Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Transhúmanismi og alheimsviljinn

Transhúmanismi og alheimsviljinn

Er maðurinn óhjákvæmilega bundinn við líkama sinn? Er sálin ódauðleg? Er mögulegt að flytja meðvitundir yfir í tölvur? Spurningar á borð við þessar hafa hrjáð mannkynið og helstu hugsuði þess lengi — þótt sumar hafi gert það lengur en aðrar. Til að mynda má rekja vangaveltur um ódauðleika sálarinnar mjög langt aftur í tímann. Það var að líkindum í Asíu sem fólk fór fyrst að gera sér hugmyndir um endurfæðingu sálarinnar og þar með ódauðleika hennar, samanborið við efnislegan hrörleika líkamans, sem deyr og grotnar niður eftir tiltekinn árafjölda. Forngrískir spekingar á borð við Pýþagóras og Platón tóku svo hugmyndina upp á arma sína — eins og frægt er lýsti sá síðarnefndi því hvernig Sókrates drakk óðjurtarseyðið óhræddur við dauðann, viss um að eitthvað hreinna og betra biði hans að handan. Kristnin varð svo einn helsti arftaki hugmyndarinnar, og nú til dags telja gífurmargir að sálir vorar skipi sérstakan sess í náttúrunni.

Hugmyndir um að flytja meðvitundina, sjálfan mannsandann, yfir í einhvern annan miðil en tauga-kjöt-blóðklessuna sem við köllum líkamann eru þó flestar nýlegri. Pælingin er sú að heilinn sé bara efnislegur hlutur eins og allt annað — og að vegna þess að hann sé það hljóti að vera mögulegt að smíða einskonar gerviheila úr straumrásum og sílikoni. Eftir allt saman séu það bara rafboð á ferðalagi milli taugunga sem mynda þennan hverfula draug sem við köllum meðvitund. Einhverjum kann að hrjósa hugur við þeirri tilhugsun að láta flytja sig yfir í einhverja kalda tölvu, viðhalda lífi sínu og meðvitund að nafninu til en ófær um mannlega snertingu eða ástina sem fylgir með öllu þessu skrýtna og hlýja kjöt-hormóna-flæði mannslíkamans.

Til er hugmyndastefna og vísindastefna sem telur að þessi tvennd þurfi ekki að vera andstæðan sem við erum gjörn á að bendla hana við. Óþarfi er að stilla upp líkamanum og vélinni sem ósamrýmanlegar — heldur er eða ætti markmiðið að vera að tvinna þetta tvennt saman á sem skilvirkastan og ábatasamastan hátt. Þessi stefna lætur sér ekki nægja meðfæddan heila eða lífrænt ræktaða vöðva. Hún lætur ekki þar við sitja að við eigum bara tiltekið mörg ár áður en við verðum að kveðja efnisheiminn, hvort sem er tímabundið eða að eilífu. Ef við gætum tvinnað heilann saman við tölvu — ef við gætum aukið við styrk okkar með því að skipta útlimum okkar út fyrir vélrænar hendur, fætur, fingur — þá eigum við þess kost að flýja afleiðingar dauðleika okkar og framlengja og bæta líf okkar.

Þessi stefna er kennd við transhúmanisma. Í grófum dráttum er hún skilgreind sem viljinn til þess að umbreyta líkama mannsins með tæknilegum framförum. Transhúmanistar telja mannslíkamann vera plestinn eða þjálan efnivið sem við getum mótað rétt eins og hvað annað í alheiminum sem umkringir okkur. Hvers vegna ættum við að geta unnið málma úr jörðinni en ekki stórbætt mannlega hugsun með því að tengja tölvur við heilann okkar? Sýn transhúmanista er þó að vissu leyti róttækari en þetta. Fyrir þeim er maðurinn stöðugt og eðli sínu samkvæmt í ferli endurmótunar, hvort sem er vitsmunalega og andlega eða líkamlega og efnislega. Þegar við vöknum á morgnana og setjum okkur ný markmið til þess að bæta okkur erum við í vissum skilningi transhúmanistar: við miðum að því að komast handan þess sem við áður vorum, verða eitthvað betra, fallegra, skilvirkara, eða þaðan eftir götum. Hvað þetta sem er handan hins góða, handan hins fallega, hins skilvirka — allt þetta sem er handan — er þó tiltölulega óvíst og fljótandi hugtak, og getur jafnvel orðið vafasamt ef ekki er vel að gáð.

Það er að einhverju leyti hlutverk heimspekinnar að sjá til þess að slíkar hugmyndir fari ekki of langt — að minna á siðferðið þegar vísinda- og tæknihugsjóninni verður of heitt í hamsi. Vísindafólk, þótt afburðasnjallt geti verið, er nefnilega aðeins of oft betra í að framkvæma hlutina en það er í að spyrja sig hvort það ætti nú eftir allt saman að vera að framkvæma hlutina. Það þarf nefnilega að hugsa um gjörðir sínar og mögulegar afleiðingar þeirra ansi rækilega í gegn áður en maður ræðst í þá. Til að mynda vakna upp slíkar spurningar varðandi erfðabreytingar og klónun, gervigreindir, vélmenni, og svo framvegis. Heimspekinnar er alltaf þörf til þess að rannsaka umheiminn á gagnrýnum nótum. Hvað transhúmanismann varðar er hlutverk heimspekinnar til að mynda bæði að rannsaka hvað mælir með stefnunni og hvað mælir gegn henni. Það er auðvelt að ímynda sér hvað gæti farið vel — við höfum rakið það í stuttu máli hér að ofan — en sé vel farið með transhúmanisma getur stefnan bætt lífskjör okkar flestra.

Hins vegar gæti hún boðið upp á ýmislegt varhugavert. Til dæmis myndi transhúmanismi innan þessa kapitalíska kerfis okkar að líkindum ýta allverulega undir ójöfnuð — þeir sem hafa efni á því að kaupa sér tæknilegar viðbætur við heilann standa betur í markaðssamkeppni við þá sem ekki geta keypt sér slíka heilabreytingu. Einnig eru hugmyndirnar sem ég taldi upp áðan um það sem er betra, fallegra, skilvirkara nokkuð ískyggilegar þegar þær eru skoðaðar í sögulegu ljósi. Síðast þegar einum mannlegum staðli, þess aríska, var hampað fram yfir aðra — þá endaði allt í katastrófískum ósköpum. Það er nefnilega ekki undir hverjum sem er komið að ákveða hvað er gott og fallegt — ef það er undir einhverjum komið. Adolf Hitler var sannfærður um að ljóshært, hvítt og bláeygt fólk væri yfir annað hafið, betra en allt annað — og honum fannst það raunar svo óyggjandi staðreynd að svo væri að hann gerði tilraun til að útrýma öllu sem ekki samræmdist staðlinum. Þessi tilraun er ekki eitthvað sem við ættum að endurtaka.

Þótt það sé ýmislegt sem gæti vakið óhug við transhúmanismann er hann þó heillandi á sinn hátt — sérstaklega í því hvernig hann sér mannveruna fyrir sér. Fyrir stefnunni er maðurinn í eðli sínu tæknilegur, vera sem breytir umheimi sínum — neitar honum. Umhverfið sem birtist manninum milliliðalaust og í allri sinni fjölbreyttu og harðneskjulegu dýrð er ekki tekið í sátt heldur er því harðneitað. Nei, segir maðurinn, heimurinn á ekki að vera þannig að ég sé matarlaus, kaldur og þyrstur — hann á að vera á þann veg að ég sé saddur, eigi mér skjól, geti vætt kverkar mínar. Þess í stað beitir maðurinn sér fyrir því að breyta heiminum til hins betra fyrir sjálfan sig. Hann neitar honum en játar þess í stað ákveðinni hugsjón — hugsjón um nánari einingu við umheiminn, betri virkni, meiri hamingju — hugsjón um hið góða. Maðurinn fer þó stundum villur vegar í raungervingu þessarar hugsjónar: hann skilur ekki hvað hið góða er í raun og veru, gerir sér ekki grein fyrir því að með því að svala einni þörf er hann að vekja upp aðra og stærri síðar. Þegar við níðumst á jörðinni með mengun, stóriðju og gróðurhúsalofttegundum skiljum við ekki að með því að gera það neitum við sjálfum okkur — við förum of geyst út í lífið, förum styttri leið en við þurfum að fara.

Það er nefnilega þegar maðurinn gerir sér grein fyrir því hversu náinn hann er heiminum, hve þunn hún er — þessi lína milli okkar sjálfra og plánetunnar, algeimsins og hverrar einustu stjörnu — það er þá sem hann skilur að okkar eigin velferð er óhjákvæmilega bundin lögmálum alls annars í alheiminum, að skynsemi okkar er skynsemi heimsins. Í manninum sameinast hið hlutlæga og hið huglæga: alheimurinn er meðvitaður um sjálfan sig, hefur vilja, getur kosið milli útkoma. Sumir hnussa við slíkum fullyrðingum — allir vita að maðurinn er bundinn lögmálum eðlisfræðinnar, ekkert er til sem heitir frjáls vilji, segja þau! En þau gleyma að alheimurinn er ekki kaldur, ópersónulegur Hlutur sem við komumst ekki í tæri við, sem gerist bara þvert á vilja okkar. Við erum alheimsviljinn, við erum lögmálsbundinn vilji, rökrænn og nauðsynlegur, og ekkert fær því breytt.

Ef til vill er transhúmanisminn því verðugt takmark. Hann miðar að því að gera heiminn betri en hann er, fínpússa markmið veraldarinnar, gera okkur og alheiminn nánari. Það er nefnilega ekki svo að maðurinn fjarlægist náttúruna með tækniþróuninni - þvert á móti verður hann sífellt nánari því sem við spruttum af, því sem mótaði okkur, því sem við mótum nú til baka.


Þessi grein birtist upprunalega sem lesinn pistill í Ríkisútvarpinu. Hljóðútgáfan kemur seinna undir Sýsifos talar. Málverkið í haus greinar heitir Landscape in Scotland og er eftir Gustave Doré ca. 1875.

Tvær stuttar ritgerðir um siðfræði Aristótelesar

Tvær stuttar ritgerðir um siðfræði Aristótelesar

Af staðhæfanlegum heildum og guðleika náttúrunnar

Af staðhæfanlegum heildum og guðleika náttúrunnar