Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Hugleiðing um tímaflakk og eilífðina

Hugleiðing um tímaflakk og eilífðina

Hvað ef þú gætir ferðast aftur í tíma? Hvað ef þú fengir eitt tækifæri til þess að breyta einhverju við líf þitt — atburðarásina sem þú hefur lifað? Myndirðu gera það? Hverju myndirðu breyta? Við höfum öll með tölu gert eitthvað sem við sjáum eftir að hafa gert — kannski vorum við breysk, dónaleg eða ómeðvituð um eitthvað sem hefði verið langtum betra að vera með á nótunum. Til að mynda hefðum við kannski átt að kaupa lottómiða þetta tiltekna kvöld í sjoppunni — kannski hefðum við átt að vera kurteisari við þessa gömlu kærustu — kannski hefðum við átt að vera duglegri að heimsækja eldra skyldmenni sem við héldum að ætti lengra eftir ólifað. Við óskum þess mörg hver að við gætum hafa gert eitthvað öðruvísi, ef aðeins við fengjum annað tækifæri til þess að reyna — ef aðeins maður gæti endurheimsótt aðstæðurnar og bara vitað aðeins betur. Í endurminningunni virðist þetta allt svo einfalt — maður sér alltaf miklu betur hvað maður hefði átt að gera eftir á að hyggja. Það er eins og baksýnisspegillinn sé skýrari en stýrið og framrúðan.

En ætli það sé almennt hægt að ferðast aftur í tíma? Þetta er spurning sem við sem tegund höfum haft á hornum okkar mjög, mjög lengi. Við höfum einhverja hugmynd um að við ferðumst í tíma, en bara eina leið — fram á við — og alfarið án þess að við getum tekið neina aðra stefnu. Við erum eins og eimreið á föstum teinum sem þýtur áfram með óstöðvandi skriðþunga og stefnu sem er alfarið óháð því hvað lestarstjóranum finnst um áttina sem brautin gæti farið. Það líklega í krafti þessarar tilfinningar um að okkur fleygi fram á við sem við getum ímyndað okkur einhvern röklegan möguleika á því að við gætum farið aftur á bak, rétt eins og við getum rennt leikfangalestum fram eða aftur eftir sömu teinunum. Auðvitað er þessi hugmynd lítið meira en bara tilfinning fyrir okkur flestum, svona hversdagslega, en samt sem áður vekur hún upp margar spurningar. Til að mynda gætum við spurt sjálf okkur að því hvort það sé almennt rétt að hugsa um tíma sem áþekkan járnbrautarteinum. Enn fremur gætum við velt því fyrir okkur, ef við samþykktum hugmynd um tímann sem beina og fasta braut, hvort það myndi almennt breyta nokkru efnislegu um aðstæður okkar að geta ferðast aftur á bak niður brautina. Við skulum aðeins velta þessu fyrir okkur í dag, bara stuttlega — svo tíminn renni nú ekki frá okkur, eins og honum á það til að vera tamt að gera.

Gefum okkur nú til að byrja með að vídd tímans sé áþekk einhverskonar járnbrautarteinum sem vísa í tvær áttir og að við séum aðeins fær um að ferðast eftir brautinni, hvort sem er fram eða aftur. Segjum enn fremur að við uppgötvum einn daginn fyrir sakir tækniframfara að okkur sé auðveldlega kleift að setja lestina í bakkgír — að okkur sé fært að láta hana rúlla aftur á bak niður teinana. Hvað myndi slíkt tímaferðalag fela í sér? Væri almennt hægt að tala um að skynja heiminn aftur á bak á sama hátt og við skynjum hann venjulega? Það er erfitt að hugsa sér hvernig það væri, vegna þess að við sjálf myndum nauðsynlega fara aftur á bak samtímis — við myndum ekki bara standa ósnert hjá og horfa á heiminn ganga aftur á bak eins og vísindaskáldsögur vildu stundum meina að það gæti virkað, er það nokkuð? Við myndum líka fara aftur á bak vegna þess að við erum efnislegt rúmtímaferli.

En allt í lagi — segjum að við höfum gert það — segjum að við höfum farið járnbrautarteinana aftur á bak og að við finnum okkur á einhverri örlagastund. Gætum við nokkuð gert eitthvað öðruvísi? Ég er ekki svo viss. Höfum í huga að til þess að komast frá nútíðinni til fortíðarinnar þurftum við að fara feril brautarteinanna sem við vorum alltaf á til að byrja með nema aftur á bak. Það eitt að hafa farið aftur á bak á þeim þýðir nefnilega alls ekki að ferill teinanna geti breyst fyrir það — þvert á móti höfum við aðeins komið því svo fyrir að við erum komin aftur til fortíðarinnar sem mun svo óhjákvæmilega leiða til framtíðarinnar, sem var auðvitað byrjunarreitur tímaflakksins okkar. Þannig munum við ekkert geta haft upp úr krafsinu, við munum ekki breyta neinu við ferilinn okkar. Við erum að meira segja ófær um að einu sinni vita að við höfum farið aftur í tímann vegna þess að við þurftum sömuleiðis að trekkja okkar eigin persónulegu tímaupplifun aftur á bak í takt við allan heiminn. Tímaflakkarinn er því ófær um að sjá neinn mun á fortíðinni eins og hún var lifuð fyrst og fortíðinni eins og hún var lifuð í annað sinn.

Raunar hefði slíkt tímaferðalag það líklega í för með sér að við festumst í óendanlegri hreyfingu þar sem við förum frá einum punkti til annars og ferðuðumst svo alla leiðina aftur í sífelldum hring, dæmd til þess að endurtaka hver ein og einustu mistök okkar í sífellu án þess að vita að við séum að gera það. Jafnvel núna gætum við verið að upplifa slíkan vítahring. Hugsið ykkur að árið 2050 verði hægt að fara aftur í tímann og að þú ákveðir þá að snúa aftur til ársins 2018, vegna þess að þá klúðraðirðu sénsinum með ástinni í lífi þínu. Tímaferðalagið heppnaðist, þú ert hérna núna — og hvað? Þú veist ekki einu sinni að þú hafir ferðast aftur í tímann, þú átt eftir að klúðra tækifærinu þínu aftur, og það sem meira er — þú átt aldrei eftir að fara handan ársins 2050 vegna þess að þú myndir alltaf snúa aftur til ársins 2018 í hvert skipti sem tímaflakkið er fundið upp á ný. Líf þitt endar því árið 2050.

Önnur hugmynd sem vert er að minnast á er að kannski sé okkur kleift að fara aftur í tímann á slíkan máta að það sé eins og við stökkvum gegnum rúmtímann og yfir hið liðna — og þá myndu vera tvær útgáfur af sjálfum okkur í fortíðinni sem við endurheimsóttum. En er þetta mögulegt, eða yfir höfuð skynsamlegt? Segjum að við stökkvum til fortíðar með það að markmiði að afstýra einhverju miður gáfulegu sem við gerðum — að við hoppum aftur til ársins 2008 með það að markmiði að gera sjálfum okkur ókleift að gera þetta heimskulega sem um ræðir. Getum við ekki sagt með algerri vissu til um það að okkur muni mistakast í áætlun okkar um að afstýra heimskulegu athöfninni? Er framtíðin þar sem við ákveðum að fara aftur til þess að afstýra fortíðinni ekki einmitt aðeins til komin vegna þess að fortíðin átti sér stað?

Jæja, þetta er orðið ansi flókið, dálítið snúið. Við ættum kannski ekkert að hugsa okkur tímann sem fasta járnbrautarteina. Kannski erum við að hugsa tímann í gegnum einhver hugtök sem eiga bara alls ekkert við raunverulegt eðli hans. Hvað ef það er einfaldlega vitlaust að hugsa tímann sem óendanlega seríu augnablika — hvert augnablik skilgreint sem afmörkuð eining? Hvað ef það fangar bara eina hlið á tímanum, eitthvað sem er hentugt en á endanum ófullkomið? Við erum mjög vön því að hugsa um tímann sem núna, núna, núna, núna — hvert „núna“ bundið í ákveðin seríuvensl við núin sem koma á undan og núin sem koma á eftir. Að gera þennan greinarmun er að greina á milli núna-núna og þá-núna, seinna hugtakið um þá-núna gildandi um framtíð sem og fortíð.

Kannski væri það snyrtilegra að hugsa um tímann sem eitt sívarandi núna í stað þess að hugsa um það sem seríu aðgreinanlegra núa. Núið sem varir alltaf er eiginlega heil eilífð — lifir maður þá ekki að eilífu þegar maður lifir í núinu? Er þetta ekki það sem núvitundarfólkið er alltaf að tala um? Kannski er eitthvað til í því. Er það ekki bara siðferðilegur lærdómur pistils dagsins — að í stað þess að festast í fortíðinni ættum við að njóta nútíðarinnar með alla ægifagra víðáttu tilverunnar frammi fyrir okkur — vitandi að hún varir alla eilífð, sama hvernig vegnar? Tja, skrambinn. Ég er ekki frá því að það gæti verið ágætt að klykkja út á því.

„Á ég að gæta bróður míns?“ — Hegel og Antígóna

„Á ég að gæta bróður míns?“ — Hegel og Antígóna

Hvert stefnum við?

Hvert stefnum við?