Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Stutt orðræða um persónufornöfn

Stutt orðræða um persónufornöfn

Hvaða merkingu hafa persónufornöfn? Orð á borð við hann, hún, hán og fleiri vísa öll til einhverrar tiltekinnar persónu, mannveru sem hefur stöðu einstaklings. Þau eru tilvísandi; þau merkja viðfang setningar. Þessi einstaklingur, sem er merktur, er eitthvað eintækt, eitthvað sem ekki verður deilt niður í nokkra fleiri deila — en jafnframt hefur þessi einstaklingur ákveðin altæk einkenni. Ef til vill er einstaklingurinn hávaxinn eða dökkhærður, dimmradda eða bústinn. Allt eru þetta dæmi um altæk einkenni sem eiga við um eintæka einstaklinga.

Hið sama gildir um þetta fyrirbæri sem við köllum „kyn“. Hefðbundna viðhorfið er að til séu tvö kyn, karl og kona, með einhverjum tilhlutunum í þágu fornra skilgreininga á við hermafródítisma, eins og Óvíð lýsti eftirminnilega með ljóði í fjórðu bók Umbreytinga sinna. Þá höfum við talað um einstaklinga sem verandi annað hvort karl eða kona. Þetta eru enn altæk einkenni sem eiga við eintæka einstaklinga. Við merktum þessi kyn með orðunum „hann“ og „hún“, en með tímanum hafa þessi hefðbundnu viðhorf sætt gagnrýni og breyst að einhverju leyti. Það hefur það að verkum að fleiri fornöfn eru nú í notkun en áður.

Þessi persónufornöfn skipta máli, þau eru mikilvæg — þau hafa þá verkan að þau afmarka einstaklinga í ákveðin mengi eða hólf, ákveðin svæði innan almengisins. Með því að beita altækum persónufornöfnum á eintækan einstakling umbreytum við þessu fyrirbæri í tiltekinn einstakling, þ.e. tiltekið eintak sem einkennist af tilteknum altökum. Þetta vitum við öll, þótt ekki endilega svo nákvæmlega eða tæknilega, og við myndum okkur sjálfsmynd út frá þessum mótandi skilgreiningum. Við erum einstaklingur sem deilir sérstökum einkennum með öðrum einstaklingum en öðrum ekki — við erum tónelsk, eins og aðrir og ekki eins og sumir, og við erum hávaxin, eins og aðrir og ekki eins og sumir, og við erum karlar eða konur, sem við erum, aftur, eins og sumir en ekki eins og aðrir.

Vegna þess að samfélagshlutdeildir okkar velta á þessum skilgreiningum (þ.e., okkur er ekki heimiluð innganga á tiltekin svæði út frá því hvaða altökum við deilum með öðrum; sbr. búningsklefar, klósett, skurðstofur, félög osfrv.) er ljóst að velferð okkar gerir það líka — það er okkur í hag að hafa sem mestan aðgang að samfélagi manna, hvernig sem á það er litið, að vera sem frjálsust. Því minna aðgengi sem við höfum að þessu samfélagi, því verri eru lífsgæði okkar. Lífsgæði velta jú nánast algjörlega á samvinnu okkar við annað fólk. Það er fyrir þessar sakir sem mér virðist ljóst að persónufornöfn og notkun þeirra hafi raunverulega þýðingu fyrir einstaklinginn sem persónufornafnið er notað um vegna þess hve ákvarðandi áhrif allar skilgreiningar, rétt eins og þær sem felast í persónufornöfnum, hafa fyrir líf og velferð viðkomandi einstaklings.

Þegar einhverjum er neitað um það sem þau telja vera sitt réttmæta persónufornafn er þeim því hlutað til í þessum skilgreiningum þannig að samfélagshlutdeild þeirra líður mögulega skort handan vilja þeirra. Þess að auki er þessum einstaklingum varpað í ákveðið einskismannsland — þau hafa e.k. vofukennda tilvist, hvorki þar né hér. Gap opnast milli lýsingar og veru. Þversögn myndast milli skilgreiningar samfélagsins og skilgreiningar einstaklingsins og spenna og sársauki vaxa upp úr henni. Viðurkenningarþrá einkennir meðvitundir okkar flestra — við þráum viðurkenningu hins aðra, samþykki þeirra, ást þeirra og hlýhug. Þegar okkur er neitað um hana þjáumst við.

Neitunin sem um ræðir þarf þó auðvitað að vera meðvituð og harðyrt neitun, ítrekuð neitun, ekki aðeins misskilningur. Misskilningur stafar af vanþekkingu en ætti að leysast um leið og vakin hefur verið meðvitund á misskilningum. Óviljandi misnefni persónufornafns kann að stuða í dálitla stund en það er enginn harmur fólginn í því að misbeita orði og enginn gæti réttilega fordæmt nokkurn annan fyrir að gera villu byggða á saklausri fávisku. Hins vegar er það beinlínis einelti (og ef athöfnin er hugmyndafræðilega meitluð, þá hatursglæpur) að beita persónufornöfnum meðvitað sem valdatólum til þess að setja niður annað fólk, kasta þeim til einskismannslandsins sem er hvorki-né, landsins handan viðurkenningarinnar. Þetta á við um alla sem tilheyra tiltekinni skilgreiningu. Hvern sem er.

Sumir halda því fram að það skipti engu máli hvaða fornafni maður vill láta kalla sig vegna þess að maður hafi ákveðinn raunveruleika út frá genum manns sem ákvarðar fornöfnin fyrir mann. En hafa gen okkar eða líkamleiki raunverulega eitthvað með persónufornöfn að gera? Nei, ég held ekki. Persónufor„nöfn“ gætu allt eins verið eitt; persónufor-nafn. Við gætum kallað hvort annað „það“ án nokkurrar aðgreiningar með tilliti til kyns hvað persónufornöfn varðar og það myndi ekki breyta neinu. Við myndum þá bara spyrja til þess hvers kyns einhver væri, ef til þess kæmi að maður yrði að vita það — rétt eins og við spyrjum til nafns eða kennitölu. Allir þessir þættir eru tilfallandi og maður ræður engu um þá — maður fæðist inn í þennan veruleika þar sem aðrið gefur manni nafn, þar sem aðrið merkir mann með tölu, þar sem aðrið skapar manni líkama úr tilfallandi lífefnafræðilegum kokteilum.

Við kunnum að vera valdalítil þegar kemur að þessum þáttum líkama, kennitölu og upphafsstöðu — en við höfum óskorað vald yfir öðrum þáttum í staðinn. Við erum nefnilega meistarar orða okkar, við erum hundraðshöfðingjar hugsunarinnar. Genafræðileg samsetning frumna okkar ákvarðar ekki hver við erum fremur en hnúður á höfuðkúpu okkar. Við erum alltaf jafnframt bundin genum okkar sem og handan þeirra, hvorki gen né ekki-gen — einskonar tómleiki innan hvers við höfum frjálsar hendur til þess að vera við sjálf.

Hvað er þetta „ég“ og hvaða áhrif hafa genin mín á það? Eru það genin mín sem ákveða hvernig ég klæði mig? Er það eitthvað í genunum mínum sem ákvarðar hvern ég kyssi og knúsa? Er það genunum mínum að kenna ef ég beiti einhvern ofbeldi? Er eitthvað við genin mín sem tilgreinir hvaða tónlist mér líkar vel að hlusta á? Er það bundið í genasamsetningu mína að taka ákvörðun x á tímapunkti y? Enn fremur: er ég ekkert annað en efnislíkaminn minn? Ef svo er, hvað ef ég missi útlim — hvað ef ég missi getnaðarlim? Er afskorni hlutinn ennþá líkaminn minn, er það ennþá ég? Hvað breytist í veru minni við skurðinn? Hvar liggja mörkin milli mín og ekki-mín þegar kemur að þessari kjötprísund sem umlykur meðvitund mína sem og alheimsins sem svo hýsir hana?

Að síðustu: hvaðan kemur vald annarra til þess að kalla mig persónufornöfnum eins og þeim sýnist? Hafa aðrir þá vald til þess að kalla mig lýsingarorðum eins og þeim sýnist, lýsingarorðum eins og „þjófur“ eða „lygari“? Eiga aðrir þá að hafa vald til þess að tilgreina hvaða samfélagslegu svæðum ég á að hafa aðgang að með orðræðu sinni? Á hvaða réttargrundvelli stæðu slík völd?

Mér virðist ljóst að réttur annarra til þess að kalla mig þeim persónufornöfnum sem þeim sýnist standi á þegar-brotnum brauðfótum. Rétt eins og mér virðist ljóst að réttur annarra til að rægja mig með því að lýsa veruleika sem ég á engan hlut í sé ríflega enginn virðist mér ljóst að réttur annarra til þess að ákveða það fyrir mig hvaða persónufornafni ég kýs að láta kalla mig með (eða nafni, fyrir það leyti!) sé nákvæmlega enginn heldur. Einstaklingum á að vera frjálst að skilgreina hvaða orð eru notuð um grundvallarpersónu sína, hvað sem á bjátar og hvað sem tautar, og öðrum einstaklingum á ekki að vera frjálst að taka fyrir þetta frelsi með sínum eigin tilfallandi og utanaðkomandi skilgreiningum.

Það eru svo auðvitað engin andmæli að fara að kvarta yfir því að þá verði að skilgreina nákvæmlega hversu mörg persónufornöfnin megi þá vera, né heldur að um sé að ræða lokaðan orðflokk sem ekki megi breyta, eða nokkru slíku sambærilegu — einstaklingurinn gengur fyrir allar þessar hugsmíðar, og er raunar forsenda þeirra allra. Það er eins og Jesú sagði, maðurinn var ekki gerður fyrir hvíldardaginn, heldur var hvíldardagurinn gerður fyrir manninn. Hið sama gildir um persónufornöfnin.

Í umræðu um það hvort um tilneyðslan eða brot á tjáningarfrelsinu sé að ræða þegar kemur að því að veita transfólki vernd gegn mismunun á grundvelli hatursorðræðu eða annara glæpa liggur, að undanfarinni röksemdafærslu, í augum uppi að tjáningarfrelsið taki ekki yfir neikvæð persónuréttindi til sjálfsákvörðunar og öryggis. Það gerir það ekki í þessu tilfelli fremur en það gerir það í tilfelli rógburðar. Tjáningarfrelsið er ekki ósnertanlegt og járnað fyrirbæri sem ekki má ræða um eða gera breytingar á; þvert á móti væri slík afstaða í sjálfri sér andstæð tjáningarfrelsinu. Tjáningarfrelsið mun lifa það af að transfólk fái að leita réttar síns þegar mismunað er gegn því — sem betur fer er það mun harðgerðara en svo að slík sjálfsögð réttindi geti skaðað það.


Myndin í haus er brot af málverkinu „Young Woman Drawing“ eftir Marie-Denise Villers frá árinu 1801. Rök hafa verið færð fyrir því að málverkið sé sjálfsmynd listakonunnar — en um það leikur vafi. Hér má sjá málverkið í heild sinni.

Gagnrýnin hugsun og hið líkamlega

Gagnrýnin hugsun og hið líkamlega

Um hugtak þjóðernishyggjunnar

Um hugtak þjóðernishyggjunnar