Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Póstmódernísk heimspeki og vestræn siðmenning

Póstmódernísk heimspeki og vestræn siðmenning

Þessi pistill birtist fyrst í Lestinni á Rás 1 þann 4. apríl 2018. Málverkið í haus heitir Venere Dopo Botticelli og er eftir Andy Warhol frá árinu 1966. Að neðan má hlusta á hljóðupptöku af pistlinum.


Hvað í ósköpunum er póstmódernismi eiginlega? Þetta orð — sett saman úr póst- og -módernismi — hefur orðið bitbein í almennri umræðu upp á síðkastið. Algengt er orðið að því sé fleygt fram sem ákveðnu níðyrði — svo ef ég kallaði einhvern póstmódernista gætu þau tekið því milliliðalaust sem gagnrýni á sig, eins og það sé bara almennt frekar slæmt að geta fengið á sig merkimiðann póstmódernisti. Sérstaklega hefur þetta hugtak orðið vinsælt meðal netverja, þar sem margir heimspekingar, hugsuðir og gagnrýnendur eru brennimerktir sem póstmódernistar og þar með um leið vitagagnslausir og gjálfrandi orðabelgir. 

Sá sem er póstmódernisti, samkvæmt þessum netverjum, er einhver sem er afstæðishyggjusinni, einhver sem trúir ekki á neinn algjöran sannleika, einhver sem trúir því að allar staðhæfingar séu mótaðar af kennivaldi og því ómarktækar. Þeir sem nota orðið sem níðyrði eru oftar en ekki þeir sömu og nota orðatiltæki á við „réttlætisriddarar“ eða „femínasistar“ — og tvinnast þetta allt saman í fuglahræðu „framfarasinnaða vinstrisins“ sem virðist ætla sér að steypa vestrænni menningu í heild sinni um koll með því að leyfa öllum að skilgreina sig eins og þeim sýnist, hefja konur yfir karlmenn á óréttlátan hátt, hafna öllum sanngildum og setja orwellískar samræðureglur um hvað má grínast með og hvernig — auk fleirri hugmynda sem eru svo oft kenndar við upphaflegt umræðuefni okkar, póstmódernisma. 

Þetta er gróf lýsing á ákveðnu viðhorfi gagnvart tilteknum hræringum sem eru að eiga sér stað í menningar- og hugmyndadeilum samtímans — gróf, endurtek ég, því hún er alls, alls ekki fullkomin. Þau sem eiga þetta viðhorf sameiginlegt deila sér svo niður í ótal hreyfingar sjálf — þar á meðal má nefna ný-guðleysishreyfinguna (nu-atheism), hitt-hægrið (alt-right), réttindahreyfingu karlmanna (MRA) og fleiri undarlegar hugmynda- og menningarstefnur sem skilgreina sig í andstöðu við þetta svokallaða framfarasinnaða vinstri. En hvernig hjálpar þetta okkur að skilja hvað felst í þessu hugtaki um póstmódernisma? Er það virkilega satt að póstmódernistar trúi því ekki að til sé öruggur og hlutlægur sannleikur? Er það satt að póstmódernistar hafni rökfræði og vísindalegri aðferð? Hatast póstmódernistar við vestræna siðmenningu — og vilja þeir virkilega jafna hana við jörðu? 

Í pistli dagsins skulum við rannsaka þetta fyrirbæri nánar — þótt ekki sé öruggt að við munum komast að lokaniðurstöðu eða fullkominni skilgreiningu — ef hún er yfir höfuð til. Póstmódernisma er lýst í heimspekilegu uppflettiorðabókinni minni sem óræðu hugtaki. Til að byrja með er órætt hvað er átt við með „módern“ — því hvaða tímaskeið sem er eftir miðaldir flokkast gróflega sem „módern“. Er einu sinni verið að tala um tímaskeið þegar hugtakið póstmódernismi er notað? Ofan á þetta vandamál bætist svo að forskeytið „póst-“ er harla órætt sömuleiðis — það getur bæði merkt að verða viðskila við eitthvað og að vera breytt áframhald af einhverju. Uppflettiritið mitt snertir á því að margir rithöfundar flaski einmitt á þessu — þau byrji að tala um póstmódernisma án þess að skilgreina hvað þau eigi nákvæmlega við. Þegar nægilega margir gera þetta verður hugtakið eiginlega vitagagnslaust — því enginn veit hvað í ósköpunum það þýðir. Þrátt fyrir hversu órætt það er má tengja það við nokkra hugsuði og nokkra meginstrauma í heimspekilegri hugsun, svo við skulum einbeita okkur að því. 

Eitt meginþema sem einkennir póstmódernisma er hugmyndin um fall stórsagnanna, það sem á ensku myndi kallast „meta-narrative“. Hvað er stórsaga? Dæmi um stórsögu væri til að mynda narratífa marxismans um óhjákvæmilega uppreisn verkalýðsins eða söguleg hugmynd Hegels um hið rökræna í framvindu sögunnar. Fleiri dæmi væru hugmyndin um framþróun, upplýsingu og jafnvel frelsarann Jesú Krist! Þessi hugmynd um stórsögurnar er aðallega komin frá franska heimspekingnum Jean-Francois Lyotard, sem skrifaði fyrst um þær í bókinni „Hið póstmóderníska ástand“ sem var gefin út árið 1979. 

Áhugavert er þó að þessi hugmynd um fall stórsagnanna samsvarar að einhverju leyti hugmynd þýska heimspekingsins Friedrich Nietzsche, sem lýsti eins og frægt er orðið yfir dauða Guðs sjálfs. Nietzsche var þó ekki fyrstur til þess að lýsa yfir dauða Guðs, heldur var Hegel, samlandi hans og kollegi í vísindum heimspekinnar, einn sá fyrsti til að skrifa um hugmyndina, auk þess sem annar heimspekingur, Philipp Mainländer, skrifaði um sambærilegar hugmyndir. Það var því engin nýjung að Guð væri dauður þegar Nietzsche skrifaði um það í bók sinni, Vísindunum gleðilegu — enda var meginatriðið fyrir Nietzsche ekki dauðinn sjálfur heldur eftirmálar hans. 

Vandamálið sem Nietzsche kljáðist við var að vegna dauðans var stórsögn kristninnar að ljúka — og að í kjölfar þess yrðu engin gildi fyrir mannfólk til að notast við, vegna þess hve ríkjandi gildi stórsögunnar höfðu verið heilu árþúsundunum saman. Við hvað eigum við að miða nú þegar algjör gildi kristinnar eru að líða undir lok? Nietzsche óttaðist að tómhyggjan ein biði okkar — en vonaði innilega að ný hugmynd um ofurmennið, veru sem væri handan mannkynsins, gæti orðið næsta skrefið í þróun mannsins. Svo við snúum okkur nú aftur að póstmódernismanum og hugmynd Lyotard um fall stórsagnanna, þá mætti segja að póstmódernisminn gæti sammælst Nietzsche um dauða Guðs, en myndi gagnrýna hann fyrir að trúa á ofurmennið, sem væri þá lítið annað en enn ein stórsagan.

Það eru því ef til vill einna helst þessar hugmyndir um stórsögur eða sameinandi frásagnir sem taka saman sögulega og vísindalega þekkingu í eitt knippi eða einn heildrænan hnút sem póstmódernisminn hafnar: við erum ekki á beinni braut fram á við, bylting öreiganna er alls engin vissa og þessi sambræðingur vísindahyggju og tæknihyggju sem margir virðast trúa á er kannski ekki jafn þekkingarfræðilega örugg og við teljum okkur trú um að hún sé. Það er auðvelt að brennimerkja þessar hugmyndir sem einfalda afstæðishyggju, og margir gera það, eins og ég talaði um hér áðan.

Póstmódernismi, eins og áður segir, einskorðast þó ekki aðeins við þessa hugmynd Lyotard um fall stórsögunnar. Fleiri strengir einkenna hugtakið — til að mynda hugmyndin um að merking eigi sér ekki hlutlægan uppruna heldur sé tilfallandi og háð samhenginu í hverju hún birtist. Til er gott dæmi um nytsamlega póstmóderníska nálgun í ætt við þessa hugmynd sem beita má í geira bókmenntafræðinnar. Fræðimenn höfðu árum saman leitað tiltekins upprunalegs texta sem átti að grundvalla alla aðra „afleidda“ texta um Artúr, konung Bretlands — þann sem dró sverðið Excalibur úr steininum. Hugmyndin var sú að það hlyti að vera til einhver einn upprunalegur texti eða upprunaleg þjóðsaga sem allir aðrir textar sóttu í þegar þeir endursögðu söguna, og deilt var um hvaða tiltekni texti uppfyllti kröfuna um að vera uppruninn. 

Póstmódernisti myndi leysa þetta vandamál með því að benda á að það hafi aldrei verið neinn frumtexti til að byrja með: Artúr var margræður, brotakenndur, háður samhengi og tilfallandi til að byrja með! Enginn einn Artúr er „rétti“ Artúrinn — það er tímaeyðsla að leita upprunans vegna þess að það er aldrei hægt að setja fingurinn á nákvæman uppruna nokkurrar sögu — allar sögur, allar merkingar, allur texti er endurunninn úr því sem sögumaðurinn hefur áður dregið í sig úr menningarumhverfinu sem hann lifir og hrærist þegar í. Þegar maður segir sögu eða ljáir einhverju merkingu verður maður að notast við ákveðin tákn — tákn sem við fáum að láni úr menningunni sem heild — og þessi tákn eiga sér uppruna í öðrum táknum, sem eiga sér svo uppruna í öðrum táknum, og svo framvegis.

En hvaða gagn gera þessar hugmyndir um að stórsögunum sé ekki treystandi eða að sögurnar sem við segjum hvoru öðru eigi sér stundum enga hlutlægan uppruna, eins og í dæminu um Artúr konung? Gerir póstmódernismi nokkuð annað en að neita því sem við tökum sem gefnu — er póstmódernismi ekki bara að höggva fæturna undan kvöldmatarborðinu sem við verðum óhjákvæmilega að nota til þess að borða matinn okkar af? Ef við getum ekki reitt okkur á táknin sem við notumst við eða trúað á sögurnar sem við segjum okkur, á hvað getum við þá reitt okkur, hvað eigum við að taka trúlega? Hvað færir póstmódernismi okkur í staðinn fyrir gamla kvöldmatarborðið? Er rökrétt lokaniðurstaða póstmódernisma tómhyggjan sem Nietzsche óttaðist?

Ég er þeirrar skoðunar að póstmódernismi sem slíkur gangi nú ekki alveg svo langt að ætla sér að svipta öllum fótum undan vísindunum sjálfum — dæmandi þau merkingarlaus eða aðeins afstæð — og né heldur þarf póstmódernisminn að enda í merkingarleysu tómhyggjunnar. Hugmyndastefnu væri aldrei til dæmis aldrei fært að sannfæra alla eða meirihluta fólks um að vísindin hafi misst gildi sitt, því um leið og stefna sem slík gerði það yrði hún sjálf að vísindum og neitaði þar með sjálfri sér. Það sem póstmódernismi gerir okkur hins vegar kleift er að rannsaka hugtökin okkar um sannleika og merkingu í nákvæmara ljósi — vopnuð póstmódernisma getum við endurskoðað frumsendurnar sem við höfum ef til vill áður tekið sem gefnum.

Póstmódernisminn á það samt til að gerast nokkuð tilætlunarsamur — eins og þegar hann er nýttur til að gagnrýna raunvísindagreinar. Póstmódernismi nýtist mjög vel til rannsóknar á sviðum hug- og félagsvísinda, þar sem viðfangsefnin eru merking, þýðing, gildi og fleira sem er óhjákvæmilega huglægt skapað — en það er vægast sagt erfitt að beita greiningu á stórsögnum eða hugmyndum um textaskyldleika á fyrirbæri eins og svarthol, þyngdaraflið eða frumur. Frægt er orðiðdæmið um eðlisfræðinginn sem skrifaði þvælukennda grein sem fjallaði um að þyngdaraflið væri félagslega mótuð hugmynd fremur en einfaldlega hlutlægt afl og að raunveruleikinn væri ekki til — en eðlisfræðingurinn fékk greinina samþykkta til birtingar í póstmódernískt hugvísindarit.

Látum þetta þó gott heita í bili um hugtak póstmódernismans. Ég þykist ekki hafa skilgreint það að fullnustu hér, en vona að ég hafi ef til vill vakið áhuga einhvers á því. Helst vona ég að notkun þessa strembna hugtaks sem níðyrði verði lögð á hilluna, því sú notkun er frekar vanhugsuð, að mínu mati. Hugmyndastefnan getur verið nytsamleg og gagnslaus eftir því hvar henni er beitt, en hún hefur ekkert í huga á við það sem hinir helstu yfirlýstu andstæðingar hennar eigna henni — eyðilegging vestrænnar siðmenningar er henni alls ekki hjartans mál fremur en öðrum heimspekistefnum á við fyrirbærafræði, túlkunarfræði eða rökfræðilega raunhyggju. Fremur spyr póstmódernisminn sig: hvað í ósköpunum er þessi vestræna siðmenning, þegar allt kemur til alls? Það finnst mér holl og þörf spurning.

Um kynjun orða og mannshugtakið

Um kynjun orða og mannshugtakið

Hvað er tæknihyggja?

Hvað er tæknihyggja?