Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um staði og merkingu þeirra

Um staði og merkingu þeirra

Ég hef verið að velta merkingu orðsins „staður“ fyrir mér um nokkra stund. Hvað eru staðir? Eru staðir bara landfræðilegs og rúmfræðilegs eðlis, eða eiga þeir sér ekki einhvern tilfinningalegan og mannlegan grundvöll að sama skapi? Í pistli dagsins vil ég hugsa stuttlega upphátt um hugtakið staður og merkingu þess — bæði í skilningnum sem við leggjum í það frá degi til dags en einnig í heimspekilegum skilningi. Ég hef áður hugsað um staði í pistli hér í Lestinni — en þá spurði ég þeirrar spurningar hvort internetið væri staður. Spurningunni svaraði ég að lokum með já-i og nei-i: internetið er staður að því leyti sem það hefur efnislegan grundvöll í heiminum, en það er fremur líkt ástandi að því leyti sem það er allsstaðar og hvergi.

En hugum nú nánar að þessu hugtaki um stað: hvað er staður? Það er auðvelt að lenda í hringavitleysu þegar maður reynir að skilgreina stað til dæmis sem staðsetningu, þar eð hugtakið um staðsetningu felur nú þegar í sér hugtakið um stað. Fremur er staður eitthvað sem á sér huglæga og afmarkaða tilvist í hugum okkar og er ef til vill minnislegur merkimiði, hannaður til þess að merkja tiltekin afmörkuð rúmtímaleg svið eða svæði, greina þau frá öðrum og eignast þau. Staður er því einskonar óðal: lífssvæði sem við höfum merkt og eignað okkur. Vegna þess að við erum félagslegar skynsemis-tilfinningaverur skilgreinum við ákveðna staði í sameiningu og mótum þessar skilgreiningar í sameiningu — það er, jafnvel þótt við höfum aldrei komið til kofa munks í Kína myndum við samt alltaf samþykkja að þessi kofi á þessum tiltekna stað væri skilgreindur út frá þessum kínverska munk, og að sama skapi myndum við alltaf skilgreina Berlín sem Berlín, það er sem ákveðinn stað, hvort sem systir okkar flytur þangað eða ekki.

Það er því nokkuð ljóst að það skiptir máli hvernig við bendlum staði við fólk. Í dæminu um kínverska munkinn væri okkur staðurinn sem kofi hans er byggður á talsvert kærari ef við hefðum lesið ljóð eftir munkinn, og vitaskuld tekur Berlín á sig nýtt ljós þegar ástvinur okkar flytur þangað — það segir sig sjálft. Mér virðist því svo sem staðir séu að mjög miklu leyti skilgreindir og þeim gefið vægi út frá fólkinu í kringum okkur og svo út frá fólkinu sem er ekki í kringum okkur. Þetta þýðir að staðir séu frekar félagslegir í eðli sínu — ekki aðeins gefum við þeim tilfinningalegt vægi út frá minningum okkar um þá heldur magnast þessar tilfinningar upp þegar við tvinnum þær saman við minningar um annað fólk. Við brennimerkjum staði með hugmyndum okkar um fólkið sem umkringir okkur.

Þetta þýðir þó ekki að staðir geti ekki verið okkur kærir aðeins að því leyti sem við erum einstaklingar — síður en svo. Við sem einstaklingar erum vissulega einnig fólk og getum auðveldlega brennimerkt staði út frá minningum eða tilfinningum sem þeir vekja upp með okkur. Mér kemur til hugar hugtak Immanuel Kant um hið háleita — hriffræðilega tilfinningu sem vaknar upp innra með okkur þegar við verðum vitni að hlutum á borð við náttúruhamfarir, kosmískar stærðir og stórlæti manna: það er tilfinning okkar fyrir mikilfengleika heimsins. Staðir geta vakið upp með okkur tilfinninguna sem um ræðir — ég, til að mynda, fann sterklega fyrir þessari tilfinningu innra með mér þegar ég ferðaðist fyrst til fossins Dynjanda á Vestfjörðum, auk þess sem ég hef fundið hana við tilhugsunina um trén ævafornu í Sequoia-þjóðgarði í Kaliforníufylki Bandaríkjanna. Þessir staðir fylla mig tilfinningu fyrir smæð minni í stórfenglegum alheimi og hafa sem slíkir algjörlega persónulegt einstaklingsgildi.

En þetta er ekki eina leiðin til að eignast stað fyrir sig — til að eiga stað sem maður tvinnar saman við sína eigin persónu. Ég hugsa til norska heimspekingsins Arne Næss, hugsuðar sem velti hugtakinu um stað mikið og lengi fyrir sér, í þessu samhengi. Arne, sem lést árið 2009 þá 96 ára gamall og var lengi viðriðinn umhverfisverndarhreyfingum, skrifaði um hugtakið í ritgerð sinni: „Dæmi um stað: Tvergastein“. Í ritgerðinni fjallar hann um staði og hvernig við getum kallað suma staði okkar heimastaði. Hann tekur staðinn Tvergastein sem dæmi — Tvergastein er svæði á fjallinu Hallingskarvet, staðsett 1.500 metrum yfir sjávarmáli, staðsett nálægt litlu stöðuvatni eða tjörn sem kallast Tvergasteintjernet. Næss talar um hvernig Hallingskarvet hafi alltaf fangað hina áðurnefndu tilfinningu fyrir hinu háleita innra með sér þegar hann var ungur — og þegar hann óx úr grasi byggði hann sér lítinn kofa við Tvergastein. Hann gerði Tvergastein að sínum stað — raunar fannst honum hann verða að gera það. 

Hann fann skarpa þörf fyrir að eignast stað vegna þess sem hann kallar „alheims-staðar-tæringin“ — ferlinu sem er að gera út af við staði um heim allan. Hann talar um að í fortíðinni hafi fólk lifað af landinu, sem hafi myndað sjálfkrafa ákveðna heimastaðartilfinningu — tengsl við ættjörðina — sömu tilfinningu og Joad-fjölskyldan finnur þegar hún neyðist til að flytja til Kaliforníu í Þrúgum reiðinnar eftir John Steinbeck. Þessi heimantilfinning var órjúfanlegur hluti af sjálfinu, umhverfið verandi alveg jafn mikill hluti af manneskjunni og manneskjan var hluti af umhverfi sínu. Þessi heimantilfinning er að glatast, segir Næss, með aukinni borgvæðingu og snarpari samgöngum — við erum ekki að upplifa staði sem staði, heldur sem augnablik á Jörðu — við náum ekki þessari tengingu, náum ekki að gera staðina að okkar stöðum. Það verður æ sjaldgæfara að geta átt sér staði.

Hver hefur ekki upplifað þessa fátæktartilfinningu í bílferðum út á land — eins og maður sé einfaldlega að missa af svo miklu? Hverjum hefur ekki liðið eins og það sé smá svindl að geta bara flogið í málmfugli til annarra staða, án þess að raunverulega ferðast þangað? Það er ef til vill eitthvað að gerast með þessum aukna samgönguhraða og einsleitni: Jörðin, sem samansafn svæða og skilgreindra staða, er að bráðna niður í grunnnefnara sinn — sjálfa sig. Á einhverjum tímapunkti hættum við að hugsa um Ísland eða Indland eða Mongólíu eða Norðurskautið og hugsum einfaldlega um Jörðina — og ef við þurfum að tilgreina eitthvað einstakt á Jörðinni notum við einfaldlega hæðar- og breiddargráður til þess. Jörðin sjálf verður orðinn einn heildrænn staður, sem ekki ert hægt að skipta niður neitt nánar. Mars verður þá ef til vill annar staður, og Alfa-Kentárí verður staður sömuleiðis. 

Er þetta dapurleg framtíðarsýn? Já, ef til vill. Spurningin er hins vegar hvort hún sé að raungerast, hvort hún sé að rætast. Seint verður úr því skorið með nokkrum vísindalegum hætti hvort svo verði, en mín tilfinning er að við séum í það minnsta að færast nær þessu lokatakmarki — við erum að nálgast það, hvort sem áfangastaðurinn verður nákvæmlega þessi niðurstaða að lokum eður ei. Hvað getum við þá gert til þess að berjast við þetta ferli alheims-staðar-tæringar? Til að byrja með, segir Arne, eigum við að gerast umhverfissinnar — bæði í þeim skilningi að við eigum að verja meiri tíma í náttúrunni, gefa henni meiri gaum, en einnig í þeim skilningi að við eigum að standa vörð um hana gegn ágengum klóm mannfólks sem kann sér engar hömlur. Náttúran er forsenda staða, telur Næss.

Einnig verðum við, telur Arne, að finna þessa heimantilfinningu innra með okkur á ný og leggja rækt við hana. Hugsa vel og rækilega um það hverjir okkar staðir eru — hvort sem þeir spretta úr barnæsku vorri eða úr framtíð — og reyna að gera það sem við getum til þess að komast þangað, mynda fleiri minningar þar, eignast staðina fyrir okkur og fyrir fólkið sem við elskum. Allt er þetta hægara sagt en gert, vissulega. Það krefst tíma, vinnu og hugsunar að eignast staði. En maður fær líka svo mikið til baka. Maður upplifir þessa heima-tilfinningu: hér á ég heima, þetta er minn staður, hér hvílir hjarta mitt! Sálin fagnar og upplyftist. Staðir eru hluti af sjálfsímynd okkar — og það er nauðsynlegur hluti af því að öðlast skilning á sjálfinu að eiga sér heimakæran stað, hjartaóðal, ætthaga. Svo ef þú átt engan stað, íhugaðu þá hvort þú hafir ráð á því að eignast einn slíkan. Það er vel þess virði.

 Staðir eru miklu meira en einfaldlega tiltekinn punktur í rúmtíma sem hefur fengið á sig ákveðinn málrökfræðilegan merkimiða. Staðir eru hluti af mannleikanum sjálfum, hluti af sjálfi hvers og eins sem og hluti af þjóðar- og félagssjálfinu. Við verðum að byrja að hugsa meira um staðina okkar og sjá til þess að þeir varðveitist -- hvort sem er fyrir sakir staðarins sjálfs eða okkar eigin sakir -- því þegar allt kemur til alls er það einn og sami hluturinn. Þegar við köllum eftir umhverfisvernd köllum við því í reynd eftir okkar eigin heilbrigði, okkar eigin framtíð -- framtíð þar sem við höfum styrkt bönd okkar við staðina sem við byggjum, búum og okkur er kært um. Það er, að ég tel, ótvírætt góð framtíð.

Skáldlist, ljóðlist, míkróblogg og framtíð bókmennta

Skáldlist, ljóðlist, míkróblogg og framtíð bókmennta

Internetið sem formgerving hins illa

Internetið sem formgerving hins illa