Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Kaldhæðni og hreinskilni

Kaldhæðni og hreinskilni

Þessi pistill birtist fyrst í útvarpsþættinum Lestin á Rás 1 þann 28. febrúar 2018. Málverkið í haus heitir La reconnaissance infinie og er eftir René Magritte frá árinu 1963.


Mér hefur lengi verið minnisstæð dálítil þroskasaga sem vinur minn sagði mér af bróður sínum. Þessi tiltekni vinur minn hefur alltaf haft frekar sterka tilhneigingu til að beita fyrir sig kaldhæðni og segja hluti í háði — og þessi tilhneiging vinar míns til kaldhæðninnar fór alltaf langt yfir höfuðið á litla bróður hans, sem var á þessum tímapunkti bara barn, tíu eða ellefu ára gamall. Tíminn leið og yngri bróðirinn varð eldri, sem varð til þess að líkami hans hóf þetta undarlega ferli sem við kennum við kynþroska — allskyns straumhvörf urðu í líkama hans og hug á frekar stuttum tíma. Eitt af því sem breyttist var einmitt skynjun hugarins á merkingu setninga: það sem áður hafði aðeins eina merkingu gat nú haft margræða merkingu. Skyndilega varð bróðirinn yngri var um að allar setningarnar sem eldri bróðirinn sagði í kaldhæðni voru eiginlegar ekki-setningar — það sem hann sagði og það sem hann meinti áttu í andhverfum venslum. Þegar hann sagði að bíómyndin sem hann hafi verið að horfa á væri „alveg geggjuð“ var hann í reynd að segja að hún væri þvert á móti hræðilega leiðinleg og óspennandi. Heill nýr merkingarheimur hafði opnast fyrir honum. Virk kaldhæðni eins og við notum hana hversdagslega gengur einmitt út á þetta — að tvístra rödd meiningarinnar þannig að einföld setning opni á margræðni fyrir þeim sem hafa skilning til að sjá margræðnina og kunna að meta hana sem slíka. 

Það er vert að nefna að orðið „kaldhæðni“ er í sjálfu sér margrætt. Það má skilja það bókstaflega, sem „kalt háð“, en það má líka skilja það sem kaldhæðni sem sprettur upp úr tilteknum mótsagnakenndum eða sjálfstilvísandi aðstæðum — eins og kaldhæðnin í aðstæðum hjónabandsráðgjafans sem er að ganga í gegnum skilnað, svo dæmi sé nefnt. Í ensku eru hugtökin „irony“ og „sarcasm“ greind í sundur, en við erum ekki svo heppin að búa við slíkan hentugan greinarmun hér á Íslandi, því við þurfum að nota orðið „kaldhæðni“ í báðum tilvikum. Það er því „kaldhæðni“ bæði þegar einhver beitir henni fyrir sig meðvitað, eins og orðið „sarcasm“ gefur í skyn, jafnt og þegar hún sprettur upp ósjálfrátt eins og úr aðstæðum eða þegar hún tekur á sig form fjarlægðar, en þær birtingarmyndir ættu frekar að heita „irony“. Þótt bæði formin séu áhugaverð og óhjákvæmilega spyrt saman í þetta almenna „ástand“ finnst mér það síðarnefnda, það sem á ensku kallast „irony“ miklu áhugaverðara.

Sókrates, svo gott dæmi sé nefnt, beitir fyrir sig kaldhæðni á mjög áhrifaríkan hátt þegar hann biður sófistana í Aþenu til forna að gjöra svo vel að útskýra fyrir sér hvað hið góða eða hið réttláta væri. Hann þykist vera fávís og vita ekkert um hvað umræðan snýst til þess að skapa hjá viðmælendum sínum falskt sjálfstraust sem hann rífur svo niður í gegnum þrætubókaraðferðina frægu. Þetta skrifaði danski heimspekingurinn Søren Kierkegaard um í doktorsritgerð sinni, sem fjallar um hugtak kaldhæðninnar. Þar hélt hann því fram að kaldhæðin heimspeki Sókratesar væri óendanleg og algjör neikvæðni. Þetta virkar rosalega háfleygt og flókið en er í raun bara heimspekileg leið til að lýsa því að kaldhæðnin sem Sókrates beitti fyrir sig hafi hvorki verið uppbyggileg né markviss — það er, hún neitaði öllu því sem fyrir hana bar í þágu einskis nema neitunarinnar sjálfrar. Það er margt til í þessari skilgreiningu. Sókratískar samræður enda oft í svokallaðri aporíu eða undrun. Aporía er grískt orð sem vísar til stemningarinnar sem þátttakendur samræðu upplifa þegar samræðan endar í óleysanlegri mótsögn. En nóg um Sókrates — í bili, allavega.

Snúum okkur frekar aftur að kaldhæðninni sjálfri. Kaldhæðni má lýsa frekar vel sem einskonar fjarlægð — þegar tungumálsnotandi er kaldhæðinn lýsir hann yfir ákveðinni fjarlægð milli sjálfs sín og yfirlýsingar sinnar. Ég kann að hafa sagt að bíómyndin sem ég sá hafi verið rosalega skemmtileg, og það er ekkert málfræðilega sem bendir til þess að ég meini neitt annað en það sem yfirlýsing mín þýðir bókstaflega — en það eru aðrir þættir eins og líkamsbeiting eða tónhæð eða samhengi sem eiga að gefa í skyn að yfirlýsing mín sé alls ekki öll þar sem hún er séð — eða heyrð. Þannig færi ég þungamiðju setningarinnar út úr henni — tilætlan mín liggur ekki í setningunni sjálfri, heldur í öllu sem umlykur hana. Ég slít merkinguna frá setningunni og geri hana að túlkunaratriði. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga þegar maður hugsar um kaldhæðni — þennan þátt fjarlægðar. Hann er, að ég held, lykilatriði í því að skilja hvernig kaldhæðni getur birst okkur í öðrum formum en setninga- eða textalegum.

Það sem ég meina með þessu er að kaldhæðni getur líka verið lifuð kaldhæðni. Manneskja sem lifir kaldhæðnislega lifir í einskonar fjarlægð frá því sem gerist í kringum sig — þau horfa upp á lýðræðislegar kosningar og sjá sér ekki fært að taka þeim alvarlega, hæðast að þeim, lýsa yfir kæruleysi gagnvart þeim, og svo framvegis. Kaldhæðni getur, á þennan hátt, verið einskonar varnarskjöldur sem gerir þeim sem beita honum fyrir sig kleift að fjarlægjast ábyrgð. Hreinskilinn metnaður fyrir útkomu atburðar, eins og virk þáttaka í kosningabaráttu, er á vissan hátt að taka á sig ábyrgð fyrir útkomunni — viðhorf metnaðarins virðist hafa það að forsendu að sá sem sé metnaðarfullur telji sig geta haft áhrif á útkomu atburðarins. Það er, til þess að hugsa „ég ætla að hjálpa flokknum mínum í kosningabaráttu,“ þá þarftu fyrst að gefa þér „framlag mitt getur haft mótandi áhrif á útkomu kosningabaráttunnar.“ Þetta á auðvitað við um margt annað en bara kosningar, en þær eru mjög lýsandi dæmi um það hvernig kaldhæðnisviðhorfið getur birst í hversdagslegum aðstæðum. 

Ég ætla ekki að ganga svo langt að halda því fram að þúsaldarkynslóðin eigi við kaldhæðnivandamál að stríða — en mér virðist sem kaldhæðni sé að færast í aukana, kaldhæðni sem lífstíll eða viðhorf, það er. Internetið er frjór grundvöllur fyrir kaldhæðni — vegna þess einmitt hversu fjarlægur maður er því sem maður segir á internetinu. Margir búa sér til ákveðna persónu sem þeir nota á netinu, meðvitað eður ei, og þessi persóna getur verið einskonar verkfæri til að fá útrás fyrir tilfinningar. Maður skráir sig bara inn, segir einhverja þvælu og afsakar hana svo við sjálfa sig á þeim forsendum að þetta sé bara kaldhæðni, að þetta merki ekki neitt, að maður sé nú kominn svo djúpt í kaldhæðnina að maður viti varla sjálfur hvað maður meini með því sem maður heldur fram. Ég held, án þess að geta fullyrt nokkuð um það, að þetta sé eitthvað sem sífellt fleiri upplifa. Ég veit að ég hef upplifað þetta, og geri það að vissu leyti enn.

Sérstaklega er frjór grundvöllur fyrir internetkaldhæðni á samfélagsmiðlum þar sem allir vilja láta taka sig alvarlega, eins og á Instagram eða á Facebook. Kaldhæðnin snýr þá að því að segja öðrum þátttakendum í miðlinum að sá kaldhæðni sjái í gegnum þessa yfirborðskenndu vinsældakeppni sem er samfélagsmiðillinn og fjarlægist hann með því að taka ekki alvarlega þátt í honum heldur með því að skopskæla hann og þykjast vera að „gera sitt besta“ ef svo má að orði komast. 

Það er kjarni í afstöðu kaldhæðninnar sem er óneitanlega sannur. Stundum verða samfélagsmiðlar aðeins of yfirborðskenndir og kjánalegir. Manni líður stundum hálf ógeðslega að skruna í gegnum sakkarín-slepjuna sem þeir geta orðið. Persónulega sveiflast ég frekar heiftarlega milli þess að finnast frábært að geta fylgst með fallegu vinum mínum á samfélagsmiðlum og þess að finnast ég ekki þekkja neinn sem birtist mér í fréttaveitunum vegna þess hve „hannað“ fólkið virðist — eins og allir séu með persónulegan upplýsingafulltrúa í vinnu fyrir samfélagsmiðlanotkun sína. Það getur orðið freistandi á tímum sem slíkum að draga sig bara í hlé með fjarlægt háðsglott, hlæjandi að flónskunni og lýsandi þar með yfir að maður sé yfir þessa vitleysu hafinn. Spurningin er þó hvort það sé raunverulega það sem við viljum. Hvort kaldhæðni sé ekki í grunninn bara ótti — ótti við að reyna að stofna til raunverulegra mannlegra samskipta og verða hafnað, óttinn við að mistakast það sem maður gaf svo mikinn metnað, tíma og orku í að gera að raunveruleika. Spurningin er hvort kaldhæðnin sé lausnin, eða lausn yfir höfuð.

Getur verið, til dæmis, að hreinskilni og hugrekki séu betri viðbrögð við áskorunum raunheimsins en fjarlægð kaldhæðninnar? Gæti verið að það sé, þegar uppi er staðið, betra að hafa reynt og mistekist en að hafa haft rétt fyrir sér með smeðjulegt glottið í fjarskanum? Kaldhæðna viðhorfið er auðvitað ekki bara hlífiskjöldur — það getur líka verið retórísk taktík, bókmenntaþema og einfaldlega aulalegur og saklaus húmor, og fyrir sumum getur kaldhæðni líka verið verkfæri til að ráða við geðsjúkdóma eða sálræn áföll. En þegar kaldhæðni er í sjálfri sér farin að aftra okkur í leit okkar að merkingarbærum samböndum við annað fólk getur verið að það sé tími til kominn að endurskoða afstöðu okkar til umheimsins. 

Ég legg því til að við fylkjum okkur saman undir gunnfána hreinskilninnar — bæði gagnvart sjálfum okkur og við heiminn í kring. Reynum okkar besta að opinbera okkur við heiminn, að tjá það sem okkur raunverulega finnst þegar okkur finnst það, að leyfa sjálfum okkur að mistakast og að læra af mistökunum. Ég skal vera hreinskilinn: það er mjög erfitt að treysta öðru fólki og jafnvel að treysta sjálfum sér stundum. En mér finnst samt að við ættum að gera okkar besta. Þið, kaldhæðnu systkini mín — ég tala til ykkar! Bræðum ísinn, færum okkur nær og hlæjum með, í stað þess að hlæja að.

Að grípa heiminn með huganum

Að grípa heiminn með huganum

Um heimspekina

Um heimspekina