Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Katharsis 16

Katharsis 16

Himininn er sem rauðrunnate á litinn, og ég hef syrgt regnbogann of lengi til þess að geta sleppt því að dáðst að litnum, ljósinu er það brotnar á ósonlaginu, hugrenningunum sem það vekur innra með mér — karamelluvarir, súkkulaðihár, sykruð augun — hún birtist mér í hillingum. Ástin mín hefur yfirgefið mig, en hve lengi verður hún mér horfin?

Hvert fer ég? Er ég bíll á fleygiferð um hlykkjótta fjallavegi, með brotinn gírkassa og slitna bremsuklossa? Er ég Endymíon, sofandi undir kýpresstré, baðaður tunglgeislum hinnar fjarrænu Selene? Er ég þyrstur þykkblöðungur sem neitar að deyja, sama hversu illa með hann er farið? Er ég bók sem mun sitja á hillu alheimsins að eilífu, safna ryki, verbum illectum? Er ég Hefaístos nýhrapaður við rætur Ólympsfjalls, haltur og brotinn, smiður einskis nema orðastrengja? Er ég auðnuleysingi og leirburðarskáld, óraunsætt draumórafífl með lúsugan fjaðurpenna og útrunninn Snöruaðgang?

Hvað mun ég skrifa, og hví hef ég ekki skrifað það enn? Texti er kristallaður mannsandi, brot af manneskju, nútíminn sub specie aeternitatis, óendanleikinn innra með okkur færður út. Þýðir það að mannsandi minn sé ófullkominn, takmarkaður? Er ekkert orð, engin skilgreining, sem fullkomnar mig, nær yfir mig frá upphafi til enda, og felur alla veröldina í sér samtímis? Er enginn byrjunarpunktur, er enginn endapunktur? Hvar finn ég óendanleikann ef ekki innra með mér?

Ég þrái augu sem sjá í gegnum mig, hendur sem geyma hjarta mitt í lófum sér, eyru sem heyra hugsanir mínar gegnum blóðflæðið þúmp þúmp þúmp, nasir sem finna saltan ilm tára minna, huga sem kann mig utanað. Ég þrái að þekkja sjálfan mig gegnum hana, ég þrái að komast að mínum innstu hjartafræum eftir að ég hef sáð þeim í jarðvegi sem er handan míns eigin rúmtaks. Ég þrái að loka bilinu, verða lofttegund sem fyllir upp í tómarúmið til hálfs við sætt súrefni hennar sem mig fýsir í dag hvern. Eros skapar mér landamæri á hverjum degi: Ginnungagöp, vandrataðar auðnir, titrandi tár — ófullkomin Sjálf sem fullkomnast í Aðrinu.

SUMMA KARL I: ATROPHIAE PSYCHAE – BENEDICTIONES MENSAE stendur á kili fyrsta bindis alfræðiorðabókar verundar minnar. Það stendur ritað gylltum greyptum stöfum, summa Karls Ólafs, hver draumur hans og þrá; verða að uglu með geysivítt vænghaf; drekka í mig hvert einasta sólsetur sem ég kem augum yfir; fórna mér fyrir málstað; verða sem laufblað, breytandi ljósi í sykur; grafast undir óendanlega þungum jarðlögum, beinagrind mín sem Atlas undirheimanna, en ólíkt þeim sem heldur uppi himninum að ofan finn ég engan Herkúles upphefjast, því hann rotnar þarna niðri með mér.

Raunir Karls unga, sjálfsmorðsáhugamanns, meistara einskis, draumóramanns, álku og aumingja — á ég að segja þér hvernig sagan endar? Hún endar ekki með ósköpum, hún endar ekki með neinni faustískri upphafningu, hún endar ekki eins og Nýja testamentið. Nei, það væri of góður endir. Hún endar hljóðlega, á sama hátt og hún byrjaði, þegar alheimurinn í útgáfu minni líður undir lok, og öll brotabrotin sem söfnuðust saman í að heita ég hætta að vera ég. Sagan endar í miðju orði, án þess að nokkur geti botnað hana almennile

Finnst þér ég sniðugur? Fyndinn? Er ég melankólískur? Finnurðu mig? Er ég viðloðandi orðin sem ég skrifa? Hvað er eftir af mér? Er eitthvað eftir af mér, svona fyrir utan gordíonshnútinn í maga mér? Hugsaðu það vel og hugsaðu það vandlega. Kannski er ég orðinn brotabrot af þér. Kannski erfirðu hnútinn minn, kannski verður hann hnúturinn þinn eftir allt saman. Vonandi geturðu skorið á hann. Við værum þér þakklát.

Orðin tóm, ein og sér

Orðin tóm, ein og sér

Skáldlist, ljóðlist, míkróblogg og framtíð bókmennta

Skáldlist, ljóðlist, míkróblogg og framtíð bókmennta