Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Veganismi, vélmenni og siðferði

Veganismi, vélmenni og siðferði

Dýraréttindasinnum hefur fjölgað hratt með nýrri þúsöld. Mikill vöxtur hefur verið á þeim þjóðfélagshópi sem kallar sig „vegan” og sífellt fleiri vilja sverja eið gegn dýraafurðum. Þessu er, að ég tel, helst heimildarmyndum að þakka - auk vitundarvakningarstarfs þeirra sem kenna sig við hreyfinguna. Vegan Ísland heitir hópur á Facebook þar sem umræður um stefnuna ganga á daginn út og inn, fólk gefur hvoru öðru ráð og veitir þeim hughreystingar sem á því þurfa að halda. 

Það er gott og blessað að samstíga fólk standi saman og breiði út sinn boðskap. Veganismi snýst ekki bara um mataræði heldur er stefnan hreinlega lífsspeki, leið til þess að horfa á veröldina og spegla sig í henni. Samkvæmt þessari lífsspeki eru menn alls ekki svo frábrugðnir dýrum. Okkur ber að gera okkar besta til þess að virða hagsmuni og þarfir dýra rétt eins og við myndum virða hagsmuni, þarfir og lífsrétt manns eða konu. 

Þó nokkrir vina minna aðhyllast veganisma. Þeir eru mistilbúnir að tala við mig um stefnuna, ræða hnökra hennar, smáatriði og vegferð, og ég virði það algjörlega - stundum er bara óþarfi að tala, stundum er það eina sem maður hefur áhuga á verknaður og aðgerðir. Mann langar ekki að tala um hvort hugmyndir manns séu réttar þegar manni líður eins og það sé verið að fremja skipulegt þjóðarmorð á lífverum sem eru ekki svo frábrugðnar manni sjálfum.

Þeir hafa sagt mér, að gagnslaust sé að ræða smáatriðin sem mér finnst helst til áhugaverð, þar eð verið er að myrða svín, kýr og lömb, ótal dýr á hverju einasta sekúndubroti um heim allan. Hið eina rétta í stöðunni sé að hætta neyslu dýraafurða og leggja það litla sem maður getur á þennan frjálslynda neytendaplóg sem okkur hefur verið kennt að við höfum stjórn yfir.

Nokkuð sem mér kemur oft til huga þegar kemur að þessum hugmyndum eru vélmenni. Vélmenni, eins og þau eru í dag, virka á okkur sem einfaldar vélar - ófærar um hugsanir og tilfinningar - algjörlega mekanísk. Ekki er ólíklegt að þetta muni breytast með tímanum. Auðvitað er ekki útilokað að meðvitund verði aldrei sköpuð af mannsins höndum, en miðað við framþróun kæmi mér það ekki á óvart að manninum tækist að skapa vélræna meðvitund. 

Þegar að því kemur að meðvitundin verði nægilega sjálfstæð til þess að huga þurfi að því að vinna réttindasáttmála fyrir vélar munu menn víðast hvar neyðast til að taka afstöðu sambærilega þeim sem neytendur taka í dag hvað varðar dýraafurðir. Eins og raunin er í dag verður maður annað hvort að hugsa um dýr sem meðvitaðar hagsmunalífverur sem okkur ber að virða og taka tillit til eða þú hugsar um þau sem meðvitundarlaust samansafn míkró-véla sem mynda eina stærri makróvél, ómeðvitaða um meðvitund sína.

Hlær Data því honum er skemmt, eða er hann forritaður til að bregðast svo við tiltekinni örvun?

Hlær Data því honum er skemmt, eða er hann forritaður til að bregðast svo við tiltekinni örvun?

Spurningin sem plagar marga hljóðar á þann veg, að áður en ákveða skyldi hvort okkur beri að sýna dýrum og gervigreindum tillit, verði að vita hvort dýr og gervigreindir geti raunverulega þjáðst eins og við mennirnir. Þetta er auðvitað erfiður aðskotahlutur vegna þess að ómögulegt er að skyggnast inn í huga dýra til þess að skilja tilfinningar þeirra. En í rauninni er þessi mótbára ekki gild, vegna þess að sama lögmál gildir um huga manna, en ekki spyrjum við okkur að því hvort þeir þjáist eður ei áður en við tökum ákvörðun um að spegla þá sem siðferðilega móttaka í gjörðum okkar.

Málið flækist svo auðvitað enn fremur þegar við spyrjum okkur að því, hvernig mynd gervigreindarmeðvitund myndi taka á sig. Ekki er hægt að kalla meðvitund gervigreindar „mannlega" eða bera hana saman við menn, vegna þess að mennsk greind og meðvitund er í skilgreiningargrunninn mannleg greind og meðvitund og ekkert annað. Vélagreind eða meðvitund mun aldrei vera eins og okkar meðvitund, sama hve hart við leggjum að okkur við að reyna að smíða slíka vél - svo ekki sé minnst á hve fáránlegt það er að búa til mannlega greind úr vél þegar það er hægt á mikið auðveldari hátt með því að eignast einfaldlega barn með einhverjum sem maður elskar.

Þetta kallar á að við endurskilgreinum hugtakið greind, með það í huga að fleiri meðvitundarverur en mannfólk geti fallið undir skilgreininguna. Við verðum að gera ráð fyrir því að greindir séu öðruvísi og verki á sérstakan hátt, hver og ein, eftir tegundum. Ekki er æskilegt að raða greindum upp í neina píramída - því slíkur hlutlægur skali verður aldrei réttur. Fremur ættum við að rannsaka greindir eins og við rannsökum lífverur - sem einstakar heildir, skilgreindar í eigin rétti - rétt eins og við skilgreinum og hugsum um mannlega greind.

Ekkert er svarthvítt þegar kemur að umræðunni um siðferði. Raunin er sú að siðferði er þessi undarlegi, huglægi, persónulega ópersónulegi stigull. Samfélagslegt gildisróf, sem er bæði bundið stöðlum og persónulegum gildum. Eins og það er erfitt að binda siðferði með þessari skilgreiningarvissu sem við reiðum okkur á í daglegum samskiptum, þá er jafn skemmtilegt fyrir hugmyndalega sinnaða heila að velta fyrir sér hverju eina og einasta blæbrigði í þessum litríka skala.

Ég held að ég láti vangaveltuna góða heita - í bili, í það minnsta. Veganismi hefur verið mér hugleikinn upp á síðkastið. Ég er að skrifa lengri ritgerð með heimspekilegri ívöfum sem ég birti ef til vill hér en þar til þá verður þessi stutta hugleiðing að nægja, þar til hin ritgerðin, sem er fremur byggð á einstökum skilgreiningaratriðum, verður birtingarhæf og yfirlesin af einhverjum með vit í kollinum.

STJÓRNMÁL 2: REVAMPED

STJÓRNMÁL 2: REVAMPED

Draumar og veruleiki

Draumar og veruleiki