Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Með sólina í maganum — smásaga

Með sólina í maganum — smásaga

Með sólina í maganum

Smásaga rituð 25. febrúar 2016
 

Ég kláraði að reima gömlu hlaupaskóna mína og steig upp á hlaupabrettið. Það var þungt loft inni í líkamsræktarstöðinni, eins og starfsfólkið hefði gleymt að hleypa fúkkanum út. Það var hrollur í mér, en sólin skein inn um gluggann og mér hlýnaði við mjúka geislana. Líkami minn var frekar stirður, þar eð ég hafði ekki hreyft mig almennilega lengi. Ég lét brúsann og handklæðið í litla hólfið á brettinu og teygði örlítið á fótunum meðan ég gangsetti tækið. Snertiskjáir á hlaupabrettum eru einhverra hluta vegna alltaf algjört drasl, og ég eyddi hátt í mínútu í að stilla hraðann minn á ásættanlega tölu. Ellefu kílómetrar á klukkustund. Einhverja handahófskennda hallaprósentu. Ég man aldrei hvað ég þoli hvort eð er, það sem skiptir máli er bara að hlaupa. Það er einfaldlega mikilvægt að ég hlaupi, mikilvægt líkamlega og andlega. Ég þarf að hlaupa minnst þrisvar í viku.

    Brettið fór loks af stað. Það skreið í fyrstu meðan mótorinn kom sér í gang og gaf mér ráð og rúm til að laga mig hægt og rólega að hraðanum. Gönguhraðinn varð að skokki, varð að hlaupi. Innan skamms var brettið komið á fulla ferð og ég með því. Eftir nokkrar mínútur jók ég hraðann um nokkra kílómetra á klukkustund. Ég setti aðeins meiri orku í fæturna, andardrátturinn reif meira í lungun. Það er gott að hlaupa. Mér líður alltaf eins og ég sé að áorka miklu þegar ég hleyp, jafnvel þó ég sé fastur á sama stað. Jafnvel þótt ekkert hreyfist nema veröldin í kringum mig, jafnvel þótt gúmmíbúturinn sem ég skokka á haldi mér föstum á sama staðnum, móðum og másandi.

    Tónlistin í líkamsræktarstöðinni rétt heyrðist undir fótataki mínu og mótorhljóði hlaupabrettisins. Poppstjarna söng eitthvað óljóst um ástarsorg, eða var það um vináttu? Það er aldrei að vita með þessa söngvara nú til dags, hugsa ég með mér. Þótt lögin séu grípandi eiga þau það til að vilja höfða til allra, sem gerir það að verkum að þau höfða til engra. Ég finn að hugurinn er byrjaður að reika. Hann gengur laus þegar ég hleyp vegna þess að þá þarf hann ekki lengur að hugsa um hvernig hann ber líkamann í kringum aðra. Það fer nefnilega furðulega mikil orka í að halda andliti innan um annað fólk, jafnvel þó það sé ekki meira sem maður þarf að gera en að velja sér svipbrigði, kinka til réttu manneskjunnar og labba á réttum gönguhraða. Þegar maður hleypur fer bara eitt lítið prósentubrot af heilastarfseminni í að viðhalda hlaupinu meðan hendurnar sveiflast létt með, fram og til baka, skapandi rytmískan og dáleiðandi líkamstakt. Bestu hugmyndirnar fær maður á hlaupabrettinu og í sturtu, vil ég meina — þegar maður er einn í sjálfum sér og hefur næði til að láta innri röddina bergmála. 

    Svo virðist þó sem innanhússarkítektar líkamsræktarstöðvarinnar vilji hefta þessa frjálsu hugsun — einhverjum hefur þótt það prýðileg hugmynd að koma sjónvörpum fyrir yfir hausamótum hlauparanna. Samkvæmt reglu sýna þau aðeins heiladauðasta og einfaldasta myndefni sem mögulegt er að finna. Hvers vegna þetta er gert er mér hulin gáta. Ef til vill eru eigendurnir hræddir við að notendur líkamsræktarstöðvarinnar geri sér grein fyrir því að það er algjör della að greiða fúlgur fjár á hverjum mánuði til þess að hreyfa fæturna upp og niður og upp og niður og upp og niður. Ég hef í það minnsta aldrei séð Dr. Phil tala um að jörðin sé hnöttótt og að þyngdarstuðullinn sé eitt gé og þess vegna geti maður hlaupið nánast hvert sem er svo lengi sem fæturnir virka og maður hefur orkuna og tímann í það.

    Sviti perlaðist í dropa á enni mér. Andardrátturinn var í fullkomnum takti við fæturna á færibandinu. Ég leyfði mér að hverfa í ímyndaða heima meðan ég hleyp - framtíðarheima, fagra heima, gleðilega heima - svo einsleitni raunveruleikans dragi ekki úr óbeinu vitsmunalegu nautninni sem ég hlýt af hlaupinu sjálfu. Skyndilega er ég frægur málari, forsprakki nýrrar liststefnu, ein af þessum stefnum sem maður lærði um í grunnskóla en man bara að endar á ismi og allir urðu ósáttir við á einhverjum tímapunkti. Ég er líka geimfari, fyrsti maðurinn til Mars, með gráður í verkfræði og líffræði — sendur til að undirbúa exódusinn til rauðu plánetunnar. Þess að auki verð ég að stjórnmálaleiðtoga, óþrjótandi í baráttu sinni við stórfyrirtæki, stjórnarandstöður og útlenda heri, dáður af öllum nema óttaslegnum óvinum sínum. Ég verð óefnislegur andi, Sjálfið í Sjálfu sér, hringrás meðvitundarinnar og æðsta þenkjandi sjálfsskynjun kósmóssins. Svo er ég tvítugur, illa klipptur háskólanemi, setjandi einn fót fram fyrir annan á gúmmífæribandi í Laugardalnum. Úps. Fór óvart hringinn. 

Ég ranka við mér og lít til hliðar. Ég sé að það er stelpa að hlaupa á brettinu hægra megin við mig. Ég horfi í aðeins of margar sekúndur. Þótt ég viti að það sé bannað að stara þá hlýðir hausinn ekki alltaf óskráðu samfélagsreglunum. Sérstaklega þegar stelpur eru svona fallegar, svona hriffræðilega magnaðar. Hárið hennar var ljóst og í tagli og íþróttafötin hennar fóru henni vel. Hún sneri höfðinu og leit til mín. Það var þá sem ég neyddi mig til að einbeita mér aftur að Dr. Phil. Hann var samt ekki næstum því jafn sætur og stelpan við hliðina á mér. Ég hugsaði með mér að kannski væri það allt í lagi ef ég kíkti einu sinni enn og ég gerði það og sem betur fer hlaut enginn skaða af. Mikið rosalega var notalegt að hlaupa svona við hliðina á þessari fallegu stelpu. Mikið rosalega var gaman að gúmmíbeltið mitt væri nálægt hennar gúmmíbelti. Mikið rosalega var gaman að hún skyldi hafa ákveðið að fara að hlaupa á sama tíma og ég ákvað að fara að hlaupa.

    Þótt höfuðið sneri í átt að Dr. Phil aftur þá var ég samt ekkert að horfa á Dr. Phil heldur var ég kominn aftur inn í hausinn á mér. Í þetta skiptið var ég þó ekki að hugsa um alheiminn eða málverk, heldur var ég að hugsa um hana og mig og okkur. Við vorum hjón í ræktinni að hlaupa saman vegna þess að höfðum slysast til að fara í allt of mörg jólaboð um hátíðirnar og ég hafði bætt á mig nokkrum óþarfa kílóum og þótt hún væri í fantaformi hljóp hún með mér til að sýna mér stuðning í verki. Við vorum kærustupar sem var að æfa sig sitt í hvoru lagi fyrir maraþonhlaup og fyrir tilviljun höfðum við mætt á sama tíma í ræktina vegna þess að við vorum metnaðarfull og kappsöm og kláruðum það sem við tókum okkur fyrir hendur með stæl. Svo vorum við líka bestu vinir, ástfangin hvort af öðru í laumi svo við förum saman í ræktina til að losa um kynferðislegu spennuna milli okkar í gegnum eitthvað annað en raunverulegt kynlíf, þótt það væri það eina sem við hugsuðum um hvort fyrir sig þegar við hittumst og þótt við færum undantekningarlaust heim saman eftir ræktina til að sofa saman.

    Svo er ég einfaldlega orðinn ég aftur, ég-ið sem hleypur á hlaupabrettinu. Stelpan er aftur orðin stelpan við hliðina á mér. Hún þekkir mig ekki og ég þekki hana ekki. Það er líka gott vegna þess að skyndikynnin í huga mér voru falleg og snögg og laus við ástarsorg. Það var enginn vankantur á þeim, þótt þau hefðu aldrei átt sér stað - eða kannski einmitt vegna þess að þau áttu sér aldrei stað. Ég finn, mér til mikillar ánægju, að bros leikur um varir mínar. Fyrsta brosið mitt heillengi. Ég nýt þess að hlaupa áfram við hlið ókunnu ljóshærðu vinkonu minnar dálitla stund enn, þar til hún klárar ósýnilegu vegalengdina sína og heldur inn í lyftingarrýmið. Þegar hún gengur í burtu stöðva ég hlaupabrettið mitt og sný mér við.

    „Takk fyrir að hlaupa við hliðina á mér,” kallaði ég á eftir henni. Það var ekki fyrr en eftir að ég sleppi síðasta orðinu sem ég mundi að það er bannað, ein af óskrifuðu reglunum, undarlegt, dónalegt og óþægilegt. Ég byrjaði að roðna og heilinn æpti á mig að ég þyrfti að líta undan svo ég geti einbeitt mér að því að grafa mér holu til Kína eða handan. Það er þá sem ég sé að hún brosir lymskulega til mín eins og við séum vitorðsmenn. Samsek um að eiga okkur leyndarmál sem þolir ekki dagsins ljós. Þá man ég að auðvitað er ég ekki sá eini sem býr yfir sterku ímyndunarafli. Það er eins og blóm breiði úr sér í maganum á mér og heilinn bráðnar dálítið inni í hauskúpunni. Við létum okkur kannski bæði dreyma um ástina, svo hún var ef til vill miklu meira en bara draumur. Hún var blákaldur veruleiki. Með þessa fallegu hugsun í huga hélt ég heim á leið, ástarsambandinu og reynslunni ríkari, með sólina í maganum og minningu um hlaupabrettið í Laugardalnum.

Óklárað brot um muninn á hinu altæka og einstaka

Óklárað brot um muninn á hinu altæka og einstaka

Varðandi æstetískar þýðingar

Varðandi æstetískar þýðingar