Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um heimspekina

Um heimspekina

Hvað er að vera heimspekingur? Þetta hefur alltaf verið umdeild skilgreining. Heimspekin hefur löngum skarast við trúarbrögð og guðfræði — og hefur á tíðum verið óaðgreinanleg frá þeim, eins og oft var á fornöld og á miðöldum. Þrátt fyrir að þessar mismunandi greinar hafi oft verið spyrtar saman í einn óaðgreinanlegan gordíonshnút getum við, sem lítum aftur, séð að heimspekin var einn þráður meðan guðfræðin var annar þráður.

Spurningin er þá: hvernig? Hvað er það sem greinir heimspekina frá guðfræðinni? Eru það röksemdafærslurnar? Já, kannski felst það að einhverju leyti í þeim. Þótt guðfræði notist augljóslega við röksemdafærslur rétt eins og heimspekin er hún þó ávallt grundvölluð í uppljóstrunum spámanna, sem heimspekin þarf ekki að vera. Það er því kannski nær að huga að grundvellinum sem röksemdafærslurnar spretta upp úr.

Heimspekingnum er kleift að efast um orð spámannanna og neita að taka þau sem byrjunarpunkt út frá hverjum rannsaka skuli heiminn — og honum er ekki aðeins „kleift“ að gera það, heldur eiginlega neyðist hann til að gera það. Það er ef til vill þetta sem einkennir heimspekinga umfram annað: þeir hafa alltaf átt í stormasömu sambandi við það sem birtist okkur sem gefið.

Þegar maður hugsar nægilega lengi um eða lærir nægilega mikið um rökfræði, röksemdafærslur og eðli þeirra, skilur maður betur að forsendurnar sem maður gefur sér skipta öllu máli í röksemdafærslu, meðan niðurstaðan er eitthvað sem einfaldlega flýtur af forsendunum. Það mætti segja að það sé skilningur og stöðug meðvitund heimspekinnar um eðli og mikilvægi hinna gefnu forsenda sem veitir henni sérstöðu í heimi vísindanna.

Til að mynda er margt sem er gefið í raunvísindum — forsendur á borð við þær að hægt sé að komast að sannleik um hlutlægan veruleika gegnum skipulegar tilraunir á viðföngum úr reynsluheiminum — og þessar forsendur getur heimspekin — og þarf raunar — að leyfa sér að efast um. Sókrates er sérstök persóna innan heimspekinnar, ekki aðeins vegna þess að hann er að sumra mati faðir siðfræðinnar, heldur einnig vegna viðhorfsins sem hann færði heimspekilegri iðkun sem slíkri: hann gerði í því að vera óendanlega pirrandi, sífellt nuðandi í fólki um að endurskoða og fínpússa afstöður sínar, jafnvel þegar það leiddi ekki til neins annars en aporíu og fullkomins glóruleysis.

Það sem Sókrates færði heimspekinni fyrstur manna var krafan um að framkvæma rannsóknina, að stíga alltaf eitt skref aftur frá hinu gefna og spyrja hið gefna spurningarinnar: hvers vegna? Það má deila um það hvort þetta sé „andi“ heimspekinnar sem slíkur, en hvað sem mönnum kann að finnast tel ég þetta nauðsynlega aðferðafræðilega forsendu þess að hægt sé að tala um að verið sé að iðka heimspeki yfir höfuð, þótt hún sé ef til vill ekki fullnægjandi til skilgreiningarinnar.

Það er alltaf skemmtilegt og áhugavert að velta því fyrir sér hvort tilteknir hugsuðir séu heimspekingar eður ei, þótt þau séu ótvírætt réttnefndir hugsuðir á annað borð. Þetta á við um rithöfunda, stjórnmálafólk, málara, tónlistarfólk, líffræðinga, guðfræðinga, eðlisfræðinga og fleiri — listinn er auðvitað ekki tæmandi. Aristóteles, svo dæmi sé nefnt, var bæði eðlisvísindamaður og stórtækur á sviði líffræðinnar — en þar að auki var hann frumspekingur, rannsakandi gefnu forsendur okkar.

Mætti segja hið sama um hinn sænska Carl Linnaeus, sem lagði grundvöll að nútímaflokkunarkerfi líffræðinnar? Linnaeus var óneitanlega hugsuður — sem má sjá glögglega í kenningu hans um flokkunarfræði, þar sem mannkyn er einfaldlega dýr eins og önnur dýr, sett í sama stall og Prímatarnir sem við líkjumst svo — en það er svo annað mál hvort hann hafi beitt heimspekilegri nálgun í röksemdum sínum fyrir þessarri tilteknu ákvörðun. Ég er þó enginn sérfræðingur í Linnaeus og ætla því ekki að kafa mikið dýpra í vangaveltur um hann sjálfan. Það er hins vegar annað dæmi um persónu sem lengi hefur verið deilt um hvort sé heimspekingur eður ei, dæmi sem ég er kunnugri um en hvað varðar dæmið um Linnaeus (sem er af fæstum metið sem vafamál). Dæmið sem ég vísa til varðar rithöfundinn umdeilda — hina sovésk-bandarísku Ayn Rand.

Í verkum sínum lýsir Rand heimi þar sem einstaklingsframtakið er frumuppspretta alls þess sem meta mætti sem gott, en það situr undir árásum frá „statisma“ og sameignarstefnu. Skáldsögur Rand eru óneitanlega stútfullar af hugmyndum — hvaða lesandi sem er getur séð það með því að lesa svo mikið sem 10 blaðsíður eftir hana. Þó færa margir rök fyrir því að Rand sé einfaldlega ekki heimspekingur. Hún skrifaði vissulega um hugmyndir sínar um heiminn og siðferði, en eins og við höfum gert skýrt er það eitt að skrifa um hugmyndir sínar ekki eitt og sér nóg til þess að teljast heimspekingur.

Ég er ekki alveg viss um hvort mér persónulega finnist Rand vera heimspekingur eður ei — því mér finnst röksemdafærslur hennar hreint út sagt skelfilegar, en lélegar röksemdafærslur gera mann ekki að ekki-heimspekingi — í besta falli gera þær mann að afskaplega slælegum heimspekingi. Meðal þeirra sem hafa tekið í sundur röksemdafærslur hennar á sannfærandi og (tiltölulega) tæmandi hátt er Robert Nozick, hægrisinnaði stjórn- og heimspekingurinn sem frægastur er fyrir rit sitt Anarchy, State and Utopia. Nozick tekur fyrir röksemdafærsluna á bak við siðferðiskenningu Rand og togar hana í sundur á saumunum í elleftu grein bókar sinnar, Socratic Puzzles. Ég hyggst ekki fara nánar út í gagnrýni Nozick hér en þið getið smellt hér (PDF, ca 2mb) til þess að hala niður greininni og lesa hana sjálf. 

Annað gott dæmi um rithöfund sem jaðrar við að vera heimspekingur en er það samt eiginlega ekki í skilgreiningunni sem ég útlista hér að ofan er Þórbergur Þórðarson. Eins og hann segir sjálfur í Bréf til Láru, verki sem er stútfullt af hugmyndum og vangaveltum: „Ég er skáld og fræðimaður, heimspekingur og meistari í orðsins list.“ Þýðir sú óneitanlega staðreynd að Bréf til Láru sé stútfull af hugmyndum að Þórbergur hafi verið heimspekingur? Mér virðist þessi spurning vera dálítið illa uppsett. Spurningin ætti raunar frekar að vera í þessa átt: framkvæmir Þórbergur rannsóknina? Nei, það gerir hann ekki. Það eitt og sér dregur ekkert úr gildi hans sem rithöfundar eða listamanns eða hugsuðar eða mannveru — en að mínu mati er víst að hann sé ekki heimspekingur. Hið sama gildir um Ayn Rand og Carl Linnaeus og Jackson Pollock og Isaac Newton og Pablo Picasso og … — þau eru hugsuðir, en þau eru ekki heimspekingar fyrir vikið. Listinn heldur svo auðvitað áfram.

Mörgum virðist það vera kappsmál að koma öllum í skilning um að fólk sem það dáist að geti talist heimspekingur bara vegna þess að það hugsaði — og það stafar líkast til af einhverri vitsmunalegri virðingu eða ákveðnum orðstír sem skilgreiningin hefur í för með sér — eins og maður verði skyndilega að taka einhvern alvarlega eða jafnvel á orðinu, vegna þess að þau voru heimspekingar. Spurningin er þá sú hvort það sé ekki kominn tími til að taka þessi hugtök um heimspeki og heimspekingana sem iðka hana til ítarlegrar rannsóknar.

Eins og svo oft áður stend ég hjá á hliðarlínunum, óviss. Jafnvel dálítið kvíðinn. Heimspeki er mér hjartans mál, ef ekki lífsins mál — og ég spyr mig nánast daglega: „Er ég heimspekingur?“ Oft líður manni nefnilega eins og maður sé bara að þykjast. Hvað er ég að gera, þegar hugsuðir á borð við Platón „kláruðu heimspekina“ fyrir löngu síðan? Hvers vegna er ég, bara einhver gaur, að eyða tíma mínum í þetta — hvaða tröllatrú hef ég á sjálfum mér sem réttlætir það að ég sitji hérna og pári niður hugmyndir?

Í byrjun árs tók ég mér smá pásu frá vefsíðunni og samfélagsmiðlum almennt. Ég lokaði Twitter-aðgangnum mínum, forriti sem var að draga frá mér gífurlega orku, skapandi nær endalaust bergmál ókunnugra radda í höfðinu á mér. Mér fannst eins og allt sem ég hefði að segja væri gjörsamlega innihaldssnautt, innantómt — og mér líður ennþá þannig núna meðan ég skrifa þessar bollaleggingar. Kannski ætti ég bara að hætta þessu öllu saman, hugsa ég með mér — kannski er kominn tími til að þegja bara. 

Mér virðist nefnilega vera svo margt sem er einfaldlega ekki hægt að tala um — og að mengi þess sem ekki er hægt að tala um skarist allverulega við mengi hluta sem skipta máli. Í heimi sem slíkum, hvaða hlutverk hafa heimspekingar? Það er vegna áleitinna spurninga sem þessara sem ég hef varið dágóðum tíma í að líta inn á við og spegla mig í stöðuvatni sálar minnar. Síðan ég takmarkaði notkun mína á samfélagsmiðlum hefur öldugangurinn liðið nánast alfarið hjá og nú gárast yfirborðið nánast aðeins af hinum sjálfsögðu straumum sem samspil hita og kulda leiðir af sér — hreyfing lífsins sjálfs er innra með mér, og ég finn hana skýrar en nokkru sinni fyrr. Það er öryggi í því að finna það, en öryggistilfinningin er ekki endilega góðs viti. Forsenda heimspekilegrar hugsunar er nefnilega ekki öryggi. Forsenda heimspekinnar er fremur í ætt við undrun, áhættu og spennu — eitthvað sem maður þarf að taka að sér af hugrekki á hverjum einasta degi, faðmandi að sér óvissuna og efann.

Ég mun aldrei gleyma nokkru sem samnemandi minn sagði mér þegar ég var nýbyrjaður í heimspekinni í Háskólanum. Hann hafði spurt mig hvers vegna ég hefði nú valið heimspekina — ég svaraði einhverju á þá leið að ég teldi mig hafa svo margvíslegar hugmyndir sem ég vildi hugsa og skrifa um. Þá svaraði hann með glotti að ég yrði nú að passa mig að gera mér ekki neinar grillur: það væri búið að hugsa þær allar — fyrir löngu síðan. Ekki man ég hverju ég svaraði, en hefði ég kost á því nú myndi ég spyrja til baka: hvurn ósköpin ert þú þá eiginlega að gera í heimspekinni? Mér virðist heimspeki nefnilega vera einmitt það að horfast í augu við „kanónuna“ og stara ofan í djúp hennar: hér er ég og ég verð ekki skelfdur burt. Ég er nefnilega ég, og minn frumleika hafið þið aldrei séð fyrr. Frumleikinn minn passar ekki inn í nietzsche-íska aphorisma eða hegelsk kerfi, kierkegaardíska trúarriddara eða platónsk form — því frumleikinn minn er algjörlega minn eigin. 

Þetta er barnalegi og megalómaníski draumurinn sem ég vil eiga um heimspeki. Þetta er draumurinn sem ég krefst þess að fá að lifa og skapa. Ég hef ekki glóru um hver frumleikinn minn er — en það skiptir engu máli. Enginn listamaður hefur fullmótaða hugmynd um hvað mun á endanum spretta af fingrum þeirra og enginn vísindamaður getur séð fyrir niðurstöður rannsóknar sinnar með vissu. Það sem hefur merkingu í þessu lífi er að ríða á vaðið, leggja allt undir og svo einfaldlega duga eða drepast — þannig skapar maður sér líf, merkingu og tilgang. Þvert ofan í háðskar raddir, fjandsamlegar stofnanir, efasemdir sjálfsins og jafnvel þvert ofan í óraunsæja drauma um mikilfengleika. Allt verður að víkja fyrir sköpuninni. Þannig vil ég iðka heimspeki, þannig finnst mér að heimspekin eigi að vera.


Málverkið í haus heitir Among the Waves og er eftir Ivan Konstantinovich Aivazovsky frá árinu 1898.

Kaldhæðni og hreinskilni

Kaldhæðni og hreinskilni

Hvað er líf?

Hvað er líf?