Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um smættunarhyggju og sjálfshjálparhjal

Um smættunarhyggju og sjálfshjálparhjal

Þýski hughyggjuspekingurinn G.W.F. Hegel lýsti því, eins og frægt er orðið síðan, hvernig best væri að andmæla höfuðlagsfræðingum: með því að mölva hauskúpur þeirra og þar með neita öllu því sem þeir telja sig vera (Fyrirbærafræði andans §339). Höfuðlagsfræði og útlitsfræði svokölluð ganga út á það að greina persónuleika manneskju út frá útliti hennar — þá er t.d. þjófur með útstæðan hnúð á höfuðkúpunni þar sem hún ætti að vera slétt, meðan sá sem er heiðarlegur hefur bungu á réttum stað, sá sem hefur gott peningavit hefur dæld á öðrum stað — og svo mætti halda lengi áfram. Útlitsfræði sem slík náði miklum vinsældum á 18. og 19. öld á meginlandinu vegna ritgerða rithöfundarins, guðfræðingsins og heimspekingsins Johann Kaspar Lavater, en höfuðlagsfræði á sér eldri uppruna — Aristóteles talar um það í Fyrri rökgreiningum sínum að lyndiseinkunn megi ráða af útliti manneskju vegna einingar sálarinnar og líkamans. 

Nú til dags virðist sem höfuðlags- og útlitsfræðin sé að eiga sér dálitla endurreisn — fréttir bárust af því á síðasta ári að gervigreindarmaskínum hefði tekist að greina kynhneigð einstaklinga út frá andlitseinkennum (þótt svo virðist sem þær niðurstöður hafi kannski ekki verið þær allra traustustu). Það er alls ekki undarlegt að þessar spurningar vakni stöðugt upp hjá okkur mannfólkinu. Okkur finnst eins og útlit geti gefið okkur vísbendingar um innra lyndi mannsins, og rétt eins og Aristóteles virðumst við telja sálina og líkamann geta starfað í einskonar einingu þannig að hægt sé að ráða innra eðli af ytra útliti og þá væntanlega að einhverju leyti öfugt líka. Raunar snýst þessi rökræða eða þetta málefni almennt um einmitt það — tengsl hins innra og hins ytra.

Umræðan um innra og ytra hefur sérstaklega orðið fyrirferðarmikil með tilkomu umdeildra vísindagreina á við þróunarsálfræði, sem reynir að útskýra hvernig mannlega hegðun má skýra með tilvísan til þróunarkenningarinnar. Til að mynda gæti þróunarsálfræðingur haldið því fram að ástæðan fyrir því að við reiðumst sé sú að það hafi verið náskyldum forfeðrum okkar nytsamlegt við ákveðnar aðstæður að bregðast við á sambærilegan hátt og við bregðumst við þegar við reiðumst (af hvatvísi, með afli, með ákveðinni líkamstjáningu o.s.frv.), og að nytsemi athafnarinnar hafi gert forfeðrum okkar kleift að eignast maka og afkvæmi um fram þá forfeður okkar sem ekki brugðust eins „reiðilega“ við. Þetta á ekki bara við um útskýringar á ákveðnum ferlum, heldur einnig um heilu stofnanirnar. 

Teikningar útlitsfræðinga úr 19. aldar bók um efnið.

Teikningar útlitsfræðinga úr 19. aldar bók um efnið.

Gott dæmi sem er mjög svo í deiglunni einmitt núna er þróunarsálfræðilega röksemdafærslan sem sálfræðingurinn Jordan B. Peterson heldur fram í bók sinni um Tólf reglur: samkvæmt Peterson er það manninum að einhverju leyti náttúrulegt og eðlislægt að skapa sér félagslega valdapíramída vegna þess að við notumst við boðefnið serótónín í taugakerfi okkar rétt eins og humrar (og auðvitað eins og önnur dýr), en rannsóknir á humrum hafa sýnt fram á tengsl stigskipunar þeirra og magns serótóníns sem heili þeirra framleiðir að hverju sinni. Svo það sé skýrt er Peterson ekki með þessu að halda því fram að þessir valdapíramídar séu siðferðilega réttir eða réttlætanlegir, heldur aðeins að þeir eigi sér rætur eða stoðir í náttúrulegri uppbyggingu mannfólks rétt eins og humarsins, og er það tiltölulega traust fullyrðing að mínu mati (þótt hún sé að sjálfsögðu alls ekki örugg fyrir það). Peterson er ekki sá fyrsti sem heldur þessu fram og verður heldur örugglega ekki sá síðasti til að gera það.

Hugmyndir um útlitsfræði, höfuðlagsfræði og þróunarsálfræði, þótt ólíkar séu, eiga það allar sameiginlegt að þær grundvalla ákveðnar afstöður eða tilhneigingar mannfólks í efnislegum líkömum þeirra. Ég ætla ekki að halda því fram að þessi hugmynd sé með öllu móti röng, enda getur hver maður séð að það er sannleikur í henni. Sá sem ekki fæðist með fætur, svo dæmi sé nefnt, hefur ekki getu til þess að ganga. Þann sem skortir ákveðna hluta heilans skortir sömuleiðis ákveðna starfsemi sem hlutarnir hefðu annars séð um að viðhalda. Ljóst er að um það verður seint deilt: líkamar okkar eru hlutar af okkur sem hafa mikil áhrif á það hver við erum og hvernig okkur líður að hverju sinni. Þetta ætti ég að vita manna best, vegna þess hve ógurlega skapillur ég get orðið þegar ég hvorki borða né sef skynsamlega! Deilur vakna þó þegar við reynum að skilgreina nákvæmlega hvaða gildi hið líkamlega hefur fyrir hið andlega. 

Það er venjulega um það bil hér sem fólk fer að skipta sér í hughyggjusinna og efnishyggjusinna — hvort er okkar hinsti veruleiki grundvallaður í efninu eða í andanum? Hvort er meðvitund aukaafurð rafboða í skipulegu og lifandi viðhaldi taugakerfisins eða eitthvað sem hafið er yfir hið efnislega eða verður ekki útskýrt út frá efninu, eitthvað sem er andlegt? Því miður mun okkur ekki gefast ráð né rúm til þess að svara þessum ævarandi spurningum heimspekinnar hér og nú — en þær varpa þó ljósi á umræðuefni okkar, útlitsfræði, höfuðlagsfræði, þróunarsálfræði og aðrar smættandi kenningar sem leitast að því að skýra hið andlega í hinu efnislega. Það að kenning sé smættandi (e. reductionist) þýðir ekki að hún sé röng eða slæm, svo það sé tekið fram — það þýðir bara að hún reyni að gera grein fyrir einhverju flóknu út frá þeim hlutum sem það samanstendur úr — t.d. er smættandi útskýring að Lego-hús sé sett saman úr svo eða svo mörgum einstökum kubbum, rétt eins og það er smættandi að segja að athafnir andans megi skýra með tilvísan í hinn eða þennan höfuðkúpuhnúðinn eða tiltekna genasamsetningu.

Um smættunarhyggjur og útskýringarmátt

Svo ég snúi mér aftur að Hegel — og nánar tiltekið að tilvitnuninni sem ég minntist á í byrjun ritgerðarinnar, þá sem snerist um að best væri að andmæla höfuðlagsfræðingnum með því að mölbrjóta höfuðkúpu hans — þá snýst þetta ofbeldisfulla andsvar einmitt um að sýna höfuðlagsfræðingnum fram á, í beinni athöfn, hvernig hann sjálfur er eitthvað meira en bara bein. Það eina sem höfuðlagsfræðingurinn gerir með vísindum sínum, segir Hegel, er að tengja áður framkvæmdar athafnir einstaklings við tiltekna hnúða á höfði hans — og þykist þannig hafa sýnt fram á að í beininu hafi falist vísbending um það sem manneskjan er í eðli sínu. 

Höfuðlagsfræðingurinn gefur þannig í skyn að virkileiki mannsins birtist fyrst í beininu og síðan í gjörðum hans. „Ah!“, segir hann. „Ekki furða að þessi maður hafi drepið bróður sinn. Hann er með morðingjahnúð á hnakkanum — þetta hefðum við átt að sjá fyrir!“ En er þetta ekki bara þvælukennd eftiráskýring? Eðli beinsins er nefnilega allt annað en eðli andans innra — andinn, segir Hegel, stýrir sjálfum sér, getur breytt sjálfum sér — orðið eitthvað annað en hann var. Það að vera ég sjálfur hefur það nefnilega óhjákvæmilega í för með sér að skilja hvað ég er ekki og svo samtímis hvað ég gæti verið. Þetta telur Hegel vera hvorki meira né minna en eðli sjálfsákvarðandi anda eða vilja persónunnar eins og hann leggur sig. Hið virkilega eða hið raunverulega við mannsandann verður ekki ráðið af höfuðkúpu mannsins, heldur af gjörðum hans.

Ef kjarni röksemdafærslu höfuðlagsfræðingsins er sú að innra eðli megi leiða af ytra útliti beina einstaklingsins má segja, hliðstætt, að kjarni röksemdafærslu þeirra sem halda því fram að hegðun okkar sé útskýrð af þróunarfræðilegum ástæðum sé sá að innra eðli megi leiða af uppröðunum í genasamsetningu einstaklingsins. Í báðum tilfellum er andinn smættaður í eitthvað efnislegt — í tilfelli höfuðlagsfræðingsins er andinn gerður að beini, en í tilfelli þróunarsálfræðingsins er andinn gerður að geni. Þegar allt kemur til alls er röksemdafærsla höfuðlagsfræðingsins og sálfræðingsins Peterson nokkurn veginn sú sama: þú ert þjófur vegna þess að þú ert með hnúð á höfðinu, þið stillið ykkur upp í valdapíramída vegna þess að taugakerfið ykkar notast við serótónín rétt eins og taugakerfi humarsins.

Teikning úr bók Douglas Hofstadter,  Gödel, Escher, Bach: An Eternal Golden Braid (1979).  Á stærsta sviðinu má lesa orðið MU (無), en m-ið er sett saman úr orðinu HOLISM, hver stafur orðsins settur saman úr orðinu REDUCTIONISM, hver stafur orðsins REDUCTIONISM settur saman úr orðinu MU. Hið sama gildir öfugt um stafinn U í MU á efsta sviðinu.

Teikning úr bók Douglas Hofstadter, Gödel, Escher, Bach: An Eternal Golden Braid (1979). Á stærsta sviðinu má lesa orðið MU (無), en m-ið er sett saman úr orðinu HOLISM, hver stafur orðsins settur saman úr orðinu REDUCTIONISM, hver stafur orðsins REDUCTIONISM settur saman úr orðinu MU. Hið sama gildir öfugt um stafinn U í MU á efsta sviðinu.

Ég tek aftur fram að í reynd er ekkert við þessar röksemdafærslur sem hefur nauðsynlega í för með sér siðferðilegar niðurstöður — það er ekki svo að valdapíramídar séu réttlætanlegir fyrir Peterson vegna þess að þeir eigi sér stoð í boðefnakerfinu fremur en það er réttlætanlegt að fangelsa þann sem hefur morðingjahnúð að mati höfuðlagsfræðingsins. Stóra spurningin, sem situr því eftir þegar við stöndum frammi fyrir smættunarhyggjunni, er því þessi: hvaða útskýringarmátt á það eiginlega að veita mér sem manneskju að vita að það sé hnúður á höfðinu á mér eða eitthvað við boðefnakerfi líkama míns sem knýr mig til ákveðinnar breytni umfram aðra breytni? Eða með öðrum orðum — hver er útskýringarmáttur þess að vita að viðbrögð mín séu háð magni serótónínboðefna eða að hnúður útskýri breytni mína, að því gefnu að við samþykkjum að það sé sönn fullyrðing? Hverju breytir það fyrir líf mitt?

Staðreyndin er sú að útskýringarmátturinn er enginn. Það eru þrjár mögulegar meginútkomur af þessari vitneskju: í fyrsta lagi get ég sætt mig við að vera einfaldlega hvatadrifin lífvera sem stýrir því alls ekki hvernig henni líður eða hvernig hún bregst við — í öðru lagi get ég látið þetta eins og vind um eyru þjóta og haldið lífi mínu áfram sem áður — í þriðja lagi gæti ég gert uppreisn gegn þekkingunni og barist gegn því að verða morðinginn sem hnúðurinn kveður á um að ég sé með því að læsa mig inni, eða ég gæti gerst anarkisti og barist gegn hverslags valdapíramídum sem serótónín-drifna taugakerfið mitt elskar svo mjög. 

Útkomurnar tvær þar sem ég geri róttækar breytingar á lífi mínu og gerist ýmist stórvirkur anarkisti eða þræll híerarkískra hvata minna eru annað hvort algjör neitun andans á því sem útskýringin kveður á um — ég neita fullyrðingunni með því að hafna öllum valdapíramídum tout court — eða algjör játun andans á því sem útskýringin kveður á um — ég játa fullyrðingunni og stofna þannig til sjálfs-neitandi óendanlegs dóms um neind játunar minnar, játandi því að ég sé ófær um að játa og neita heldur sé alfarið hvatadrifin lífvera keyrð áfram af merkingarlausum lífeðlisfræðilegum drifkröftum. Í báðum ákveðnu viðbrögðunum er því um raunverulega höfnun á útskýringarmætti fullyrðingarinnar að ræða. Þriðji valkosturinn, sem er að láta serótónin- eða hnúðs-fullyrðinguna sem vind um eyru þjóta, er svo einmitt sömuleiðis algjört kæruleysi gagnvart því — mér er bara alveg sama þótt einhver segi mér að kerfið mitt gangi fyrir tilteknu boðefni umfram annað og því hegði ég mér eins og ég hegða mér. Útskýringarkraftur smættunarhyggjunnar er því að endingu nákvæmlega einskis verður. 

Vítahringir og frjáls vilji

Ég hef þó ekki verið fullkomlega sanngjarn í garð Peterson upp að þessu marki. Það væri ósanngjarnt gagnvart honum að kalla hann smættunarhyggjusinna á við höfuðlagsfræðing — því hann trúir því ekki að við séum ekkert meira en taugakerfi. Hann segir nefnilega seinna í fyrsta kafla bókarinnar um Reglurnar að við séum ekki bara líkamar, heldur andar sömuleiðis. Kaflinn sem um ræðir, þar sem sálfræðingurinn kanadíski talar um boðefnakerfi humarsins og náttúrulega valdapíramída, fjallar í hnotskurn um það að maður eigi að rétta úr sér, standa beinn í baki og takast á við frumspekilegt ginnungagap heimsins. Ég myndi vísa í blaðsíður bókar Peterson en vegna þess að eintakið mitt er rafrænt veit ég ekki hvort það séu marktæk blaðsíðutöl. Ef einhver lesandi vill glöggva sig á því á hvaða hlutum textans ég byggi greiningu mína er þeim auðvitað velkomið að hafa samband við mig og ég get útskýrt hvernig ég notast við textann í hverri staðhæfingu minni.

Röksemdafærslan, lauslega, grundvallast á þeirri hugmynd að til sé einskonar „teljari“ innra með okkur, náttúrulega tilkominn teljari sem heldur utan um stöðu okkar í valdapíramídanum og veitir okkur serótónínflæði út frá því hvar við erum innan samfélagsins. Þeim sem illa gengur og lækkar í áliti annarra fær ósjálfrátt minna serótónín, rétt eins og humar sem er sigraður í bardaga, og þannig myndast neikvæður vítahringur: þér gengur illa, þú færð minna serótónín, sjálfstraust þitt minnkar, þér gengur verr, þú færð minna serótónín, og svo framvegis. Niðurstaða Peterson er svo sú að vegna þess að vítahringurinn getur einnig verið jákvæður (þér gengur vel, serótónínflæðið eykst, sjálfstraust þitt eykst, o.s.frv.) sé manni fært að gangsetja jákvæðan og sjálfsstyrkjandi spíral með því að koma fram með sjálfstrausti og reisn, beinn í baki og reiðubúinn að takast á við það sem lífið hefur upp á að bjóða. Andinn er það sem Peterson telur geta rétt úr bakinu þvert á serótónínmagnið — og andinn er því áhrifavaldurinn sem máli skiptir í röksemdafærslunni, skilji ég hana rétt. Ljóst er því að Peterson má ekki fella milliliðalaust undir þróunarsálfræðilegu smættunarhyggjuna gegn hverri ég færði rök hér fyrr í ritgerðinni. 

Það mætti því skilja röksemdafærslu Peterson á þann veg að veruleiki einstaklingsins skiptist í þrjá þætti: í fyrsta lagi er hann lífeðlisfræðilegur líkami sem er niðurstaða langs ferlis náttúruvals og gengur fyrir sig að mestu óháð hugmyndafræðilegum afstöðum okkar — í öðru lagi er einstaklingurinn opinber persóna í sviðsljósi samfélagsins sem raðast óhjákvæmilega í ákveðið valdaskema út frá athöfnum sínum og framkomu — í þriðja lagi er hann andi sem hefur ákveðinn frjálsan vilja (eða a.m.k. það sem lítur út fyrir að vera frjáls vilji) og þar með áhrifavald á heiminn í kringum sig. 

Samspilið milli lífeðlisfræðilega líkamans og samfélagsins er þá það sem skilgreinir boðefnaskiptaaðstæður hvers einstaklings fyrir sig, meðan þriðji þátturinn, andinn, virðist (eins best ég fæ skilið) geta staðið að einhverju leyti út fyrir þetta samband og tekið óháða ákvörðun um það að vera beinn í baki og skapa þannig forsendur jákvæða boðefnavítahringsins. Þetta vekur svo auðvitað upp ótal margar spurningar. Hvernig getur andinn tekið ákvörðun um að rétta úr sér, eins og Peterson vill leggja okkur til, og styrkja þar með flæði jákvæðra boðefna innan taugakerfisins? Þyrfti maður ekki að hafa rétt boðefnamagn til þess að geta tekið ákvörðunina um að rétta úr sér til að byrja með — eða er andinn hafinn yfir taugaboðefnin? 

Áhugavert er, á þessum tímapunkti, að bera hugmyndir Peterson aftur saman við hugmyndir höfuðlagsfræðingana. Vísindi þeirra voru nefnilega svo fullkomin, að þegar hugmynd þeirra um að ákveðinn hnúður á höfði manns segði til um að hann væri þjófur var gagnrýnd fyrir að standast ekki skoðun — maðurinn hefur aldrei stolið neinu! — þá gátu þeir alltaf borið fyrir sig að hér væri einfaldlega um íhlutun hins frjálsa vilja að ræða: jafnvel þótt beinið sé eðli mannsins þá getur viljinn ákveðið út fyrir ramma beinsins. Er þetta ekki nákvæmlega það sem Peterson er að leggja til — að við séum í grunninn efnisleg afleiðing sálræns þróunarferlis sem við höfum enga stjórn á, en þrátt fyrir það sé eitthvað deus ex machina innra með okkur sem er yfir þetta ferli hafið og að þetta óræða eitthvað geri okkur kleift að vera okkar eigin skipstjórar?

Með því að standa beinn í baki er ég þó í rauninni fyrst og fremst að þykjast: ég þykist vera minni aumingi en ég í reynd hef sýnt sjálfum mér, taugakerfinu og samfélaginu í kringum mig að ég sé. Þegar ég geri það gabba ég samfélagið til þess að telja mig traustsins verðan; ég set upp ásýnd sigurvegara til þess að fólk bregðist betur við mér sem að lokum narrar mitt eigið boðefnakerfi til þess að pumpa meira serótóníni í mig. Það er, ég veit að ég er valdalaus gagnvart sjálfum mér sem og samfélaginu í kringum mig — ég er ekkert annað en samspil þessarra þróunar-líffræðilegu og samfélagslegu þátta — en samtímis set ég mig í innihaldslausa stöðu geranda sem tekur fullmeðvitaða ákvörðun um að leika hlutverk einhvers sem ég er ekki. Hvar er raunverulega plássið fyrir einstaklinginn, þetta pláss sem Peterson hefur svo miklar áhyggjur af — sbr. það sem hann segir í inngangi bókarinnar um draumsýn sína þar sem hann axlaði ábyrgð á „miðpunkti Verunnar [sic]“ í kirkjunni (sbr. §352 í Daybreak eftir Nietzsche):

My dream placed me at the centre of Being [sic] itself, and there was no escape. It took me months to understand what this meant. During this time, I came to a more complete, personal realization of what the great stories of the past continually insist upon: the centre is occupied by the individual. The centre is marked by the cross, as X marks the spot. Existence at that cross is suffering and transformation—and that fact, above all, needs to be voluntarily accepted. It is possible to transcend slavish adherence to the group and its doctrines and, simultaneously, to avoid the pitfalls of its opposite extreme, nihilism. It is possible, instead, to find sufficient meaning in individual consciousness and experience.
— Jordan Peterson, 12 Rules For Life — Inngangur

Það eina sem einstaklingurinn er fær um að gera í orsakaskemanu sem Peterson lýsir í fyrsta kafla bókarinnar, contra það sem hann segir í inngangnum, er að vona hið besta: vonandi bý ég yfir nægilega miklu serótóníni, vonandi verður leiðrétt framkoma mín ekki mistúlkuð sem hroki, vonandi mun líkami minn taka við sér, o.s.frv. — svo virðist sem öll okkar vellíðan sé handan seilingar mannlegs vilja og algjörlega hendingu háð.

Mér virðist Peterson leggja upp með röksemdafærslu sem er í ætt við efnislega smættunarhyggju og á að útskýra fyrir okkur hvers vegna okkur líður alltaf svona illa (það er vegna þess að boðefnaskiptin þín eru í kássu, það er lífeðlis-þróunarfræðileg ástæða fyrir þessu, etc.) sem hann svo samtímis neitar og játar um leið í lokin þegar hann segir að okkur sé fært að plata kerfið til að gera það sem við viljum að það geri. Hvaða merkingu hefur allt röflið um boðefnakerfi ef, þegar allt kemur til alls, ég er fær um að yfirstíga það, og geri það raunar hvern einasta dag þegar ég tek ákvarðanir um athafnir mínar — og handan þess, hvað er ég einu sinni að yfirstíga ef ég er bara að þykjast vera það sem ég er ekki til þess að ginna ópersónulegt boðefnaskiptakerfi líkama míns til þess að veita mér sjálfstraust?

Er ég ekki í fullri meðvitund um að ég sé að þykjast þegar ég tek ákvörðun um að vera „andlega beinn í baki“ — veit ég ekki að ég sé að ljúga, ekki aðeins að öllum öðrum, heldur fyrst og fremst að sjálfum mér? Er það hreinskilnin sem Peterson leggur til við lesendur sína? „Já, ég veit, ég er bara taugafræðileg boðefnavél gjörsamlega undirseld geðþótta valdapíramída samfélagsins í kringum mig, en ég ætla að þykjast vera stoltur af því sem ég hef ekki áorkað til þess að geta narrað fólkið sem ég umgengst svo það komi betur fram við mig allt svo ég geti komið betur fram við sjálfan mig, vegna þess að serótónínmagn mitt og þar með sjálfstraust mitt byggir á stöðu minni í valdapíramídanum.“ Er þetta „X-ið“ sem Peterson talar um í draumnum sínum — miðpunktur þar sem skoðanir annarra skarast á við lífeðlisfræðilega vél? Er þetta virkilega einstaklingurinn — ekkert annað en skörun tveggja mismunandi ópersónulegra flæða? 

Hálfvísindaleg retórík og ljóðræna arketýpunnar

Það sem máli skiptir að endingu er nefnilega einmitt það sem ég talaði um áður: útskýringarkrafturinn — merkingin. Þetta er jú sjálfshjálparbók og til þess að henni takist markmið sitt verður hún að sannfæra lesendur sína um að hún hafi eitthvað að færa þeim, einhvern gunnfána sem þeir gætu fylgt sér undir. Spurningin er þá þessi: hvernig hjálpar það mér, sem einstaklingi, að vita að innra með mér sé flókið boðefnakerfi sem á rætur sínar að rekja til forsögulegra forfeðra okkar í frumstæðum ur-hafsjó lífsins? Breytir það einhverju að til séu náttúrulegir valdapíramídar sem við erum forrituð til að lúta þegar það kemur svo allt bara niður á því að taka persónulega ákvörðun um útvortis eða innvortis afstöðu mína gagnvart heiminum? Peterson fer mjög ljóðrænum orðum í lok kaflans um hvernig það að standa beinn í baki er ekki bara líkamlegt heldur andlegt — að það sé að samþykkja að bera „skelfilega“ ábyrgð á lífinu, að taka viljandi ákvörðun um að umbreyta ringulreið möguleikans í íbúðarhæfan og reglubundinn raunveruleika, að breyta til að þóknast Guði, segir hann jafnvel. Hann dregur samt ekki fram ljóðrænuna fyrr en hann einmitt játar sjálfur að sefandi útskýringarkraftur smættunarinnar sem hann leggur upp með sé fullkomlega gagnslaus þegar allt kemur til alls:

You might object: the bottom is real. Being at the bottom is equally real. A mere transformation of posture is insufficient to change anything that fixed. […] And fair enough.
— Jordan Peterson, 12 Rules For Life

Það er á þessum tímapunkti sem hann byrjar að tala um „að standa upp frumspekilega“ og að „standa frammi fyrir gullforða drekans“ — að það að standa beinn í baki sé að byggja sér Örk eins og Nói, að það sé að samþykkja endalok ómeðvitaðrar paradísar bernskunnar, að það sé að leiða fólkið sitt gegnum eyðimörk — þarf ég nokkuð að halda mikið lengur áfram? Hvað á þessi póesía eiginlega að tákna?

Mynd„skýring“ úr bók Peterson,  Maps of Meaning (1999) .

Mynd„skýring“ úr bók Peterson, Maps of Meaning (1999).

Eins og Nathan J. Robinson komst frábærlega að orði í grein sinni í vefritinu Current Affairs

„How does one even address material like this? It can’t be “refuted.” Are we ruled by a dragon of chaos? Is the dragon feminine? Does “the ‘state’ of preconscious paradise” have a “voluntary encounter with the unknown”? Is the episodic really more explicit than the procedural? These are not questions with answers, because they are not questions with meanings. The inflating of the obvious into the awe-inspiring is part of why Peterson can operate so successfully in the “self-help” genre. He can give people the most elementary fatherly life-advice (clean your room, stand up straight) while making it sound like Wisdom.“

Þetta heitir að grípa í hið dulræna þegar hinu vísindalega og rökræna bregst bogalistin í þágu málstaðarins sem maður lagði upp með. Það sem þessi kafli skilur eftir hjá mér er einmitt fátt annað en hálfkák: samansafn vísindalegra staðreynda um rannsóknir á humrum, frásagnir af fólki með víðáttufælni, Langdonísk greining á myndtáknum taóista (skondin staðreynd: Dan Brown hefur lýst því í viðtali að hann byggi Langdon-persónuna á goðsagnafræðingnum Joseph Campbell, sem er Peterson mikill innblástur). Áhugavert er einnig hvernig hann talar um híerarkíur sem frum-náttúrulegar og nær ævarandi þátt umhverfisins sem ku vera afleiðing náttúruvals þróunarsálfræðinnar:

All that matters, from a Darwinian perspective, is permanence—and the dominance hierarchy, however social or cultural it might appear, has been around for some half a billion years. It’s permanent. It’s real. The dominance hierarchy is not capitalism. It’s not communism, either, for that matter. It’s not the military-industrial complex. It’s not the patriarchy—that disposable, malleable, arbitrary cultural artefact. It’s not even a human creation; not in the most profound sense. It is instead a near-eternal aspect of the environment, and much of what is blamed on these more ephemeral manifestations is a consequence of its unchanging existence.
— Jordan Peterson, 12 Rules For Life

Ég er óviss um það hversu sannfærandi þessi staðhæfing er. Valdapíramídar eru ekki endilega gefna boðefnakerfislæga staðreyndin sem Peterson vill halda fram að þeir séu — raunar er alls ekki gefið að það sé satt. Vert er að nefna að hér mislas ég í fyrstu málflutning Peterson. Ég taldi hann halda því fram að feðraveldið væri ekki mannlegt sköpunarverk — sem ég gerði vegna þess að ég las „the patriarchy“ sem viðfang fornafnsins „It“ í næstu setningu. Glöggur lesandi benti mér á þennan mislestur, og leiðréttist hann hér með! Þrátt fyrir þessi mistök mín finnst mér sem þessi málsgrein sé gagnrýnisverð. Sérstaklega er þess vert að tala um náttúrurökin í síðustu setningunni: „It is instead a near-eternal aspect of the environment, and much of what is blamed on these more ephemeral manifestations is a consequence of its unchanging existence.“ Hvað er Peterson að gefa í skyn þegar hann segir þetta — eða jafnvel ekki aðeins að gefa í skyn, heldur að fullyrða? Hann er að segja að það sé ekki réttmætt að kenna hverfandi birtingarmyndum ur-valdastigans um það sem er eftir allt saman verknaður ur-valdastigans sjálfs. Þannig að þegar við kennum „feðraveldinu“ eða „kapítalisma“ um eitthvað, erum við í reynd að hengja bakara fyrir smið: raunverulegi sökudólgurinn er umhverfið okkar, náttúran, þróunarferlið, eitthvað í þá áttina.

Ég efast ekki um að skrif Peterson geti hjálpað einhverjum að bæta líf sitt. Vonandi gera þau það. Texti þarf auðvitað ekki að vera fullkomlega samkvæmur sjálfum sér eða háheimspekilegur til þess að geta linað einhver sár eða hjálpað þeim sem eru hjálpar þurfi — alls ekki. Peterson er upp á sitt besta þegar hann útskýrir hvernig maður getur lent í alvarlegu sálrænu klandri þegar maður borðar og sefur illa. Ég held að margir séu einmitt bara að leita að einhverju á við betri sjálfsaga — eitthvað sem ég efast ekki um að honum tækist ágætlega upp með að kenna fólki að gera. Hann er jú klínískur sálfræðingur og hefur mikla reynslu af því að hjálpa fólki í praktískum efnum.

Þessi fyrsti kafli metsölubókar hans um Reglur stenst þó ekki stranga heimspekilega skoðun, að mínu mati — hann segir eitt (við erum efnislegar boðefnaskiptamaskínur) og meinar annað (við erum ég-ið sem er handan efnisins, ég-ið sem stendur frumspekilega beint í baki), hendir fram staðlausum og há-melódramatískum stöfum um eyðimerkurgöngur og dauða bernskunnar, misskilur einföld hugtök eins og „feðraveldið“ — og ég veit ekki hvernig ég gæti séð mér fært að taka mann sem fer með slíkan þvætting alvarlega á vitsmunasviðinu. Hvers vegna ætti ég að taka hann alvarlega þegar hann segir að réttindabarátta og viðurkenningarkrafa transfólks deili hugmyndafræði eða heimspekilegu viðhorfi með maóisma? Hvers vegna ætti ég að taka ruglið hans um „póstmódernískan ný-marxisma“ alvarlega þegar hann veit bersýnilega ekkert hvað hann er að tala um? Hann misnotar að meira segja Heideggerísk hugtök á við Sein þegar hann notar orðið „Being“ (og „útskýrir“ í hrapallega lélegri neðanmálsgrein að hann hafi „komist í tæri við“ hugsun Heidegger). 

Vitið þið hvað kæru lesendur... ég ætla að halda mig við að lesa aðra hugsuði — hugsuði á borð við Hegel, á borð við Nietzsche, á borð við Deleuze, á borð við Luce Irigaray, Slavoj Žižek, Shulamith Firestone, bell hooks, Martin Heidegger, Judith Butler, Maurice Merleau-Ponty, Rosi Braidotti og Donna Haraway. Það er svo margt annað sem hægt er að lesa! En yndislegur, þessi margræði hugarheimur. Ég ætla að kalla þessa færslu kláraða einmitt núna — ég hef varið langtum of miklum tíma í að skrifa hana. Endilega heyrið í mér á athugasemdaspjallinu eða í einkaskilaboðum ef þið viljið rífast við mig um eitthvað — mér þykir nefnilega svo gaman að rökræða um öll mín þessi hugðarefni. Kærar kveðjur og vonandi hafið þið það öll gott um páskana!

Hvað er tæknihyggja?

Hvað er tæknihyggja?

Angist og matematík í Heidegger

Angist og matematík í Heidegger