Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Hvað myndi Jesús gera?

Hvað myndi Jesús gera?

Hvað myndi Jesús gera í þessum aðstæðum? Mörg höfum við eflaust velt spurningu eins og þessari fyrir okkur — og vestanhafs er þessi spurning og svarið við henni mjög vinsæl. Það er hægt að kaupa endalausan varning merktan „What Would Jesus Do?“, oft skammstafað  sem WWJD? og skrifað á armbönd eða bíllímmiða. Spurningin er tiltölulega merkingarþrungin: hvað myndi Jesús eiginlega gera? Svarið er að Jesús myndi líklegast sýna náunganum kærleik og skilning — hann myndi jafnvel fórna sér fyrir náungann, rétt eins og hann gerði á Golgotahæð þegar hann fórnaði sér fyrir syndir alls mannkyns. Spurningin um hvað Jesús myndi gjöra felur því í sér einhver siðaboð — hún spyr hugmyndina sem okkur hefur borist um þessa persónu sem við köllum Jesús spurningarinnar: hvernig get ég hegðað mér þannig að ég hegði mér eins og Kristur Jesús, sonur Guðs, myndi hegða sér? Í pistli dagsins vil ég velta þessari spurningu örlítið nánar fyrir mér — með skáldsöguna „Silence“ eftir rithöfundinn Shusaku Endo til hliðsjónar.

Áður en ég byrja vil ég þó stuttlega snerta á því að við þurfum auðvitað ekki að ræða það hvort Jesús hafi verið til í alvörunni eða hvort Guð sé til áður en við getum velt því fyrir okkur hvað Jesús myndi gera. Raunheimstilvist hans breytir engu í þessu samhengi, vegna þess að við erum að velta fyrir okkur siðaboðunum sem nafn hans boðar, jafnvel þótt hann sé nafnið eitt. Þessi siðaboð eru meginmál spurningarinnar um Jesús: hvernig ætti ég að hegða mér? Þetta er stór og áleitin spurning, og margir finna svarið í bókunum um Jesús sem við köllum saman Nýja Testamentið.

Mér varð hugsað til þessarar spurningar fyrir skömmu síðan þegar ég las hina frábæru skáldsögu, Þögn, eða Silence eftir rithöfundinn japanska Shusaku Endo. Hún fjallar um portúgalska trúboða sem ferðuðust til Japan fyrir ríflega 300 árum síðan. Nýlega gerði leikstjórinn frægi Martin Scorsese kvikmynd eftir skáldsögunni, sem hefur fengið að mestu góða dóma —  en ég hef ekki séð hana, svo ég hef fátt um kvikmyndina að segja.

Atburðarás bókarinnar gerist um 1700 í Japan, skömmu eftir að fyrstu kristnu trúboðarnir heimsóttu eyjaklasann frá Portúgal. Kristni er þá á undanhaldi í landi hinnar rísandi sólar eftir að lénsherrar leggjast gegn trúarbragðinu — og trúboðar jafnt sem innfæddir kristnir sæta ofsóknum, pyntingum og krossfestingum. Söguhetjurnar ákveða að ferðast til Japan eftir að fregnir berast af því að lærifaðir þeirra, sem hafði löngu áður flutt þangað sem trúboði, hefði afneitað trúnni.

Endo lýsir því með afburðum vel hvernig trúboðinn og presturinn Rodrigues ferðast um Japan á flótta undan yfirvöldunum, skírir börn og heyrir syndajátningar — og undrast það allan tímann hvernig almáttugur Guð hefur ekki enn bænheyrt japönsk-kristnu þjóðina og veitt þeim þann frið frá ofsóknum sem þau óskuðu sér. Rodrigues fer brátt að sjá sjálfan sig fyrir sér í kristshlutverkinu, fullbúinn með sinn eigin persónulega Júdas sem eltir hann á röndum þrákelkinn og fullur eftirsjár eftir að hafa framselt hann yfirvöldum. Í lok verksins þarf Rodrigues þó að taka stóra ákvörðun, sem mér finnst vera ótrúlega hrífandi dæmisaga um og lýsing á anda kristninnar.

Rodrigues er gert að afneita trúnni, ellegar neyðist hann til að horfa upp á pyntingar japanskra trúbræðra sinna, hjarðar sinnar. Ég vil ekki skemma fyrir ykkur söguna svo ég fer ekki lengra út í það að lýsa atburðarásinni — en það er á þessum tímapunkti sem spurningin um það hvað Jesús myndi gera vaknaði upp hjá mér. Þegar maður setur hana í þetta samhengi tekur hún á sig dálítið súrrealískan blæ — myndi Jesús afneita sjálfum sér og sínum eigin sannleika í þágu náungans? Er náungakærleikurinn í verki ofar náungakærleik í orði?

Hugsum okkur hvernig Nýja Testamentið hefði litið út ef Jesús hefði ekki krossfestur heldur fylgismenn hans — ímyndum okkur Markúsarguðspjall þar sem postularnir eru allir með tölu negldir við krossa á Golgatahæð og stungnir síðusárum af spjóti rómverska hermannsins Longínusar. Ímyndum okkur að Jesú sé hlekkjaður við legubekk á útsýnispalli Pontíusar Pílatusar, landsstjóra Júdeu, sem bíður þess að frelsarinn ákveði sig, velji annan kostinn: Kristur verður að velja á milli þess að lýsa því yfir að hann sé loddari og trúvillingur eða horfa upp á hjörð sína kveljast í pyntingum og deyja svo á endanum. Spyrjum okkur nú aftur: hvað myndi Jesús gera?

Þetta er kraftmikil hugsunartilraun. Hún krefur okkur um að spyrja spurninga um eðli kristindómsins: hvort það hefði mátt fórna kristindómnum sjálfum í þágu boðskapar kristindómsins. Vandamálið hér er að Jesús verður annaðhvort að leyfa landsstjóranum að myrða bræður sína í trúnni, sem myndi ganga í berhögg við það sem hann kennir, eða hann verður að afneita sínum eigin sannleika og lýsa því yfir að hann sé merkingarlaus. Í báðum tilfellum verður Kristur að neita kristninni í þágu kristninnar — hann verður annaðhvort að gera tilraun til þess að varðveita hana með því að leyfa postulum sínum að deyja á krossunum eða bjarga þeim með því að hafna því sem hann gerir í verki og þannig opnandi á möguleikann á því að heimurinn kynntist aldrei boðskap Krists.

Hvað myndi Jesú gera? Ég held, persónulega, að hann hefði afneitað sjálfum sér og skilaboðum sínum. Ég held að það hefði verið það kristilegasta sem hægt væri að gera í stöðunni — kærleikurinn sjálfur settur ofar öllu öðru, jafnvel trúnni á kærleikann sjálfan. Þið hafið kannski annað skynbragð á þetta, kæru hlustendur — kannski teljið þið fórnarkostnaðinn sem er pynting og dauði postulanna ásættanlegan þegar hugsað er til þess hvernig heimurinn væri án Kristninnar.

En — þá myndi ég aftur spyrja ykkur: hvað myndi Jesú gera? Sæjuð þið hann virkilega fyrir ykkur er hann stæði kaldrifjaður frammi fyrir deyjandi trúbræðrum sínum? Mér tekst í það mynda ómögulega að ímynda mér það. Ég get séð hann fyrir mér reynandi allt sem í hans valdi stæði til þess að bjarga félögum sínum — hann myndi grátbiðja landsstjórann um að krossfesta sjálfan sig í stað hjarðar sinnar, hann myndi ef til vill reyna að losa sig úr hlekkjunum, hann myndi biðja til Guðs — hann myndi finna til sársauka, hann myndi jafnvel hrópa upp: Eli Eli Lama Sabachthani? — Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?

Í aðstæðum sem slíkum virðist manni sem Jesú þyrfti á kraftaverki að halda. Maður vill samt ekki þurfa að falla aftur á kraftaverk þegar maður leitar siðferðilegrar leiðsagnar. Maður vill geta hugsað „þetta er það sem maðurinn Jesú myndi gera.“ Það er þessi mennska sem gerir sögurnar um Jesú svona áhrifaríkar. Sagt er að hann hafi gert kraftaverk, en það er ekki það ótrúlegasta sem hann gerði. Það ótrúlegasta við kristindóminn, konungsríkið sem Jesú boðaði, er náungakærleikurinn — hversdagslegi kærleikurinn sem við getum látið skína í gegn í okkar lítilsverðustu athöfnum. Við þurfum ekki einu sinni að hugsa um þennan kærleik í gegnum Jesú — og það er einmitt þess vegna sem við getum séð Jesú fyrir okkur hafna sínum eigin boðskap í orði til þess að staðfesta hann á borði.

Um menningarmarxisma og önnur gjálfuryrði

Um menningarmarxisma og önnur gjálfuryrði

Af skuldum og siðum

Af skuldum og siðum