Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Trú og átrúnaður

Trú og átrúnaður

Öll trúum við einhverju. Við trúum því að við sjálf séum til, við trúum því að jörðin snúist kringum sólina, við trúum því ef til vill að það sé eftirsóknarvert að vera dygðugur. Sum okkar trúa því svo, sem annað er, að til sé almáttugur Guð, skapari himins og jarðar, sem drottnar yfir okkur. Það væri freistandi að segja sem svo að hér sé um að ræða eitt og sama fyrirbærið í öllum þessum tilfellum, hugarástand sem ljáir meðvitundinni einskonar vissu um sanngildi ákveðinna yrðinga um veruleikann. Þannig væri ef til vill stigsmunur, en enginn eðlismunur, á því að trúa því sem Biblían segir um þennan almáttuga Guð og svo að trúa því sem maður sér með eigin augum, eins og að það sé sól úti.

En getur virkilega verið að um sama hugarástandið sé að ræða? Ég vil meina að svo sé ekki, að minnsta kosti ekki milliliðalaust. Að mínu mati verða trúarleg trú og hversdagsleg, þekkingarfræðileg trú, ekki skilin nema sem tvö eðlisólík hugtök, jafnvel þótt þau standi í órjúfanlegum venslum hvort við annað og geti illa staðið á eigin fótum án hins. Ég ætla að reyna að rannsaka þetta nánar í pistli dagsins. Byrjum á því að útlista hvað það er nákvæmlega þegar maður trúir einhverju á þennan hversdagslega máta og snúum okkur því næst að því hvernig maður trúir einhverju eins og maður trúir á Guð.

Hversdagsleg trú er eiginlega betur skilin undir hugtakinu átrúnaður en sem trú, sem hefur guðfræðilegri keim. Það er þannig betra að segja að ég leggi átrúnað á sanngildi einhverrar staðreyndar eða safn yrðinga, sem fullyrða eitthvað um ástand eða atburð í veruleikanum. Þegar ég legg átrúnað á yrðingu á við „það er sól úti“ geri ég það í krafti einhverra ástæðna, einhverra forsenda — sem gerir þekkingu mína áþekka niðurstöðu röksemdafærslu.

Átrúnaður um staðreyndir grundvallast þannig á einhverju á við skynreynslu eða vitnisburð annarra. Átrúnaður minn á setninguna „það er sólríkt úti“ er þannig byggður á því að ég sjái sólina út um gluggann, eða finni fyrir henni á húð minni. Svo virðist sem hugtakið átrúnaður lýsi einna helst einskonar sanngildisstyrkleika skoðunar sem við höfum í ljósi sannana eða ástæðna sem við höfum fyrir þessari skoðun. Átrúnaður er því fyrst og fremst eins og afurð sem framleidd er úr ákveðnum hráefnum, eða eins og niðurstaða sem leidd er af ákveðnum forsendum.

Hugtakið trú, aftur á móti, sem hefur þennan guðfræðilegri keim, virðist algjörlega eðlisólíkt þessum hversdagslega þekkingarfræðilega mælikvarða. Að trúa er nefnilega ekki það sama og að telja sig vita eitthvað, eins og ég gæti trúað því að það væri sólríkt úti, heldur lýsir trú fremur allt öðru hugarástandi. Það að vera viss og að vera sannfærður er þó óneitanlega hluti af þessu hugarástandi, en ég vil meina að það sé fremur þannig að trúin komi fyrst og sannfæringin síðar — sem er öfugt við það sem gerist í átrúnaði.

Munurinn er sá að þegar við leggjum átrúnað á einhverja yrðingu metum við átrúnaðinn í ljósi staðreynda málsins, sem koma fyrst, — en þegar við trúum hefjum við rannsókn okkar á trúnni og höldum svo þaðan í átt að staðreyndunum sem við okkur blasa. Þannig taka staðreyndir heimsins á sig miskunnsaman og guðlegan blæ í augum þess sem trúir, löngu áður en þessar staðreyndir birtast þeim. Trú er því fyrst og fremst eins og grundvöllur sem við byggjum og metum allt annað á, hún er eins og frumsenda sem við gefum okkur án sönnunar sem ákvarðar svo það sem á eftir kemur.

Nú þegar þessi útlistun hefur verið gerð á hugtökunum tveimur er þess vert að snúa aftur að upprunalegu spurningunni, sem snerist um greinarmuninn á átrúnaði og trú. Átrúnaður, sögðum við, var eins og niðurstaða sem leidd var af ákveðnum forsendum. Trú, aftur á móti, sögðum við að væri eins og frumsenda sem réttlæti allar gildar forsendur. Þetta er vissulega gildur greinarmunur að því leytinu til sem hann heldur þessum mismunandi hugtökum aðskildum og skýrir þau, en ef við látum þar við sitja missum við af stærra samhenginu, djúpstæða sannleikanum. Okkur ætti nefnilega að verða ljóst að við nánari athugun hrynur þessi greinarmunur til grunna.

Trú verður nefnilega að innihalda átrúnað sjálf — trúarleg upplifun sem slík er reynsla, og trú er alltaf niðurstaða sem við komumst að. Engum er kleift að fæðast með þekkingu á Guði, hún er lærð — það er, hið trúarlega er alltaf niðurstaða sem við komumst að í krafti vitnisburðar annars fólks sem og í gegnum okkar eigin upplifanir. Þrátt fyrir það verður þessi uppljóstrun, hin trúarlega opinberun, til þess að hún réttlætir eiginlega sjálfa sig. Þegar vitundarveran kemst að þeirri niðurstöðu, í gegnum átrúnaðarferli, að Guð sé hið sanna, þá umbreytist niðurstaðan, Guð, og verður að frumsendu átrúnaðarferlisins. Raunin er því sú að sönn trú á sér ekki stað nema gegnum átrúnað, og að sannur átrúnaður á sér ekki stað nema í gegnum trú.

Átrúnaður verður nefnilega alltaf að hugsa sér einhvern byrjunarpunkt, einhverja frumspekilega frumsendu, einhverja trú, þótt þessi trú hafi ef til vill ekki hinn gyðing-kristna Guð að innihaldi. Gott dæmi um sjálfsréttlætandi átrúnaðarmyndun af þessu tæi, sem ekkert hefur með Guð að gera, er hin eftirsóknarverða gagnrýna hugsun. Okkur er kennt að hugsa á sjálfstæðan máta og reyna að mynda okkur skoðanir á gagnrýnan máta, og það er auðvitað frábært, en aðferðafræðilega séð getur gagnrýnin hugsun aðeins verið réttlætt af gagnrýninni hugsun sjálfri. Það er aðeins með því að rannsaka hina gagnrýnu hugsun sjálfa með verkfærum gagnrýninnar hugsunar sem við getum komist að því að hún sé réttlætanleg. Þannig myndast sami hringur og þegar við komumst að því að átrúnaður kristinna yrði aðeins afturvirkt réttlættur eftir að Guðstrúnni hefur verið náð.

Niðurstaða okkar hlýtur þá að vera þessi. Trú og átrúnaður eru ekki eitt og sama hugarástandið, heldur lýsa þau mismunandi þekkingarfræðilegum ferlum, en eru þó órjúfanlega samtengd. Til þess að geta réttlætt átrúnað verður vitundarveran að vísa til einhverrar innri trúar, hvort sem þessi innri trú er Guð, hin gagnrýna hugsun eða annarskonar frumsenda eða grundvöllur. Þrátt fyrir það verður innri frumsendunni alls ekki náð án tilvísunar í ytri átrúnað, hvort sem hann er fenginn með beinni reynslu eða í gegnum menntun.

Þegar allt kemur til alls er það þó aldrei nema hitt heildræna ferli, þekkingaröflunin sjálf, sem réttlætir og grundvallar bæði átrúnaðinn og trúna. Hreyfingin milli frumsendu og niðurstöðu er gagnvirk og í stöðugu flæði, stöðugri endurskoðun, svo lengi sem við lifum. Þannig getur maður misst trúna, eða tekið hana upp. Maður getur orðið fyrir mikilfenglegum og djúpstæðum breytingum, hlotið andlega uppvakningu, uppljómun jafnvel. Orðið eins og ný manneskja, eða bókstaflega orðið ný manneskja, ekkert eins og.

Að iðka heimspeki, að ástunda gagnrýna hugsun, eða að iðka trúarbrögð — öll eru þessi athæfi því af sama meiði. Þau eru nálganir að virkri umbreytingu manneskjunnar, menntunar hennar og þroska. Við getum öll þroskast, sama hversu gömul við erum, vegna þess að við mannfólkið erum mótanlegar verur. Við erum stöðugt ferli, vitundarflæði, efnaskipti og orkumiðlun. Okkur væri vert að muna þetta og hugsa reglulega til þess — og gera hana svo að hjarta okkar mikilvægustu samfélagsstofnana.

Frumspeki Hegels: Fyrirbærafræði andans og Rökvísindin

Frumspeki Hegels: Fyrirbærafræði andans og Rökvísindin

Um Hume og Homo Habitus

Um Hume og Homo Habitus