Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

„Á ég að gæta bróður míns?“ — Hegel og Antígóna

„Á ég að gæta bróður míns?“ — Hegel og Antígóna

Þessi ritgerð um lestur Hegels á Antígónu eftir Sófókles var skrifuð fyrir áfangann „Þættir úr hugmyndasögu fornaldar“ í Háskóla Íslands. Þessi útgáfa ritgerðarinnar inniheldur engar neðanmálsgreinar eða aðrar tilvísanir. Til þess að hala niður formlegri útgáfu ritgerðarinnar með tilvísunum og neðanmálsgreinum getið þið smellt hér. Málverkið hægra megin í haus heitir Antigone og er eftir Fredric Leighton frá árinu 1882.


Harmleikurinn Antígóna eftir forngríska skáldið Sófókles er líklega með rómuðustu leikritum fornaldar. Í leikritinu segir frá því hvernig Antígóna, aðalsöguhetja verksins, brýtur gegn tilskipunum Kreons, konungs Þebu, sem kveða á um að hvorki megi syrgja né jarðsyngja Pólíneikes, bróður Antígónu. Kreon skipar svo til vegna þess að Pólíneikes gerði atlögu að Þebu eftir að bróðir hans, Eteókles, neitaði að láta af völdum eins og þeir bræðurnir, synir Ödípusar, höfðu samið um að gera. Antígóna þráir, þvert á ákvæði Kreons og forsendurnar fyrir því, að veita líki bróður síns dreypifórn og útför. Svo fer að endingu að hugar þeirra tveggja, Antígónu og Kreons, mætast stál í stál. Antígóna birtist okkur þá sem málsvari hinna „heilögu laga“ meðan Kreon táknar hin veraldlegu lög. Í Antígónu skella þessi tvö ólíku lögmál saman í hörðum árekstri — og svo endar allt auðvitað með ósköpum, eins og harmleikja er siður.

Þýski hughyggjuspekingurinn G.W.F. Hegel hafði svo síðar meir sitthvað að segja um leikverk Sófóklesar. Antígóna hafði fyrir honum talsverða heimspekilega merkingu, þar eð hann taldi að í verkinu mætti finna kristallaða nauðsynlega togstreitu sem sprettur upp úr tilteknu sögulegu tímabili í þroskasögu andans svokallaða. Hann fjallar sérstaklega um leikverkið í frumraun sinni til bókaútgáfu, Fyrirbærafræði andans, sem kom út árið 1807, og úthlutar því raunar mjög merkilega staðsetningu í verkinu — Antígóna er kynnt til sögunnar þegar andinn sjálfur vaknar til sjálfsmeðvitundar og kemst að því að hann sé sjálfur „allur veruleikinn.“

Í þessari ritgerð mun ég lesa leikritið Antígónu í gegnum greiningu Hegels á kröftunum sem knýja fram atburðarásina í leikriti Sófóklesar. Meginmarkmið mitt verður að gera tilraun til þess að skilja hvers vegna Antígónu fannst hún svo knúin sem hún var til þess að jarða bróður sinn. Þess að auki vil ég leitast að því að gera grein fyrir heildrænu samhengi leikverksins og skýra hvaða merkingu það hefur fyrir skilning Hegels á andanum svokallaða.

Til þess að gera þetta mun ég byrja á því að staðsetja umfjöllunina um Antígónu innan Fyrirbærafræðinnar til þess að geta skýrt venslin milli efnistaka leikritsins og formgerðar heimspekiritsins. Því næst mun ég lesa textana saman í gegnum nokkur mikilvæg hugtök sem þeir deila. Að lokum vil ég beita hugtökunum til þess að komast að niðurstöðu um spurningarnar sem ég lagði upp með. Niðurstaða mín er sú að andrík túlkun hughyggjuspekingsins á verkinu geti fært okkur greinargóðan skilning á þýðingu leikritsins: andóf Antígónu lýsir fæðingu hins pólitíska einstaklings sem slíks.

Hefjumst þá handa við að staðsetja Antígónu innan Fyrirbærafræðinnar. Fyrirbærafræðin er margslungið verk, helst til fyrir þær sakir að það setur sér mjög háleitt markmið. Í verkinu vill Hegel lýsa birtingarmyndum andans eins og þær bera fyrir í slitróttri og óreglulegri þroskasögu meðvitundar. „Andi“, eða „Geist“ á þýsku, er lykilhugtak í þessu verki Hegels. Það tjáir eins konar millipersónulega, altæka meðvitund — íslenska orðið „andi“ fangar merkinguna ágætlega þegar það er notað í hugtökum eins og tíðarandi, liðsandi eða þjóðarandi. Það lýsir einhverri stemningu, einskonar heild sem er æðri summu parta sinna.

Áður en Hegel getur byrjað að fjalla um andann sem slíkan, meginviðfang verksins, verður hann þó fyrst að lýsa því hvernig andinn var áður en hann þekkti sig sem anda — hann verður að telja til nauðsynlegar forsendur þess að andinn geti þekkt sig sem slíkan. Verkið hefst á því að lýsa sjálfskenndarsnauðri meðvitund sem kynnist sjálfri sér gegnum reynslu sína af heiminum, allt þar til hún kemst á það stig að geta talist skynsöm meðvitund sem þekkir sjálfa sig í gegnum vísindi, listir, trúarbrögð og fleira. Það er þannig sem meðvitundin kemst í skilning um að hún sé og hafi alltaf verið andi. Að mörgu leyti virðist Fyrirbærafræðin því vera eins konar heimspekileg bildungsroman, rómantísk þroskasaga um þróun mannlegrar meðvitundar.

Það er mikilvægt að hafa þessa grófu lýsingu á ferli Fyrirbærafræðinnnar í huga vegna þess að það er síðla verks sem við kynnumst andanum sem slíkum, og það er aðeins þá sem Antígóna kemur til sögunnar. Þegar tekið er tillit til þessa mætti maður áætla að leikritið spilaði mikilvægt hlutverk innan Fyrirbærafræðinnar — það er jú gert að inngangspunkti eins veigamesta þáttar bókarinnar, tilkomu þessa anda sem titill verksins vísar til. En hvað er það nákvæmlega sem Hegel finnst svo eftirtektarvert við verkið? Það hefur líklega með það að gera að Hegel telji verkið mála mjög lifandi og skýra mynd af innri togstreitu andans eins og hann birtist okkur í gríska borgríkinu — en það er einmitt þar sem hann telur andann fyrst hafa vaknað til sjálfsmeðvitundar um að hann sé andi. Atburðir verksins varpa því að mati Hegels ljósi á það hvaðan andinn er upprunninn auk þess hvaða stefnu þróun hans tekur síðar meir.

Nú þegar við höfum skilið hvers vegna Hegel staðsetur Antígónu sem hann gerir innan verks síns skulum við snúa okkur að því að lesa verkin tvö saman, Antígónu og Fyrirbærafræðina. Til þess að gera þetta á skilvirkan hátt munum við afmarka nokkur meginhugtök sem leikritið glímir við og Hegel tekur sömuleiðis fyrir í heimspekilegri greiningu sinni. Því næst berum við saman hvernig þessi hugtök birtast okkur í textunum tveimur.

Hugtökin sem ég ætla að kanna sérstaklega í þessari ritgerð, þar eð ég tel þau eiga sérstaklega við upprunalegu rannsóknarspurninguna, eru eftirfarandi: samfélag, andi, lögmál, kynjun, (kyn)hlutverk, og athafnasvið. Öll spila þessi hugtök stór hlutverk í sögunni um Antígónu og Kreon; þau deila samfélagi sem býr yfir sínum einstaka þjóðaranda, standa hvort fyrir sitt lögmálið, eru mismunandi kynjuð, hafa mismunandi hlutverk og búa við mismunandi athafnasvið. Nú skulum við kanna þessi hugtök nánar.

Hugtökin um samfélag og anda spila veigamikil hlutverk í textum Hegels og Sófóklesar. Í Antígónu verða hugtök samfélags og samfélagsanda einna fyrirferðarmest þegar Kreon og Hemon, sonur Kreons, rökræða ákvörðun konungsins um að lífláta Antígónu. Hemon lýsir því fyrir Kreoni hvernig „borgarlýðurinn kennir í brjósti um mey þessa, er deyja [verður] hinum versta dauðdaga fyrir hið göfugasta verk.“ Hann heldur því fram að menn hvísli á laun um það í borginni að Antígóna hefði ef til vill fremur „unnið til að fá heiðurssveig úr gulli.“ Svo virðist því sem það sé einhver heildstæð og almenn tilfinning meðal samfélagsins, einhver andi, sem finnur hvað sé rétt og hvað sé rangt.

Hegel greinir þetta á þá leið að andanum eða samfélagsvitundinni megi skipta í tvo aðgreinda en ávallt samtvinnaða þætti: í fyrsta lagi er alltaf einhver heildræn siðleg undirstaða (e. substance), sem grundvallar siðlega meðvitund samfélagsins, og í öðru lagi er alltaf einhver altæk meðvitund meðlima samfélagsins um undirstöðuna. Samspil þessarra tveggja, andinn sem slíkur, samanstendur því af heildrænni yfirvegun samfélagsmeðlimanna um siðleika samfélagsins sem þau byggja. Þetta samspil, andinn, er því sjálfsmeðvituð yfirvegun eða endurspeglun andans í og fyrir sjálfum sér. Það sem er að eiga sér stað í orðrómunum sem Hemon lýsir er að samfélagsandinn virðist vera að meta örlög Antígónu í gegnum einskonar „andlegt fall“ — hann speglar afstöðu sína til réttmætis refsingarinnar sem Kreon úthlutar Antígónu með tilliti til sameiginlegs gildismats borgríkisins, undirstöðunnar — og útkoma andlega fallsins er falleinkunn Kreons.

Það er hér sem við komum einnig inn á hugtakið um lögmál. Antígóna talar um að hún sé einfaldlega að hlýða „[heilögu boðorðum] guðanna,“ að Kreon hafi „að engu gert hin óskráðu og óhagganlegu lögmál guðanna,“ þau „[sem] vara að eilífu, og enginn veit hvaðan [séu] runnin.“ Kreon, aftur á móti, heldur því fram að hann sé einvörðungu að fara eftir lögum borgríkisins, að hann standi á rétti sínum sem konungur ríkisins. Hegel túlkar þetta á þá vegu að hin siðlega undirstaða sem minnst var á að ofan sundrist á þá vegu að hún myndi tvöfaldan lagabálk: guðdómleg lög og mannleg lög. Eins og við vitum þá samanstendur andinn af samspili siðlegu undirstöðunnar og heildrænni yfirvegun meðvitunda er þær spegla siðvitund sína í undirstöðunni. Hér kemur þó ný vídd til sögunnar: heildræna speglunin byggir alltaf á einstökum meðvitundum. Þessi þáttur hins einstaka veldur því að fólk túlkar undirstöðuna á mismunandi vegu. Hegel vill meina að undirstaðan sé túlkuð af einstaklingunum eftir því hver einstök náttúra þeirra er — og „náttúra“ í þessu samhengi, er kyn einstaklinganna.

Þar með höfum við fengið okkar næsta hugtak — kynjun. Venslin og samskiptin milli persónanna í Antígónu eru óneitanlega mjög lituð af hugmyndum um kyn og mismuninn milli karla og kvenna. Til að mynda gerir Kreon mikið mál úr því að skömminni sé skárra að fara halloka fyrir karlmanni, svo lengi sem maður þurfi ekki að þola það að teljast jafnoki kvenna. Þegar Hemon biðlar til Kreons um að endurskoða afstöðu sína í ljósi þess sem hann heyrir hvíslað í skúmaskotum heggur Kreon til sonar síns, sakandi hann um að vera „undirlægja kvenna“ og „armur kvennaþræll“. Manni virðist Kreon því vera allsendis ófær um að greina á milli Antígónu að því leytinu til sem hún er „bara“ kynjaður líkami og að því leytinu til sem kynjun hennar gerir hana að tákngervingi hinna guðdómlegu lagasetninga, erindreka hinnar andlegu undirstöðu — og Hemon virðist vera að reyna að fá hann til þess að skilja þetta. Lýðurinn er óánægður með meðferð Kreons vegna þess að hann er að brjóta gegn andlegu undirstöðunni í nafni undirstöðunnar — hann kemur ekki sjónar á það hvernig afstaða hans er einhliða og ófullkomin vegna þess að hann skilur ekki hvernig undirstaðan byggir á því að samhljóman, en ekki misklíð, ríki milli lagabálkanna tveggja.

Hegel greinir þessa samhljóman kynjanna ítarlega í Fyrirbærafræðinni. Kynjunin, fyrir Hegel, snýst aðallega um það hvaða virka hlutverk einstaklingar taka sér innan samfélags út frá meðvitundinni um eðli hinnar andlegu undirstöðu og lagasetninga hennar. Hér komum við því strax inn á hugtak kynhlutverka sem er auðvitað samtvinnað hugtakinu um kyn og myndar sömuleiðis grundvöll fyrir hugtakið um athafnasvið. Hegel skilur siðlegt hlutverk konunnar sem svo að hún sé erindreki hinna guðlegu laga og að því sé hlutverk hennar að framleiða, móta og heiðra grundvallareiningar (meðvitundir) samfélagsins af hverjum borgríkið samanstendur jú að endingu. Athafnasvið konunnar er því fjölskyldan sem slík: fæðing, uppeldi, menntun, greftrun, stofnsetning fjölskylduvensla almennt og viðhald þeirra. Aftur á móti er siðlegt hlutverk karlmannsins að halda uppi hinum mannlegu lögum. Þau eru meðvituðu lagaboðin sem birtast okkur sem opinberar fyrirskipanir borgríkisins, og þar með á karlinn að starfa að því að sameina hinar mörgu fjölskyldur sem mynda borgríkið í eitt samfélag, eina þjóð. Athafnasvið karlsins er því ríkið: stríðsrekstur, lagasetning, viðhald valdboðsins og önnur ámóta stýring.

Hegel talar um að athafnasviðin séu einna helst afmörkuð þekkingarfræðilega — það er, meðvitundir sem heyra undir tiltekið lögmengi (veraldlegt eða guðdómlegt) þekkja aðeins boð og bönn lögmengis síns og eru skilningslaus um mikilvægi hins mengisins fyrir samspilið sem andinn byggir eftir allt saman á. Kreon hefur þannig ekki skilning á því að Antígóna sé reiðubúin að kasta lífi sínu á glæ til þess að halda uppi guðdómlegu lögunum og Antígóna skilur ekki hvernig Kreon gæti verið svo harðbrjósta að leyfa henni ekki einu sinni að jarðsyngja bróður sinn og ljá dauða hans siðlega vídd: „Hvernig má það svívirðing heita að sækja helga skyldu við bróður sinn?“

Vopnuð þessum hugtökum getum við nú hafist handa við að svara nokkrum samtengdum spurningum: hvaða kraftar eru það sem krefja Antígónu um að jarðsyngja bróður sinn? Hvaða þýðingu hefur það fyrir skilning Hegels á þessari fyrstu birtingarmynd andans í gríska borgríkinu að Antígóna skuli fara út fyrir eiginlegt athafnasvið sitt og brjóta lög borgríkisins?

Til að byrja með ættum við að geta svarað því tiltölulega auðveldlega hvers vegna Antígóna finnur sig knúna til þess að heiðra bróður sinn: það er kynjað hlutverk hennar sem erindreki fjölskyldunnar sem krefur hana um að heiðra meðlimi fjölskyldunnar, að veita þeim þá náð sem þeir verðskulda, að virða bróður sinn qua bróður. Athafnasvið hennar sem erindreki hinna guðlegu laga útheimtir andóf hennar — henni finnst hún tilneydd, lögbundin til þess — að því leytinu til sem hún er kona og systir. En hvers vegna er Ísmena hikandi þegar Antígóna biðlar til hennar um að aðstoða sig við athöfnina? Munurinn á þeim er líklega sá að Ísmena þorir ekki að gangast við kalli hinna heilögu laga, í ótta um að verða fyrir refsingu hinna veraldlegu, meðan Antígóna þorir því og gerir það.

Okkur ætti að vera ljóst af því sem á undan hefur farið að uppreisn Antígónu er samtímis uppfylling kynhlutverksins sem henni hefur verið úthlutað en verður jafnframt aðeins skilið af því að með uppfyllingunni fer hún út fyrir skilgreint athafnasvið sitt — synd hennar er samstundis dygð hennar. Það er þess vegna sem maður fær það ekki á tilfinninguna að Antígóna sé einfaldlega að fylgja guðlegu lögunum eftir í milliliðalausri og blindri fylgni — manni finnst eins og hún sé einstök á einhvern máta. Þetta er líklega það sem einna helst greinir hana frá Ísmenu: einstök dirfska hennar og þor.

Eins og heimspekingurinn J.M. Bernstein bendir að mínu mati mjög réttilega á skilur Hegel þetta sem svo að Antígóna hafi með breytni sinni skilið sig á róttækan hátt frá heimi siðleikans (laganna), þessari andlegu undirstöðu sem grundvallar borgríkið og þegna þess. Áður hafði Antígóna verið milliliðalaust „á kafi“ í siðleikanum — einfaldlega þátttakandi í því, breytandi innan síns afmarkaða og kynjaða athafnasviðs, í samræmi við lögin — en þegar á hólminn er komið tekur hún sér í reynd afstöðu gegn siðleikanum sem slíkum — hún setur sjálfa sig á móti heildinni með því að ganga í berhögg við tilskipanir Kreons. Hún neitar þeim sem einstaklingur. Í ljósi hugtakanna hér að ofan, hugtaka sem lýsa þáttum sem eru almennt mjög takmarkandi fyrir einstaklinginn — kynjun, lög, athafnasvið, samfélag — tekur athöfn Antígónu á sig róttækan blæ: hún yfirstígur alla þessa þætti með breytni sinni.

Bernstein heldur því fram, og undirritaður sammælist honum um það, að markmið Hegels með þessum lestri sínum á Antígónu hafi einmitt verið að sýna fram á það hvernig leikritið varpar ljósi á fæðingu pólitíska einstaklingsins og merkingarbærrar breytni hans: „Meðvitað brot Antígónu á tilskipunum Kreons er því [...] fyrsta andrá andlegrar sögu okkar vegna þess að það er fyrsta sinnið sem máttur hins neikvæða lætur finna fyrir sér og krafa hins huglæga, réttur hins einstaka, verður bersýnilegur.“

Antígóna brýtur upp milliliðalausa siðvitund gríska borgríkisins með róttækri borgaralegri óhlýðni og setur þannig pólitískt fordæmi fyrir alla aðra einstaklinga sem finna á sér þegar brotið er á hinni óskráðu siðvitund í nafni veraldlegra laga. Það er því ekki að ástæðulausu sem Hegel fagnar hinni „himnesku“ Antígónu,  „göfugustu persónu sem hefur nokkru sinni birst á jörðu,“ — því Antígóna opnar upp nýja vídd fyrir andanum, vídd sem skapar einstaklingnum pólitískt athafnasvið handan hins altæka: handan félagslegra staðla, kynjunar og lagabókstafa.

Hvernig veit ég að ég veit? — Þekkingarfræðileg réttlæting

Hvernig veit ég að ég veit? — Þekkingarfræðileg réttlæting

Hugleiðing um tímaflakk og eilífðina

Hugleiðing um tímaflakk og eilífðina