Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Skáldlist, ljóðlist, míkróblogg og framtíð bókmennta

Skáldlist, ljóðlist, míkróblogg og framtíð bókmennta

Eins og frægt er lýsti franski bókmenntagagnrýnandinn Roland Barthes því yfir árið 1967 að höfundurinn væri dáinn — hvorki meira né minna. Höfundurinn, þetta stóra nafn sem stendur framan á bókakápunni og er oft í stærra letri en titill verksins, er einstaklingurinn sem ritaði verkið, skapaði það. Frá upphafi hefur þessum höfundi verið gefið mikið vægi í bókmenntagagnrýni — textinn er greindur út frá tilætlan höfundarins, metinn út frá því sem höfundurinn vildi koma til skila, dæmdur út frá því hvernig höfundinum fannst að verkið ætti að vera. Barthes hélt því fram að þetta væri slæleg bókmenntagagnrýni. Höfundurinn stýrir því í raun og veru ekki hvernig verki hans er tekið eða hvernig við ættum að lesa það — um leið og verkið er gefið út er það orðið sameign allra þeirra sem það innbyrða, sprangandi um frjálst undan alræðisoki blekpenna höfundar síns.

Tökum dæmi. Rithöfundurinn breski Aldous Huxley gaf út verkið Brave New World, sem á íslensku heitir Veröld ný og góð, árið 1931, en í verkinu birtist okkur skýr og ljóslifandi mynd af dystópísku samfélagi. Allir neyta eiturlyfja og hedónisminn er allsráðandi — listir, sannleikur og hugsun hafa öll orðið undir í fellibyl neyslusamfélagsins með öllum sínum tækniþróunum og kynbótum. Síðar, árið 1958, gaf Huxley svo út annað verk — Brave New World Revisited. Það var heimildaverk hvar höfundur greinir hvort heimurinn hafi færst nær dystópískum heimi Veraldarinnar nýju og góðu eður ei frá því að verkið var gefið út. Nú skulum við gefa okkur að við séum bókmenntagagnrýnendur og hyggjumst skrifa ritdóm um fyrra verkið — Brave New World. Okkur gæti ef til vill dottið í hug að leita í seinna verkið til þess að fá álit rithöfundar á einhverju tilteknu vafamáli eða skýrari túlkun á því hvað hann meinti með hinni eða þessari persónu, og svo framvegis — en ef við aðhylltumst kenningu Barthes um dauða höfundarins væri það okkur með öllu gagnslaust og jafnvel skaðlegt að leita í heimildir höfundarins fremur en einhvers annars, eða að reyna að rökstyðja greiningu okkar með tilvísan í útskýringar Huxleys. Huxley sjálfur getur þannig ekki veitt okkur neina frekari innsýn í verkið umfram nokkurn annan og við getum aldrei tekið hans orði sem endanlegu og algjöru. 

Síðan Barthes lagði fram kenningu sína hafa þó orðið talsverð straumhvörf í eðli bókmennta samhliða breytingum á eðli tækninnar og miðlunar lista í gegnum tækni. Í fyrsta lagi hefur stærsta forlag heims, internetið, gert öllum með einfalda tölvu og nettengingu kleift að verða rithöfundar og birta hvaða hugsanir sem þeim gæti dottið í hug á örskotsstundu. Enn fremur hafa sprottið upp svokallaðir samfélagsmiðlar — tíðrædd fyrirbæri vissulega — og þjóna þau að sama skapi sem grundvöllur textabirtingar. Sumir þeirra, eins og Twitter, eru svo þess eðlis að þau byggja einmitt á því að maður geti birt stutt textabrot á orskotsstundu. Twitter hefur verið kallað míkró-blogg fyrir vikið. Er ég þá að blogga þegar ég tísti? Er ég rithöfundur þegar ég skelli í tólfstig-taggið? Er það skáldverk að tísta einhverju sem gerðist ekki? Gætu spjallgluggarnir okkar á Facebook talist til bókmennta rétt eins og bréfaskrif hafa gert til þessa? Eru tíst ef til vill ákveðið ljóðform með skilgreindar reglur um hvað telst til réttrar notkunar og flutnings? Þetta eru áleitnar spurningar — en ég ætla aðeins að velta fyrir mér þeirri síðustu: rétt eins og hexametrur innihalda sex bragliði sem eru kyrfilega skilgreindir eftir atkvæðafjölda og -lengd eru skilyrði þess að maður geti birt tístið sitt á Twitter meðal annars þau að tístið innihaldi ekki fleiri en 140 stafi og fjórar ljósmyndir eða eitt myndband.

Er þessi samanburður kannski smá súrrealískur? Já, líklega. En höfum í huga að atómljóðin voru það líka til að byrja með — fáránleg og úr takti við allt sem ljóðlistin gengur út á. Kannski munu samfélagsmiðlar gegna stóru hlutverki í framtíð ljóðlistarinnar og bókmenntana. Það er aldrei að vita. Nú þegar hafa ungskáld á borð við Eydísi Blöndal, sem gaf út hið vinsæla ljóðverk Tíst og bast árið 2015, notast við Twitter bæði í kynningu á ljóðlist sinni og form í skáldhætti sínum og stíl. Í viðtali við mbl.is árið 2015 sagði Eydís eftirfarandi um eðli ljóðsins fyrir sér: — „Manni er alltaf kennt að það er eitt­hvað „rétt“ ljóðform og ef maður geri eitt­hvað annað en það sé maður að skrifa skrýtið ljóð. Mér finnst ljóð ekki þurfa að vera með víxl­rími og fara eft­ir öll­um þess­um regl­um. Fyr­ir mér er ljóð það að taka erfiða til­finn­ingu og þjappa henni sam­an í stutt­an og hnit­miðaðan texta sem hitt­ir les­and­ann í hjart­astað.“ Við værum auðvitað að fara þvert á Barthes með því að notfæra okkur frásögn höfundarins sem heimild fyrir því hvernig lesa ætti ljóðlistina — en ég er fyrst og fremst að velta fyrir mér hvað það er við Twitter-formið sem gæti talist til þess að heita bragarháttur. Það er þessi knappleiki sem Eydís minnist á — stutti og hnitmiðaði textinn, ekki fleiri en 140 stafir alls — sem er einkennandi fyrir stílinn, bragarháttinn — ef svo má að orði komast. 

Í þessu sama viðtali minnist Eydís á að hún óski þess að vekja upp áhuga ungs fólks á ljóðlist — að kynslóðabilið geti ef til vill orðið til þess að ungt fólk finni litla sem enga tengingu við ljóð eldra fólks og að með knöppum stíl, orðbragði og hinum nútímalegu viðfangsefnum sem hún beitir í Tíst og bast gæti hún mögulega stofnað til sterkari tengingar. Þetta er áhugavert — þetta áhugaleysi yngri kynslóðanna fyrir bókmenntum — og þess virði að velta vöngum vel og lengi yfir. Er það eins og Eydís segir — að kynslóðabilið sé það sem valdi þessari niðursveiflu í lestri? Ég hefði haldið að það gæti vel verið þáttur, en að það kæmi meira til. Íslendingar eru og hafa lengi verið einstaklega stoltir af því að vera sérleg bókmenntaþjóð — öll erum við læs, auk þess sem við sönkum að okkur bókum, gefum þær í gjafir, eigum allflest heilu skápafyllin af bókum, og ofan á allt stærum við okkur af langri og stæðilegri bókmenntasögu. Eitthvað hefur þó breyst upp á síðkastið. Lestur fer dvínandi og það hratt. Ekki bara ljóðlestur heldur allur lestur. Allflestir geta lesið sér til gagns en gamanið fer hverfandi — sífellt færri geta lesið sér til gamans. Þvert á það sem Barthes heldur fram gætum við jafnvel mögulega fullyrt að höfundurinn sé sprellilifandi — það sé lesandinn sem sé dáinn eða heyji í það minnsta dauðastríð sitt um þessar mundir.

Hver er morðingi lesandans? Er það sjónvarpið, snjallsíminn, tölvuleikir, Netflix, kapítalisminn, tækni alfarið, náttúran sjálf eða Guðleysið? Hver veit? Ekki ég. Það er auðvelt að benda og kenna einhverju utanaðkomandi um að áhugi fari dvínandi. Kannski spilar allt ofantalið inn í og kannski er það bara einhverju öðru að kenna. Persónulega hef ég engar óskaplegar áhyggjur af vinsældum lesturs. Lestur hefur raunar aldrei verið vinsælli, sögulega, en hann er nú til dags — það verða alltaf rithöfundar og það verða alltaf lesendur — og auðvitað er ekki hægt að þrýsta lestri upp á fólk sem hefur einfaldlega ekki áhuga á iðjunni. Lestur er krefjandi bæði á tíma, einbeitingu og fjármagn. Þrátt fyrir það er hann líklega ein besta hugarleikfimi sem manni býðst, og ég mæli með því við hvern sem ég hitti að þau lesi meira, reyni að gera lestur að ávana, einhverju á við að eta eða drekka, og svo framvegis.

Framtíð bókmenntanna er óljós. Hversu fljót sem við erum til að lýsa því yfir að höfundurinn sé dáinn, eins og Barthes gerir, eða að lesandinn sé dáinn — ályktunina sem draga mætti af dystópískri frásögn Huxley — þá verður alltaf gífurlega áhugavert að fylgjast með því hvernig skáldlistin gæti þróast og breyst í takt við tækniþróanir og textaformið í takt við tæknina. Kannski getur tístið innihaldið vísi að einhverju nýju í ljóðlist og kannski verða Facebook-spjallgluggarnir okkar gefnir út sem söguleg bréfaskipti öldum síðar rétt eins og við gefum út bréfaskipti hefðafólks og heimspekinga nú til dags. Það er aldrei að vita. En ég bið ykkur að hafa mig afsakaðan núna — ég þarf að fara að tísta út nokkrum ljóðum og skrifa kærustunni sonnettu í Messenger. Auðvitað megið þið svo lesa það allt líka, seinna meir.

Katharsis 16

Katharsis 16

Um staði og merkingu þeirra

Um staði og merkingu þeirra