Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Varðandi æstetískar þýðingar

Varðandi æstetískar þýðingar

Æstetík, aesthetics á ensku og oftast nefnd fagurfræði á íslensku, er sú undirgrein heimspekinnar sem snýr hvað helst að því að lýsa fegurð, eðli listar og smekks manna. Mörgum vöngum hefur verið velt, fram og til baka, í gegnum aldirnar, um það hvort ein fegurð sé lík annarri fegurð, um samband ljótleikans og fegurðarinnar, um það hvað flokkast til listar og enn fremur um það hvert hlutverk listar eigi nú, þegar öllu er á botninn hvolft, að vera.

Fagurfræðin svokallaða hefur haldið mér hugföngnum síðasta árið eða svo og ég hef lesið nokkrar bækur um viðfangsefnið, meðal annars eftir Hegel, Aristóteles, Símon Jóhannes Ágústsson, Nietzsche, Colin Lyas og styttri greinar og ritgerðir eftir ótal hugsuði. Þrátt fyrir að hafa lesið hitt og þetta finnst mér ég ekki nógu fróður um æstetíkina enn, og ég stefni á að gæða mér á enn fleiri bókum eftir Croce, Freud, Deleuze/Guattari, Lacan og þar fram eftir götum.

Þó ég telji mig ekki hafa komist að nægilega góðri niðurstöðu enn sem komið er finnst mér ég þó hafa komist að einu óvéfengjanlegu um fræðigreinina:

Þýðingin „fagurfræði” fyrir enska orðið „aesthetics” er með öllu ófullnægjandi.

Í þessari stuttu ritgerð vil ég kynna nýtt orð fyrir lesendum sem gæti hentað betur en það sem tíðkast nú að nota yfir fræðigreinina og fyrirbærið, auk þess sem ég mun útlista ástæður fyrir því að það gæti verið langtum betra að beita mínu uppkrulli eða einhverri sambærilegri alternatívu frekar en gömlu tuggunni.

Fagurfræði. Hvað hugsarðu, kæri lesandi, þegar þú lest orðið „fagurfræði”? Hugsarðu kannski um list? Fegurð? Gamlan hrukkóttan karl á listasafni að velta fyrir sér litablæbrigðum í málverki eftir Turner, notandi of stór orð til að flækja það sem er einfaldlega fallegt? Ég veit ekki hvað það er sem þú hugsar nákvæmlega, en ég ímynda mér að þetta sé það sem margir hugsa — og ef ekki þetta, þá eitthvað á ríflega sömu línu — um fegurðina, akademíu, kannski snert af neikvæðri konnótasjón.

Það er vegna þessa sem mér finnst orðið ófullnægjandi. Mér finnst það ekki innihalda breiddina sem enska orðið aesthetics gefur í skyn. Mér finnst ég of oft eiga í samræðum um fagurfræði, þar sem hinu fagra er ruglað saman við hið fagurfræðilega! Raunin er þó sú, að þetta eru hugtök sem eiga ekki að vera svona náskyld orðsifjafræðilega.

Fegurðin er aðeins annað ysta mark tveggja á hinu æstetíska rófi. Það sem er ljótt er nefnilega líka æstetískt. En það hljómar stórfenglega undarlega að segja að hið ljóta sé fagurfræðilegt! Ljót listaverk eru listaverk þótt ljót séu, en það virkar eins og þversögn að kalla ljót listaverk fagurfræðileg. Kannski ef þú bættir við einkunnarorði eins og „neikvætt,” en það gerir það enginn og það mun enginn gera það.

Eftir að hafa átt nokkrar heimspekilegar samræður við góða menn og góðar konur um list og eðli hennar, fegurðina og ljótleikann, fannst mér vera orðin raunveruleg þörf á því að orðinu yrði breytt. Ég hafði einfaldlega þurft að eyða of löngum tíma í að skilgreina orðið fagurfræði, þannig að allir væru með á nótunum um það hvað orðið fæli í sér. Þess vegna byrjaði ég að hugsa upp alternatívu fyrir það sem mér fannst vera orðið hálfgert skrípi.

Ég tel að til þess að fullnægjandi orð finnist yfir fyrirbærið verði maður að hugsa um það sem allt hið æstetíska á sameiginlegt í verkun þess á sálina. Það sem gerir hluti ljóta jafnt sem það sem gerir hluti fagra. Að mínu mati er hið sameiginlega í þessu tvennu það, að það er eitthvað innra með þessum fyrirbærum (sem teljast æstetísk) sem hreyfir við manni.

Maður tekur andköf þegar maður upplifir háleita fegurð, maður hálfkúgast þegar manni finnst eitthvað viðbjóðslegt. Maður upplifir, allt í senn, sálræna og líkamlega hreyfingu.

Út frá þessu hefur mér dottið í hug að notast við orðið hrif. Það lýsir ekki hreyfingunni sjálfri heldur ástandi hlutar sem hreyfingin verkar á. Það er dálítið eins og þegar maður er skotinn í einhverjum og segir „évg er hrifinn”. Af þessari ályktun komst ég að þeirri niðurstöðu að orðið „hriffræði” gæti dugað.

Já, ég veit — „hriffræði” er engan veginn jafn fallegt orð og „fagurfræði”. En staðreyndin er sú að orðið yfir æstetík þarf hvorki að vera fallegt eða hljómhreint. Það á einfaldlega að vera nytsamlegt, rétt eins og orðin verufræði og þekkingarfræði eru nytsamleg og skýr þótt — ef mér leyfist að frumsýna orðið mitt nýja — hriffræðilega séu þau ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Og þar hafið þið það! Mér finnst „fagurfræði” hafa of mikla tengingu við orðið fegurð til að hægt sé að nota það á skilvirkan hátt í samræðum og ég tel að orð á borð við „hriffræði” gæti staðið sig betur í verki og sannleika, eins og segir í ritníngunni.

Mér þætti afskaplega vænt um að þið, kæru lesendur, segðuð mér hvað ykkur fyndist um þetta nýyrði mitt. Endilega taggið mig á Forritinu eða sendið mér einkaskilaboð og látið mig vita hvernig þetta leggst í ykkur og hvort þið mynduð nota orðið. 

Með sólina í maganum — smásaga

Með sólina í maganum — smásaga

Lýðræði og viðurkenning

Lýðræði og viðurkenning