Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Internetið sem formgerving hins illa

Internetið sem formgerving hins illa

Í heimildarmyndinni Lo and Behold fjallar kvikmyndagerðarmaðurinn og rithöfundurinn heimskunni Werner Herzog um internetið og líf manna á stafrænni öld. Til að byrja með fjallar hann um fyrstu daga internetsins í Kaliforníu og þróun þess í óræða báknið sem við þekkjum í dag, en síðar í myndinni talar hann um hinar myrkari hliðar internetsins. Hann tekur viðtal við fjölskyldu ungrar konu sem lést í hræðilegu bílslysi, af hverju ljósmyndir voru teknar sem var svo dreift um internetið miskunnarlaust. Á ljósmyndinni sjást alvarlegir áverkar stúlkunnar greinilega. Ekki leið á löngu þar til fjölskyldunni fór að berast nafnlaus og órekjanleg tölvupóstskeyti sem höfðu ljósmyndina í viðhengi — auk hatursfullra skilaboða af ýmsu tagi. Sérstaklega kom þetta fjölskyldumeðlimum stúlkunnar að óvörum þar eð þeim hafði ekki verið sagt frá áverkum dótturinnar í smáatriðum — ekki eins og myndin sýndi þá í öllum sínum óskapnaði — og það hafði veruleg djúpristandi áhrif á þau öll með tölu.

 Í blálok viðtals Herzog við fjölskylduna nefnir móðir stúlkunnar sem lést að hún hafi alltaf verið þeirrar skoðunar að internetið innihaldi ekki einu sinni eins og snefil af virðingu og reisn — þar eð fólk er ekki ábyrgt fyrir gjörðum sínum þar. Internetið, segir móðirin, hefur alltaf virst henni sem birtingarmynd andkrists sjálfs, birtingarmynd illskunnar sjálfrar. Internetið er andi illskunnar — andi sem flæðir gegnum alla á jarðríki, sölsandi fólk undir sig, eignandi sér það. Yfirlýsing konunnar verður seint talin smá í sniðum — fremur er hún eins veigamikil og hægt er. Ekki aðeins svífur andi illskunnar yfir vötnum heldur eru umrædd vötn internetið sjálft, gluggi illskunnar inn í veröldina, andkristur holdi klæddur og hræðilegur.

 Auðvelt er að benda á hin ýmsu dæmi um góðvild og kærleik sem birst hefur í gegnum og vegna internetsins — svo auðvelt, raunar, að það segir sig sjálft að fullyrðing konunnar fær ekki staðist í sinni upprunalegu mynd. Að mínu mati inniheldur hún þó mikilvægt sannleikskorn — bæði hvað viðkemur eðli illskunnar sem og hvað varðar ábyrgð, virðingu og reisn. Í þessum stutta pistli hyggst ég því velta því nánar fyrir mér hvað felst í því að bera ábyrgð á gjörðum sínum, hvað virðing er í siðferðilegum skilningi, og hvað illska gæti þýtt í þessu samhengi. 

Byrjum á því að hugsa okkur hvað felst í því að bera ábyrgð á orðum okkar og gjörðum á netinu. Til að byrja með hugsum við okkur internetið — verkfæri til þess að miðla upplýsingum leiftursnöggt milli staða — og því næst hugsum við okkur mannfólkið, siðferðilegar persónur sem geta haft áhrif hvort á annað með miðlun upplýsinga sín á milli, þessi miðlun hafandi ákveðinn siðferðilegan þátt. Enginn myndi neita því að með orðum sínum eða annarri tjáningu sé hægt að hafa verulega meiðandi áhrif á annað fólk, né heldur að hugsun okkar um hegðun að því leyti sem hún snertir annað fólk sé siðferðileg hugsun. Þetta er því að ég tel nokkuð skýrt: það er hægt að nota internetið, verkfæri til þess að miðla upplýsingum, til þess að særa annað fólk, og þegar við tökum ákvörðun um að miðla særandi upplýsingum tökum við siðferðilega ákvörðun.

Þegar við snertum annað fólk með upplýsingum okkar á netinu erum við því siðferðisverur — því verður varla neitað. Um leið og við samþykkjum þetta birtist okkur áleitin spurning — spurning sem fjölskyldumóðirin sem ég talaði um hér áðan var búin að svara mjög kyrfilega: hver er það sem sér til þess að við berum ábyrgð á siðferðilegum ákvörðunum okkar á netinu? Móðirin myndi segja: enginn. Það er enginn hobbesískur Levíatan sem passar upp á að við brjótum ekki af okkur. Nafnleynd er auðveld og erfitt getur verið fyrir meðaleinstakling að rekja slóðir skilaboða sem þeim berast. Löggæslustofnanir búa vissulega yfir einhverjum úrræðum til þess að leita uppi sakborninga í alvarlegum afbrotamálum eins og dreifingu myndefnis sem inniheldur barnaníð og morð og þaðan eftir götunum, en fyrir meðaljón er hartnær ómögulegt að komast að því hver sendi þeim nauðgunarhótun eða ljósmynd af látnum líkama dóttur sinnar — hvað þá að fara með það fyrir dómstóla og fá skaðabætur eða refsingu dæmda á viðkomandi.

Af þessu öllu leiðir að það eru tilfelli um mannlega hegðun á internetinu hvar siðferðisvera braut gegn betri vitund sinni og særði aðra persónu ranglega — án þess að nokkur stofnun eða löggæsluaðili væri einu sinni valkostur í málinu. Það eru raunar ekki aðeins tilfelli, heldur er þetta raunveruleikinn fyrir ótal vefnotendum — sérstaklega konum sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna á netinu, en sumar hverjar fá þær ótal viðbjóðssendingar á hverjum einasta degi þar sem þeim er hótað lífláti, kynferðisbrotum, eignaspjöllum eða þær einfaldlega kallaðar ljótum nöfnum fyrir skoðanir sínar á stjórnmálum. Þetta er raunveruleiki margra og sumra umfram aðra, og það er sannarlega frekar viðbjóðsleg tilhugsun að slík óværa fái að viðgangast. En er þessi óværa virkilega svokölluð birtingarmynd illskunnar, gluggi andkrists inn í jarðlífið? Hugsum aðeins betur um hvað hugtakið um illsku merkir fyrir okkur. 

Í grunninn er sá sem breytir ranglega í fullri meðvitund um ranglæti sitt án þess að hafa neinar frekari réttlætingar fyrir hendi illur. Sá sem er illur gerir sér fulla grein fyrir ranglæti sínu en breytir samt vegna þess að þeim finnst einhver tiltekin ástæða — sem hefur oftar en ekki eitthvað með persónulega hagsmuni þess sem breytir að gera — vera þyngri á metunum en hin viðteknu altæku lögmál siðferðisins. Hver eru þessi altæku lögmál? Til að mynda er altækt lögmál að drepa ekki, að kveikja ekki í, að særa ekki, að nauðga ekki, og svo framvegis. Það má ekki gera þetta við neinn, óháð aðstæðum og ástæðum. Það er svo annar kafli og efni í heilt heimspekirit hvers vegna þessi lögmál séu altæk og hvort hugmyndin um altæk lögmál eigi rétt á sér, en svo djúpt leyfum við okkur ekki að fara að svo stöddu. Við látum okkur nægja að vita að illska snúist, til að mynda, um að vita fullvel að það sé altækt lögmál að rangt sé að myrða fólk, en myrða einhvern þrátt fyrir þessa vitund — hvort sem er vegna þess að morðið hentar þeim sem myrðir eða þá vegna þess að þeim fannst það réttara þvert á hið altæka lögmál. 

Samkvæmt þessari bráðabirgðaskilgreiningu gæti það vel talist réttlætanlegt að segja að illskan birtist okkur á netinu. Við vitum fullvel að það sé rangt að hrauna yfir einhvern og senda þeim andstyggileg skilaboð en við gerum það samt, vegna þess til dæmis að bræði okkar er skynsemi og siðferðisvitund okkar yfirsterkari. Er þessi illska inngöngupunktur antíkrists á jörðinni? Það get ég ekki fullyrt neitt um. En víst er að illska lúrir undir björtu og glyskennu yfirborði internetsins — djúp og ólgandi illska, ef til vill uppsöfnuð og rotnandi, illska sem fær útrás í gegnum nafnleyndir vefsins, illska einstaklingsins felandi sig bak við grímu fjöldans, grímu formleikans — ef til vill líkt og Eichmann í Jerúsalem forðum. Hver er þá lausnin? Hvernig tryggjum við að illska fái sín maklegu málagjöld á internetinu? Er það yfir höfuð mögulegt? Er illska eitthvað sem við getum losað okkur við almennt — eitthvað sem við fáum yfir ráðið?  

Að mínu mati myndu flestar tilraunir til að stýra siðferðishegðun einstaklinga á internetinu enda með ósköpum — þannig að einhver gerræðismaður eða -nefnd færi með refsivald yfir því hvað má segja við hvern, endurskilgreinandi reglurnar til þess að henta refsingunum en ekki öfugt. Illska væri þá bæði á grunnstigi internetsins, stigi hins almenna notanda, sem og á æðra stigi þess, í reglugerðum netsins. Ofan á það er ég óviss um að illska sé eitthvað sem hægt er að losa sig við — og að internetið fengi ekki þrifist eins og raun ber vitni ef illska notenda þess væri kærleikanum yfirsterkari, ef internetið væri raunverulega andkristur. Það myndi falla um sjálft sig — enginn myndi nota það. Öllu öðru sleppt þá eru hatur, ótti, sorg, þjáning, illska og afbrýðisemi það sem mætti kalla staðreyndir mannleikans — nauðsynleg skilyrði hans. Heimur án þessara tilfinninga er okkur alveg jafn hryllilegur og heimur án hinna andstæðu tilfinninga gleði, ástar, kærleiks og svo framvegis: það er nefnilega aðeins í krafti tilvistar hinna neikvæðu tilfinninga sem við skilgreinum hið jákvæða og öfugt. Tvenndin myndar heild. 

Ég vil binda hnút á pistilinn núna með því að biðja ykkur einfaldlega að fara varlega á internetinu. Talið ekki illa um fólk, því það raunverulega hrærir það og snertir á dýpstu og innstu stöðum. Við erum öll föst í þessari hrauniðu óvilhalls alheims saman og ættum að gera okkar besta til að skvetta ekki glóandi bráðnu grjóti yfir hvort annað bara vegna þess að við erum önug yfir einhverju eða svöng eða óttaslegin eða ósofin. Aðgát skal höfð í nærveru alvefs, eins og skáldið sagði.

Um staði og merkingu þeirra

Um staði og merkingu þeirra

Tími, rúm og allt þar á milli

Tími, rúm og allt þar á milli