Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Þrá-hyggja sálgreiningarinnar: Freud, Lacan og Deleuze & Guattari

Þrá-hyggja sálgreiningarinnar: Freud, Lacan og Deleuze & Guattari

Þessi ritgerð fjallar um hugtak þrárinnar í nokkrum áhrifamiklum hugsuðum 20. aldarinnar. Hún var skrifuð fyrir áfangann „Sálgreining, heimspeki og menning“ sem kenndur var í Háskóla Íslands síðasta vormisseri. Heimildir eru neðst. Vegna þess hvernig vefmiðillinn sem ég notast við er uppbyggður er mér ófært um að notast við neðanmálsgreinar, en upprunalega ritgerðin er vel og kyrfilega heimilduð og sækja má PDF-útgáfu af henni með því að smella hér. Málverkið í haus heitir „The Enigma of My Desire or My Mother, My Mother, My Mother“ eftir Salvador Dalí frá árinu 1929.


Hvað er þrá? Það er erfitt að skilgreina þrá án þess að vísa í þrána sjálfa. Við getum sagt að það að þrá eitthvað sé að vilja eitthvað — að finnast maður drifinn í átt að þessu einhverju — að óska sér einhvers… en öll þessi orð eru eiginlega svo gott sem samheiti orðsins þrá. Þrá, vilji, ósk — allt vísar þetta til hins sama. Þrá getur beinst að manneskju, að hlut, að útkomu.. en allt er það í grunninn sama hreyfingin, sama tilfinningin. Mögulegt er að hugsa sér þrá sem analógíska við vigra — stærðfræðileg fyrirbæri sem hafa bæði magn og stefnu — það að þrá eitthvað felur þá í sér að þrá af ákveðinni ákefð og samtímis þarf ákefðin að beinast að einhverju. Þetta eitthvað getur svo verið, eins og áður segir, manneskja, hlutur, útkoma — ákefðin getur svo einnig verið minni eða meiri. 

Sömuleiðis getum við jafn auðveldlega hugsað okkur andstæðu þrár: fyrirlitningu eða hatur. Hvort sem um er að ræða þrá eða fyrirlitningu getum við hugsað okkur þessi fyrirbæri sem hreyfingar — hreyfingar í átt frá eða í átt til gefins viðfangs sem er þráð eða hatað — hreyfingar sem hafa ákveðna orku, ákefð, varanleika. Er þetta ekki nálægt hversdagslegri hugmynd okkar um þessa grundvallarorku innra með okkur sem keyrir okkur áfram eða aftur á bak? Þetta minnir á það sem Aristóteles sagði í De Anima um fyrsta gríska heimspekinginn, Þales — að hann hefði talið að segulmagnaðir leiðarsteinar byggju yfir sál, vegna þess að þeir gætu hreyft járn.

Eins og titill þessarar ritgerðar gefur í skyn fæst hún við þrjár mismunandi hugmyndir um þetta sem við köllum þrá — þrjár mismunandi þrá-hyggjur. Í ritgerðinni ætla ég að kanna hugmyndir Sigmund Freud, Jacques Lacan og tvíeykisins Gilles Deleuze og Félix Guattari um þrá. Gróflega rissað mætti lýsa þeim þannig að þrá-hyggja Freud sé að miklu leyti lífeðlisfræðileg en að þrá sé einnig ævisöguleg — að þrá-hyggja Lacan sé talsvert félags- og heimspekilegri en hugmynd Freud — og að þrá-hyggja Deleuze og Guattari sé einna heimspekilegust sem og einna róttækust. 

Í þessari ritgerð hyggst ég lýsa hverri þrá-hyggju fyrir sig, fara yfir megindrætti hugmyndanna og reyna að gera grein fyrir því hvernig þær eru frábrugðnar hvorri annarri bæði í nálgun, aðferðafræði og hugmyndalegu inntaki. Yfirferðin verður óhjákvæmilega ófullkomin, enda er um að ræða hugsuði sem áttu allir í sífelldu og einlægu endurmati á grundvallarkenningum hugsunar sinnar, sem ljáir þeim þann eiginleika að þeir virðast geta breyst í allra kvikinda líki eins og Sjávaröldungurinn Próteifur, sem Menelás glímdi við í Odysseifskviðu. Mikilvægt er að hafa þetta hugfast einnig að því leytinu til að allir birtast hugsuðirnir okkur í sögulegri tímaröð, og við sem áhorfendur komumst ekki hjá því að sjá þann fyrsta í ljósi þess síðasta rétt eins og við lítum þá síðustu út frá þeim sem á undan komu. Þegar við lesum Freud gerum við það því óhjákvæmilega að einhverju leyti með lacönskum gleraugum, og öfugt aftur. Látum þessa varnagla þó duga í bili — og hefjum rannsóknina.

Freud

Við byrjum á föður sálgreiningarinnar, Sigmund Freud (1856-1939). Ein byltingarkenndasta og áhrifaríkasta hugmynd Freud er hugmyndin um ómeðvitundina — eitthvað órætt ferli hugarins sem við erum ekki í meðvitaðri snertingu við. Með hugmyndinni endurskilgreindi Freud sjálfsveruna — spurningin var ekki lengur: „hvað þrái ég?“ heldur „hvað er það sem þráir — hvort er það ég—ég eða það—ég? Og hvað er þetta „ég“ eiginlega yfir höfuð?“ Dulvitundin hefur þá merkingu að ekki aðeins þráum við mannfólkið hluti án þess að vita að við þráum þá, heldur vinnur dulinn hluti hugans markvisst að því að leyna okkur raunverulegum þrám okkar. Kynhvatir sem spretta upp úr það-inu eru bældar í uppeldisferlum og birtast okkur umbreyttar gegnum ferli göfgunar: t.d. veitir bannið við sifjaspellum kynorku sem beinist upprunalega gagnvart foreldri til annars viðfangs sem líkist foreldri eða kemur í staðinn fyrir það.

Freud notast við nokkur hugtök sem líklegt er að flestir tengdu ósjálfrátt við það sem við köllum þrá í hversdagslegum skilningi. Helst ber að nefna eftirfarandi: kynorkuna (þ. Libido), drifið (þ. Trieb), eðlishvötina (þ. Instinkt), og óskina (þ. Wunsch). Könnum þessi hugtök nánar — og gerum tilraun til þess að skilgreina þrána kyrfilegar.

Byrjum á kynorkunni, Libido. Er kynorkan sem slík þrá? Hvað segir Freud um þessa kynorku sem ómeðvitundin hleður utan á viðföng? Nei, kynhvöt sem slík er ekki þrá. Kynorka, samkvæmt Freud, er magnfræðilegt hugtak yfir orkuna sem ástareðlishvatirnar skapa — hún er hinn eiginlegi ákefðarhluti vigrasamlíkingarinnar.

„Libido is [...] the energy, regarded as a quantitative magnitude (though not at present actually measurable), of those instincts which have to do with all that may be comprised under the word 'love'. The nucleus of what we mean by love naturally consists [...] in sexual love with sexual union as its aim. But we do not separate from this [...] self-love, and on the other, love for parents and children, friendship and love for humanity in general, and also devotion to concrete objects and to abstract ideas. [...] [A]ll these tendencies are an expression of the same instinctual impulses.“ 

Kynorka sem slík er því ekki þráin sem við erum að leita að: libido er ekki þrá heldur orka sem sprettur upp úr því sem Freud kallar „eðlishvatir ástarinnar“. Kynorka getur beinst að sjálfinu, foreldrum, börnum, hlutum, hugmyndum, og svo framvegis, og kynorkan ákvarðar ákefð þrár: ákefð þrár gagnvart viðfangi er í beinu hlutfalli við kynorkuhleðslu. Ljóst er því að kynorkan er ekki það sama og þráin fyrir Freud þar eð hann sýður kynorku niður í það sem hann kallar eðlishvatir ástarinnar. Hvað er þá þessi eðlishvöt? Er hún það sama og drif? Hver er munurinn á þessum tveimur hugtökum?

Eðlishvatir á við hvötina til næringar þegar okkur hungrar eða hvötina til svefns þegar við þreytumst eru algjörlega líkamlegar. Það mætti lýsa þeim sem föstum, meðfæddum viðbrögðum sem líkaminn virkjar við ákveðna örvun eða í ákveðnu ástandi — erfðafræðilegar hvatir sem eru sameiginlegar í öllum lífverum gefinnar tegundar. Aftur á móti virðast drif á við „Eros“ eða „Thanatos“ eins og Freud lýsti í „Handan vellíðunarlögmálsins“ vera tvinnuð saman við lífsreynslu þeirra sem „hýsa“ drifin — sá sem hefur farið í stríð, til að mynda, býr yfir tiltekinni lífsreynslu af áfalli, og sýnir ákveðna viðleitni til þess að „endurtaka“ eða endurskapa aðstæður áfallsins og þar með upplifunina af áfallinu.

Vert er að nefna hér að línurnar milli drifa og hvata geta verið óljósar — hvar byrjar drifið og hvar endar eðlishvötin? Eru drif okkar sem slík að einhverju leyti eðlishvatir? Freud snertir á þessu í verki sínu, Þrjár ritgerðir um kynferði, þar sem hann lýsir drifum sem sálrænum tákngerðum inn-líkamlegrar og stöðugt flæðandi örvunar staðsettum á landamærum hins andlega og líkamlega. Drif okkar virðast því vera einskonar sambræðingur líkamlegra hvata og andlegra minninga — líkamshvatir í ljósi reynslunnar. Það er freistandi að skilja freudísku drifin sem endurkvæm „hegðunarföll,“ andleg algrím sem meta núið út frá þáinu og hvetja sjálfið svo til ákveðinnar breytni í samræmi við fyrri útkomur reynslunnar. 

Að þessum greinarmun gerðum er þess vert að spyrja sig hvort við séum nokkuð komin nær því sem kalla mætti þrá í skrifum Freud, hvað þá að þrá-hyggju sem slíkri. Nei, raunin er sú að enn eigum við eftir eitt hugtak enn — og það hugtak er óskin (Wunsch). Ljóst er að það kann að vera misnefni að tala um „þrá-hyggju“ innan kenningar Freud — líklegt er að fremur sé viðeigandi að tala um „ósk-hyggju“. Engu að síður gegnir óskin, eins og áður segir, sama hlutverki og þráin, og er raunar hið sama og þráin. 

Ósk, eins og snert var á í upphafi ritgerðarinnar, er samheiti þrár, vilja, fýsnar, girndar — óskin er þessi eiginlega hreyfing lífverunnar í átt að óskuðu viðfangi hlöðnu kynorku, hreyfing sem á sér uppsprettu sína bæði í eðlishvötum og drifum til jafns. Freud taldi mannsheildina, samanstandandi af meðvitund eða sjálfi og svo ómeðvitund eða það-i, búa yfir ýmiskonar óskum. Þessar óskir eru svo annað hvort samfélagslega leyfilegar eða ekki, sem leiðir til þess að sumar óskir verða ávallt óuppfylltar í raunheimum meðan aðrar rætast í samræmi við reglugerðir samfélagsins sem um ræðir að hverju sinni. Reglugerðirnar eru svo „innbyrtar“ og að vissu leyti er sál einstaklingsins skipað í samræmi við þær — en þetta kallar Freud yfirsjálf

Mikilvægt hugtak þessu tengt í skrifum Freud er „Wunscherfüllung“ — óskuppfylling. Vegna þess að drif og eðlishvatir, uppsprettur meðvitaðra og ómeðvitaðra óska, verða stundum óuppfylltar, leitast hugurinn við að „uppfylla“ óskirnar í draumheimi. Með því að túlka þessa drauma í samræmi við bernskuminningar og aðra ævisögulega atburði verður sálgreinandanum einmitt fært að túlka óskir ómeðvitundarinnar og færa þær til meðvitundarinnar, sem á svo að vera sjúklingnum til bata.

Ef til vill er eitt mikilvægasta og áhrifamesta framlag Freud til mannlegrar þekkingar sem slíkrar hugmyndin um að óskir okkar séu ekki á okkar eigin valdi — að til sé eitthvað innra með okkur sem við höfum alls enga meðvitund um en stýrir og viðheldur öllu því sem við hugsum meðvitað um, öllu því sem við þráum, öllu því sem okkur dreymir um. Maðurinn er ekki lengur þessi skynsama, móderníska sjálfsvera, fullmeðvituð og rökræn — við erum dýrslegri, hvatakenndari, óræðari en við teljum okkur vera: ekki einu sinni óskir okkar, þrár okkar, eru okkar eigin.

Til samantektar er það því skilningur minn að ósk-hyggja/þrá-hyggja Freud sé margþætt; ómeðvituð drif okkar og eðlishvatir — náttúrulega, félagslega og ævisögulega mótaðar uppsprettur kynorku — veita ákveðnum viðföngum orkuhleðslur, og þessar orkuhleðslur birtast í meðvitundinni sem ósk eða sem þrá eftir þessum viðföngum, þótt meðvitundin þurfi ekki að gera sér grein fyrir uppsprettu þrárinnar né heldur hinu raunverulega viðfangi hennar. Greinargerð Freud er sláandi að því leyti sem hún er lífeðlisfræðileg að yfirbragði — orkuhleðslur, drif, dulinn sálrænn vélbúnaður… 

Maður sér strax merki þess hvernig hann hugsaði sér að sálgreining ætti að vera allt frá upphafi í verkinu Project for a Scientific Psychology frá árinu 1895. Fyrsta málsgreinin hljóðar svo: „The intention of this project is to furnish us with a psychology which shall be a natural science: its aim, that is, is to represent psychical processes as quantitatively determined states of specifiable material particles and so to make them plain and void of contradictions.“ Þrátt fyrir þessa ætlun Freud eru margir sem telja sálgreininguna hafa „farið af sporinu,“ ef svo mætti að orði komast, eftir því sem leið á tímann — og ég snerti nánar á því síðar í ritgerðinni, í hlutanum um Gilles Deleuze og Félix Guattari. Látum þetta duga um Freud í bili og snúum okkur þá að hugmyndum Jacques Lacan um þrá-hyggju.

Lacan

Jacques Marie Émile Lacan (1901-1981) var franskur sálgreinir. Hann byggði kenningar sínar að mjög miklu leyti á skrifum Sigmund Freud en bætti ýmsu við og breytti öðru. Auk þess sem hann notaðist mikið við Freud sótti hann efnivið til ýmissa annarra átta — meðal annars til tiltekinnar túlkunar á skrifum G.W.F. Hegel (1770-1831) sem og til hugmynda Martin Heidegger (1889-1976) um fyrirbærafræði. Kenningar Lacan höfðu, og hafa enn, talsverð áhrif á hugsuði víða um heim, en sérstaklega urðu þær fyrirferðamiklar á meginlandinu eftir stríð.

Þrá-hyggja liggur eins og margræður og snúinn rauður þráður gegnum alla hugsun Lacan — þráður sem við reynum að kanna nánar hér. Hugtökin sem við notumst við í greiningu okkar á þrá-hyggju Lacan eru í fyrsta lagi þrennd þrár, kröfu og þarfar, auk hugtakana um skort og hið aðra. Hugtakið sem ég hyggst helst varpa ljósi á í þessum hluta ritgerðarinnar, þrá, sem á frönsku er désir, er einfaldlega þýðing á freudíska hugtakinu Wunsch eða ósk eins og það birtist í franskri útgáfu verka Freud. Þráin verður samt ekki skilin (ef hún verður það almennt) nema í samhengi við hugtökin um kröfu (fr. demande) og þörf (fr. besoin), svo nauðsynlegt er að kanna samspil þessarra þriggja hugtaka. Auk þrenndarinnar eru tvö önnur hugtök sem spila mikilvæg hlutverk í þrá-hyggju Lacan — kenningarnar um skort (fr. manque) og hið aðra (fr. l’autre). Þrá er ávallt mótuð í sambandi við annað fólk eða hið aða almennt — og þrá grundvallast í skorti.

Í þessum hluta ritgerðar minnar kanna ég þetta hugtakaskema Lacan nánar og geri grein fyrir dýnamísku samspili þeirra innan kenninga hans, auk þess sem ég geri stuttlega grein fyrir mögulegum áhrifum annarra hugsuða á þrá-hyggju hans með sérstöku tilliti til túlkunar Alexandre Kojéve á hugmyndum Hegels sem og áhrifum Martin Heidegger.

Hugum fyrst að samspili þrár, kröfu og þarfar. Lacan gerir grein fyrir þrenndinni og dýnamíkinni milli sálrænu þáttanna í greininni „La signification du phallus“  frá árinu 1958. Fyrst í rununni er þörfin. Allt frá fæðingu þörfnumst við ýmissa nauðsynja: hlýju, næringar, umhyggju — en þegar við fæðumst erum við allsendis ófær um að afla okkur þessarra nauðsynja. Við erum litlir, gagnslausir kjöthlunkar, ólíkt öðrum lífrænum ungviðjum sem mörg hver fæðast svo gott sem fullfær um að spranga um túnin og bíta grasið. Vegna þess hve vanfær ungabörn eru um að uppfylla eigin þarfir reiða þau sig á foreldra sína til þess að afla sér þessarra nauðsynja. En hvernig ætti foreldri að vita hvers barnið þarfnast? 

Í upphafi neyðist foreldrið til þess að reiða sig á grátur barnsins — þegar barnið er svangt grætur það, þegar barnið er þreytt grætur það. Líklega eru börn einfaldlega forrituð til að orga þegar þau hungrar, þróunarfræðilegra ástæðna vegna. Hið mikilvæga er þó ekki að börn gráti þegar þau finna til þarfar — heldur er hið mikilvæga það að í gegnum grátinn myndast einfalt tungumál milli foreldris og barns. Barnið, rétt eins og foreldrið, lærir að grátur framkallar svörun. Með aldrinum og reynslunni lærir það að gráta þegar það vill gráta — grátur verður meðvituð athöfn. Þetta er það sem Lacan kallar kröfu. Barnið þarf eitthvað og krefst uppfyllingar þarfarinnar með þessu frumstæða málkerfi.

Maður gæti talið að hér væri málið einfaldlega leyst. Tilteknar kröfur eru gerðar af barninu gagnvart foreldrinu og þeim er svarað með uppfyllingu þarfa barnsins af hálfu foreldrisins. Hins vegar eru aðstæður talsvert flóknari en svo. Þegar maður krefst einhvers er nefnilega eitthvað óhjákvæmilega skilið eftir — uppfylling kröfunnar verður aldrei algjör. Þetta er vegna þess að með málathöfninni er maður að reiða sig á túlkun kröfunnar — og túlkunin er í höndum hins aðra: það verður alltaf „frávik“ eða misvísun vegna þess að þörfin er tjáð — „að því leyti sem þarfir [manns] eru háð kröfu snúa þær aftur til hans í firrtri mynd.“ Þetta er ekki vegna þess að maðurinn er háður öðrum, heldur vegna þess að „þarfirnar eru settar í merkjandi form“ auk þeirrar staðreyndar að skilaboðin séu alltaf gefin út innan sviðs eða mengis hins Aðra. Það mætti því segja að það sé alltaf eitthvað sem „glatast í þýðingu“ í hverri einustu kröfu: „What is thus alienated in needs constitutes an Urverdrängung [primal repression], as it cannot, hypothetically, be articulated in demand; it never­theless appears in an offshoot that presents itself in man as desire (das Begehren).“

Snúum okkur þá aftur að þránni. Það mætti því skilja þrá sem það sem verður eftir þegar þörfunum sem krafa inniheldur hefur verið svalað — þráin, segir Lacan, er því hin óyrta krafa, uppspretta jafnt sem leifar kröfunnar. Spurningin er þá — hvert er innihald þessarar leifar sem er þráin, girndin? Hvert er grundvallarviðfang þrárinnar, það sem verður alltaf óuppfyllt? Þráin er alltaf hin óuppfyllta krafa um ást hins Aðra — sem þýðir með öðrum orðum að þráin sé þrá fyrir þrá hins Aðra. Það er, þráin þráir að hið Aðra þrái þráandann. 

Hvað er þó þetta „aðra“? Lacan talar um hið aðra í tvöföldum skilningi — annars vegar í skilningnum hið litla aðra (fr. l’autre) og hið stóra Aðra (fr. l’Autre). Í samhengi þessarar ritgerðar dugir okkur að skilja hið aðra sem annarleika ímyndarinnar: ímyndin sem tiltekin manneskja hefur af sjálfi sínu eða „manns annars manns“ (e. alter ego) — frávarpslegar ímyndanir um innri sjálf annars fólks sem við vörpum út á það samkvæmt okkar eigin innri sjálfum út frá forsendum hversdagslegra samskipta okkar. Hið Aðra, hins vegar, á við um skipan hins táknræna; hinn „hlutlæga og sammannlega anda,“ formgerðir tungumálsins, stillingarnar sem stýra og viðhalda því hvernig við eigum mannleg samskipti. Hið Aðra er því það sem skiptir máli í þessu samhengi — því rétt eins og Lacan segir í „La signification du phallus“ er það staðsetning eða mengi hverrar málathafnar. Hið stóra Aðra er því í þessum skilningi svið tungumálsins sem slíkt.

Það sem er einna mikilvægast og hvað mest sláandi við þrá-hyggju Lacan er það hvernig þrá er óhjákvæmilega og alltaf félagslega mótuð — þörfum okkar og kröfum er óhjákvæmilega miðlað gegnum Annarlega strúktúra, þrá okkar mynduð af innbyggðum formgerðum þeirra. Þráin er beinlínis skilgreind sem þrá fyrir þrá hins Aðra, Annarleika (e. alterity) sem á sér hlutlægan raunveruleika og er fær um að þrá, sem þráir einmitt þrá síns eigin Annarleika, og svo framvegis. Þetta myndar óendanlega keðju fýsnar, girndar, þar sem enginn hlekkur flýtur í einangrun frá öðrum hlekkjum. Allt frá barnsburði lærum við hvaða kröfur fá svaranir, hvaða þrár eru réttmætar og leyfilegar og hvaða þrár eru tabú og bannaðar. Af þessum skilningi leiðir að þrá sem hefur ekki verið félagslega miðlað er alls ekki þrá

Enn eigum við þó eitt hugtak enn eftir órannsakað í samhengi við þrá-hyggju Lacan, og það er skortur (fr. manque). Við höfum séð hvernig þrá er krafan um ást, óyrt krafa, ávallt óuppfyllt, en við höfum ekki séð hvaðan þessi krafa kemur, né heldur skiljum við á hvaða grundvelli hún stendur. Það er hér sem hugtakið um skort kemur inn í myndina. Lacan lýsti því í málstofu sinni frá árunum 1954-55 hvernig þrá sprettur upp úr þessum skorti — hvernig vera getur ekki bara verið það sem hún einfaldlega er, hvernig þráandi vera er alltaf í venslum við skort: „Desire is a relation of being to lack. This lack is the lack of being properly speaking. It isn't the lack of this or that, but lack of being whereby the being exists.“ Veruna skortir eitthvað, og það er í gegnum þennan skort sem hún öðlast skilning á sjálfu sér: „Being attains a sense of self in relation to being as a function of this lack in the experience of desire.“

Ljóst er að hér er um frumspekilega afstöðu að ræða. Veran upplifir aðeins skort vegna þess að hana skortir eitthvað — þetta er verufræðileg hugmynd fyrst og fremst. Orðræða Lacan í þessari tilteknu málstofu minnir bæði á G.W.F. Hegel og Martin Heidegger — hann segir meðal annars, eins og áður segir, að „veran öðlist skynbragð fyrir sjálfinu að því leyti sem hún er fall (e. function) skortsins í upplifun þrárinnar,“ sem minnir ótvírætt á það sem Heidegger segir í ritgerð sinni, „What is Metaphysics?“: „Da-sein means: being held out into the nothing. [...] Without the original manifestness of the nothing, no selfhood and no freedom.“ 

Þess að auki virðist þessi hugmynd um að þráin grundvallist í skorti vera byggð á fyrirlestrum heimspekingsins Alexandre Kojéve (1902-1968) um Fyrirbærafræði andans eftir Hegel, fyrirlestrum sem Lacan sótti árið 1933 í París. Í greiningu sinni á hegelska hugtakinu Begierde, sem kynnt er til sögunnar við upphaf kaflans um Sjálfs-meðvitund í Fyrirbærafræði andans, heldur Kojéve því fram að þráin sé tómleiki: þrá hungraðs manns eftir næringu er ekki jákvæð og sjálfstæð heild, heldur er hún tóm, gráðugt í uppfyllingu, rétt eins og tómur magi mannsins vannærða. Deila má um hversu réttmæt þessi túlkun á Hegel er, en mér virðist ljóst að Lacan hafi orðið fyrir talsverðum áhrifum af henni.

Einna áhugaverðast við þrá-hyggju Lacan er hversu alltumlykjandi hún virðist vera. Hann talar meðal annars um að „freudíska upplifunin,“ sem túlka mætti sem hans eigin upplifun eða lestur á Freud, byrji á því að fastsetja sér forskilvitlegan „heim þrárinnar“: „The Freudian world isn't a world of things, it isn't a world of being, it is a world of desire as such.“ Jean-Michel Rabaté lýsir því í ritgerð sinni, „Lacan’s turn to Freud“, hvernig þrá-hyggja Lacan er goðsagnakenndur grundvöllur eða undirstaða sem hýsir alla spennu og allar mótsagnir — hvernig libido gæti verið eitt með undirstöðu náttúrunnar. Þrá-hyggja Lacan virðist því að mörgu leyti vera talsvert frumspekilegri en þrá-hyggja Freud, sem virðist fremur hafa raunvísindakeim eða -yfirbragð, að minnsta kosti til að byrja með. Með þetta frumspekilega eftirbragð enn á bragðlaukunum höfum við fundið okkur viðeigandi tímapunkt til þess að snúa okkur að því að kanna þrá-hyggju tvíeykisins frækna, Deleuze & Guattari, sem mætti kalla hreina frumspeki.

Deleuze & Guattari

Gilles Deleuze (1925-1995) og Félix Guattari (1930-1992) kynntust í kjölfar maíbyltingarinnar árið 1968 og skrifuðu nokkur verk í sameiningu. Deleuze var franskur heimspekingur og Guattari sömuleiðis, en sá síðarnefndi var einnig geðlæknir og aktívisti. Þeirra frægasta verk er kennt við Capitalisme et schizophrénie, en í því fyrra af tveimur bindum þess, L'anti-Œdipe, fjölluðu þeir að miklu leyti um þrá. Þrá-hyggja Deleuze & Guattari er að einhverju leyti sambræðingur af hugmyndum Sigmund Freud og Karl Marx, þótt hún gangi auðvitað talsvert lengra en svo að hægt sé að smætta hana niður í þessar tvær einingar.

L'anti-Œdipe, sem hefur verið þýdd á ensku sem Anti-Oedipus, kynnir hugtakið „la production désirante“ til sögunnar, en það hefur verið þýtt á ensku sem „desiring-production“. Það er spurning hvernig mætti þýða þetta hugtak á íslensku. Mér hefur dottið í hug „fýsnarframleiðsla,“ og hyggst nota það héðan í frá út ritgerðina, fyrir íslenskunnar sakir. Samhliða því sem þeir kynna fýsnarframleiðsluna til sögunnar gagnrýna þeir rökrænu hinnar hefðbundnu þrá-hyggju eins og hún birtist upprunalega hjá Platóni og síðar hjá Freud og Lacan, rökrænu sem byggir á skorti. Þess að auki eru þeir gagnrýnir á hugmynd sálgreiningarinnar um Ödipusarduldina. Hér á eftir hyggst ég gera grein fyrir afstöðu þeirra til allra þessarra efnisatriða — og ég byrja á því að kanna afstöðu þeirra til Ödipusarduldarinnar.

Anti-Oedipus er virkilega pólemísk bók, eins og titillinn gefur bersýnilega til kynna. Hún ræðst fyrst og fremst gegn rétttrúnaðarhugmyndum sálgreiningarinnar varðandi Ödipusarduldina, meginhugtak í klassískri freudískri (og lacanskri) sálgreiningu. Duldin snýst í grunninn um það að ungabörn finni til kynferðislegrar þrár gagnvart móður sinni, en þar eð móðirin er „eign“ föðurins verður þessi þrá annaðhvort að beinast eitthvert annað eða mynda sálrænan hnút sem þarf að leysa með sálgreiningarmeðferð sem færir hnútinn upp á yfirborð meðvitundarinnar úr djúpum ómeðvitundarinnar. Fyrir Deleuze og Guattari er Ödipusarduldin langtum of leikræn, langtum of myndræn, of einföld — þegar raunin er sú að margtum fleiri kraftar utan fjölskyldunnar og utan sviðs hins sálræna sem slíks hafa mótandi áhrif á það hvernig við hugsum, það sem við þráum, það sem okkur dreymir um. „There is no Oedipal triangle: Oedipus is always open in an open social field [...],“ segja þeir, „[t]he father, the mother, and the self are at grips with, and directly coupled to, the elements of the political and historical situation—the soldier, the cop, the occupier, the collaborator, the radical, the resister, the boss, the boss’s wife—who constantly break all triangulations, and who prevent the entire situation from falling back on the familial complex and becoming internalized in it.“

Deleuze og Guattari telja „heimsvaldastefnu“ Ödipusarduldarinnar krefjast ákveðinnar fórnar af hendi sálgreiningarinnar — og það er ekki bara um lífeðlisfræðilega viðhorfið, sem ég snerti á hér að ofan, að ræða. Með því að gera duldina svo miðlæga gleymir sálgreiningin hinni byltingarkenndu nýju þekkingu sem Freud og fyrstu greinendurnir uppgötvuðu: ómeðvitundin er vettvangur óendanlegrar og áður óhugsaðrar framleiðslu — umdæmi samtenginga, aðgreininga, samspila og flæða. Hugsuðirnir tveir velta því fyrir sér hvort þessi heimur villtrar framleiðslu og sprengifimrar þrár hafi ekki einfaldlega reynst Freud um megn, og að til þess að koma reglu á ringulreiðina hafi hann komið fyrir gömlum, góðum grískum harmleik í stað ginnungagaps ómeðvitundarinnar. Sálgreiningin er eins og rússneska byltingin, segja þeir: við vitum ekki alveg hvenær hún byrjaði að spillast.

Í Anti-Oedipus smíða Deleuze og Guattari sér enn fremur nýstárlega þrá-hyggju sem hafnar hvers kyns mannmiðjun (e. anthropocentrism): fýsnarframleiðslan er grundvallareining alls þess sem er — þrá er „altækt frumferli“ framleiðslu sem grundvallar allt í senn hið félagslega, hið náttúrulega og hið sálræna. Þrá, samkvæmt þeim, er framleiðsla — jákvæð verðandi áþekk natura naturans í Spinoza eða hugtaki Nietzsche um viljann-til-valds. Ómeðvitundin er verksmiðja, ekki leikhús: hún leikur ekki eftir Ödipalska leikþætti, heldur framleiðir hún. Líkaminn er samansafn líffæravéla sem tengjast og aftengjast og endurtengjast, vélar sem miðla orkuflæðum, stöðva þau af, breyta stefnu þeirra — það er eins og Spinoza sagði, við vitum raunverulega ekki hvers líkaminn er megnugur.

Hugmyndin um þrá sem framleiðslu hefur tvennt til viðbótar í för með sér: neitun hugmyndarinnar um að þrá grundvallist í skorti og neitun hugmyndarinnar um að sjálfsveran (e. subject) sé uppspretta þrárinnar. 

Þráin getur ekki verið miðuð út frá skorti, segja þeir — og svo mikið sem hugmyndin um skort þrárinnar er lamandi fyrir hana: „To a certain degree, the traditional logic of desire is all wrong from the very outset: from the very first step that the Platonic logic of desire forces us to take, making us choose between production and acquisition,“ — „From the moment lack is introduced into desire, all of desiring-production is crushed, reduced to being no more than the production of fantasy [...]“. Í staðinn er þráin framleiðandi, jákvæð, skapandi.

Sjálfsveran getur einnig ómögulega verið forsenda þrárinnar, heldur er sjálfsveran fylgifyrirbæri (e. epiphenomenon) eða eftirstöðvar (e. residue) þrárinnar: „[...] the points of disjunction on the body without organs form circles that converge on the desiring-machines; then the subject—produced as a residuum alongside the machine, as an appendix, or as a spare part adjacent to the machine—[...]“. Hið altæka frumferli þrárinnar er því algjör forsenda sjálfsverunnar sem slíkrar.

Þrátt fyrir gagnrýni sína á sálgreininguna eru Deleuze og Guattari þó þeirrar skoðunar að við séum öll Ödipölsk: „We are not saying the Oedipus and castration do not amount to anything. We are oedipalized, we are castrated; psychoanalysis didn’t invent these operations [...]. But is this sufficient to silence the outcry of desiring-production: We are all schizos! We are all perverts! We are all libidos that are too viscous and too fluid—and not by preference, but wherever we have been carried by the deterritorialized flows.“ Þvert á þá skoðun að sálgreiningin hafi einfaldlega „fundið upp“ Ödipus telja þeir hana fremur hafa styrkt hann — með sálgreiningunni verður Ödipus á við heilaga ritningu, lögmál, og sálgreinar líkjast fremur prestum en læknum. 

Í stað sálgreiningarinnar leggja Deleuze & Guattari til sína eigin tegund greiningar: „schizoanalysis“ (fr. schizanalyse) — sem mætti ef til vill útleggja á íslensku sem „klofagreining“. Klofagreiningu á að vera fært að greina kynorkuhleðslur utan fjölskyldunnar, hleðslur handan Ödipusar; kynorkuhleðslur sem eru bundnar við efnahagsleg og stjórnmálaleg viðföng — klofagreiningunni á að vera fært að útskýra hvernig mannfólk getur þráð eigin kúgun, eigin bælingu, hvernig þráin getur þráð eigin neitun.

Ljóst er að hugmyndir Deleuze & Guattari eru virkilega róttækar: þær eru sálrænar, frumspekilegar og hag-pólitískar/stjórnhagfræðilegar (sbr. e. political economy) allt í senn. Þetta helst í hendur við yfirlýst markmið „klofagreiningarinnar,“ sem er að greina kynorkuhleðslur efnahagslegra og pólitískra fyrirbæra eins og sálgreiningin greinir orkuhleðslur sem hafa verið hlaðnar utan á annað fólk. Þrá-hyggja þeirra er virkilega víðtæk og byltingarkennd, og hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli í heimi spekinnar fyrir vikið — auk þess sem hún rokseldist þegar hún kom fyrst út árið 1972.

Látum þetta þó duga um Deleuze og Guattari og tökum í staðinn saman niðurstöður ritgerðarinnar í heild sinni í örstuttu máli. Við höfum kannað þrjár mismunandi þrá-hyggjur frá þremur mismunandi hugsuðum (ef við teljum Deleuze og Guattari sem eina hugsunareiningu, sem er réttmætt miðað við það hvernig þeir hafa talað um samstarfið). 

Þrá-hyggja Freud var að miklu leyti lífeðlisfræðileg en einnig mótaðist þráin af drifunum, ævisögulegum og hálf-andlegum, hálf-líkamlegum hvötum. Óskin, eða þráin, var svo niðurstaða þessarra mismunandi hvata, ómeðvitaðra sem og meðvitaðra. Hans mikilvægasta framlag til þrá-hyggjunnar var eflaust hugtak ómeðvitundarinnar — sú hugmynd að við þráum hluti sem við vitum ekki að við þráum. 

Þrá-hyggja Lacan byggði að miklu leyti ofan á þrá-hyggju Freud, en gerði hana langtum heimspekilegri. Með hugtökum á við skort og hið Aðra málar Lacan allt aðra mynd af þránni en Freud — þránni er miðlað gegnum samfélag okkar, og þráin á sér skýra uppsprettu í því sem veruna skortir. Þrá-hyggja Lacan er því að vissu marki frumspekileg, verufræðileg, að því leyti sem hún hugsar sér þrána sem alltumlykjandi. 

Þrá-hyggja þeirra Deleuze og Guattari er aftur á móti virkilega frumspekileg. Deleuzo-Guattaríska þráin er altækt frumferli sem grundvallar náttúruleg, félagsleg og sálræn ferli öll í senn — hún er jákvætt, skapandi afl sem skortir alls ekkert. „Klofagreining“ þeirra kumpána lofar einnig góðu — og gagnrýni þeirra á Ödipusarduld sálgreiningarinnar út frá þrá-hyggjunni er virkilega áhugaverð og grípandi.

Að lokum er vert að minnast þess á ný að með þessari ritgerð höfum við aðeins rétt byrjað að klóra yfirborð þrá-hyggjunnar. Fullkomnari greinargerð tæki nauðsynlega tillit til þátta á við hugtak geldingarinnar í Freud og hvernig það spilar inn í þrá-hyggjuna, hugtakið jouissance í Lacan og hvernig það virkar að einhverju leyti sem andstæða þrárinnar, sem og hugtök Deleuze & Guattari um geðklofa manninn og líkamann án líffæra (e. Body without Organs) — auk þess sem aðrir hugsuðir á borð við Spinoza og Hegel hafa einnig smíðað sér þrá-hyggjur. Það gæti verið verkefni til framtíðar.


Heimildaskrá

Aristóteles. De Anima. Úr The Basic Works of Aristotle. Þýtt af J.A. Smith. Ritstýrt af Richard McKeon. New York: Random House, 1941.

Aylesworth, Gary. "Postmodernism". Af The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vorútgáfa 2015). Ritstýrt af Edward N. Zalta, URL.

Deleuze, Gilles & Guattari, Félix. Anti-Oedipus: Capitalism & Schizophrenia. Þýtt af Robert Hurley, Mark Seem og Helen R. Lane. Penguin Classics. New York: Penguin, 2009.

Freud, Sigmund. The Standard Edition of the Complete Psychological Works of Sigmund Freud, Vols. I, VII, XVIII, XV, XIX. Þýtt og ritstýrt af James Strachey í samstarfi við Anna Freud með hjálp Alix Strachey og Alan Tyson. London: Hogarth Press, 1953.

Freud, Sigmund. Ritgerðir. Sigurjón Björnsson þýddi. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2002.

Frosh, Stephen. Key Concepts in Psychoanalysis. New York: New York University Press, 2003.

Heidegger, Martin. Basic Writings. Þýtt og ritstýrt af David Farrell Krell. New York: HarperCollins, 1993.

Hómer. Kviður Hómers, II. Bindi: Odysseifskviða. Sveinbjörn Egilsson þýddi. Kristinn Ármannsson og Jón Gíslason bjuggu til prentunar. Reykjavík: Alþýðuprentsmiðjan H.F., 1948.

Johnston, Adrian. "Jacques Lacan". The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vetrarútgáfa 2016). Ritstýrt af Edward N. Zalta. URL.

Kojève, Alexandre & Queneau, Raymond. Introduction to the Reading of Hegel: Lectures on the Phenomenology of Spirit. Ritstýrt af Allan Bloom, þýtt af James H. Nichols, Jr. New York: Basic Books, 1969.

Lacan, Jacques. The seminar of Jacques Lacan, Book II: The Ego in Freud’s theory and in the Technique of Psychoanalysis: 1954-1955. Þýtt af Sylvana Tomaselli. Ritstýrt af Jacques-Alain Miller, John Forrester ritar neðanmálsgreinar. Cambridge: Cambridge University Press, 1988.

Lacan, Jacques. Écrits: The First Complete Edition in English. Þýtt af Bruce Fink í samstarfi við Héloïse Fink og Russell Grigg. (New York: W.W. Norton & Co., 1999.)

Lacan, Jacques. The Four Fundamental Concepts of Psychoanalysis. Þýtt af Jacques-Alain Miller og Alan Sheridan. London: Penguin, 1994.

The Cambridge Companion to Lacan. Ritstýrt af Jean-Michel Rabaté. Cambridge Companions to Literature. Cambridge: Cambridge University Press, 2003. 

Shatz, Adam. „Desire Was Everywhere,“ ritrýni um Anti-Oedipus eftir Gilles Deleuze og Félix Guattari. Úr London Review of Books, Vol. 32 No. 24. (16. desember 2010). London: LRB Limited, 2010. URL.

Spinoza, Baruch. Ethics. Þýtt af Edwin Curley, inngangur eftir Stuart Hampshire. Penguin Classics. St. Ives: Penguin, 1996.

Smith, Daniel & Protevi, John. "Gilles Deleuze". The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vorútgáfa 2018). Ritstýrt af Edward N. Zalta. URL

Um hugtak þjóðernishyggjunnar

Um hugtak þjóðernishyggjunnar

Átök, ábyrgð og ávantanir: Jordan B. Peterson í Hörpu

Átök, ábyrgð og ávantanir: Jordan B. Peterson í Hörpu