Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um Hume og Homo Habitus

Um Hume og Homo Habitus

Mannleikinn er mörgum heimspekingum hugleikinn, enda margslunginn og alvöruþrunginn. Einn áhrifamesti heimspekingur nýaldar, heimspekingur sem situr fastur í flestum sem lesa hann af alvöru, er David Hume. Hann færði heimspekinni afar verðmæta innsýn í hugtak orsakarinnar, afar mannlegt hugtak — og innnsýn hans var einstaklega nýstárleg og djúpstæð. Hún var innsýn sem við bjuggum einfaldlega ekki við áður. Mig langar aðeins að segja ykkur frá þessari innsýn Hume, og í kjölfar þess ætla ég að viðra nokkrar af mínum eigin vangaveltum um það hvað þessi innsýn kann að segja okkur um mannlegt eðli, mannleikann.

Byrjum þá á því að tala um þetta hugtak, orsökina. Orsök, í afar stuttu máli, snýst um áhrifavald fyrirbæra á önnur fyrirbæri. Þegar golfkylfa sveiflast og skellur á golfkúlu orsakar hún flug kúlunnar gegnum loftið. Við getum tiltölulega auðveldlega sagt svona hluti, setningar eins og „golfkylfan orsakaði flug golfkúlunnar“ eftir að atburðirnir gerast — við sáum það bara, einn hlutur gerðist, og svo gerðist annar hlutur. En hvernig erum við eiginlega viss um að golfkylfa sem slegið er í golfkúlu orsaki flug golfkúlunnar? Það er hér sem stærsta innsýn Hume kemur til leiks, ákveðin efasemdarhugsun sem fleytir manni býsna langt heimspekilega séð. Hann hélt því fram að orsök atburðar og afleiðingar hans væru alls ekki röklega tengdar, að það væru engin nauðsynleg orsakatengsl milli orsakar og afleiðingar tiltekins atburðar. Samkvæmt Hume er því ómögulegt að segja að einn atburður orsaki annan nauðsynlega. Það er að segja, við getum ekki reitt okkur á það að golfkúlan muni fljúga eftir að golfkylfunni hefur verið sveiflað.

Við getum tekið einfaldara dæmi — þá staðreynd að sólin rísi á morgnana. Hvers vegna erum við svona viss um að sólin komi alltaf upp á morgnana? Við gætum haldið því fram að við höfum gert vísindalegar athuganir — mælt massa sólarinnar, mælt feril jarðar umhverfis sólu, tekið eftir snúningi jarðar um eigin möndul — og haldið því fram í krafti allra þessara mælinga og í ljósi ákveðinna eðlisfræðilegra lögmála að sólin muni rísa á morgun. Við getum jafnvel verið dálítið fífldjörf og sagt að það sé algjörlega og eitt hundrað prósent öruggt að sólin muni rísa á morgun og leyfa okkur náðarsamlegast að njóta geisla sinna. Hume gamli gæti ekki sammælst okkur í þessu. Í hnotskurn er innsýn hans sú að það sem við köllum orsök sé ekkert annað en það sem við erum vön að sjá gerast. Í krafti reynslu okkar af fyrirbærum heimsins og minningum okkar af þessum reynslum myndar hugurinn vensl milli þessara fyrirbæra í ákveðinni röð — og þetta er það sem við köllum orsök.

Samkvæmt Hume er því tæknilega séð ekki hægt að fullyrða að golfkúlan fljúgi vegna þess að golfkylfan skall á henni. Aðeins er hægt að segja að af minningum okkar og reynslu séum við vön því að sjá atburði milli fyrirbæra á við högg golfkylfunnar koma á undan atburðum eins og flugi golfkúlunnar. Hið sama gildir um vísindalegu athuganirnar sem við töldum upp áðan — Hume myndi segja við því að þar eð allar þessar vísindalegu athuganir okkar byggja á liðnum atburðum, það er, reynslu okkar og vana, séu þær ekki öruggar forsendur á hverjum við getum byggt öruggar spár um framtíðaratburði.

Hugmyndir Hume eru að mörgu leyti auðmýkjandi — þær geta þjónað sem móteitur gegn dramblátum mannleikanum sem telur sig geta gert hvað sem er, haft vald á orku og efni og tíma og rúmi. Þessi mannleiki, mannleikinn sem ég hóf pistilinn á að tala um, er dálítið sérkennilegur — okkur virðist sem það sé ansi erfitt að finna nokkuð sem er honum sambærilegt í náttúrunni. Eitthvað segir mér, og það kann að vera að Hume og hugmyndir hans séu að segja mér það — en eitthvað segir mér að mannleikinn hafi einmitt einna helst með það að gera að mannfólk sé fært um að muna eftir reynslu sinni og búa til tengingar á milli fyrirbæra. Kannski mætti jafnvel orða þetta svo að mannfólk sé fyrst og fremst fært um að venjast því sem gerist, venjast heiminum í kringum sig.

Vani — að venjast einhverju — þetta er að ég held hugtak sem leynir á sér. Ég er vanur því að vakna á morgnana og fá mér strax vatnsglas, svo vanur því raunar að mér þætti óþægilegt að geta ekki fengið mér vatnsglasið mitt. Flest höfum við einmitt eitthvað sem við köllum rútínu, dagskrá, eitthvað sem stillir lífi okkar upp í formgerð eða röðun sem gerir okkur kleift að búa við fyrirsjáanleika. Að vera vanur einhverju er einmitt að þekkja það, að vita með einhverju öryggi hvað mun gerast. Þess vegna líður okkur flestum óþægilega þegar við erum óvön einhverju, þegar okkur er þrýst út í djúpu laugina.

Þróunarsálfræðileg nálgun gæti ljáð okkur þá tilgátu að forfeður okkar hafi einmitt lifað af vegna þess að þeim fannst hið óþekkta óþægilegt, að þeir hafi getað eignast afkvæmi vegna þess að þeim þótti betra að lifa lífinu á kunnuglegan máta. Undir slíkri tilgátu væru forfeður okkar því líkast til ekki þeir sem lifðu hættulega, heldur þeir sem fóru varlega, ferðuðust frekar troðnar en ótroðnar slóðir. Þessi þrá eftir því að þekkja hið óþekkta, fýsnin eftir því að lýsa upp hellinn vegna þess að maður vill ekki láta koma sér að óvörum, — kannski var þessi þrá vísir að, og jafnvel enn þann dag í dag grundvöllur, þessarar fróðleiksfýsnar sem svo mörg okkar finna. Við menntum okkur til þess að svala þessari fróðleiksfýsn, við forvitnumst, við ástundum vísindi, við rannsökum.

Homo sapiens, köllum við okkur. Forfeður okkar köllum við svo homo habilis, homo erectus — maðurinn standandi og maðurinn handlagni komu þannig á undan manninum hugsandi. Ef til vill er þetta síðasta nafn þó rangnefni — ef til vill erum við alls ekki maðurinn hugsandi. Kannski erum við miklu frekar maðurinn varkári, homo prudens, eða maðurinn vanafasti, homo habitus. Homo habitus — það hljómar dálítið vel! Hvað erum við ef ekki siðleg dýr, dýr sem nema ávana af hvoru öðru — vanaföst dýr? Þýski heimspekingurinn G.W.F. Hegel hélt því einmitt fram að hinn upprétti maður væri aðeins afurð vanans, hins ómeðvitaða og sjálfvirka vilja til þess að standa á tveimur fótum. Hafið þið aldrei hugsað ykkur hvers vegna í ósköpunum við stöndum upprétt? Hafið þið ekki velt því fyrir ykkur hvers vegna við notum hendurnar á þann veg sem við gerum? Út frá þessu sjónarmiði er hægt að segja að maðurinn upprétti og maðurinn handlagni séu ekki annað en tilbrigði við manninn vanafasta, homo habitus.

Franski heimspekingurinn Catherine Malabou, hverri ég á margar þessara hugmynda að launa, hefur einmitt leitt athygli að því hvernig vani er þjáll, plestinn, auðmótanlegur. Homo habitus, maðurinn vanafasti, er þannig einstök lífvera fyrir þær sakir að mannleg náttúra, mannleikinn sjálfur, er aldrei annað en hans annað eðli, á ensku second nature — eðli mannsins felst í áunnum eiginleikum hans: því sem hann er vanur. Við erum alls ekki mótuð í klöppina, við erum eins og leir í höndum okkar sjálfra. Þetta er fegurðin við mannleikann.

Að lokum vil ég þó benda ykkur á að þessi staðreynd, okkar eigin mótanleiki, okkar eigin plestni, er fagnaðartilefni. Ef hún reynist sönn og rétt er okkur nefnilega einmitt kleift að gera hvað sem er úr sjálfum okkur. Við getum orðið góðar manneskjur, mótað okkur góða siði. Við getum styrkt okkur og bætt út í hið óendanlega. Við getum hætt að skemma jörðina og útrýma dýrategundum. Við getum þekkt okkur í heiminum og kynnst sjálfum okkur betur í gegnum hann. Kannski ætti slagorð mannverunnar því að vera — ég kom, sá, og aðlagaðist.

Trú og átrúnaður

Trú og átrúnaður

Að endurtúlka endurkomuna — upp á nýtt

Að endurtúlka endurkomuna — upp á nýtt