Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Óklárað brot um muninn á hinu altæka og einstaka

Óklárað brot um muninn á hinu altæka og einstaka

Vandamálið við frjálsan vilja felst einna helst í því að við skilgreinum manninn sem slíkan og veröldina sem slíka sem sína hvora heildina, tengda og háða hvorri annarri, en ekki sem eina heild.

Maðurinn, með sinn vilja og sitt sjálf, þykist geta valið þvert á það sem veröldin hefur lagt út fyrir hann. En raunin er sú að hann velur, einmitt vegna þess sem veröldin hefur lagt út fyrir hann. Í orsakaferlinu A — B mun A alltaf leiða til B og hvað sem felst í þankastrikinu mun alltaf verða það sem felst í þankastrikinu. Maðurinn sem fann fyrst upp á skeiðinni sem verkfæri mun alltaf og myndi alltaf finna upp á skeiðinni vegna þess að allur alheimurinn sem slíkur hefði alltaf efnislega leitt til þess að hann fæddist á þessum stað fremur en hinum, ætti samskipti við þessa menn fremur en aðra, færi þangað fremur en hingað, og svo framvegis. Allt sem hann gerir gerir hann að nauðþurft, vegna þess að hann er háður lögmálum um efni eins og allt annað efni veraldarinnar. Að hafna þessu lögmáli þýðir að skipta manninum upp í sál og líkama, en út í þá sálma mun ég ekki fara núna, en mun ef til vill snerta á síðar. 

Hvað þetta varðar mun nútímamaðurinn gera ráð fyrir því að hann sé fastur innan regluverks eðlisfræðinnar og lögmála hennar og mun sem slíkur uppskera ákveðnar tilvistarkreppukenndir á borð við tilgangsáhyggjur og fleira þvíumíkt, en það er allt barátta sem felst í indoktríneríngu okkar við teleólógíu kristninnar og líkra trúarverka mannsins. Samkvæmt þeim skortir okkur allan sjálfstæðan vilja, við erum ófær um að velja hvað það er sem við viljum, vegna þess að alheimurinn neyðir okkur til að velja, efnisleg lögmál neyðir okkur til að velja. Hvers vegna ekki að fremja sjálfsmorð, hugsa þeir sem að þessu komast — hvaða tilgang höfum við sem frumuklasi og rúmtímaefniseining í alheimi sem ekki um okkur skeytir? Svarið við þessu er hvorki auðvelt né auðfundið. En það eru þó svör við þessu. Þau er að finna einna helst í heimspeki eða guðfræði, sem eru þau tvö hugsanaferli sem hvað helst hafa eignað okkur tilgangsferil innan veraldarinnar. Við værum þá til sem sköpunarverk Guðs eða eitthvað álíka, hafa flestir spekingar haldið fram gegnum tíðina. 

Þó er til valkostur sem tekur bæði einstaklingsviljann sem slíkann og veröldina sjálfa inn í reikninginn og framkallar niðurstöðu. Þessi valkostur byrjar þó á því að skapa nýja grundvelli fyrir tilgangshugsun og þessumlíku. Í staðinn fyrir að byrja á setningunni „í fyrstu er veröldin, og svo verður maðurinn,“ byrjar þessi hugsunarhátturinn á því að segja einfaldlega að í fyrstu sé veröldin, og að hún sé forsenda þess að maðurinn geti orðið. Þó sé maðurinn engan veginn nauðsynleg ályktun sem draga mætti út frá veröldinni sem slíkri, heldur einfaldlega sé hann, rétt eins og sólkerfin eru og vetrarbrautirnar eru, rétt eins og hver einn og einasti steinn á Melrakkasléttu er, rétt eins og skýið sem okkur finnst birgja okkur sýn að Sólinni (sem einnig er) einfaldlega er. 

Veröldin einfaldlega er. Af þessu hlýtur að allt innan veraldarinnar er að sama skapi. Þannig er maðurinn, þannig er hundurinn, þannig er þykkblöðungurinn. Nú höfum við sem manneskjur upplifað okkur sem verundir, sem er einfaldelga hugtak yfir það sem er og ýmist veit það eða ekki. Undir þeim ramma flokkumst við nánar sem það sem er og veit að það er. Þetta hefur alltaf skapað okkur einhverja sérstöðu, eitthvað sérstakt hlutverk innan kosmóssins, þar sem við erum líkust Guði, fyrstu hreyfingar eða fyrstu ákvarðanir,  ὃ οὐ κινούμενος κινεῖ, það sem hreyfir sjálft sig. Þetta er augljóslega rökvilla. Það er ekkert sem hreyfir sjálft sig. Hins vegar er sumt sem er meðvitað, sumt er ómeðvitað, en einna mestu máli skiptir að sumt er sjálfsmeðvitað. Sumt efni veit að það er, og það veit að það er og það veit að það veit og það er, og þar fram eftir götum. Það er hér sem stóri munurinn leggur sig. Ekki í ákvarðanatöku heldur í sjálfsmeðvitund. Efni er þannig annað hvort meðvitað [í þeim mjög takmarkaða skilningi, innan þessarar tilteknu ritgerðar, að það fylgi lögmálum alheimsins], eða það er meðvitað. Hér kemur maðurinn til sögunnar.

Maðurinn er efni, og á sama tíma er hann sjálfsmeðvitað efni, það er að segja — hann er efni sem fylgir lögmálum sínum á þann hátt að meðvitund hans á lögmálunum hleypur að því sem er meðvitað um lögmálin og myndar þar með heila nýja undirkategóríu efnis sem slíks. Maðurinn er hluti af veröldinni en öllu öðru fremur er hann sá hluti veraldarinnar sem veit að hann er veröldin sem slík. Hann finnur sig í lögmálum veraldarinnar og samsamar sig með þeim, þar með myndandi eina heild manns og alheims. Hann veit að hann er efni og sem efni fylgir hann lögmálum efnis og þaðan af leiðandi er hann raunverulega aðeins frjáls innan regluverks möguleika sinna. Það er ekkert sem kemur til greina annað en að hegða sér á annan hátt en hann hegðar sér. Ég hef heyrt líkingu um þetta — sem hljómar á þann veg að maðurinn sé einfaldlega eins og meðvitaður dómínókubbur sem veit að dómínókubburinn á undan er að fara að ýta á hann og veit að sama leyti að hann er að fara að ýta á annan kubb, og er þrátt fyrir það fullur ákefðar um að detta, láta ýta sér til þess að ýta öðrum. Það er eitthvað vit í þessari líkingu, þótt hún fari ekki alla leið, þótt hún geri sér ekki grein fyrir því að maðurinn eða dómínókubburinn sem slíkur sé alltaf og verði alltaf að vera hluti af rununni. Það er þannig sem hann veit að hann er raunveruleg meðvitund alheimsins, efnið sem framkvæmir vitund um sjálft sig, heil ný tegund af möguleikum efnis. Réttast væri að skipta efni niður í — ekki þrjá, og ekki fjóra, heldur — fimm hluta nú eftir að maðurinn hefur tekið sér sess í veröldinni;

  1. a. fast
  2. b. fljótandi
  3. c. gufa
  4. d. plasma
  5. e. meðvitað

~

Réttarspeki Hegels — I. hluti: Inngangur / Frjáls Vilji

Réttarspeki Hegels — I. hluti: Inngangur / Frjáls Vilji

Með sólina í maganum — smásaga

Með sólina í maganum — smásaga