Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um hugtak þjóðernishyggjunnar

Um hugtak þjóðernishyggjunnar

Þessi pistill birtist fyrst í útvarpsþættinum Lestin þann 21. júní 2018. Hægt er að hlusta á hljóðupptöku af upplestri höfundar hér að neðan. Málverkið í haus heitir Venice with the Salute og er eftir J.M.W. Turner frá árunum 1840-1845.


Hugtakið „þjóðernishyggja“ er oft notað með neikvæðum raddblæ. Almenna skilgreiningin snýr að mestu að því hvernig einstaklingar skilja persónuleika sinn sem mótaðan af hinni afmörkuðu þjóð sem þau telja sig tilheyra — en auk þessarar almennu skilgreiningar kemur þjóðernishyggja til dyra íklædd margslunginni sögulegri merkingu. Þegar þjóðernishyggja er notuð með þessum neikvæða blæ eru ýmsar tengingar sem hugurinn hleypur í að skapa — tengingar á við útlendingahatur og þröngsýni. Þrátt fyrir það hefur þjóðernishyggja margræða tilvist — og getur átt sér algjörlega meinlaust líf rétt eins og hún getur orðið voveiflegri í samkrulli við aðrar vafasamari hugmyndir. Í pistli dagsins ætla ég að skoða hugtak þjóðernishyggjunnar og hinar mörgu birtingarmyndir þess gegnum söguna og í nútímanum. Tilefni pistilsins er auðvitað heimsmeistaramótið í fótknattleik sem stendur yfir um þessar mundir og ástríða Íslendinga fyrir þessum ágæta leik.

Byrjum á því að hugsa okkur skýra skilgreiningu á hugtakinu svona fyrst um sinn, áður en við förum svo að greina það niður. Þjóðernishyggja er hugmynd um sjálfið út frá því hverrar þjóðar það er. Sjálfið skulum við sleppa því að skilgreina nánar, okkur til hægðarauka, en þjóðir skulum við aftur á móti skilgreina örlítið nánar. Hvað er þjóð eiginlega? Við getum greint þjóð kyrfilega frá ríki í þessu samhengi vegna þess að augljóslega er hægt að vera þjóðernishyggjumaður án þess að vera mikill stuðningsmaður ríkisins — og sömuleiðis er erfitt að takmarka þjóð við ákveðið landsvæði umfram annað, vegna þess að þjóðerni yfirstígur landfræðilega þætti. Íslendingur búsettur í Svíþjóð er eftir allt saman Íslendingur. Hvað er „þjóð“ þá eiginlega? Manni kemur einna helst til hugar eitthvað órætt samansafn hugarverkfæra á við sameiginlegt tungumál, gildi, hugmyndafræði og þvíumlíkt — en hvað þá um þá Íslendinga sem ekki tala íslensku eða deila alls ekki hugmyndafræði með þjóðinni? Eru þau þá einfaldlega á einhvern hátt „ekki Íslendingar“? Kannski ættum við að geyma þessa spurningu þar til síðar og láta okkur duga hversdagsskilgreiningu hugtaksins „þjóð“ í bili.

Snúum okkur þá aftur að upprunalega hugtakinu: þjóðernishyggju. Þjóðernishyggja er, eins og ég segi, hugsun um sjálfið að því leyti sem það tilheyrir þjóð, og einni tiltekinni þjóð umfram aðrar. Sá sem er þjóðernishyggjusinnaður og frá Íslandi gerir mikið mál úr því að hann sé frá Íslandi og setur annað gildi í þá tilvist en aðra tilvist, sem gæti til að mynda verið að vera frá Svíþjóð. Það er hér sem greinarmunurinn á „góðu“ og „slæmu“ þjóðernishyggjunni kemur í ljós — sá sem er vafasamur þjóðernishyggjusinni setur jákvætt gildi í það að vera Íslendingur en neikvætt gildi í að vera Svíi, meðan sá sem er á einhvern máta heilbrigðari í þjóðernishyggju sinni setur jákvætt gildi í það að vera Íslendingur og jákvætt gildi í að vera Svíi, í fullri meðvitund um að þjóðernis-skilgreiningin haldi fyrir allar þjóðir, ekki aðeins sína eigin tilteknu og tilfallandi þjóð. Við getum okkur til auðveldunar kallað hina óheilbrigðu eða neikvæðu þjóðernishyggju „barbaríska þjóðernishyggju“ — og það er skemmtileg sagan af uppruna orðsins „barbari“. Grikkir til forna eru sagðir hafa kallað alla útlendinga barbara, eða að minnsta kosti þá sem ekki voru grískumælandi, vegna þess að tunga þeirra hljóðaði eins og eitthvað merkingarsnautt og stamandi „bar-bar-bar-bar“. Einkenna slíkar fordómafullar hugmyndir ekki viðhorfið sem um ræðir alveg ágætlega?

Það er einmitt í gegnum þennan hugarfarsmismun sem við getum skilið hvers vegna annað form þjóðernishyggjunnar getur kristallast í siðferðilega hættulegum fyrirbærum eins og útlendingafælni eða jafnvel útlendingahatri, viðhorfum sem leiða oft til ofbeldisverka og hatursglæpa. Hugsunin um hið aðra, það sem er ekki samsamað við sjálfið, það sem okkur er annarlegt, skiptir hér höfuðmáli: þegar maður er sannfærður um að það sem sé manni frábrugðið sé manni hættulegt verður persónan á bak við hugmyndina um annarleikann sjálf skynjuð sem hættuleg, sama hver hún er. Þannig getur mörgum orðið hætt til með að óttast fólk sem trúir á Allah en ekki á Jehóva, jafnvel þótt þetta sé sami Guð í grunninn, vegna þess að þeim hefur orðið á í hugsun sinni um aðrar persónur og annarleikann sjálfan. Tilteknar persónur sem teljast til múslima missa þá gildi sitt sem persónur og verða í staðinn einskonar skopmyndalegar staðalmyndir hins aðra, múslimans í þessu tilfelli, og sömuleiðis er hætta á því að hugtök um mannréttindi sem eiga að snerta hverja og eina mannlega persónu fjúki út um gluggann. Tilfallandi fyrirbæri eins og höfuðslæður eða kuflar verða þá að einkenni hins aðra og verða táknmyndir ógnunar, þegar raunin er sú að þau eru lítið annað en fötin sem persónan sem um ræðir ákvað að klæðast þann morguninn.

Það er vert að gera annan greinarmun hér — varðandi þjóðernishyggju og kynþáttahyggju. Í hugmyndinni eiga þessi hugtök ekkert sérstaklega margt skylt. Það er ekkert sem segir um þjóðernishyggusinna að þau hljóti að vera kynþáttahyggjusinnar. Augljóslega geta þjóðir samanstaðið af mörgum mismunandi kynþáttum, svo það er engin nauðsynleg tenging milli þess að vera rasisti og að vera þjóðremba. Oftar en ekki haldast þessi viðhorf þó í hendur þegar við könnum hver raunin er. Þetta hefur líklega með það að gera að þegar maður er barbarískur þjóðernishyggjusinni hefur maður ekki aðeins skopmyndir af aðrinu heldur einnig af sjálfinu. Það er, þegar við hugsum hlutina á þessu nótunum verður sjálfið að því leyti sem það er tiltekinnar þjóðar sömuleiðis einhliða og tvívítt — það verður til smættandi og röng hugmynd um hvað það er að vera sjálfið rétt eins og það verður til smættandi hugmynd um aðrið. Í tilfelli íslensks þjóðernishyggjusinna gæti skopmyndin af sjálfinu falist í því að þjóðernið „íslenskur“ innihaldi aðeins fólk sem er hvítt á hörund og útiloki fólk sem er svart á hörund, eða annað í þessum sama dúr. Af þessu má leiða þá niðurstöðu að barbarískir þjóðernishyggjusinnar misskilji ekki aðeins aðrið heldur líka sjálfið að því leytinu sem þau búa yfir þjóðerni.

Að mínu mati er þessi neikvæða eða slæma þjóðernishyggja þó ekki alveg jafn áhugaverð og hin jákvæða þjóðernishyggja. Þessi jákvæða þjóðernishyggja jaðrar nefnilega á því að bæði upphefjast handan allrar hugsunar um þjóðerni en samtímis getur hún smækkað niður í neikvæða, barbaríska þjóðernishyggju. Það er þessi tvíbenda eða þessi óstöðugleiki sem er falinn í jákvæða viðhorfinu sem mér finnst virkilega áhugavert að hugsa um og rannsaka. Hvenær fellur hún, hvenær upphefst hún? Til góðs dæmis um heilbrigða þjóðernishyggju mætti telja alþjóðlega keppnisviðburði rétt eins og Heimsmeistaramótið í fótknattleik, sem nú stendur yfir við mikla hátíðarstemningu. Á viðburði sem slíkum stillum við okkur inn í þjóðernishyggjuviðhorf en aðeins að því leyti sem það á við um keppnina. Við neitum ekki öðrum þjóðum, heldur játum þeim sem verðugum mótstæðingum í keppnisleik, og einblínum þess heldur á einlæga og heiðarlega framfylgni reglusemi og keppnisskaps sem mælikvarða á það hvaða liðsheild hefur mestu hlutlægu hæfileikana. Þannig er okkur fært um að taka á okkur snert af þjóðernishyggju í því að styðja Ísland fram yfir aðrar þjóðir en jafnframt vera hafin yfir þennan snert að því leytinu sem við viðurkennum keppnina sem slíka. 

Þessi tegund þjóðernishyggju getur birst á öðrum sviðum, eins og á sviðum bókmennta, leiklistar, tónlistar og annarra sviða menningargeirans. Hún einkennist ávallt af ástríðu fyrir listræna, líkamlega eða tæknilega viðfanginu sjálfu og sameiginlegum metnaði fyrir framgangi þess, og tekur ekki þátt í skopskælingum barbarismans. Hún á þó hætt með að lenda í því að verða barbarísk — það þarf ekki nema snert af tilfinningahita í bland við þekkingarleysi eða fordóma, og þá byrjar hún að rotna að innan og innri fegurðin verður að felmtri slegnu hatursviðhorfi. Þannig getur hún gerbreyst og orðið að skrumskælingu leiftursnöggt. Þvert á þetta ferli getur hið sama viðhorf orðið upphafið — gegnum yfirvegun, hlustun og þekkingaröflun getum við sífellt nálgast hreina og tæra ást á viðfanginu sjálfu, það er leiklistinni, fótboltanum, tónlistinni eða öðru þvíumlíku, og þannig verða skilmörk þjóðernis sífellt óljósari og óljósari þar til þau svo gott sem mást út á endanum. Þannig ferðumst við handan landamæra, menningarlegs greinarmunar og annars sem greinir okkur sundur, og öðlumst sammannlega einingu eða samsemd. Við komumst í skilning um mannleika hins aðra, þess sem stendur frammi fyrir okkur, og samtímis öðlumst við dýpri og fullkomnari skilning á því hvað við sjálf erum. Við miðlum sjálfinu gegnum hið aðra og miðlum hinu aðra gegnum sjálfið.

Ég vona að þetta hljómi ekki allt of háfleygt. Í grunninn er ég bara að lýsa því hversu yndislegt það getur verið að mynda tengsl við annað fólk sem virðist okkur í fyrstu annarlegt og okkur frábrugðið, og að mynda þessi tengsl gegnum sameiginlega ástríðu eins og ástina á fótbolta, til dæmis. Það er bara eitthvað svo tært og fagurt við það. Að lokum get ég því í fullu öryggi og með hreint hjarta sagt „áfram Ísland!“ og „áfram HM!“ og glaðst yfir þessari frábæru keppni. Njótið áhorfsins, kæru hlustendur, og gleðilegan þjóðhátíðardag sömuleiðis.

Stutt orðræða um persónufornöfn

Stutt orðræða um persónufornöfn

Þrá-hyggja sálgreiningarinnar: Freud, Lacan og Deleuze & Guattari

Þrá-hyggja sálgreiningarinnar: Freud, Lacan og Deleuze & Guattari