Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Nick Land, nýafturhald og heimspekilegur grundvöllur nettrölla

Nick Land, nýafturhald og heimspekilegur grundvöllur nettrölla

Þessi grein var upphaflega skrifuð fyrir útvarpið. Mér fannst hún samt of stutt og innihaldsrýr þannig að þessi útgáfa inniheldur örlítið nákvæmari útlistanir og dýpri þanka. Ég set síðan upphaflega útvarpspistilinn inn á þartilgerðan undirdálk síðunnar síðar meir. 

Málverkið er eftir Rembrandt van Rijn og heitir The Mill, olía á striga, milli 1645-1648.


Vofa ásækir Bandaríkin — vofa hinshægrisins. Pólitísk hreyfing sem byggir á niðurbældri kynferðislegri orku karlmanna á þrítugsaldri, pólitísk hreyfing sem kennir sig við heimspeki ítalska hugsuðarins Julius Evola og hins breska Nick Land, hreyfing sem fylkir sér bak við Donald Trump og þjóðernishyggju hans. Hitthægrið er hreyfing, en á sama tíma er það hugarfar: félagslega firrt nettröll hafa sagt sig úr núverandi samfélagi eins og það leggur sig og hafa stofnað sinn eigin ættbálk á samfélagsmiðlinum Twitter og forarstíunni 4chan. Hitthægrið kann að hafa haft áhrif á kjör forseta Bandaríkjanna eða ekki — en raunin er sú að það hefur ítök á netinu, hvort sem er í almennri umræðu, hugtakanotkun og almennt í hugmyndafræðilegri mótun Bandaríkjamanna.

Shia Labeouf og sundrungin 

Hitthægrið er víðtækur og fjölbreyttur hópur fólks sem hefur aðeins lauslega skilgreinda hugmyndafræðilega stefnu en furðulega vel samtvinnuð vinnubrögð þegar það kemur að framkvæmdum á hlutum í raunheimum. Til dæmis má nefna nýlega uppákomu: leikarinn frægi Shia Laboeuf, sem hefur staðið fyrir gjörningi á vefnum og í raunheimum undir yfirskriftinni „Hann mun ekki sundra okkur,“ hvar vísað er til nýkjörins forseta Bandaríkjanna. Gjörningurinn fólst upprunalega í því að myndavél átti að sýna vegg með orðunum „hann mun ekki sundra okkur“ allan sólarhringinn, en hún var í fyrstu staðsett við Museum of the Moving Image í New York borg. Hvað þetta tiltekna safn varðar má til gamans geta þess að fyrirtækið Karlssonwilker sá um róttæka endurhönnun á safninu fyrir nokkrum árum síðan, en annar meðstofnandi fyrirtækisins er íslenski hönnuðurinn Hjalti Karlsson. 

Öllum neðanmálsgreinum sleppt gekk gjörningurinn út á það að pólitískir andstæðingar nýkjörins forseta áttu að geta staðið fyrir framan myndavélina og kyrjað möntruna gegn sundrung þjóðhöfðingjans, eins og hún birtist í orðræðu hans: veggur milli Mexíkó og Bandaríkja, ferðabann lagt á múslima, þaðan eftir götum. Óháð allri listrýni um hrifgildi gjörningsins sem slíks þjónaði hann bersýnilega pólitískum tilgangi fyrst og fremst — tilgangurinn verandi miðlun skilaboða, hafandi ítök og frægð Labeouf að grundvelli. Galli verksins var sá að með því að hafa opið aðgengi hvers þess sem það vildi að verkinu laðaði það mjög fljótlega að sér fulltrúa Trump, og sér í lagi hið margrómaða Hitthægri. 

Undan steinum sínum skriðu þeir, fulltrúar myrkviða veraldarvefsins, og létu sjá sig á gjörningssvæðinu sjálfu. Þeir ruddu sér rúms fyrir framan myndavélina og hrópuðu sín eigin slagorð, sín eigin baráttukvæði. Einn stuðningsmaður Trump mætti á svæðið og veittist að leikaranum fræga með orðunum „Hitler gerði ekkert rangt.“ Óljóst er hvort orðin voru látin falla með það eitt að markmiði að espa leikarann upp eða hvort þeim sem sagði þau finnst það raunverulega — en ljóst er að óháð öllum fyrirætlunum og afleiðingum er vægast sagt siðferðilega vafasamt að segja hluti sem þessa, ef ekki blátt áfram viðurstyggilegt, hvort sem er um grín að ræða eður ei. Dæmi hver fyrir sig.

Til að gera langa sögu stutta vatt sagan upp á sig eftir þetta. Labeouf var handtekinn fyrir að hrinda nýnasistanum og gjörningurinn var að lokum færður til, og honum komið fyrir í formi fána á flaggstöng sem staðsett var lengst úti í buska. Atlaga var svo gerð að fánanum í skjóli nætur — og það eftir að netverjar beittu ævafornri sæfaratækni við mat á staðsetningar — þeir notuðu stjörnurnar á næturhimninum til þess að reikna út staðsetningu flaggstangarinnar. Ég ætla ekki að fara nánar út í þessa atburðarás en mæli eindregið með að þið kynnið ykkur hana. Leitið bara að nafni leikarans á Google. Ég vil hins vegar fara nánar út í hugmyndafræðilega sálma, rannsaka uppruna þessarar óreiðukenndu stjórnmálahreyfingar, velta fyrir mér hvaðan þessi pólitíska orka kemur og í hvaða farvegi hún leitar.

Hugmyndafræðilegar rætur

Þó nokkrar greinar hafa verið skrifaðar um hugmyndafræðilegar rætur hinshægrisins, en engin þeirra hefur getað fangað þær á fullnægjandi hátt, að mér finnst. Líklegt er að þessi ófullkomnun stafi einfaldlega af því hversu undarlega margbrotin og sundruð stefnan er í sjálfri sér — hún byggir þannig á óvissu, óreiðu, niðurbroti, óeiningu. Nokkur nöfn hafa verið nefnd — sérlega í samhengi við heimspekingana sem Steve Bannon er sagður halda uppá — en kauði er einn helsti ráðgjafi Donald Trump og fyrrverandi stjórnarformaður vefsíðunnar Breitbart News, sem hefur oft verið bendluð við hitthægrið —, auk þess sem hugmyndir hugsuða sem tíðræddir eru á mynd- og textavefnum 4chan, sérstaklega á undirsíðum eins og svæði sem kennt er við pólitíska ranghugsun, hafa komið til greina. 

Þar á meðal má í fljótu bragði nefna hinn breska Nick Land, en hann hefur verið mótandi í stefnu ný-afturhalds, eða neoreaction á ensku, sem er að sögn framtíðarlegt afturhvarf til hefðbundinna gilda í bland og takt við cybergothisma. Hann er einnig kenndur við stefnu að nafni „myrka upplýsingin“ eða Dark Enlightenment sem tengist inn í fleiri hefðarhyggju- og afturhaldshreyfingar, sumar hverjar tengdar Mencius Moldbug sem ég snerti nánar á hér að neðan. Ekki örvænta þótt þetta hljómi framandi — hugtökin eru að líkindum smíðuð með tilteknum retórískum blæ til þess að vekja upp goðsagnakennd hugrenningartengsl og mála stefnuna sem ítaksmeiri en hún er í raun. Cybergoth, til dæmis, er tekið í láni frá rithöfundinum William Gibson, sem reit meðal annars vísindaskáldsöguna Neuromancer.

Það er erfitt að segja nákvæmlega til um skoðanir Land. Ég hef sjálfur aðeins lesið brot af því sem hann hefur gefið út en skýrendur og aðrir heimspekingar sem skrifað hafa um hann lýsa honum sem ný-afturhaldsmanni með kapitalíska hröðunarhyggjutendensa. Hröðunarhyggja er í rauninni tiltölulega vinstrisinnuð stefna sem gengur út á það að sleppa öllum beislum af ógnarkrafti kapítalismans til þess að leyfa honum að keyra sig sem fyrst í jörðina, skapandi aðstæðurnar fyrir félagslega framþróun og róttæka efnahagslega breytingu. Land hins vegar leggur áherslu á hugtakið um Thanatos, sem var grískur guð dauðans sjálfs — mögulega fær hann dauðadrif Freud að láni hér, drif sem kynnt eru í ritgerðinni Beyond the Pleasure Principle — og telur markmið kapítalismans eiga að vera eyðingu ákveðinna kynhvata/lífshvata. Því er hröðunarhyggja hans ekki byltingarkennd heldur fremur níhilísk. Eins og ég segi þarf ég að skoða hann betur og þetta er ófullkomin og gróf lýsing sem mun ekki standast tímans tönn, en ég vona að hún geti í það minnsta þjónað sem byrjunarpunktur fyrir einhverja.

Einnig má nefna hinn ítalska Julius Evola, heimspeking sem Benito nokkur Mussolini hafði í hávegum fyrir íhaldssama hefðarhyggju sína, heimspekistefnu sem gerði rasisma, undirgefni kvenna og kúgun almennt að nánast frumspekilegri undirstöðu alls alheimsins. Eitt hans helsta verk, Ride the Tiger, fjallar um hvernig viðfangið getur frelsað sig af kvöðum borgaralegs nútímasamfélags og snúið aftur til eldri hefða. Ég hef persónulega ekki lesið neitt eftir hann og hyggst ekki gera það í nákominni framtíð en megininntak verka hans virðist vera útspil á Ofurmenni Nietzsche, og líkast til gífurlegur misskilningur á því (eða einfaldlega selektíf túlkun á það, sem Nietzsche myndi að líkindum vera hrifinn af). Ef einhver lesenda minna hefur lesið verkið og vill ræða það við mig væri ég mjög til í að heyra skoðun þeirra á því eða öðru sem Evola hefur skrifað. Öllum fræðilegum núönsum sleppt var hann þó einfaldlega fasískt varmenni og ég held að það sé fátt sem gerir exegesis á textanum hans nokkurs virði.

Fleiri koma við sögu — eins og bandaríski tölvunarfræðingurinn og stjórnspekingurinn Curtis Yarvin, sem skrifað hefur undir höfundarnafninu Mencius Moldbug. Hann kennir sig einnig við nýafturhald og viðheldur nokkrum lénum og vefsamtökum á borð við Hestia Society (Hestia var grísk gyðja heimilisarinsins og táknar því einhverskonar hlýja mynd hins hefðbundna fjölskyldulífs og heimilishalds — auk alls ófrelsisins sem með því fylgdi í formi kúgunar kvenna, strangra kynjahlutverka og þaðan eftir götunum, að sjálfsögðu) en einnig er hann umsjónarmaður síðunnar neoreaction.com, hvar hann lýsir einskonar manifestó í hnotskurn:

Modern history is an epic tale of social decay under chronically bad government, masked by increasing technological wealth. The dominant liberal-progressive ideology is badly out of touch with reality, and actively destructive to civilization.

Our society’s elite factions are coordinated enough to distort public knowledge of society to neutralize threats to their power, but not enough to rule efficiently and responsibly. Traditional and organic modes of sociopolitical organization could remedy our problems, but we are held back by this weaponized self-conception and lack of competent authority.

American globalist liberalism is an unsustainable mess. Everyone knows it, but no one will admit it until someone builds a concrete superior alternative.

Anything but patient work on a worthy new system is a harmful distraction. Rebellion, violence, and activism just create more chaos, and don’t get us any closer to restoration.

The only viable path to restoration of competent government is the simple and hard way:

1. Become worthy.
2. Accept power.
3. Rule.

Fasisminn einfaldlega drýpur af þessum tilvitnunum, augljóslega, og byggir að líkindum á einhverri rangtúlkun á mikillæti eins og það birtist m.a. hjá Aristótelesi og mögulega Nietzsche. Setningar á borð við "Traditional and organic modes of sociopolitical organization" vísa þá nánast örugglega til hins gullna skeiðs Bandaríkjanna í lok styrjaldar síðari, hvar allt var á blússandi uppsiglingu. Í verkum sínum, eins og An Open Letter to Open-Minded Progressives, veltir hann því fyrir sér meðal annars hvers vegna framfarasinnuðu fólki finnst nasismi svona slæmur en finnst samt allt í lagi að kalla sig kommúnista, sem er daunillur samanburður. Auðvitað sleppir hann því að tala um hið eiginlega áframhaldandi fjöldamorð kapítalismans, sem sveltir fólk í vanþróuðum ríkjum einfaldlega vegna þess að það er ekki arðbært að halda þeim á lífi. En það er allt annað mál.

Persónupólitík og pólarísering

En eins og segir hér áður verður pólitískri hreyfingu sem er svo víðtæk seint soðin niður í einhverja tvo eða þrjá frumþætti, hugsuði. Atriði sem mér finnst persónulega vera líklegt til þess að spila stóra þætti í stefnunni er til dæmis uppgangur persónulegrar pólitíkur á borð við femínisma og andrasisma, sem byggja á þeim frumforsendum að hið persónulega sé hið pólitíska. Hitthægrið er að mestu hvítt, að mestu karlkyns og að mestu uppbyggt af þúsaldarkynslóðinni, og það mætti gróflega merkja það sem einskonar gagnverkun eða andsvar þeirra sem búa yfir forréttindunum sem persónupólitíkin gagnrýnir. Það er svo einstaklega áhugavert að taka eftir því að retórík og röksemdir ótal meðlima hinshægrisins byggja nákvæmlega á þessarri sömu forsendu: að hið persónulega sé pólitískt. Hitthægrið segir meðal annars að femínismi hati karlmenn, að andrasismi sé dulið þjóðarmorð á hendur hvíts fólks, að samsæri fjárfestisins og gyðingsins George Soros standi að baki framboði Hillary Clinton.

Þessi beiting hreyfingarinnar á persónupólitík tvinnast svo saman við notkun þeirra á einskonar rökhyggjudogmatisma. Þar kemur gamla mýtan um að vinstrisinnaðir séu svo tilfinningasamir að góðum notum: að frjálslynt og framsækið vinstrifólk sé vanhæft um að hugsa á röklegum og málefnalegum nótum, þurfi alltaf að vísa til tilfinninga sinna, komist auðveldlega í uppnám — og svo framvegis. Sérstaklega er þetta svo bundið sérstakri orðræðu sem byggist á hugtökum um svokallaðan pólitískan rétttrúnað eða political incorrectness, það sem kallast á ensku “safe space,” sem á íslensku gæti heitið verndarvöllur, það sem hefur verið þýtt á íslensku sem „kveikja“ en er orðið vinsælt slanguryrði í útlöndum undir enska orðinu “triggered”. Þetta er ekki tæmandi upptalning á hugtakagrunni hinshægrisins en þau sem ég hef nefnt eru í hið minnsta nokkur ofnotuðustu orðin þessi misserin.

Hitthægrið er meistari tröllaskapsins, önugheita og óþæginda. Markmið þeirra er að gera alla femínistana á internetinu triggered þannig að þeir þurfi að flýja inn í politically correct safe space-ið sitt. Markmiðið er ekki pólitískt samtal sem slíkt heldur algjör lokun og niðurbæling þess. Vinstrafólk á netinu hefur átt í vandræðum í samskiptum sínum við þessa undarlegu fylkingu fólks, menn sem líkjast einna helst forritum fremur en alvöru manneskjum í samskiptum. Samtalið var siðmenntaðra, málefnalegra og hlutlægara forðum, þegar internetið var ekki til staðar og engum var kleift að fela sig á bak við mynd af grænum frosk og fölsku nafni. Það er ekki þar með sagt að pólitísk orðræða hafi verið *betri* fyrir vikið, en hún var öðruvísi, og það kemur fólki í opna skjöldu að þekkja allt í einu ekki reglur leiks þar sem allt er leyfilegt og ekkert er bannað.

Menn eins og Milo Yiannopoulos, Richard Spencer, Mike Cernovich og Paul Joseph Watson eru nokkrir stærstu leikmenn þessa brenglaða útspils hinshægrisins. Þeir hafa beinlínis atvinnu, og mjög gróðavænlega atvinnu í þokkabót, af því að koma fólki í uppnám, vera espandi, árásargjarnir og leiðinlegir. Rétt eins og með nýnasistann sem veittist að Shia Labeouf getur vel verið að það liggi á milli mála hvort þessir menn séu raunverulegra þessarar skoðunar eður ei, hvort þeim finnist raunverulega að reisa verði múr milli Bandaríkja og Mexíkó, hvort þeir telji múslima sem trúarlega heild vera hryðjuverkafólk. Hvort sem þeim finnst þetta í alvöru eða þeir segja þessa hluti bara til þess að veita þjónustu, veita skoðunum öfgafullra Bandaríkjamanna einskonar gjallarhorn, þá er þessi hegðun og framganga siðferðilega vafasöm og nánast óafsakanleg.

Þó hefur sérstakt svið vinstrafólks, það sem hefur alist upp á um það bil sömu umræðuhefðum  og hitthægrið, tekið upp á því að munnhöggvast til baka gegn hinuhægrinu. Menn á borð við Felix Biederman, Will Menaker og Matt Christman (Chapo Trap House) auk annarra radda í þeim dúr eru iðnir við kolann: rífandi kjaft og svarandi fullum hálsum. Þessi hópur, þótt lauslegar samanstandi en hitthægrið, hefur þegar verið brennimerktur sem hittvinstrið, og hvort sem þessi nafngift á rétt á sér eður ei þá erum við í raun komin heilan hring — það er ekkert „hitt“ lengur, bara hægri og vinstri, bara lauslega skilgreindir mannlegir hópar sem notast við annarskonar samræðuhefð en þeir sem á undan komu. Hitt-sviðið er dónalegt, stundar persónulegar árásir í rökræðu, er kaldhæðið og meinfýsið og leiðinlegt og ómálefnalegt og svo framvegis og svo framvegis. Von mín og eflaust margra fleirra er sú að þessi tvö svið veiti hvoru öðru nauðsynlegt mótvægi hvort við annað svo þau geti haldið hvoru öðru uppteknu. En auðvitað eru einhverjir þeir sem sjá tækifæri í þessarri nýju orðræðu, þessarri nýju framkomu: kannski myndar þessi nýja pólitíska stétt grundvöll fyrir róttækum og raunverulegum framsæknum breytingum. Þangað til ég sé það raungerast mun ég þó vera hógværari í væntingum mínum. Vonum hið besta.

Af staðhæfanlegum heildum og guðleika náttúrunnar

Af staðhæfanlegum heildum og guðleika náttúrunnar

Innantómar eilífðir

Innantómar eilífðir