríkið eða samfélagið.

Byrjum á byrjuninni: hvað er þessi „kapítalismi“ eiginlega? Mig grunar að oft stafi þessi misskilningur á venslum ríkis og markaðar á misskilningi á því hvað kapítalismi er í raun og veru. Kapítalismi, í stuttu máli, er efnahagsskipulag eða fyrirkomulag sem byggir á því að einstaklingum sé fært að fara með eignarhald yfir framleiðslutækjum samfélagsins. Þessi framleiðslutæki geta verið áþreifanleg, eins og verksmiðjur eða bifreiðar eða önnur tól, eða þau geta verið óáþreifanlegri, eins og auðmagn, hlutabréf og önnur fjármagnsverkfæri. Einstaklingum er svo auðvitað aðeins fært að fara með þetta eignarhald vegna þess að ríkisvaldið, eins og það birtist okkur undir efnahagsskipulagi kapítalismans, veitir þeim stjórnarskrárvarinn rétt til þess að eiga framleiðslutækin. Lögreglan, ríkisstofnun, ver þennan rétt eigendanna. Það er því, aðeins út frá þessum eina einfalda punkti, í krafti ríkisins sem við búum við kapítalískt efnahagsfyrirkomulag.

Með þetta í huga gæti það virst manni undarlegt að hægrið sé svona hávært í afneitun sinni á ríkinu, fordæmingu þess á þjófnaðinum sem er skattheimta. Maður hefði haldið að þeir tækju ríkinu fagnandi — í ljósi þess að það er ríkið sem gerir auðvaldinu kleift að vera auðvald! En sú er ekki raunin. Hægrið fórnarlambsvæðir sjálft sig og auðvaldið til þess að slá ryki í augu þeirra sem hygðust tala gegn ofvexti auðvaldsins — sjáið okkur, segja þeir, verið er að brjóta á okkur! Það sem hægrið gerir sér ekki grein fyrir er að það sem þeir kvarta yfir er í reynd ekkert annað en forsenda þess að mögulegt sé að kvarta yfir höfuð — ef ekkert væri ríkið til þess að vernda eignarréttinn væri heldur ekkert til þess að skattleggja.

Eins og áður segir kann þessi misskilningur að stafa af vanhugsaðri hugmynd um það hvað kapítalismi felur í sér. Margir búa yfir þeirri undarlegu hugmynd að kapítalismi sé „einstaklingsfrelsi“ og það að „taka áhættu,“ meðan sósíalismi sé „miðstýring“ og „íhlutun ríkisins í frelsi einstaklingsins“. Taki maður þessar skilgreiningar alvarlega getur maður lent í þeirri vitfirringarmótsögn að telja samfélagið samtímis kapítalískt og sósíalískt — því auðvitað búum við við miðstýringu en jafnframt einstaklingsfrelsi og svo framvegis.

Raunin er þó sú, þvert á þessar misráðnu hugmyndir, að við búum aðeins við kapítalisma, jafnvel þótt ríkisvald og auðvald séu samtvinnaðri en mann hefði ef til vill grunað. Bankarnir skapa fjármagn úr lausu lofti með lánveitingum sem engin innistæða er fyrir í takt við peningastýringu seðlabankans, stofnunar sem er í eigu ríkisins og reynir að tryggja að fjármálaleikir auðvaldsins haldist nægilega stöðugir. Enn fremur virkar ríkið á margan hátt sem efnahagslegur aflgjafi, étandi upp umframfjármagn og spýtandi því aftur út inn í æðar efnahagskerfisins í formi misgáfulegra opinberra verkefna. Getur virkilega verið rétt að kalla slíkt ríki sósíalískt — jafnvel þótt það sé ríki sem fjárfestir í samgöngum, heilbrigðis- og menntakerfi og öðrum velferðarstofnunum? Varla, segi ég — varla.

Ríkisvaldið er nefnilega ekki sósíalískt fremur en auðvaldið er sósíalískt — öll þess virkni hverfist um nákvæmlega sömu innri rökrænu og markaðshagkerfið: kapítalíska rökrænu. Munurinn er helst til sá að ríkið veitir fjármagni út úr auðmagninu sem slíku og inn í regluverkið sem umkringir auðmagnið og viðheldur vexti þess, meðan auðmagnið sjálft veitir fjármagni inn í og í gegnum sjálft sig, sem aftur viðheldur vexti auðmagnsins. Ef auðmagnið sem slíkt er dynjandi árstraumur þá er ríkisvaldið árfarvegurinn sem skilyrðir árstrauminn. Þessi myndlíking er einnig viðeigandi að því leytinu til sem árstraumurinn mótar árfarveginn með tímanum jafnt sem árfarvegurinn beinir árstraumnum ákveðnar áttir og aðrar ekki. Eins breytist regluverk ríkisvaldsins með ákefð og eðli fjármagnsflæðis yfir stað og stund.

Nú gæti þó verið nauðsynlegt að taka fram að þessi lýsing á aðeins við undir ákjósanlegustu aðstæðum kapítalísks þjóðríkis — þetta er því einskonar hugsýn slíks þjóðríkis. Aðstæður á stríðs- eða krepputímum eru annars konar — til að mynda getur ríkið krafist aukins flæðis fjármagns inn í regluverkið, það er vígbúnað hersins, með það að markmiði að beina því út á við og að öðru þjóðríki. Eins má skilja hömlur á við fjármagnshöft, sem ríkið setur markaðnum á kreppu- eða óeirðartímum, sem varðveitandi fyrir samfélagsstöðugleika. Þessi stöðugleiki, eins og hann birtist í viðskiptatrausti og sameiginlegri viðurkenningu á persónulegri ábyrgð, er nefnilega grundvallarforsenda markaðsvensla yfir höfuð. Niðurstaðan hér er þó sú að þótt að áhersla þjóðríkisins geti tímabundið verið sú að veita fjármagnsflæði niður aðrar brautir en til auðmagnsins í þágu auðmagnsins þá verður þessu grundvallarsambandi auðvalds og ríkisvalds ekki neitað fyrir vikið.

Þrátt fyrir þessi órjúfanlegu vensl ríkisvalds og auðvalds er ávallt vert að hafa í huga að þessi vensl einkennast einmitt mjög oft af drjúgri og ósmættanlegri togstreitu. Að því leytinu til sem auðvald og ríkisvald eru hagsmunaverðir tveggja mismunandi fyrirbæra geta skammtímamarkmið þeirra oft verið í andstöðu hvort við annað. Þannig verður maður var við það hvernig auðvaldið leitast að því að taka yfir stofnanir sem áður höfðu verið eða eru í rekstri ríkisvaldsins — stofnanir á við menntakerfið eða heilbrigðiskerfið — og ríkisvaldið leitast á tímum við að takmarka ákefð auðvaldsins eða stýra því í tilteknar áttir — í gegnum takmarkanir eins og skattheimtu og reglugerðir. Um þessi flekaskil hverfist stjórnhagfræðilegt athafnasvið okkar í dag sem lýðræðisþegnar — hvernig takmörkum við og skilyrðum umsvif hvers valdsvæðis fyrir sig út frá hinu?

Það sem einkennir þetta stjórnhagfræðilega athafnasvið umfram allt annað er hugtakið um kosningu og hugtakið um lýðinn. Lýðnum er gert að merkja við ákveðin nöfn á kjörseðli og fylla innkaupakörfurnar af vörunum sem þau kjósa sér að neyta. Frá degi til dags virðist þetta athafnasvið vera fullkomið og tæmandi fyrir félagslegan veruleika okkar, og sú er raunin, einmitt vegna þess að það skilyrðir veruleikann samtímis. Verkefni framsækinnar stjórnhagfræðilegrar hugsunar framtíðar hlýtur því að vera að gera atlögu að þessu athafnasviði og víkka út athafnasviðið, rammann innan hvers við höfum pólitíska tilvist. Með útvíkkunina að markmiði gætum við gert tilraunir til að vera íhugul, fresta dómi — við gætum, þversagnarlega, kosið að kjósa ekki.

Hvert stefnum við?

Hvert stefnum við?

Um verufræðilega stöðu listaverksins

Um verufræðilega stöðu listaverksins