Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Hvað er tæknihyggja?

Hvað er tæknihyggja?

Þessi pistill birtist fyrst í Lestinni þann 28. mars 2018. Málverkið í haus heitir The Ninth Wave og er eftir Ivan Aivazovsky frá árinu 1850. Hægt er að hlusta á upplestur á pistlinum hér að neðan.


Hvað er tæknihyggja? Er það að vilja að allt sé tækni, eða er það að trúa á tæknina eins og maður trúir á Guð? Hvað er tækni, annars, eiginlega? Margar eru spurningarnar sem vakna upp við hugleiðingar um tæknihyggju. Nýlega hef ég verið að lesa nokkrar greinar eftir íslenskan heimspeking, nefnilega hann Pál Skúlason — nánar tiltekið ritgerðir eftir hann sem fjalla allar að einhverju leyti um það sem kalla mætti tæknihyggju. Páll fjallar um tæknihyggjuna í nokkrum greina sinna í bókinni frægu Pælingar sem var gefin út árin 1987, bók sem má eflaust finna á flestum heimilum.

Á þessi hugmynd um tæknihyggju nokkuð erindi við okkur í dag? Já, segi ég — vegna þess hvernig lífum okkar er háttað nú til dags finnst mér sem hugtökin um tækni og tæknihyggju séu orðin mjög mikilvæg — og að við ættum að gera í því að tala meira um þau á skynsamlegan og yfirvegaðan hátt. Með yfirvegun á ég við heimspekilega rannsókn sem kannar kosti og galla, rök með og á móti, hugtök, ástæður og útskýringar fyrir því hvernig fyrir okkur er komið í nútímanum — yfirvegun sem fer hægt í hlutina og reynir að skoða hlutina út frá þeirra eigin forsendum, eða hlut-lægt. Vindum okkur því í yfirvegunina og sjáum til hvort við getum ekki orðið einhvers vísari.

Byrjum á því að reyna að skilgreina hugtakið gróflega, eins og það gæti birst innra með hverju og einu okkar, áður en við veltum því fyrir okkur hvernig Páll myndi tækla það. Tæknihyggja er lífsviðhorf, meðvitað eða ómeðvitað, sem sér mannlegt líf sem undirlagt ákveðnum hugmyndum um hegðun, tímaskyn og æðstu markmið. Tækni-hyggjan er ekki tæknileg sjálf, heldur er hún andleg eða vitsmunaleg afstaða sem við tökum okkur gagnvart heiminum sem stendur frammi fyrir okkur. 

Það mætti tiltaka nokkur hugrenningartengsl sem vakna upp þegar við hugsum um tæknihyggju til þess að varpa ljósi á þá þætti hennar sem skilgreina hana nánar — og hvort okkur sé ekki fært með upplistun slíkra hugrenningartengsla að komast að því hvort við eigum ekki einhverja anga hennar sameiginlega innra með okkur, anga sem hafa smitast gegnum menninguna og fest rætur í hugmyndaheimum einstaklinga. 

Hugsum því saman: hvað er tæknihyggja? Ég finn strax tengsl við ákveða viðleitni til þess að mæla allt, til þess að skilja allt, til þess að leggja allt undir manninn — viðleitni til þess að öðlast vald yfir alheiminum sjálfum, skapa telos eða tilgang í efnisheiminum. Ég hugsa mér tölvur og rafmagn og stærðfræðilega nákvæmni og algrím og skipulagða starfsemi með skýrt markmið í huga.

Að mínu mati veita þessi hugrenningartengsl okkur ágætlega skýra mynd af því hvað tæknihyggjan gæti verið. Hún er einskonar viðleitni til þess að kortleggja alheiminn, til þess að hafa vald yfir honum, til þess að þekkja hann og skilja hann og nýta sér hann. Tæknihyggja er nauðsynlega vísindaleg vegna þess að hún neyðist til þess að nálgast heiminn eins og hann gefur sig fram — og þess vegna er falin í tæknihyggju einskonar tilraun til þess að vera sem nákvæmust og sem þekkingarfræðilega öruggust. 

Þessar upptalningar hjá mér gætu virst eilítið gildishlaðnar — fyrir sumum eru þær það milliliðalaust og óhjákvæmilega — en mér finnst mikilvægt að reyna að hugsa um þetta án þess að gefa því merkimiðann „gott“ eða „slæmt“. Til að mynda er viðleitni okkar til þess að skilja heiminn, kortleggja hann og leggja hann undir sig einn mikilvægasti drifkrafturinn sem mannkynið hefur yfir að búa — án hans værum við líkast til enn í trjánum með frændum okkar öpunum — en samtímis er einhver fórn falin í því að einblína á viðleitnina, eitthvað sem glatast sem við gætum mögulega hafa haldið snertingu við ef við einbeittum okkur ekki svo einhliða að því að svala þorsta viljans-til-valds eða þessari viðleitni sem um ræðir í tæknihyggjunni.

Páll Skúlason hugsar um tæknihyggjuna í þremur greinum innan bókarinnar Pælingar. Í greininni „Heimspekin og Sigurður Nordal“ segir hann tæknihyggjuna vera slíka að hún þurrki út allan þjóðlegan arf, jafni út alla lífskosti, eyði öllum sérkennum. Tæknihyggjan kennir mönnum að hugsa um lífið sem leikvang aðgerða sem lúti almennum og ópersónulegum reglum sem segja okkur til um hvernig við athöfumst, eigum samskipti og jafnvel hugsum. Tæknimenningin, sem er alþjóðleg, splundrar allri hefðbundinni menningu, leysir hana upp í ótal mola sem verða að framleiðslu- og söluvörum fyrirtækja með skammtímasjónarmið. Þetta er ansi góð skilgreining hjá Páli, að mér finnst. 

Tæknihyggjan er vissulega eitthvað sem barst okkur að utan — hún er afsprengi annarrar menningar en þeirrar íslensku. Hennar verður ekki vart fyrr en Ísland tekur að alþjóðavæðast — taka þátt í heimsmarkaði, hefja vísindalegar rannsóknir og iðnvæðast. Samkvæmt skilgreiningu Páls eru því að því er virðist einhver tengsl sömuleiðis milli tæknihyggju og kapitalískrar hugsunar eða hugmyndafræði. Í annarri grein, „Hugleiðing um listina, trúna og lífsháskann“, skilgreinir Páll tæknihyggjuna svo á þann veg að hún sé trú á ákveðnar reglur og mælikvarða sem unnt sé að beita til þess að komast að öruggum niðurstöðum sem hafnar eru yfir geðþótta einstaklinga. Í enn einni greininni talar Páll um að tæknihyggjan hafi jafnvel mettað læknisfræðina að vissu marki.

Mér virðist því sem hægt sé að segja að hugmyndir Páls samræmist þeim sem við höfum borið upp um það sem við köllum tæknihyggju. Tæknihyggja, fyrir Páli, felur í sér þekkingarfræðilegt kennivald, eða í það minnsta ákveðna hugmyndafræðilega ásynd kennivalds — lífsvirðhorf eða heimspeki, sem skoðar allt undir sjónarhorni tækninnar: takast á við öll úrlausnarefni sem þau séu vandamál sem leysa megi eftir öruggum tæknilegum leiðum. 

Til dæmis um útbreiðslu tæknihyggju talar hann um sérfræðiniðurstöður innan stjórnmálageirans — niðurstöður sem eiga að heita með öllu ópólitískar — og námsskrárssetningu í menntakerfinu, sem er orðin æði tæknilega margslungin og nákvæm. Þetta hefur verið kallað tækniræði á íslensku, en á ensku „technocracy“ — pólitísk stefna sem telur sér fært að taka ópólitískar og sérfræði-tæknilegar ákvarðanir um vandamál með því einu að virða fyrir sér staðreyndirnar og draga óhlutdræga ályktun af þeim. 

Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur er beinlínis tækniræðisflokkur, en mér virðist sem ég sjái ákveðinn keim af hugmyndafræði tæknihyggjunnar í grunngildum stjórnmálaflokksins Pírata, þar sem segir: „Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir. Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn hennar eru.“

Grunngildi Pírata eru áhugaverð, ekki aðeins fyrir það sem þau segja, heldur einnig fyrir það sem þau segja ekki. Til samanburðar má nefna að samkvæmt skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins eru grunngildi hans frelsi og trú á einstaklinginn — samkvæmt siðareglum Samfylkingarinnar eru grunngildi hennar frelsi, jafnrétti og samábyrgð — grunngildi Vinstri grænna eru svo jafnrétti, jöfnuður, réttlæti, kvenfrelsi, umhverfis- og náttúruvernd og svo mætti halda áfram í upptalningunum. 

Píratar láta allskyns hugtök sem áður hefðu talist „pólitísk“ eiga sig — jöfnuður, einstaklingsfrelsi, jafnrétti, umhverfisvernd: öllu er þessu frestað í þágu sterkari ákvarðanartökugilda, sem mætti kalla meta-gildi, eða frum-gildi. Vert er að taka fram að Píratar tiltelja auðvitað önnur grunngildi en aðeins gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir, þar á meðal borgararéttindi, friðhelgi einkalífs, gagnsæi og ábyrgð, upplýsinga- og tjáningarfrelsi auk áherslu á sjálfsákvörðunarrétt og beint lýðræði. 

Skilji ég hugmynd Pírata rétt má segja sem svo að til séu ákveðin lýðræðisleg gildi sem séu ófrávíkjanleg, svo sem grundvallarréttindi einstaklingsins, tjáningarfrelsi og fleira, en umfram þessi friðhelgu grunnatriði verður engin tiltekin hugmyndafræði um jöfnuð, einstaklingsfrelsi eða umhverfisvernd tekin fram yfir aðra að hverju sinni heldur skuli styðjast við staðreyndir og trausta, nákvæma málsmeðferð. 

Þetta myndi ég kalla grunngildaskrá sem innblásin er af tæknihyggju eða jafnvel snert af tækniræði. Ég tek fram að ég segi þetta ekki með það að markmiði að koma höggi á Pírata eða gagnrýna þá sérstaklega. Það er og vel að þau skilgreini sig á þann máta sem þau gera, og að mínu mati eru þessi grunngildi ótvírætt skref fram á við frá kreddutrúargildum eldri flokka. Það að halda fast við tiltekna afstöðu einfaldlega vegna þess að einhver óhlutstæð hugmynd frelsis er manni mesta hjartans mál, jafnvel þótt rökin bendi til þess að margar aðfinnslur megi finna á afstöðunni, kallaðist seint mjög skynsamleg afstaða — jafnvel þótt hún sé skiljanleg og geti á tíðum verið aðdáunarverð. Það sem er skynsamlegt við grunngildi Pírata, og að því er mér virðist sést skýrt og greinilega í störfum þeirra á þingi og í borgarstjórn, er vilji þeirra til þess að raunverulega kafa ofan í málin og skoða allar fýsilegar hliðar þeirra. 

Maður spyr sig þó óhjákvæmilega hvort þessi nálgun sé alltaf sú besta — hvort það sé ekki eitthvað til í því að taka einfaldlega sterka og skýra afstöðu með einstaklingsfrelsi, eða með jöfnuði, eða með umhverfisvernd — maður spyr sig hversu lengi maður getur verið ópólitískur og aðeins tæknilegur. Stundum er einfaldlega ekki hægt að taka réttu afstöðuna til máls út frá fyrirliggjandi gögnum — stundum þarf maður nefnilega bara að hlusta á sína innri rödd og fylgja henni. Varla er þörf á því að taka það fram að ég treysti þingmönnum Pírata fullkomlega til þess að gera nákvæmlega það þegar á hólminn er komið — því þar er sá hluti grunngilda þeirra sem snýr að gagnrýninni hugsun einna mikilvægastur.

Það er nefnilega þessi gagnrýna hugsun sem skiptir oft svo miklu máli í stjórnmálum — að vera tilbúinn að hlusta á það sem aðrir hafa fram að færa, að vera reiðubúinn að skipta um skoðun þegar maður er rökþrota, að reyna að setja sig ekki inn í málin persónulega heldur málefnalega. 

Mér virðist þessi gagnrýna hugsun vera eitthvað sem stjórnmálin eiga afskaplega erfitt með — en kannski eiga þau svona erfitt með hana einmitt vegna þess hve persónuleg stjórnmál geta verið, hve siðferðilega þrungin þau eru. Kannski getur tilfinningin fyrir bræðralagi eða frelsi einstaklingsins orðið gögnunum og hlutlausa úrmatinu einfaldlega langtum yfirsterkari — eins og stundum sé dýpri grundvöllur sem ekki er verið að taka mark á, einhver mannleg dýpt sem er verðmætari en öll skilvirkni, verðmætari en gagnrýnin hugsun og yfirvegun. 

Ég er ekki viss. Kannski eru þetta tvær hliðar á sama peningnum — hápólitískur tilfinningahiti og yfirveguð rannsókn á kostum og göllum út frá marktækum upplýsingum. Í öllum föllum er mjög vert að velta því fyrir sér hvernig við hugsum, um hvað og hvers vegna, og hvort ekki sé hægt að fara aðrar leiðir, kanna aðrar andlegar og vitsmunalegar lendur. Verum óhrædd — höldum til hafs!

Póstmódernísk heimspeki og vestræn siðmenning

Póstmódernísk heimspeki og vestræn siðmenning

Um smættunarhyggju og sjálfshjálparhjal

Um smættunarhyggju og sjálfshjálparhjal