Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Af skuldum og siðum

Af skuldum og siðum

Þessi pistill birtist fyrst í útvarpsþættinum Lestin þann 12. september 2018. Hægt er að hlusta á hljóðupptöku af upplestri höfundar hér að neðan. Málverkið í haus heitir A Merchant Making Up the Account eftir Katsushika Hokusai.Árið 2017 nam hrein skuld ríkissjóðs 787 milljörðum króna — sem jafngildir tæplega þriðjungi vergrar landsframleiðslu. Með öðrum orðum þýðir þetta að íslenska ríkið skuldi hinum ýmsu aðilum ótal einakrónupeninga — 787 þúsund milljónir einnar krónu peninga, réttara sagt — sem er óhemju stór upphæð. Með því að skulda svona mikinn pening hefur ríkið skuldbundið sig ótal mörgum einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum. Við lesum um slíkar upphæðir og slíkar skuldbindingar nánast dag hvern, jafnvel heyrum við talað um slík vensl í útvarpinu — eins og þið, kæru hlustendur, eruð að gera einmitt núna. Oftast nær göngum við að þessu sambandi lánadrottins og skuldara sem gefnu — skuldir íslenska ríkisins eru staðreynd, rétt eins og húsnæðislánin okkar, rétt eins og námslánin okkar, rétt eins og reikningarnir sem við fáum inn um lúguna eða í netbankann á hverjum mánaðarmótum. Það sem við gerum sjaldnar er að hugsa út í hugtak skuldarinnar sem slíkt — hvað er það, eiginlega, að skulda eitthvað? Það er þetta hugtak og hugmyndir í kringum það sem ég vildi velta fyrir mér í pistli dagsins.

Hefjumst þá handa og einbeitum okkur stuttlega að orðinu: skuld. Samkvæmt vefsíðunni málið.is er orðið skuld haft um ógreidd lán, sök, ástæðu, ásökun, skuldbindingu og skyldu — sem virðist strax vera tiltölulega víðfeðmt notkunarsvið. Þegar betur er að gáð verður manni þó ljóst að skuldin er nátengd hugmyndinni um það sem á að gerast eða á að hafa gerst — þú átt að greiða lánið þitt, þú átt að gera skyldu þína, þú átt að hafa gert eitthvað — og svo framvegis. Hafi maður þetta í huga kemur manni ekki á óvart að orðsifjafræðilega eigi orðið „skuld“ sér rætur í orðinu „skal“ sem í fleirtölu er auðvitað „skulu“ — skuld virðist þannig gefa í skyn siðferðilega bindingu.

Það er með þennan uppruna og siðferðilega vídd orðsins í huga sem vert er að velta fyrir sér greinarmuninum á því sem er og því sem ætti að vera — en það er greinarmunur sem skoski heimspekingurinn David Hume gerði frægan. Við förum nefnilega á degi hverjum með væntingahlaðnar staðhæfingar um það sem ætti að vera — rétt eins og þegar við segjum „hann Jóhann skuldar mér peninga“ — við erum í reynd ekki að lýsa ástandinu eins og það er, heldur erum við að staðhæfa um ástand sem ætti að vera. Hið ákjósanlega ástand, það sem ætti að vera, er að Jóhann sé búinn að greiða mér peningana aftur. Við getum alveg sagt að skuld Jóhanns , en raunin er sú að hún felur í sér ætti — hún horfir fram á við, til þess sem er ekki orðið. Hið sama gildir um íslenska ríkið. Það skuldar 787 milljarða króna — sem þýðir að það ætti, núna eða í framtíðinni, eftir skilmálum hvers láns fyrir sig, að greiða peningana sem það skuldar til baka.

Þetta er virkilega áhugavert að hugsa um — helst vegna þess að manni virðist þetta vera sérstaklega mannlegur eiginleiki: að geta bæði munað aftur til þess sem lofað var sem og horft fram á við til þess sem verður. Loforð skuldarans til lánadrottinsins er þannig eins og framvarp þess sem er, umbreyting þess í það sem ætti að vera. Þessi loforð, þessar skuldir, eru siðferðilegar — þær stýra hegðun — og þær stýra hegðun gegnum tíma. Í þessu samhengi öllu er vert að minnast á annan heimspeking — hinn þýska Friedrich Nietzsche. Hann velti þessu hugtaki, skuldinni, loforðinu, minninu, lengi fyrir sér — og skrifaði kenningu um tilurð þess í verkinu Af sifjafræði siðferðisins. Honum var mjög í mun um að skilja það hvernig mannkynið hefur eiginlega þjálfað sjálft sig til þess að vera áreiðanlegt gegnum tíma. Við höfum mótað hvort annað, meðal annars í gegnum verkfæri eins og loforð og skuld og minni, til þess að geta verið samstillt, til þess að geta áætlað það sem koma skal með einhverri vissu.

Önnur ritgerð Sifjafræði Nietzsche hefst á þessum orðum, í þýðingu Róbert Jack: „Að rækta dýr sem má gefa loforð — er það ekki einmitt hið þverstæðukennda verkefni sem náttúran hefur sett sér með tilliti til mannsins?“ Hugmyndin um loforð og skuld er nefnilega ekki eitthvað sjálfgefið. Þegar maður hugsar út í það er í raun ekkert yfirskilvitlegt við skuldir eða loforð — þau eru bara yrðingar um framtíðina sem við gerum í krafti skilnings okkar og uppfyllum í krafti vinnu okkar. Þau eru manngerðar hugmyndir — mjög altækar hugmyndir raunar, þar eð þau birtast okkur í hlutum eins og rauðu ljósunum á gatnamótum og gjaldeyrishöftum og peningaseðlum — hlutum sem stýra okkur, veita okkur niður ákveðna árfarvegi umfram aðra, binda okkur í tiltekna atburðaröð eða rás. „Verkefnið“ sem Nietzsche talar um, þetta sem miðar að því að skapa dýr sem getur gefið loforð, hefur það nefnilega að forsendu að maðurinn sé gerður einsleitur, reglulegur, útreiknanlegur.

Eitt mikilvægasta verkfærið í því samhengi er samviskan. Hvað er samviska, eiginlega? Orðið virðist gefa til kynna einhverskonar sameiginlega visku, einhvern sameiginlegan þekkingargrunn — samviskan virðist vera það sem við höfum lært. Hvað er það sem við höfum lært, hvað er það sem samviskan miðlar okkur? Samviskan er það sem situr á öxlinni á okkur og hvíslar til okkar leiðbeiningum. Ætti ég nú ekki að greiða skuldina mína? Ætti ég ekki að vera kurteis? Málið er að þessi loforð eru aðeins marktæk sem loforð þegar sá sem loforðið gaf, skuldarinn, vill uppfylla greiða aftur skuldina — þegar hann samþykkir og gengst undir hugtak skuldarinnar að fullnustu.

Til þess að þetta geti gerst áreiðanlega og útreiknanlega þarf því að hvetja skuldarann til þess að vilja gera sitt allra besta til að tryggja endurgreiðsluna, uppfyllinguna. Það er einungis hægt að gera þetta á eina vegu — með því að telja skuldaranum, og raunar öllum skuldurum, trú um það að uppfylling loforða sé þeim í hag. Það má gera þetta á margvíslega vegu — það er til að mynda hægt að refsa þeim efnislega og opinberlega, hvort sem er líkamlega eða fjárhagslega, takist þeim ekki upp með að greiða lánið aftur. Það er ef til vill af þessum refsingum sem samviskan verður til — tilfinningin um að okkur beri að gera „hið rétta“ er í reynd bara sjálfsbjargarhvöt.

Eða þetta hugsar Nietzsche, í það minnsta. Þetta eru tiltölulega sannfærandi vangaveltur — og það er þess vert að eigna sér þær og hugsa nánar um það frá degi til dags hvers vegna í ósköpunum við erum eiginlega alltaf að gera hlutina sem við erum að gera. Hvers vegna er ég að borga þessa skuld? Hvaða ljósi varpar það á ástand mála í samfélaginu? Hverjum skulda ég, og hvers vegna skulda ég þeim en ekki öðrum? Hvað get ég gert í því að ég skuldi þeim, svona annað en að greiða lánið aftur? Get ég kannski ekki gert neitt? — Kæru hlustendur, það eru engin einföld svör við svona spurningum — en ef til vill, vonandi, kannski, geta þær hjálpað okkur að skilja veruleikann örlítið nánar, ef ekki betur — svo við séum nú ekki alltaf bara með hann að láni, heldur getum gert hann að okkar eigin eign.

Hvað myndi Jesús gera?

Hvað myndi Jesús gera?

Aftengingar: nær/fjær, af/á

Aftengingar: nær/fjær, af/á