Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Aftengingar: nær/fjær, af/á

Aftengingar: nær/fjær, af/á

Málverkið í haus heitir A Painter at Work og er eftir Paul Cezanne frá árinu 1875.


Allflest erum við háð internetinu. Við neyðumst til að nota það, beint og óbeint, hvern einasta dag. Mörg okkar, þorri manna raunar, notast við samfélagsmiðla til þess að viðhalda samböndum við annað fólk og umheiminn sem slíkan. Við hugsum okkur þessa samfélagsmiðla sem hafandi mismikla nærveru og mismikla fjarveru — við erum ef til vill virkust á sumum samfélagsmiðlum en munum varla eftir því að við eigum aðgang að öðrum. Oftast hugsum við okkur samfélagsmiðlana sem hafandi nærveru aðeins þegar við höfum símaskjáinn fyrir framan okkur eða netvafrann opinn á vefslóð samfélagsmiðilsins sem slíks — og þannig hugsum við okkur líka að við getum aftengst samfélagsmiðlunum með því að einfaldlega setja símann í vasann eða loka tölvunni, vefsíðunni. 

Það er kannski eitthvað til í þessari barnalegu hugmynd um nærveru og fjarveru, veru samfélagsmiðlanna, sem mótaða af efnislegri nærveru raftækis og milliliðalausrar meðvitundar um raftækið — við erum jú þá og aðeins þá að nota samfélagsmiðlana þegar við höfum þá fyrir framan okkur, þegar við birtum eitthvað á þeim, þegar við beitum þeim. Þrátt fyrir að það geti verið að einhver sannleikur kunni að leynast í þessari túlkun, þessum skilningi á samfélagsmiðlum, finnst mér hún ófullkomin. Það vantar einhvern sannleik í hann. Það er það sem ég vil reyna að rannsaka í þessari ritgerð; þ.e. hvernig hægt er að tala um aftengingar og tengingar í samhengi við samfélagsmiðla og netið almennt.

Hugsu um orðin sem við erum að fást við: tenging/aftenging. Manni virðist þessi tvenna standa í einföldu og milliliðalausu gagnstæðu sambandi við sjálfa sig; þú ert annað hvort tengdur eða aftengdur, þú getur ekki verið bæði. Hugsum okkur snúru og innstungu — það er annað hvort rafmagn flæðandi gegnum snúruna (hún er tengd) eða hún er líflaus (hún er aftengd). Þetta virðist vera almenn hugmynd okkar um samfélagsmiðla — við erum annað hvort að nota þá eða við erum ekki að nota þá. Við höfum símann frammi fyrir ásjónu okkar eða við höfum símann í vasanum. Við erum annaðhvort með aðgang að tilteknum samfélagsmiðli eða við eigum ekki aðgang að honum. En getur verið að slík tvíund geti gilt fyrir eitthvað sem er eins flókið og draugslegt og samfélagsmiðlar? Erum við annaðhvort á samfélagsmiðlum eða ekki á þeim? Getur ekki verið að við séum hvorugt og bæði samtímis — að samfélagsmiðlar ásæki okkur eins og vofur?

Það er stundum eins og andi samfélagsmiðla liggi í loftinu — miðlarnir hafa tekið sér bólfestu í meðvitund okkar sem ákveðið skema eða verkfærasett sem við notum til þess að mæla út heiminn og aðskilja fyrirbærin í honum frá hverju öðru. Þannig eru samfélagsmiðlar svo gott sem alltumlykjandi, meira eða minna nærverandi og fjarverandi að hverju sinni án þess að neinn kippi sér upp við það. Það mætti lýsa þeim sem nýjustu viðbótinni við djúp jarðlög samfélagsins, slitrótt klæði sem verið er að tvinna saman við bútasaumsteppi sammannlegu meðvitundarinnar. Tvíundarhugmyndin gengur nefnilega ekki upp. Samfélagsmiðlar eru nauðsynlega stöðug meðvitund um reynsluheiminn sem ber að fanga sem og netið sem við beitum til þess að fanga hann í — við erum árvökulir veiðimenn, standandi berfóta og grafkyrrir í háflóði fjörunnar með spjótið á lofti, ávallt reiðubúin að reka næsta feng á hol og lyfta honum sigri hrósandi upp úr vatninu. 

Hvað er það sem hefur bæði nærveru og fjarveru? Nær og fjær, atviksorð sem lýsa staðsetningum — afstæðum við sjálfsveru sem hefur sitt eigið rými. Hvernig gætu samfélagsmiðlar haft nærveru yfir höfuð — hvernig gætu þeir haft fjarveru? Samfélagsmiðlar hafa það hlutverk að miðla, þeir eru eins og fiskabúrið og vatnið sem rúmar samfélag fiskanna, tiltölulega tilbreytingarlaust en öruggt að mestu — hlutlaust andrúmsloft. Samlíkingin brotnar þó hratt niður; það er engin skrásetning í fiskabúrinu. Við getum mögulega hugsað okkur fiskabúr sem geymir sérstaka, stökkbreytta tegund af þara, þara sem lifir andlegu samlífi með gullfiskunum og vex sér í samsvarandi tákn utan á gleri fiskabúrsins — glerið verður þá að minni miðilsins, fiskarnir stöðugt lesandi á glerið sínar eigin hugsanir og hugsanir annarra í brotinni en heildrænni meðvitund um fiskabúrið sem slíkt.

Væri þá ekki réttara að tala um að fiskabúrið sé það sem skilgreinir nærveru eða fjarveru fiskanna? Staðsetningar þeirra eru afstæðar við hvern annan innan ramma fiskabúrsins; sambærilega miðum við okkur við hvort annað innan skilgreiningarramma samfélagsmiðilsins. Miðillinn sjálfur er skrásetningarapparat, minnisbúnaður andans festur og fastnandi í hlutlægt og altækt form, verðandi einstrengingslegri með hverri sekúndunni sem líður. Bráðið vax sem storknar í óendanlega fjölbreytt form. Horfumst í augu við það: samfélagsmiðlarnir skrásetja. Þeir skrásetja hverja og eina okkar hreyfingu, hvort sem við vitum það eða ekki. Samfélagsmiðlarnir vita hvar ég skrifaði þessa ritgerð; þeir hafa aðgang að gervihnattaupplýsingum um mig, þeir vita hvaða IP-tölu ég notaði. Þeir skrásetja það. Þeir hafa skrásett það frá upphafi. Þeir munu halda áfram að skrásetja mig og það sem ég geri — hvað merkir það?

Hvaða þýðingu hefur það að vera storknaður í rafrænu og sjálfvirku skrásetningarferli? Er ég storkan? Er hluti af mér þessi storka? Hvað þýðir þessi endalausa skrásetning fyrir meðvitundir okkar um fortíðina? Forðum þóttist fortíðin tiltölulega opin. Hver og ein endurminning breyttist þegar maður dró hana upp úr hyldýpi persónulega kjötminnisins, tók á sig blæ nútíðarinnar, tengdist komandinni. Núna man miðillinn fyrir okkur — hann man betur en við, nokkurn tímann. Hann ákvarðar hvað skal muna. Hann man hvað ég sagði árið 2012 um að gott væri að slökkva á nettengingunni í símanum sínum áður en maður færi til útlanda. Hann man hvar ég var þegar ég sagði það. Ég man það ekki. Ég man það í gegnum miðilinn — minningu minni er miðlað. Er það einu sinni mín minning?

Spurning kallar okkur til sín: hefur þetta nokkuð breyst að einhverju marki? Hefur þetta ekki alltaf verið svona? Er apparatusinn ekki aðeins orðinn skilvirkari? Jú. Hann er ekkert annað en orðinn skilvirkari. Ef það hefur orðið eðlisbreyting á honum er það aðeins vegna þess að magnfræðilega breytingin, skilvirknisbreytingin, var nægilega áköf og skjót til þess að okkur líði eins og umhverfið hafi breyst. Samfélagsmiðlar — í andrúmsloftinu okkar eins og nitur innan um súrefni: skrásetningarapparatus stýringarsamfélagsins! Er það ekki réttnefni? 

Ég veit ekki. Kannski væri best að tala frekar um samfélagsmiðla eins og vofur — verufræðilega hvorki fjarverandi né nærverandi. Vofufræðilegar, hantologískar. Veran og neindin, tóm og tilverandi, hverfandi inn í hvort annað og bæði vofur vegna þess, skilgreindar fram- og afturvirkt, ein vitsmunaleg klessa rökrænu og órökrænu. Fáránleiki. Er ég að ganga of langt í ljóðrænunni? Er ég hættur að ganga upp? Mögulega. Vil ég aftengjast? Get ég aftengst? Eru samfélagsmiðlarnir innra með mér eða ytra með mér? Eru þeir ekki í öllum föllum með mér? Ætti ég að faðma þá að mér eins og týnda soninn eða skyldi ég hafna þeim í heild sinni? Hef ég almennt val?

Og já, ég veit. Ég er að skrifa þetta á vefinn, vefurinn man. Ég deili þessu á samfélagsmiðilinn, miðillinn man. Pistillinn hefur merkingu sína í miðlunum, svo miðlarnir merkja. Hvað væri þessi pistill án miðlanna? Hvað væri ég án þeirra? Ég er ekki að segja ykkur að hætta á miðlunum. Þið gerið það eða þið gerið það ekki. Ég er hins vegar að segja að það sé ekki hægt að gera það eða gera það ekki. Miðlarnir eru hluti af vefnaðinum sem er raunveruleikinn; þeir vefa út raunveruleikann, einhvern hluta hans — eins og Penelópa við vefstólinn. Til hvers get ég ætlast af ykkur? Meðvitundar? Gæsku? Tilbreytingar? Einskis? Ég miðla eins og mér er miðlað. Þannig er það bara.

Af skuldum og siðum

Af skuldum og siðum

Vinnuvirðiskenningin í ljósi hughyggjunnar

Vinnuvirðiskenningin í ljósi hughyggjunnar