Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Hvað er líf?

Hvað er líf?

Þessi pistill var upprunalega fluttur í útvarpsþættinum Lestin á Rás 1 þann 21. janúar 2018. Málverkið í haus heitir „Chimaku“ og er eftir Matsumura Goshun.

Lífið sjálft — eitt flóknasta en jafnframt einfaldasta fyrirbæri veraldarinnar. Við erum á lífi — ég, sem les, þið, sem hlustið og þau sem ekki hlusta — meðan allt sem er ekki lifandi er dautt eða dáið. Flesta daga vöknum við, borðum morgunmat, hlustum á tónlist á leiðinni í vinnuna og komum svo þreytt heim að kvöldi til án þess að gefa þessu fyrirbæri svo mikið sem dálítinn gaum — þessu lífi — en aðra daga getur það vakið umhugsun okkar, sérstaklega dagana sem eitthvað einstaklega slæmt eða einstaklega gott kemur fyrir okkur eða okkar nánustu. Lífið og jafnframt dauðinn ber á góma þegar einhver fellur frá og lífið verður manni hreint undursamlegt þegar barn er fætt. Það er á slíkum tímamótatíðum sem við veltum því helst fyrir okkur hvað það er að vera lifandi og að hrærast í þessum skrýtna heimi sem meðvituð lífvera. Í pistli dagsins hyggst ég hugleiða þetta undarlega líf — hvernig við skilgreinum það, sem hugtak, og hvort þetta hugtak gæti ekki verið öðruvísi.

Byrjum á því að kanna hið strangvísindalega hugtak um líf. Samkvæmt líffræðinni eru sjö eiginleikar sem allflestar lifandi verur sýna af sér. Þessir eiginleikar eru í fyrsta lagi samvægi — hæfileiki lífverunnar til að viðhalda stöðugu innra ástandi gagnvart áreiti — í öðru lagi skipuleg innri uppbygging — í þriðja lagi skipulögð efnaskipti, eða hæfileikinn til að breyta efni í orku og öfugt — í fjórða lagi stöðugur vöxtur lífverunnar — í fimmta lagi hæfileikinn til að aðlaga sig umhverfum og áreiti — í sjötta lagi svörun við áreiti — í sjöunda lagi æxlun. Lífvera, samkvæmt líffræðunum, er því verund sem er skipulegt ferli á hreyfingu sem viðheldur sér með því að breyta efni í orku og orku í efni, stöðugt vaxandi, stöðugt aðlagandi sig, svarandi fyrir sig og svo fjölgandi sér. Stórfurðuleg verund — en þrátt fyrir það hversu undarleg hún er virðist hún vera okkar allra fyrsti og allra síðasti raunveruleiki.

Þetta er mjög greinargóð skilgreining — nákvæm og tæmandi. Þrátt fyrir það — en einnig vegna þess að sjaldan getur skilgreining verið algjörlega fullkomin ef nokkurn tímann — eru til dæmi um verundir sem uppfylla sum þessara skilyrða en sum ekki. Þessar verundir eru því, ef svo mætti að orði komast, á jaðri lífs og dauða. Til dæmis má nefna veirur. Hvort eru veirur lifandi eða dauðar? Veirur búa yfir erfðaefni, fjölga sér og þróast gegnum náttúruval rétt eins og lífverurnar sem við þekkjum — en aftur á móti geta þær ekki viðhaldið efnaskiptum og krefjast þess að sníkja lífrænt far hjá öðrum frumum. Veirur geta því aðeins fjölgað sér með því að neita öðru lífi um líf sem slíkt — rífandi heilbrigðar frumur í sundur til þess að vinna úr þeim efni svo veiran geti „fjölgað“ sér.

Annað dæmi um verund á jaðri lífs — sem er þó ef til vill talsvert langsóttara — er hin svokallaða príóna. Príónur eru eiginlega próteinhrúgur sem hafa undarlega, jafnvel krumpaða uppbyggingu. Þær hafa hæfileikann til þess að breyta reglulega góðum og náttúrulegum próteinum í snúin og beygluð prótein, og geta haft verulega slæm áhrif á líkamann með því að gera það. Sjúkdómurinn sem kenndur er við kúariðu er alfarið príónum að þakka — sjúkdómur sem skemmir heilavefi og gerir þá svampkennda og götótta. Príónur eru varla lifandi vegna þess að þau eru bara próteinklasar — en samt finnst okkur eins og þau búi yfir einhverri lífssýnd. Þau virðast nánast vera lifandi — það er sem það sé tilgangur á bak við þetta ferli þeirra er þær fljóta um líkama og skapa meira af sjálfum sér og minna af líkamanum sem þær skemma.

Mögulega höfum við komist að einhverju með því að hugsa um þessi jaðartilfelli. Spurningin ætti kannski að vera þessi: hvað er líf fyrir okkur? Ég meina ekki að það sé fyrir okkur í þeim skilningi að það standi í vegi fyrir okkur — heldur meina ég það þannig að líf sé eitthvað sem birtist okkur, eitthvað sem við greinum og skiljum og reynum að ná tökum á sem hugmynd um ferli í náttúrunni. Það er einmitt í þessum jaðartilfellum sem hugmynd okkar um hvað líf er fyrir okkur, fyrirbærið líf, hristist dálítið — við erum allt í einu ekki alveg jafn viss um það hvað þetta hugtak felur í sér. Við ættum því kannski að beita einfaldri fyrirbærafræðilegri nálgun á okkar hversdagslegu reynslu af lífinu. Fyrirbærafræði snýst um að reyna að skilja hlutina eins og þeir birtast okkur — að leyfa hlutunum að kynna sig fyrir okkur upp á nýtt, vera opin fyrir þeim, leyfa þeim að afhjúpa sig eins og þeir birtast okkur í fyrstu persónu.

Byrjum þá á byrjuninni — í fyrstu persónunni. Líf er í fyrsta lagi eitthvað sem við gerum, eitthvað sem við framkvæmum með líkamanum — en jafnframt eitthvað sem ber fyrir okkur utan líkama okkar. Líf okkar er til dæmis athafnir okkar — jafnvel einföldustu athafnir eins og að anda, drekka, sitja, hugsa — hlutir sem við gerum ósjálfrátt — eru undirstaða lífs okkar. Líf birtist okkur sem hreyfing — ef ekki hreyfing líkamans, þá sem hreyfing hugans. Jafnvel þótt við séum djúpt sokkin í hugleiðslu virðumst við samt flæða gegnum tímann — við erum á hreyfingu, líf okkar er hreyfing okkar gegnum rúmtímann. Við leyfum lífinu að birtast okkur í þessum einfaldleika og við kunnum ef til vill betur að meta það fyrir allt sem það felur í sér. 

Við tökum líka eftir því að við sjáum líf fyrir utan líkama okkar. Aðrir hlutir en við eru á hreyfingu — fólk, gæludýr, smáfuglar — og við lærum af einfaldri hversdagslegri reynslu að þessi fyrirbæri eru ekki bara hlutir. Hlutir eins og steinvala eða snjókorn eru vissulega á hreyfingu, rétt eins og það sem við köllum líf, en hreyfingin er öðruvísi. Hreyfing þess sem er lifandi virðist skipuleg, hún virðist skiljanleg. Hreyfing lífs eins og það birtist okkur utan við okkur er sambærileg okkar eigin hreyfingu. Líf virðist hafa stefnu og kraft þegar við fylgjumst með því, einskonar lífsvigra — það er sem það hafi innri tilgang. Náttúrufræðin leitast að því að kortleggja þessar hreyfingar í ákveðin og fyrirsjáanleg mynstur: hinn eða þessi fugl flýgur ávallt suður á veturna til þess að flýja kuldann, þessi tiltekna flugutegund leitar frekar uppi spendýr en skriðdýr í blóðþyrstri leit sinni vegna þess að...

Tilgangur er eitthvað sem við kynnumst fyrst í okkar eigin lifandi líkömum — við gerum hluti til þess að…, þ.e. við gerum hluti þannig að eitthvað æðra markmið liggur hlutunum að baki: við setjum hluti upp í okkur, kremjum þá milli tannanna og kyngjum þeim til þess að vinna úr þeim orku, viðhalda lífi okkar til skamms tíma svo við getum fjölgað okkur eða álíka  — og svo framvegis. Tilgangurinn, til-þess-aðið, sem hér um ræðir, er eitthvað sem við finnum í öllu lífi. Þetta passar jafnvel að hluta til við ströngu skilgreininguna sem líffræðin hefur fært okkur: skipuleiki, viðhald jafnvægis, vöxtur og æxlun gegnum efnaskipti.. Það er þessi skipulega hreyfing, þessi ætlunarkennda verðandi — þetta getur verið heimspekilega skilgreiningin okkar á lífi — eilítið andlegri og merkingarþrungnari en strangvísindalega efnishyggjuskilgreiningin sem við könnuðum í byrjun pistilsins.

Þýski hughyggjuspekingurinn Hegel gerði stutta grein fyrir fyrirbærinu sem er okkur svo umhugað í dag í verki sínu Fyrirbærafræði andans. Hegel er þekktur fyrir að vera flókinn í máli, sem sumum finnst leiðinlegt og þreytandi, en er að mínu mati það sem gerir hann svo skemmtilegan og áhugaverðan aflestrar. Í Fyrirbærafræði andans — sem ber að nefna að er ekki fyrirbærafræði á sama hátt og við gerðum grófa tilraun til að framkvæma hér áðan — talar Hegel um að eðli eða innsti kjarni lífs sé óendanleiki — óendanleiki sem stafar af því hvernig eitt form tekur stöðugt og endalaust við af öðru — og að þetta óendanlega innsta eðli lífsins sé eins og fastur kjarni sem einstök form lífsins snúast í kringum er þau bráðna inn í og út úr hvoru öðru líkt og hringirnir kringum Satúrnus. 

Eins og ég segi — ansi flókið dót! Hegel heldur svo áfram og skilgreinir líf betur og á nákvæmari hátt sem er stórskemmtilegt og gefandi að lesa. Við þurfum þó ekki að fara sömu dýptir og Hegel þegar við veltum lífinu fyrir okkur — það dugir að taka sér tíu mínútur, setjast á bekk og horfa á mannfólkið koma og fara, velta fyrir sér innri lífsvigrum þeirra, tilgangi þeirra og ætlun, og fara svo og fá sér góða samloku. Ekki gleyma svo að huga að andardrættinum. Súrefni, þótt nafnið kunni að benda til annars, er nefnilega aldrei jafn sætt og að langri íhugun um lífið lokinni.

Um heimspekina

Um heimspekina

Listræn upplifun og hrif

Listræn upplifun og hrif