Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Síðustu dagar Sigmundar

Síðustu dagar Sigmundar

PERSÓNUR: Sókrates, Sigmundur, Jóhannes Þór
STAÐSETNING: Alþingisgarðurinn, sólríkur sumarmorgunn

SIGMUNDUR, þá enn forsætisráðherra, situr á bekk í Alþingisgarðinum með bakið í þinghúsið. Það er sólríkt úti og heiðskírt. Fuglar tísta á greinum trjánna og mannhaf fyllir Austurvöll. Allir heimta að SIGMUNDUR segi af sér. SÓKRATES á leið hjá Alþingisgarðinum og kemur auga á SIGMUND. Hann gengur að honum og heilsar.

SÓKRATES: Heill og sæll, Sigmundur. Hvað er að frétta af opinberum málum þessa dagana?

SIGMUNDUR: Góðan dag, Sókrates. Það er nú gott að rekast á þig hér. Það liggur mér nefnilega ýmislegt á hjarta, ýmislegt sem ég vona að vitur maður eins og þú getir hlustað á og skilið - því svo virðist sem enginn í þingsalnum vilji með nokkru móti hlusta á mig.

SÓKRATES: Nú, við Seif heilagan - lát heyra. Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar að rétt skuli rétt vera, og að hverjum manni beri skylda til að hlusta á röksemdir annarra og gefa þeim tækifæri til að tjá sig. Hvert er þrætuepli ykkar í þingsal þessar stundirnar?

SIGMUNDUR: Atburðarás síðustu vikna hefur verið mér erfið. Sjáðu til, Sókrates, þeim finnst ég vera óheiðarlegur - óheiðarlegur fyrir verknað, sem ég hef ekki framið. Kona mín, Anna Sigurlaug, á ósköp saklaust félag í útlöndum, og þingmönnunum finnst ég bera ábyrgð á því! Forkastanlegt, segi ég. Lýðræðinu til smánar. Ég er farinn að velta fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að leysa upp þing.

SÓKRATES: Sigmundur, þú verður að segja mér hvers vegna kollegum þínum finnst gagnrýnisvert og jafnvel eins og þú segir glæpsamlegt að eiga fyrirtæki í útlöndum. Ég er ekki vel að mér í listum viðskiptanna eins og þú.

SIGMUNDUR: Jú Sókrates, sjáðu nú. Það vill svo óheppilega til að ríkið sem Anna Sigurlaug heldur utan um félagið sitt í krefst minni skatta en ríkið hér á Íslandi. Þannig halda kollegar mínir að hún, og þar með ég, sé að svíkjast undan því að greiða minn réttilega skerf á Íslandi. Við þessu segja þeir í fjölmiðlum og á þingi sjálfu að ég sé glæpamaður. Lýðurinn hefur fallist á þessar skoðanir þeirra og liggur við að ég verði látinn drekka óðjurtarseyði og kveðja lifanda líf!

SÓKRATES: Ja-há, Sigmundur. Nú skil ég hvert vandamál þitt er. En mér virðist eitt vera ljóst, sem þú velkist í vafa um.

SIGMUNDUR: Hvað er það, Sókrates? Segðu mér, leyfðu mér að njóta af þekkingu þinni og visku.

SÓKRATES: Áhyggjur þínar, kæri Sigmundur, væru mikils verðar, ef þær væru á nokkurn veginn réttum rökum byggðar. En ef þær eru það ekki, þá eru þær að því skapi skaðlegri, sem þær eru meiri.

SIGMUNDUR: Jú, það held ég, Sókrates.

SÓKRATES: Nú langar mig að rannsaka með þér, Sigmundur, hvort áhyggjur þínar muni nokkuð auðbærari ef við lítum öðrum augum á málið. Ég hef alltaf talið að þegar kemur að skoðunum annarra eigi að meta sumar þeirra mikils, en sumar ekki. Segðu mér nú í guðanna bænum, kæri Sigmundur, hvort þér virðist þessi setning ekki vera rétt?

SIGMUNDUR: Já, vissulega.

SÓKRATES: Það munu þá vera góðar skoðanir, sem ber að meta, en ekki vondar?

SIGMUNDUR: Auðvitað.

SÓKRATES: En góðar skoðanir - eru það ekki skoðanir hygginna manna, en vondar skoðanir álit þeirra, sem fávísir eru?

SIGMUNDUR: Hvað annað?

SÓKRATES: Til dæmis að taka - þegar einhver maður temur sér líkamsæfingar og gerir þær að íþrótt sinni — á hann að gefa gaum að lofi og lasti hvers manns, eða einungis þess eins, sem er læknir eða íþróttakennari?

SIGMUNDUR: Þess eins.

SÓKRATES: Hann á eftir því að óttast last þessa eina manns og gleðjast af lofi hans, en ekki almennings?

SIGMUNDUR: Já, það liggur í augum uppi.

SÓKRATES: Hann á þá að haga lífi sínu, æfa sig og neyta matar og drykkjar eins og þessum eina manni þykir rétt, sem er kennari og hefur vit á, en ekki eins og almenningi finnst eiga að vera?

SIGMUNDUR: Satt er það.

SÓKRATES: Gott og vel. En ef hann óhlýðnast þessum eina manni og virðir álit hans, lof og last, að vettugi, en metur mikils það, sem almenningur segir, og þeir sem hafa ekki vit á — mun honum ekki koma það í koll?

SIGMUNDUR: Jú, því ekki það?

SÓKRATES: Af þessu leiðir auðvitað, að skoðun almennings og fávísra kollega þinna á viðskiptaháttum eru lítils virði. Þú ættir aðeins að virða að vettugi skoðanir þeirra, sem þú treystir fullkomlega, og veist að tala ekki af heimsku og fordómum.

SIGMUNDUR: Hmm… Já… Hvernig sá ég þetta ekki fyrr!

SÓKRATES: Hugsaðu þig nú um - þekkirðu engan sem þú treystir fyrir því að veita þér slíkt álit, vel ígrundað og viturt álit?

SIGMUNDUR: Láttu mig sjá…

Hugsanabúbbla myndast yfir kollinum á Sigmundi. Hann sér fyrir sér andlit.

SIGMUNDUR: Jú, svo sannarlega, nú þegar ég velti því fyrir mér.

SÓKRATES: Gott og vel, Sigmundur minn. Við höfum þá vonandi létt af þér einhverjum áhyggjum með þessari samræðu okkar. En nú þarf ég að halda leiðar minnar - ég á stefnumót við Alkibíades á kránni. Við sjáumst fyrr en um síðir, tel ég - og hlakka til þess að eiga aftur við þig samræður.

SIGMUNDUR: Þakka þér, Sókrates, fyrir að aðstoða mig við að fæða nýjan skilning á heiminum! Ó, þú ljósmóðir heimspekinnar. Vertu margblessaður.

Sókrates spásserar út úr garðinum og útundan okkur heyrum við hann taka túrista tali - “Now, how do you REALLY like Iceland?”

JÓHANNES ÞÓR: Hæ Sigmundur… - við hvern ertu að tala?

SIGMUNDUR: *andvarpar* Engan, Jói minn. Engan.

Fuglasöngur ómar enn um Alþingisgarðinn. Sigmundur og Jóhannes ganga af stað inn til þings á ný. Sigmundur er með létta lund og góða samvisku. Jóhannes er hugsi yfir því hvernig hann getur fengið þessa undarlegu tattoo-listakonu sem málaði geðveikt ljóta “airbrush” mynd af Sigmundi til að láta sig í friði - án þess þó að hún sigi handrukkara vini sínum á Jóhannes.

~FIN~

 

Skynfæraspjöll, sannleikur og samfélag

Skynfæraspjöll, sannleikur og samfélag

STJÓRNMÁL 2: REVAMPED

STJÓRNMÁL 2: REVAMPED