Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Að endurtaka og að endurtaka

Að endurtaka og að endurtaka

Öll erum við föst í eilífri endurtekningu. Við vöknum, við borðum, við öndum, við sofum — og við endurtökum það allt daginn eftir. Eitthvað er það sem við endurtökum, meðan eitthvað annað er óhjákvæmilega ekki endurtekið — það er nýtt, frumlegt. Við endurtökum vissulega svefninn, en við endurtökum ekki hinn tiltekna svefn sem við áttum nóttina áður. Jörðin er jú á öðrum stað í rúmtíma og við sömuleiðis, við höfum elst, kannski sofum við verr eða eitthvað — svo það er ekki sönn endurtekning, ekki endurtekning í frumspekilegum skilningi. Ekkert er hægt að endurtaka efnislega — en við endurtökum stöðugt hið andlega. Við notum sömu lúkufyllina af orðum í hverju einasta samtali sem við eigum — við förum sömu leiðirnar til vinnu og í skóla — við notum sömu fataklefana í sundi… og svo mætti lengi áfram telja.

Endurtekning virðist því vera stór hluti af lífinu, hvort sem við viljum það eður ei. En hvað er að endurtaka, ef það er ekki að gera nákvæmlega sömu liðnu hreyfingarnar á nákvæmlega sama liðna staðnum í rúmtíma upp á nýtt? Endurtekning er bæði að gera eitthvað aftur, en samtímis að gera það í fyrsta sinn — þetta er undarleg mótsögn við fyrstu sýn. Kannski ættum við því að velta henni nánar fyrir okkur.  Mér datt í hug að skrifa niður hugleiðingar mínar um endurtekningar af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að ég er að lesa verk Søren Kierkegaard, Endurtekningin, þar sem heimspekingurinn danski fjallar um hugtakið endurtekning og hvernig við beitum því fyrir okkur í hversdagsleikanum — í öðru lagi vegna þess að ég átti samtal við vin minn um eðli vinnu og samband endurtekningar og vinnu — og í þriðja lagi vegna þess að hugmynd þýska heimspekingsins Friedrich Nietzsche um hina eilífu endurkomu hins sama hefur verið mér sérstaklega hugleikin nýlega.

Byrjum á hinu hversdagslega — samtali mínu við vin minn. Við vorum að ræða þingmann Pírata, Jón Þór Ólafsson — nánar tiltekið ræddum við gamla frétt um hann sem við lásum um hann fyrir nokkrum árum. Jón sagðist nefnilega árið 2015 vera hættur í pólitík og hygðist því snúa sér aftur að malbikun, starfi sem hann hafði þá gegnt lengi vel og hafði góða reynslu af. Vini mínum fannst þetta óskiljanleg ákvörðun hjá Jóni, meðan mér fannst hún öllu skiljanlegri. Að mínu mati er eitthvað heilbrigt, þótt slítandi sé, við erfiðisvinnu eins og malbikun. Maður stritar en sér fyrir vikið ávexti erfiðis síns spretta beint af fingrunum — meðan skrifstofuvinna eða ritstarf sem pistlaskrif hafa mun óræðari og óhlutbundnari áhrif. Auk þess styrkti stritið líkamann og kveikti upp innra með manni einhvern lífsneista.

Vinur minn, hins vegar, taldi slíka erfiðisvinnu vera einsleita síendurtekningu hins sama ofan í hið sama — maður yrði fljótt leiður á svo viðburðarsnauðu starfi og gæti þess að auki fengið mun betur greitt fyrir önnur óhlutbundnari og líkamlega auðveldari störf sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Eflaust hafði hvorugur okkar rétt fyrir sér — ég hafði of rómantíska mynd af erfiðisvinnunni, meðan vinur minn hugsaði mögulega ekki nóg um ánægjuna sem maður getur haft af slíkri vinnu. Það sem sat eftir í mér, hins vegar, var það sem hann sagði um endurtekninguna — að vinnan væri svo einsleit, að það gerðist aldrei neitt nýtt, að maður væri í reynd bara alltaf að gera hið sama, malbika sömu tjöruna. Þetta var alveg hárrétt hjá honum — en að vissu leyti á þetta nefnilega einmitt við um alla mögulega vinnu. Þegar maður vinnur nógu lengi við eitthvað verður það frekar kerfisbundið og rhythmískt, endurtekið flæði hreyfinga sem maður getur gert hartnær ómeðvitað. En þýðir það nokkuð að það sé ekki þess virði að framkvæma endurtekninguna?

Raunar væri það gersamlega hræðilegt að starfa við eitthvað þar sem engin endurtekning væri fyrir hendi. Maður væri stöðugur byrjandi, aldrei viss um hvað maður ætti að gera. Maður gæti aldrei öðlast neina raunverulega framkvæmdafærni í því sem maður starfaði við. Sem betur fer er mannsheilinn útbúinn þessu flókna kerfi sem við köllum „minnið,“ kerfi sem starfar við að skapa endurtekningar. Þegar maður framkvæmir gjörð sem maður hefur framkvæmt áður út frá minninu er maður í reynd að reyna að endurtaka gjörðina. Maður er auðvitað ekki að endurtaka það sem áður er liðið, en maður er að reyna að endurkalla það, ef svo mætti að orði komast, og í því kristallast endurtekningin. Í verki sínu um endurtekninguna fjallar Kierkegaard einmitt um það hvort endurtekningin sé yfir höfuð möguleg.

Hann skrifar um muninn á endurtekningu og endurminningu — að þessar tvær athafnir séu sama hreyfingin í mismunandi áttir. Þegar maður minnist einhvers hreyfir maður sig aftur í tíma, en þegar maður endurtekur hreyfir maður sig fram í tíma. Endurtekning og minni eru hér tekin upp sem nátengd fyrirbæri — að endurtekning sé eins konar „áfram-minning“ meðan endurminning er „aftur-minning“. Hvernig gætum við hugsað okkur þessa endurtekningu í samhengi við okkar eigið líf, okkar eigin endurtekningar, þetta sem við framkvæmum á degi hverjum — meðvitað eður ei? Að endurtaka er að skapa veruleikann áfram gegnum sjálf okkur, að leiðrétta fyrir mistök en vera meðvituð um hvernig endurtekningin gæti endurtekið mistökin sömuleiðis — endurtekningin er að stíga fram af dirfsku og heimta að fá að halda áfram að lifa, að halda áfram að endurtaka, að endurtaka endurtekninguna — jafnvel þótt hún sé ekkert meira en bara glórulaus endurtekning.

Hugmyndin um endurtekningu er svo öll önnur þegar við snúum okkur að Nietzsche. Hugmynd hans, sem hann þróar fyrst í bók sinni Vísindunum glaðlegu, hljómar á þennan veg: hvað ef inn til þín stælist skrattadjöfull og hvíslaði því að þér að hann skyldi leggja á þig álög: að þetta líf sem þú lifðir myndi endurtaka sig í sífellu frá dauða til fæðingu til eilífðarnóns? Hver einasti andardráttur, hver einasta nautn — hver einasta sorg, hvert einasta tár — allt myndi þetta gerast aftur og aftur í óendanleikanum. Stundaglasi tilvistarinnar er ávallt snúið á hvolf í hvert sinn sem það klárast, og leikurinn endurtekur sig á ný. Spurning Nietzsche er þessi: hvernig skyldirðu bregðast við þessari tilkynningu? Myndirðu gnísta tönnum, bölva skrattanum, gráta sáran — eða myndirðu lofa allt heilagt, taka gleði þína á ný, margfaldaða?

Þessa hugmynd Nietzsche má túlka á marga vegu, en fyrst og fremst snýst hún um það að gangast lífinu á hönd, að játa örlögum sínum, að játa öllu því sem er og sem kemur fyrir mann. Hugmynd Nietzsche byggir á þeirri kenningu að ef heimurinn er úr efni, og ef rúmtími er raunverulega óendanlegur, þá muni allur alheimurinn verða til og eyðast óendanlega oft í nákvæmlega sömu mynd og við upplifum hann núna. Endurtekning Nietzsche byggir því að einhverju leyti á hugmyndinni um frumspekilega endurtekningu, endurtekningu í rúmtíma — og þessi endurtekning er dálítið frábrugðin þeirri sem Kierkegaard talaði um. Persónulega er ég ekki viss um hvort eðlisfræðilegur grundvöllur sé til staðar fyrir hugmynd Nietzsche, og um hann hefur verið deilt — en hugmyndin er í það minnsta mikilfengleg hugsunartilraun sem fær okkur til að líta á lífið allt öðrum augum en við gerðum áður — að því gefnu að maður taki hugsunartilraunina alvarlega.

En snúum nú aftur til hins hversdagslega. Hvernig getum við notfært okkur hugmyndina um endurtekningu til þess að lifa betra lífi eða öðlast meiri skilning á því sem fyrir okkur ber? Kannski væri skynsamlegt af okkur að taka endurtekningunni opnum örmum, játa henni eins og Nietzsche hugsaði sér. Kannski varpar öll þessi umhugsun ljósi á það hvernig við mannfólkið sköpum merkingu í annars merkingarsnauðum heimi — það er í gegnum endurtekninguna sem við bæði beitum fyrir okkur fyrri skilningi og merkingu jafnt sem við sköpum nýja merkingu, nýjan skilning og nýjar minningar í sömu andrá. Við endurtökum til þess að sigrast á sjálfum okkur og þyngslum heimsins sem umlykur okkur. Rétt eins og Kierkegaard segir ættum við að varast að blekkja sjálf okkur ekki með því að hugsa með okkur að endurtekningin sé eitthvað nýtt — því um leið og maður gerir það fær maður leið á henni. Til þess að vilja endurtekninguna þarf nefnilega kjark: sá sem aðeins vill vona er huglaus, meðan sá sem vill aðeins endurminninguna er hóglífur — en sá sem vill endurtekninguna er manneskja. Verum því manneskjur — endurtökum okkur, göngumst endurtekningunni á hönd.

Þrátt fyrir þessi mörgu orð um endurtekninguna finnst mér hugtakið þó enn dálítið órætt og óskýrt. Kannski ætti ég að skrifa pistilinn aftur upp á nýtt.

Um verufræðilega stöðu listaverksins

Um verufræðilega stöðu listaverksins

Gettier-vandamál og sönn, rökstudd skoðun

Gettier-vandamál og sönn, rökstudd skoðun