Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Skynfæraspjöll, sannleikur og samfélag

Skynfæraspjöll, sannleikur og samfélag

Kæru lesendur — þessi færsla er nýjung á Sýsifos og ég áætla að fæstir muni hafa áhuga á að lesa hana í heild sinni. Þetta er heimspekileg umsögn um ritgerð eftir hinn þýska Friedrich Nietzsche og kann sem slík að vekja aðeins áhuga sumra. Í öllum föllum fannst mér svo skemmtilegt að skrifa hana og pæla í henni að mér fannst ég verða að sýna öðrum en kennaranum hvað ég skrifaði. Ég hef litlu breytt fyrir utan viðbót tveggja tilvitnana ofarlega í ritgerðinni. Fyrir áhugasama þá er upprunaleg ritgerð Nietzsche aðgengileg hér — hún er ekki nema 8 A4 blaðsíður að lengd og miðað við annað sem þjóðverjinn hefur skrifað er hún auðlesin og skemmtileg. Ég mæli því með því að lesa hana áður en þið lesið mína ritgerð. Ekki meira þras — hér er hún í heild sinni.

Ólgukennt hraun sannleikans

Í ritgerð sinni, „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi," fjallar þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche um möguleika manna á sannri og óspjallaðri þekkingu. Þekking er það sem við teljum okkur vita um veröldina, en hún getur kallast óspjölluð ef mögulegt er að komast hjá því að menga skynjunina með mannlegum skynfærum. Nietzsche telur manninn hafa „fundið upp á þekkingunni,[1]” og notfæri sér hana sem samfélagslegt tól:

[... ] Man wishes to exist socially and with the herd; therefore, he needs to make peace [...]. This peace treaty brings in its wake something [...] which shall count as “truth” from now on [...].

Þannig er sannleikurinn einskis nýtur sem markmið í sjálfu sér, og er aðeins góður þegar hann leiðir gott af sér:

The contrast between truth and lie arises here for the first time. The liar [...] makes something which is unreal appear to be real. [...] If he does this in a selfish and [...] harmful manner, society will cease to trust him and will thereby exclude him. What men avoid by excluding the liar is not so much being defrauded as it is being harmed by means of fraud. Thus [...] what they hate is basically not deception itself, but rather the unpleasant [...] consequences.

Þetta fannst mér vera sérlega áhugaverð kenning og minnti mjög á hugarferli Nietzsche í Sifjafræði siðferðisins þar sem skilgreining „hins góða" veltur á því hvaða hagsmunahópar það eru sem móta það að hverju sinni. Þekking okkar á umheiminum er alltaf byggð á hugtökum sem við búum til út frá skynfærum okkar, segir Nietzsche enn fremur — og þessi þekking verður aldrei óspjölluð, lýsandi veröldinni eins og hún er óháð skynfærunum.

Mismunandi túlkanir

Ritgerð Nietzsche má túlka á ýmsa vegu. T.a.m. mætti skilja hana á þann veg að sannleikurinn geti annað hvort verið afstæður eða algjör. Þannig mætti lesa hana sem svo að Nietzsche sé að segja að þekking sé með öllu ómöguleg vegna þess að skynfæri okkar, eins mismunandi milli manna og þau eru mörg, munu aldrei færa okkur óspjallaða mynd af raunveruleikanum. Það gæti leitt af sér að sannleikurinn sé afstæður, að skoðun eins sé alveg jafnsönn og skoðun annars.

Þá mætti á hinn bóginn lesa ritgerðina sem lýsingu á sannleikanum sem algjörum, þar eð hann er manngerður — líkur stærðfræði — og gengur upp sem lokað og fullmótað kerfi. Þannig er allt sem meirihluti okkar telur vera satt raunverulega satt vegna þess að við sjálf erum eini mælikvarðinn á sannleika.

Hin þriðja túlkun — túlkunin sem ég tek að mér að rökstyðja og verja í þessari ritgerð — tekur mið af báðum ofangreindum ályktunum og sameinar hana í eina staka hugmynd um sannleika sem er bæði á sama tíma skeikull og óbrigðull — eða með öðrum orðum, mannlegur. Ef við berum þessar þrjár mismunandi túlkanir saman getum við reynt að komast að sannfærandi niðurstöðu.

Afstæði sjónarhorna

Við fyrsta lestur er auðvelt að draga þá ályktun að Nietzsche telji sannleikann vera afstæðan. Hann styðst við hugmyndina um sjónarhorn og talar um mannlega þekkingu sem fagurfræðilega[2] fremur en hlutlæga. Eins og að ofan segir má túlka afstöðu hans sem svo að vegna sjónarhorna berist upplýsingar okkur aldrei óspjallaðar. Því verður sannleikurinn alltaf litaður mannleika og því óáreiðanlegur. Vissulega er það satt — skynfæri okkar eru nauðsynlegur milliliður heimsins og hugans og munu alltaf hafa mannlegan keim. En það er einmitt þess vegna sem ég tel það litlar sönnur fyrir afstæði sannleikans.

Ef við verðum að beita skynfærum til þess að öðlast upplýsingar um veröldina, og allar upplýsingar sem fást gegnum skynfæri verða litaðar mannleikanum, þá fæst það óhjákvæmilega út að eini heimurinn sem er á okkar færi að skynja sé mannlegi heimurinn, litaði heimurinn. Af þessu leiðir ekki að sannleikurinn sé afstæður, þvert á móti verður hann fremur algildur ef allt mannkyn neyðist til að sjá heiminn gegnum sameiginleg mannleg skynfæri. Þess vegna finnst mér sú túlkun að Nietzsche telji sannleikann afstæðan ótrúleg.

Algildi sannleikans

Önnur túlkunin sem minnst var á hér að ofan er sú að sannleikurinn sé ekki afstæður heldur þvert á móti sé hann lokað, manngert kerfi og sem slíkur óháður því hvort það séu til mismunandi sjónarhorn svo lengi sem nægilega margir sættast á að beita þessu kerfi milli sín og notfæra sér það sem sáttasemjara þegar fólki greinir á. Þessi túlkun gengur út frá þeirri fyrstu og er einna helst andsvar við henni. Hún fullyrðir að sannleikurinn, sem manngerður hlutur, sé hvorki rangur né réttur út frá neinu öðru en manngerðum stöðlum. Alheimurinn getur ekki verið mælikvarði á sannleikann vegna þess að sannleikurinn er mælikvarði á alheiminn.

Þó leynist villa í þessu viðhorfi að sama skapi og í þeim fyrri. Orsakasamband alheims og sannleiksins innan kerfisins er nefnilega ekki svo einsleitt að einn hluti verki á hinn en ekki öfugt — það ríkir gagnkvæmt samband milli þátta kerfisins. Sannleikurinn verður að hafa einhvern alheim til þess að mæla, rétt eins og alheimurinn hefur ekkert sannleiksgildi án sannleikans. Þess vegna tel ég að sannleikurinn sé ekki fullkomið og lokað kerfi.

Sannleikur sem kvika

Það er auðvelt að skilja Nietzsche á þann veg að sannleikurinn sé annaðhvort með öllu afstæður eða nánast stærðfræðilega algjör. Ég tel að margt sé til í báðum túlkunum, en þó séu þau bæði gallaðar lýsingar á ritgerðinni. Ég tel að það sem kemst næst því sem heimspekingurinn þýski heldur fram sé samtvinningur túlkananna tveggja. Þannig dregur Nietzsche fram sifjafræði- og markhyggjulega greiningu á sannleikanum fremur en fullyrðandi niðurstöður um afstæði eða algildi.

Svo ég styðjist við líkingu sem Nietzsche beitir sjálfur í ritgerð sinni þá er sannleikurinn líkur storknaðri kviku ímyndunarinnar[3] - huglægar upplifanir sem við eigum sameiginlegar í nógu fjölmennum geta umbreyst og orðið „hlutlægar”. Þær kólna, kristallast og mega þá heita sannleikur. Þannig má draga saman hinar fyrrnefndu túlkanir í eina og mynda úr þeim heildstæða hugsun þar sem sannleikur er bæði fljótandi og fastur, eining hins veraldlega og hins manngerða, hið hlutlæga myndað úr því huglæga og hið huglæga myndað af því hlutlæga.

Vafasöm niðurstaða

Það sem ritgerð Nietzsche leggur einna helst af mörkum finnst mér vera sú innsýn að skynsemin sé fátt annað en verkfæri mannsins. Með skynseminni dylur maðurinn sig, lýgur, dregur upp fjölbreyttar og margslungnar grímur. Maðurinn í þessum skilningi er líkastur jötungoðinu Loka Laufeyjarsyni - þeim slæga hrekkjalómi - fremur en Óðni alföður, guði viskunnar sjálfrar, sem fórnaði auga til að drekka úr Mímisbrunni.

Þó má slá hér varnagla — vegna þess að rétt eins og Loki Laufeyjarson var Nietzsche mikill málsnillingur og ber með sér talsverðan sannfæringarkraft. Ritgerð hans ber oft ummerki kappræðu fremur en rökræðu, t.a.m. þegar hann heldur því fram að öll hugtök verði til við samsömun þess sem ólíkt er, eins og Róbert H. Haraldsson hefur gagnrýnt í grein sinni „Efasemdir um gildi sannleikans fyrir sagnfræðina.”[4] Því ber okkur að taka ritgerð Nietzsche með nokkrum fyrirvara.

Þá er heldur ekki ómögulegt að hann hafi meðvitað skrifað hana með það í huga að gefa í skyn að sannleikurinn sé afstæður — þannig að lesöndin dragi þá ályktun að ritgerðin sjálf sé þversagnakennd í fullyrðingum sínum um að sannleikurinn sé afstæður. Þá er þó spurningin sú, hvort við munum nokkru sinni komast að sannleikanum í málinu.

 

 

 

[1] Friedrich Nietzsche, „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi". Þýð. Magnús Diðrik Baldursson og Sigríður Þorgeirsdóttir. Skírnir 167. ár (vor 1993): 15-33, bls. 15

[2] Nietzsche, bls. 23

[3] Nietzsche, bls. 23

[4] Róbert H. Haraldsson, „Efasemdir um gildi sannleikans fyrir sagnfræðina”. Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar 8. árgangur 2008 1. tölublað: Saga og sjálfsmyndir: 129-147, bls. 132

 

Værð

Værð

Síðustu dagar Sigmundar

Síðustu dagar Sigmundar