Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Af staðhæfanlegum heildum og guðleika náttúrunnar

Af staðhæfanlegum heildum og guðleika náttúrunnar

Árhundruð skilja að hugsuðina Baruch Spinoza og Ludwig Wittgeinstein, en þrátt fyrir þessa djúpgjá tímans tekst þeim að eiga sitthvað sameiginlegt. Hollendingurinn og gyðingurinn Spinoza var það sem Hegel hefði kallað „spekúlatífur“ heimspekingur, langt á undan sinni samtíð — verandi meðal þeirra, ásamt eleatísku heimspekingunum svo dæmi sé nefnt, til þess að skynja algjöra og óumflýjanlega einingu heimsins, þótt niðurstaða hans hafi ef til vill verið guðfræðilegri en hún var heimspekileg. Spinoza leggur undirstöður frumspeki sinnar í fyrsta kafla Siðfræðinnar (1677), verks sem er byggt upp á geómetrískan eða evklíðskan hátt — byrjandi út frá frumsetningum og leiðandi út frá þeim. Wittgenstein, hins vegar, var analýtískur heimspekingur, fæddur í Austurríki. Óvissa ríkir um trúarskoðanir hans þar eð hann hélt þeim leyndum. Heimspeki hans fjallaði að miklu leyti um rökfræði og tungumálið, og tengsl tungumálsins og hugsana okkar við raunveruleikann sem slíkan — og hver takmörk tungumáls og hugsunar eru, nánar tiltekið. Í þessari grein mun ég rannsaka í stuttu máli hvernig Tractatus Logico-Philosophicus (1921), fyrsta verk Wittgenstein, á ýmislegt sameiginlegt við spekúlatífa heimspeki Spinoza eins og hún birtist í Siðfræði hans.

Til að byrja með má nefna þá skemmtilega áhugaverðu staðreynd að nafn verks Wittgenstein, Tractatus Logico-Philosophicus, er innblásið af öðru verki eftir Spinoza, Tractatus Theologico-Politicus. Það var annar heimspekingur, G.E. Moore, sem lagði það til við Wittgenstein að kalla þetta fyrsta verk sitt eftir riti Spinoza, svo þótt það hefði verið talsvert skemmtilegra að hugsa sér að Wittgenstein hafi meðvitað haft verk Spinoza sér að innblæstri efnistakslega séð er það allsendis óvíst. Þótt Wittgenstein hafi nokkrum sinnum beitt fyrir sig spinósískum hugtökum, eins og hann gerir bæði í Tractatus og í minnisbókum sínum sem gefnar voru út eftir andlát hans, vitum við ekki hvort hann hafi raunverulega verið lærisveinn Spinoza eður ei. Þar eð hann var þekktur fyrir að forðast það alfarið að lesa eldri heimspekinga finnst mér líklegt að hann hafi ekki gefið sér sérstaklega mikinn tíma til þess að sökkva sér ofan í Spinoza — þótt það sé vel mögulegt.

Að þessum vangaveltum slepptum eru nokkrar hliðstæður að finna milli verka þeirra kumpána, sem gæti rennt stoðum undir andstæðar kenningar. Til þess að geta útskýrt þessar hliðstæður þarf ég fyrst að stikla á nokkuð stóru um verkin tvö — Siðfræðina og Tractatusinn.

Siðfræðin

Eins og ég sagði hér að ofan var Spinoza gyðingur. Hann bjó í Amsterdam og síðar í Haag. Líf hans var stormasamt og uppfullt af ofsóknum vegna skoðana hans á guðdómleiknum. Árið 1656 var hann gerður útlægur úr gyðingasamfélaginu og merktur trúvillingur fyrir heimspekilegar skoðanir sínar. Þá var hann aðeins 23 ára gamall. Útskúfunarbréfið, eða חרם‎ (cherem), hljóðaði meðal annars á þessa vegu:

Cursed be he by day and cursed be he by night; cursed be he when he lies down, and cursed be he when he rises up; cursed be he when he goes out, and cursed be he when he comes in. The Lord will not spare him; the anger and wrath of the Lord will rage against this man, and bring upon him all the curses which are written in this book, and the Lord will blot out his name from under heaven, and the Lord will separate him to his injury from all the tribes of Israel with all the curses of the covenant, which are written in the Book of the Law.

Eftir að hafa sætt þessari útskúfun var meðal annars gerð morðtilraun á hendur Spinoza — óður maður með hníf veittist að honum en tókst aðeins að gata skikkju hans. Götótta skikkjuna bar hann það sem eftir var til þess að minnast atviksins og brothættu lífsins.

Siðfræðin, eins og ég snerti á áður, er geómetrískt verk. Það byggir á tilteknum „sönnum“ frumsetningum (e. axioms) sem Spinoza beitir svo til þess að leiða út nákvæmari sannleika. Ég set orðið sönnum í gæsalappir vegna þess að séu forsendurnar ekki samþykktar fellur verkið allt um sjálft sig. Lesandanum væri þó greiða gerður að gefa Spinoza í það minnsta tækifæri til að byrja að tala — því hann er stórfenglega áhugaverður heimspekingur.

Í fyrsta kafla Siðfræðinnar talar Spinoza um Guð. Guð, fyrir honum, er ekki skeggjaður karl uppi á himnum — heldur er Guð allur alheimurinn. Nánar tiltekið er allt það sem til er ekkert nema birtingarháttur Guðs. Guð, samkvæmt skilgreiningu Spinoza, er verund eða efni sem hefur óendanlega margar einkunnir eða birtingarmyndir fyrir skynsemi okkar mannfólksins. Röksemdafærslan fyrir því að Guð sé allt og að allt sé Guð eins og hún birtist í fyrsta hluta Siðfræðinnar útleggst gróflega á þennan hátt:


1. Allt efni (e. substance, g. οὐσία/ousia) hefur að minnsta kosti eina einkunn. [Samkvæmt skilgreiningu 4 í fyrsta hluta Siðfræðinnar er einkunn það sem vitsmunirnir skynja af efni, það sem gerir okkur kleift að skynja innsta eðli þess. Spinoza telur setninguna „til er efni sem ekki hefur innsta eðli“ merkingarlausa.]

2. Það er ómögulegt fyrir tvö efni (e. substance, g. οὐσία/ousia) að hafa sömu náttúru eða einkunnir (e. attribute). [Þetta telur Spinoza vera eiginlega röknauðsyn: þegar við rannsökum tvo ísmola getum við komist að þeirri niðurstöðu að þeir séu úr sama efninu — það væri fjarstæðukennt að álykta að þeir væru úr mismunandi efni, hafandi sömu einkunnir eða náttúru. Ísmolarnir tveir eru því sami hluturinn. Þessi forsenda er einna mest umdeildust. Leibniz, meðal annarra, hefur gagnrýnt hana.]

3. Guð inniheldur allar mögulegar einkunnir. [Þessi forsenda er samkvæmt upphaflegri skilgreiningu Spinoza á Guði sem hljóðar svo: Með Guði á ég við verund sem er algjörlega óendanleg, þ.e., efni sem samanstendur af óendanlegri tölu einkunna, hver og ein þeirra látandi í ljós ævarandi og endalaust innra eðli. Lesandinn verður augljóslega að samþykkja þessa forsendu til þess að geta haldið áfram með verkið — og vei þeim sem getur ekki lagt guðleysi sitt til hliðar örskamma stund til þess að hlusta á hugmyndir þessa margbrotna heimspekings.]

4. Guð er til. [Fjórða forsendan er sönnuð í lið 11, fyrsta hluta. Sönnun hennar er svohljóðandi:

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

4.1. Þegar tveir hlutir eiga ekkert sameiginlegt getur hvorugur þeirra verið orsök hins. [Samkvæmt rökleiðingu þrjú í fyrsta hluta Siðfræðinnar út frá frumforsendum 5 og 4 (P3: Tveir hlutir sem eiga ekkert sameiginlegt verða ekki skildir hvor í gegnum hinn (5) og því (4) getur annar þeirra ekki verið orsök hins.)]

4.2. Það er ómögulegt fyrir tvö efni (e. substance, g. οὐσία/ousia) að hafa sömu náttúru eða einkunnir (e. attribute). [Sama forsenda og (2.) í meginrökfærslunni að ofan]

4.3. Tvö efni með mismunandi einkunnir eiga ekkert sameiginlegt. [Samkvæmt rökleiðingu tvö í fyrsta hluta Siðfræðinnar út frá þriðju skilgreiningu (S3: Með efni á ég við það sem er í sjálfu sér og er skilið í gegnum sjálft sig, þ.e., það hvers hugtak þarfnast ekki hugtaks einhvers annars til þess að vera mótað.)]

4.4. Því er eitt efni ómögulega orsök tilvistar annars efnis. [Út frá 4.1, 4.2, 4.3: í fyrsta lagi er ekki hægt að þekkja efni gegnum annað efni nema að þau eigi eitthvað sameiginlegt (frumforsenda 5) sem þýðir að til þess að geta þekkt orsök einhvers verða efnin tvö að eiga eitthvað sameiginlegt. Tvö efni með mismunandi einkunnir eiga ekkert sameiginlegt og engin tvö efni geta verið með sömu einkunnir, því annars væru þau sama efnið. Af þessu leiðir röknauðsynlega að eitt efni getur ómögulega verið orsök þess að annað efni er til, eða: efni verður ekki skapað af efni.]

4.5. Annaðhvort er orsök tilvistar efnis eitthvað annað efni eða efnið sjálft. En það er ekki eitthvað annað efni. [Samkvæmt frumforsendu 1 og 4.4 að ofan.]

4.6. Því er tilvist efnis falin í sjálfu sér eða þess eigin náttúru, þ.e., innsta eðli efnis inniheldur, nauðsynlega, tilvist. [Samkvæmt 4.4 og 4.5 að ofan.]

4.7. Samkvæmt skilgreiningu á Guði (útlistað í forsendu 3 að ofan) er Guð verund eða efni. Samkvæmt 4.6. er það í innsta eðli efnis að innihalda nauðsynlega tilvist. Því er Guð til. ]

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

5. Því getur ekkert annað efni en Guð verið til. [Samkvæmt ofangreindum forsendum 1., 2., 3., 4. þá er Guð ekki aðeins til, heldur býr hann yfir óendanlega mörgum einkunnum, sem gerir ráð fyrir því að hann búi yfir öllum einkunnum sem mögulegar eru í öllum efnum. Samkvæmt annarri forsendu geta tvö efni ekki búið yfir sömu einkunnunum vegna þess að þá eru þau einfaldlega sama efnið. Öll efni eru því eitt efni, Guð. QED.]


Þetta er gróf en vonandi rétt útlistun á röksemdafærslu Spinoza fyrir því að Guð sé hið eina efni og að allt eigi hlutdeild í Guði. Ljóst er hvernig þessi túlkun á guðdómleikanum gæti hafa farið fyrir brjóstið á gyðingunum sem útskúfuðu Spinoza: lýsing hans neitar því að efni geti verið skapað, hún neitar því að Guð hafi nokkurn sérstakan líkama eða form, hún neitar því að maðurinn sé sérstakur eða frábrugðinn nokkru öðru efnislegu í alheiminum og því næst neitar hún því að maðurinn hafi valfrelsi — því allt er ákveðið fyrirfram í óendanleika Guðs.

Einnig er nytsamlegt hér að gera greinarmun á hugtakatvennunni Natura Naturans og Natura Naturata. Hið fyrrnefnda, Natura Naturans, er þá sú hlið guðdómleikans sem er rökfræðilega nauðsynleg, eins og Spinoza sannaði með verufræðilegri röksemdafærslu sinni hér að ofan. Naturans snýr að hinni óumflýjanlegu og algjöru tilvist efnisins eina sem slíks. Það lýsir náttúrunni eða Guði í sínu innsta eðli, hreyfing þess er tilvistin sjálf. Natura Naturans þýðir gróflega beinþýtt: náttúran náttúrandi — myndin -andi gerir náttúruna að sagnorði og lýsir því hreyfingu hennar sem aktív verund. Natura Naturata hins vegar snertir á hlutlægum birtingarmyndum hins ævarandi eins og það birtist okkur gegnum óendanlega margar og fjölbreyttar einkunnir þess, sem er það sem skynsemin getur snert með skilningi sínum. Natura Naturata þýðir í raun, öfugt við fyrra hugtakið: náttúran náttúruð — að því leyti sem hún er orsakaferli spunnið út frá upphaflegri verund Natura Naturans. Mannfólkið getur aðeins komist í skynfæralega snertingu við orsakamyndir Náttúrunnar eða Guðs en getur komist að sannindum um hlutlæga verund hennar með ígrundun og rökhugsun — sem þýðir í raun bara að Guð þekki sjálfan sig undir eigin einkunn, mannshugarins. 

Síðar í verkinu kynnir Spinoza svo hugtakið sub specie aeternitatis. Hugtakið snýr að því hvernig eitthvað getur átt hlutdeild í óendanleikanum — eins og altæk hugtök, sem lýsa engu einstöku heldur einhverju altæku, eins og rúmi eða litnum blár — og eru sem slík ekki bundin einhverju tilteknu skeiði tímans heldur eru þau ævarandi sannleikur. Nafngiftin er úr smiðju Spinoza en við könnumst við hugtakið sem afbrigði annarra hugtaka — það er til að mynda mjög líkt hugtaki Platons um Form og einnig ber Hegel einhvern vott af því í sannleikshugtaki sínu (sbr. Phenomenology of Spirit §96: “We write down this truth; a truth cannot lose anything by being written down, any more than it can lose anything through our preserving it.” — sannleikurinn mun ekki taka stakkaskiptum ef við ritum hann, geymum hann yfir tíma.)

Frumspeki Baruch Spinoza er vægast sagt töfrandi. Geómetrískt „sannaður“ pantheismi, lokaður og ævarandi heimur í algjörri einingu við guðdóminn, hugmyndin um Guð útfærð til röklegrar lokanauðsynjar sinnar. Bertrand Russell hefur kallað Spinoza göfugastan hinna miklu heimspekinga, hinn indælasta allra heimspekinga, og Slavoj Žižek hefur sagt eftirfarandi í grein sinni, Spinoza, Kant, Hegel and... Badiou!: “Is it, then, possible at all not to love Spinoza? Who can be against a lone Jew who, on the top of it, was excommunicated by the "official" Jewish community itself?”

En nóg um Baruch, vin okkar. Ég mæli með að þið lesið verk hans, Siðfræðina. Það er sannarlega heillandi heimspekilegt meistaraverk. Snúum okkur nú að Wittgenstein og Tractatus Logico-Philosophicus.

Tractatus Logico-Philosophicus

Wittgenstein varði löngum árum á flakki milli faga. Hann slitnaði sífellt upp úr skóla hér og þar, óánægður með flest sem hann tók sér fyrir hendur, þar til hann kynntist rökfræðinni og rökgreiningarheimspeki gegnum tímamótaverk Bertrand Russell og Alfred North Whitehead, Principia Mathematica. Samkvæmt ráðleggingu föður nútímarökfræði, Gottlob Frege, hélt hann til Cambridge til þess að læra undir Russell. Þeir urðu mestu mátar og smullu vitsmunalega. Wittgenstein, sem þá hafði að eigin sögn varið heilum níu árum í þunglyndi og hinum mestu andlegu erfiðleikum — oft íhugandi sjálfsmorð — en hvatningar Russell til þess að fá hann til að helga sig heimspekinni héldu honum gangandi. Ég mæli með að þið eignist eintak af ævisögu Ray Monk um Wittgenstein — hugsuðurinn lifði atburðaríku og áhugaverðu lífi, jafnvel þótt maður sneiði alveg hjá hugverkum hans, sem væru þó mistök mikil, að ég tel.

En ræðum nú Tractatus Wittgensteins örlítið nánar. Meginmarkmið bókarinnar er að gera manninum kleift að gera skil á því sem skiljanlegt er og því sem óskiljanlegt er. Buzzfeed gerði sér mat úr þessu fyrir örfáum árum og spann upp úr því skemmtilega clickbait-grein. Á nokkuð svipaðan hátt og Siðfræði Spinoza er Tractatus uppbyggður á mjög strangan og íburðarlausan hátt, ekki geómetrískan en þó mjög stífan:

1. The world is all that is the case.

1.1 The world is the totality of facts, not of things.

1.11 The world is determined by the facts, and by their being all the facts.

1.12 For the totality of facts determines what is the case, and also whatever is not the case.

1.13 The facts in logical space are the world.

1.2 The world divides into facts.

(TLP, Pears/McGuinness trans.)

Og svo framvegis.

Meginröksemdafærslan í þessu fyrsta verki Wittgenstein er sú að hinn skiljanlegi heimur samanstandi af ótal staðhæfingum sem eru sitt á hvað sannar eða ósannar (sbr. TLP 2.05 & 2.06). Raunheimurinn er því samansafn sannra staðhæfinga og tungumálið dregur upp mynd af þessum staðhæfingum (sbr. TLP 4.001, 4.021 & 4.03). Skemmtileg hliðarhugsun af þessu inntaki er sú að hefði maður lista yfir allar sannar staðhæfingar alheimsins gæti maður tengt þær allar saman með setningatenginu og til þess að koma allri veröldinni fyrir í einni gífurlega langri setningu, kosmískri setningu.

Hin hlið röksemdafærslunnar er þó óorðuð, í takt við inntak hennar: það sem er ekki hægt að segja er óskiljanlegt og á ekki heima í almennri samræðu eða heimspekilegri rökræðu. Undir þetta falla svið siðfræði og trúarbragða, fagurfræði og frumspeki. Öll eru þau hlutir sem ekki er hægt að sjá fyrir sér eða orða, vegna þess að þau geta ekki verið flokkuð niður í rökfræðilegar eindir sem svo væri hægt að setja í samband og samhengi við aðrar skiljanlegar eindir, myndandi setningar og staðhæfingar. Fyrir Wittgenstein verður spurningum sem varða virði nefnilega ómögulega svarað: þær eiga við hluti sem tungumálið, að því leyti sem það lýsir rökgreinanlegum raunveruleikanum, getur bókstaflega ekki sett í orð.

Þetta þýðir ekki að Wittgenstein hafni viðföngunum sem þessar spurningar og staðhæfingar fjalla um eða að hann fullyrði að við ættum ekki að láta þau eiga sig. Slíkt myndi krefjast þess að hann staðhæfði eitthvað um þær, um að þær séu til eða ekki til, og tungumálið einfaldlega getur ekki gert nákvæmlega það, ef marka má Tractatusinn. Í staðinn gefur Wittgenstein í skyn að suma hluti sé einfaldlega ekki hægt að ræða. Þeir sýna sig fyrir manni, þeir eru bersýnilegir. Þeir eru yfirskilvitlegir (sbr. TLP 6.522). Raunvísindin fást við heim staðreyndanna (sbr. TLP 4.11), heim þeirra hluta sem eru tilfallandi. Hlutirnir eru eins og þeir eru í heiminum en þeir gætu allt eins verið öðruvísi (sbr. TLP 6.41) — en ef það er eitthvað til sem á að hafa virði verður það að vera til utan tilfallandi heimsins, það verður að eiga við um heiminn sem slíkan, sem heild allra hluta. Það getur ekki verið hluti af því sem það gefur virði. Mögulegt er, eins og A.C. Grayling veltir fyrir sér í bók sinni um Wittgenstein, að hann skilji þetta tvennt að til þess að varna málum sem varða virði gegn yfirgangi raunvísindanna, afmarki þetta tvennt til að sýna fram á að hið síðara geti aldrei snert hið fyrra. Wittgenstein lokar ritlingi sínum með því að segja eftirfarandi (auk fleira sem ég sleppi):


6.44 It is not how things are in the world that is mystical, but that it exists.

6.45 To view the world sub specie aeterni is to view it as a whole—a limited whole. Feeling the world as a limited whole—it is this that is mystical.

6.54 My propositions serve as elucidations in the following way: anyone who understands me eventually recognizes them as nonsensical, when he has used them—as steps—to climb up beyond them. (He must, so to speak, throw away the ladder after he has climbed up it.)

7 Whereof we cannot speak, thereof we must be silent.


Þið takið eftir því að Wittgenstein beitir hér fyrir sig hugtaki Spinoza, því sem snýr að því að eiga hlutdeild í óendanleikanum sjálfum. Því næst talar hann um heiminn sem heild, takmarkaða heild, í sambærilegri æð og Spinoza talar um heiminn sem samanstandandi af einu undirstöðuefni eða verandi þegar öllu er á botninn hvolft eining. Þar eð hið trúarlega verður ekki rætt í orðum, samkvæmt Tractatus, finnst Wittgenstein gagnslaust (eða raunar ómögulegt) að eyða púðri í að tala um það — því það er bókstaflega ósegjanlegt. Auðvitað er hann að reyna að segja okkur með því að skrifa Tractatus að það sé eitthvað sem ekki er hægt — en hann segir það með því að einmitt segja ekkert. Þannig getur setning 6.54 lýst lokatakmarki verksins býsna vel: við eigum að nota það eins og stiga til þess að komast framhjá þeirri villu að mögulegt sé að tala um hið ómögulega og svo þurfum við að kasta stiganum niður á eftir okkur, til þess að gera okkur óafturkvæmt niður á svið hins fáránlega. Wittgenstein lokar Tractatus svo á því að segja einfaldlega að um það sem við getum ekki talað eigum við ekkert — eða ef til vill allt — ósagt.

Tractatus er yfirleitt ekki tekinn sérstaklega alvarlega af heimspekingum nútímans, vegna þess að Wittgenstein sjálfur átti eftir að afneita verkinu og verja afgangi ferils síns í að mótmæla því sem hann hafði áður skrifað í ritlingnum sínum. En köfum ekki dýpra að sinni. Þessar tvær yfirborðsferðir verða að nægja til þess að ég geti sýnt fram á upprunalegt markmið greinarinnar: sambærileikann milli Spinoza og Wittgenstein.

Hið sambærilega milli hugsuðanna tveggja

Báðir tveir, Ludwig Wittgenstein og Baruch Spinoza, hafa haft talsverð áhrif á veröld heimspekinnar með hugsun sinni. Þeir virðast þó við fyrstu sýn vera tiltölulega ólíkir — Wittgenstein fjallandi mestmegnis um heim tungumálsins og Spinoza einna helst fastur í frumspekilegum formúleringum um eðli guðdómleiksins. Ég tel þó að þegar betur sé að gáð komi í ljós að báðir séu þeir heimspekingar sem hugsa í heildum. Báðir sjá þeir einhverja einingu, eitthvað undirliggjandi sem grundvallar allt hitt, eitthvað sem gefur tilvistinni merkingu. Ég er ekki að segja að þeir séu báðir tilvistarstefnumenn hérna, alls ekki — heldur er ég að tala um þessa hugsun að það sé eitthvað handan heildarinnar, einhver summa hlutanna sem er stærri en heildin — sem veitir þeim ákveðinn samhljóm, ákveðið lífsviðhorf. 

Fyrir Spinoza er það þekkingin á Guði, náttúrunni eins og hún leggur sig í öllu nauðsynlegu orsakasamhengi sínu og margbreytilegu dýrð — meðan fyrir Wittgenstein er það vanþekkingin á Guði, einhvers sem er ekki hægt að hugsa um, eitthvað sem verður nauðsynlega að vera. Eins og ég hef sýnt þá beitir Wittgenstein fyrir sig hugtaki Spinoza á hinu ævarandi og reynir að færa heiminn undir grímu Hins Eina upp undir lok Tractatus — og kannski er heimurinn, eins og Wittgenstein sér hann fyrir sér, „summa staðreynda,“ líkara hugtaki Spinoza um einkunnir en maður hefði haldið í fyrstu. Einkunnirnar eru hið eina sem skynsemin getur snert á, rétt eins og staðreyndirnar eru það eina sem tungumálið getur kortlagt í orð, dregið upp myndir af í hugsuninni. Kannski er eini munurinn á Spinoza og Wittgenstein sá að sá fyrrnefndi dirfðist að nefna á nafn það sem sá seinni gat ekki fengið sig til að segja: GUÐ.

Öllum tilgátum sleppt get ég ekki annað en mælt eindregið með því að allir lesendur mínir sem ekki hafa kynnt sér verk þessarra tveggja hugsuða sæki sér eintök eftir þá og byrji að grafa sig ofan í textann. Þeir eru ómótstæðilegir í sérvisku sinni, elskulegir í baráttu sinni við kaldranalegan heiminn, tindrandi gimsteinar mannlegrar skynsemi og visku. Þeir verðskulda að láta lesa sig.

Málverkið efst heitir Spinoza and the Rabbis og er eftir Samuel Hirszenberg.

Transhúmanismi og alheimsviljinn

Transhúmanismi og alheimsviljinn

Nick Land, nýafturhald og heimspekilegur grundvöllur nettrölla

Nick Land, nýafturhald og heimspekilegur grundvöllur nettrölla