Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Hvert stefnum við?

Hvert stefnum við?

Hvert er markmið okkar sem tegund? Er það að fæðast, vinna, neyta, slæpast og deyja svo? Er það að göfga heiminn sem okkur er fleygt inn í? Er yfir höfuð hægt að tala um að tegund sem slík geti átt sér markmið — er það merkingarbær spurning? Það er, getum við mögulega dregið einhverja markmiðsályktun af þeirri staðreynd að við mennirnir séum til og deilum einhverjum sameiginlegum raunveruleika? Ég held að ég geti ekki svarað þessum spurningum, og ég held enn fremur að fæstir gætu það. Þó eru þau til sem telja sig fullfær um að svara slíkum spurningum — og meðal þeirra var rússneski heimspekingurinn Nikolai Fyodorovich Fyodorov. Hann var uppi á nítjándu öld og lést skömmu eftir byrjun þeirrar tuttugustu, og setti fram fremur róttækar kenningar um tilveruna og markmið mannkynsins meðan hann lifði. Hann hélt því meðal annars fram að markmið okkar væri í reynd ódauðleikinn — útrýming dauðans. Það er um hugmyndir þessa einstaka rússneska heimspekings, sem eiga talsverðan samhljóm við ýmsar nútímahugmyndir, sem ég ætla að fjalla um í pistli dagsins.

Ég kynntist hugmyndum Fyodorov fyrst í vísindaskáldsögu eftir finnskan rithöfund, Hannu Rajaniemi. Í skáldsögunni, sem heitir The Quantum Thief, eiga hinar ýmsu fylkingar í átökum um völd — og ein þeirra kennir sig við „Sobornost,“ rússneskt orð sem merkir andlegt samfélag þeirra sem lifa. Tilgangur hugtaksins Sobornost er að leggja áherslu á nauðsyn samvinnunnar gegn sundrandi áhrifum einstaklingshyggjunnar. Upphafsmenn hugtaksins, þeir Ivan Kireyevsky og Aleksey Khomyakov, töldu vestrænt samfélag fara hnignandi vegna þess að það einblíndi á hugmyndir um einstaklinginn, og vildu sporna gegn því í heimalandi sínu, Rússlandi. Samtökin í vísindaskáldsögunni höfðu tileinkað sér hugmyndir Fyodorov og höfðu það að markmiði að ná fullkominni mannlegri einingu með því að hlaða hugum allra upp í einskonar ský — eins og ef ég gæti vistað hug minn á Google Drive eða Dropbox.

Hugmyndum Fyodorov eru ekki gerð sérstaklega góð skil í skáldsögunni, þótt þær séu reifaðar þar óbeint og ágætlega fyrir það, svo ég ásetti mér að komast að fleiru um þennan heimspeking. Það sem ég lærði um hann kom mér svo sannarlega á óvart! Fyodorov vildi ekki bara útrýma dauðanum heldur taldi hann að til þess að raunverulega sigrast á dauðanum þyrftum við að endurlífga hverja einustu manneskju sem til hefur orðið, fæðst og dáið. Þetta eru gríðarlegar fyrirætlanir — svo fyrirferðarmiklar að við fyrstu sýn virðast þær eiginlega bara mikilmennskubrjálæði. Kannski eru þær ekkert mikið meira en mikilmennskubrjálæði. Þrátt fyrir það er einstaklega gaman að velta því fyrir sér hvernig maður gæti mögulega farið að því að raungera þær — útrýma dauðanum fyrir fullt og allt.

Hvernig sá Fyodorov það eiginlega fyrir sér að þetta gæti gerst? Nú, í fyrsta lagi, sagði hann, þurfum við að útrýma dauðanum meðal þeirra sem nú þegar eru lifandi. Þetta þurfum við að gera með því að breyta mannslíkamanum eða verja hann með einhverskonar tækni — við þurfum að fara handan þessa brothætta kjötbúnings sem við klæðumst dag hvern. Þetta virðist vera einhverskonar transhúmanismi — handanmennska — líkamar efldir með raftækni og fágætum málmum, þrívíddarprentuðum himnum, vængjum og öðru álíka. Nauðsynlegt er sömuleiðis að breyta frumum mannslíkamans á þá vegu að þær eldist ekki — svo við þurfum nú ekki að deyja drottni okkar fyrir það eitt að hafa lifað of lengi. Við þurfum sömuleiðis að tryggja að við getum lifað af hvaða umhverfisvá sem er, segir Fyodorov — við þurfum að stíga næstu skrefin í þróunarferlinu á meðvitaðan og skipulegan hátt.

Þegar við höfum reddað því að þurfa ekki að deyja lengur úr elli, slysförum eða af höndum umhverfisins, þá getum við loks farið að einbeita okkur að því að gera út af við dauða fortíðarinnar — útrýma honum afturvirkt. Þetta er eiginlega það mikilmennskubrjálæðislegasta við hugmyndir Fyodorov — að lífga alla sem hafa fæðst og dáið við! Hann ímyndaði sér að þetta væri hægt með því að rekja erfðaefni aftur á bak — þá myndi maður til að mynda nota erfðaefni sitt til þess að lífga foreldra sína við á ný, foreldrar manns myndu nota sitt eigið erfðaefni til þess að lífga sína foreldra aftur við, og svo framvegis. Þessi nálgun er auðvitað vandkvæðum bundin — til að mynda myndi þetta aðeins geta endurlífgað líkama sem eru erfðafræðilega eins og líkamar hinna látnu, persónuleiki þeirra hefði orðið dauðanum að bráð. Þess að auki spyr maður sig hvað gerist við hina barnlausu sem hafa látist, þá sem eiga enga niðja til þess að lífga sig við.

Svo — já. Þetta er ef til vill ekki mögulegt eins og stendur, ef til vill verður þetta aldrei mögulegt. En tæknilegu nálganirnar eru kannski ekki það dýpsta við heimspekilegar hugmyndir Fyodorov, heldur er það þessi hugmynd um sammannlegt endamarkmið sem er áhugaverðast og róttækast. Þessi hugmynd um að hvert og eitt okkar eigi það sameiginlegt að við munum verða dauðanum að bráð og að hvert og eitt okkar eigi það sameiginlegt að vilja lifa en ekki deyja — þetta er það sem er einna mest heillandi við hugarheim hans. Með því að gefa sér þetta getur hann sett mannkyninu eitt sameiginlegt og algjört markmið: Stóra Sameiginlega Verkefnið okkar allra. Það er á þennan hátt sem Fyodorov svarar spurningunni sem ég lagði upp með í byrjun pistilsins: hvert er markmið tegundarinnar mannkyn? Markmiðið, segir hann, ætti að vera að gera út af við það sem plagar okkur öll — merkingarlausu neitunina sem er dauðinn.

Hann gengur raunar talsvert lengra í staðhæfingum sínum en að halda því aðeins fram að við ættum að sigrast á dauðanum. Að hans mati er mannkynið æðsta krúnudjásn þróunarinnar, og því fellur það í okkar skaut að taka þróunina sjálfa, þróun alls lífs, í okkar eigin hendur — okkur ber að gerast meðvituð þróun, rökræn þróun, skynsamleg þróun. Að mati Fyodorov er hin almenna stefna eða markmið þróunarinnar alltaf í átt að frekari vitsmunum eða greind, og þar eð mannfólkið er greindasta tegundin er hún hæsti punktur þróunarferlisins. Þetta er auðvitað mjög mannmiðjuð hugsýn — frumspekilegt viðhorf sem setur hið mannlega, vitsmuni og hið rökræna í fyrsta sæti og á kostnað annarra tegunda tilvistar eins  og til að mynda dýra og náttúrunnar.

Með hjálp þessara hugmynda um manninn, þróunina og skynsemina reynir Fyodorov þó að fara handan mennskunnar — mannmiðjunin sem hann leggur áherslu á er í reynd einskonar stökkpallur til þess að yfirgefa mennskuna. Mannleikinn er bara eitt skrefið í löngum gangi þróunarinnar, framvindu sem ekki tekur enda, og með því að beita sjálfum okkur fyrir því að breyta og bæta mannkynið getum við ákveðið í hvaða átt við stígum næsta skref. Þetta er fremur róttæk hugmynd — og ef til vill vísir að því sem í dag kallast transhúmanismi eða handanmennska.

Þessi heimssýn rússneska heimspekingsins er æði bjartsýn á framfarir á sviðum vísindalegrar þekkingar og tækniþróunar — og allar hennar hugmyndir um ódauðleika, sjálfsmeðvitaða og rökræna þróun, útrýmingu dauðans og handanmennsku byggja á þessum framförum. Í ofanálag verða þessar framfarir að vera meðvitaðar og í átt að markmiðinu sem Fyodorov leggur til að við ættum að tileinka okkur — í átt að útrýmingu dauðans og meðvitaðrar þróunarstýringar. Það er því ekki sérlega sennilegt að hugmyndir hugsuðarins raungerist í bráð — ef þá einhverntímann. En er ekki dálítið skemmtilegt að láta sig dreyma um slíka heima hvað sem skeður? Kannski getur það hjálpað okkur að varpa ljósi á það sem skiptir máli — eins og lífið sjálft.

Hugleiðing um tímaflakk og eilífðina

Hugleiðing um tímaflakk og eilífðina

Ríkisvald, auðvald og kapítalismi

Ríkisvald, auðvald og kapítalismi