Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Rökstólalýðræði, sannfæring og kjörskylda

Rökstólalýðræði, sannfæring og kjörskylda

Þessi pistill birtist fyrst í útvarpsþættinum Lestin þann 30. maí 2018. Hægt er að hlusta á upptöku af lestri höfundar hér að neðan. Myndin í haus heitir Prise de la Bastille eftir Jean-Pierre Houël frá árinu (1789).


Lýðræðið er óumdeilanlega hið ágætasta stjórnarfyrirkomulag sem maðurinn hefur smíðað sér til þessa. Það fylgja því gífurlegir kostir að standa jafnfætis frammi fyrir systrum okkar og bræðrum í lýðræðislegu ríki. Öllum er fært að láta skoðun sína ljósa í leynilegri kosningu um það hver fer með stjórnartaumana að hverju sinni, þar sem hvert atkvæði vegur jafnþungt og hvert annað. Það fegursta við lýðræðið er líklega það hvað þetta atkvæði sem hvert og eitt okkar býr yfir stendur fyrir.

Hvað er það þá sem þetta eina atkvæði þýðir? Það er ekki til marks um það hversu vel atkvæðishafanum hefur gengið í efnahagslífinu. Það er ekki heldur til marks um það hversu vel gefinn atkvæðishafinn er vitsmunalega. Ekki snýr það heldur að því hversu vinsæll atkvæðishafinn er á þeim tíma sem þau greiða atkvæðið, né heldur að líkamlegum styrk þeirra. Það sem atkvæðið táknar er sannfæring atkvæðisgreiðandans. Lýðræðið hampar sannfæringu hvers og eins kjósanda, litla ljósinu í kollinum á okkur sem við stólum á í hversdagslegu jafnt sem viðhafnarlegu gildismati okkar.

Í pistli dagsins, í ljósi liðinnar viku og síðustu helgi, þegar blásið var til sveitastjórnarkosninga, vil ég velta fyrir mér lýðræðinu eins og það birtist okkur í dag, þessari sannfæringu sem býr innra með okkur — og ég vil bera það saman við ákveðna hugmynd um lýðræðið, hugmynd um það sem lýðræðið gæti verið.

Snúum okkur þá rakleiðis aftur að þessu litla ljósi sem við komumst á snoðir um — sannfæringunni. Hvað merkir það að vera sannfærður um eitthvað? Það merkir jú að hafa skýra tilfinningu um sanngildi tiltekinnar hugmyndar um stöðu mála. Þegar ég er sannfærður um eitthvað, eins og að tunglið skíni á himninum, er ég samtímis sannfærður um tvennt: að setninginin „tunglið skín á himni“ hafi sanngildið satt, og að heimurinn sem setningin lýsir sé í samræmi við lýsingu setningarinnar. Nokkuð einfalt og skýrt hingað til, ekki satt?

En hvað ef þetta er eftir allt saman ekki tunglið? Hvað ef það sem ég er að horfa á er fljúgandi furðuhlutur, dulbúinn sem tunglið, jafnvel fljúgandi yfir því nákvæmlega þar sem ég hefði annars séð það skína á himni? Þetta er heldur ósennilegt. En þetta er ekki ómögulegt. Sannfæring mín, ljóstýran sem skiptir svo miklu máli fyrir lýðræðið, verður að taka mið af því hvað er mögulegt og hvað er ómögulegt — sannfæringin verður að eiga í stöðugu endurkvæmu mati á því hvað er raunverulegt eða virkilegt og hvað er það ekki.

Það er merkilegt að velta því fyrir sér hve fjölbreyttar sannfæringar finnast milli okkar einstaklinganna. Sum okkar eru sannfærð um að Guð almáttugur búi yfir óvéfengjanlegri tilvist, meðan önnur okkar eru alls ekki sannfærð um það — þvert á móti. Við eigum það líka til að fylkja okkur í hópa út frá sannfæringu okkar. Sannfæring er nefnilega einstaklingsbundin — en samtímis er henni einnig miðlað. Við reynum flest að miðla sannfæringu okkar gegnum einhverja hlutlæga aðferðafræði þekkingaröflunar — hvort sem er í gegnum vísindalega rannsókn eða með því að finna röksemdir fyrir því að sannfæring okkar eigi sér stoð í hlutlægum veruleika.

Það er helst þetta sem mér finnst gagnrýnisvert við birtingarmynd lýðræðisins sem við lifum við — það er hvernig pólitískum sannfæringum okkar er miðlað. Lýðræðissamfélagið byggir á þessum sannfæringum hvers og eins okkar — ég er sannfærður um að svona eigi að stjórna landinu, meðan þú ert kannski sannfærð um eitthvað annað — en það er að mínu mati ekki sérlega mikil áhersla lögð á það að þessum sannfæringum okkar sé nægilega vel miðlað. Við erum allflest alls ekki nægilega dugleg við að skíra sannfæringar okkar í eldi rökræðunnar — standa við þær, verja þær, útskýra þær, gagnrýna þær — og gera slíkt hið sama við sannfæringar annarra. Þetta dugleysi getur af sér kreddukennda flokkspólitík og slælega almenningsumræðu — almennan doða gagnvart stjórnmálum og arfaslappt þátttökuhlutfall.

Nú get ég ekki talað fyrir nokkurn annan en sjálfan mig — en fyrir mér virðist það nefnilega einmitt vera lykilþáttur í þessari sannfæringu sem við erum að velta hér fyrir okkur að þessari sannfæringu sé miðlað, að hún sé gagnrýnd, að hún sé ekki bara innantóm, persónuleg geðþóttaskoðun byggð á litlu öðru en frænderni eða vanafestu. Pólitísk sannfæring finnst mér vera vel ígrunduð sannfæring, byggð á röksemdum í takt og hljómfegurð við tilfinningar. Þess vegna finnst mér sem nauðsynlegt sé að miðla þessum sannfæringum til þess að lýðræðið blómstri og sé heilbrigt.

Á þessum tímapunkti pistilsins vil ég kynna hugmynd til leiks. Ég hef hana frá bandarísku stjórnmálafræðingunum Bruce Ackerman og James Fishkin, svo hún er ekki mín eigin — en hún er að mér finnst virkilega frískandi og virkar sem áminning um það hvað lýðræði, í hugmyndinni, gæti verið. Hugmyndin er sú að bundinn sé í stjórnarskrá lýðveldisins ákveðinn helgidagur, sem á ensku heitir „Deliberation Day“ en við gætum útlagt á íslensku sem „rökstóladagur“ eða eitthvað í þá áttina. Á þessum helga degi eru atkvæðisbærir þegnar lýðveldisins, valdir af handahófi, fengnir til að hittast á fundum og ræða sannfæringar sínar — veita þeim sínar eldskírnir. Þegnarnir fá svo greitt fyrir það að mæta á fundinn, að því gefnu að þeir fari svo og kjósi í kosningunum framundan, vonandi beitandi reynslu sinni af umræðum sínum við samborgara sína á rökstóladaginn við ákvörðunina.

Er ekki eitthvað heillandi við þessa hugmynd? Það er vel hægt að hugsa sér ýmis vandkvæði við það hvernig hún yrði útfærð í raunheiminum — hvernig myndi maður til að mynda tryggja að góðu og gildu þýði sem endurspeglar þjóðina í heild tiltölulega nákvæmlega sé boðið að taka þátt í rökstóladeginum að hverju sinni? Þrátt fyrir að hægt sé að hugsa sér þessi vandkvæði stendur hugmyndin frammi fyrir okkur sem vísbending um það sem lýðræðið ætti, í hugmyndinni, að leggja áherslu á: að skapa gagnrýnar og hlutlægt miðlaðar sannfæringar í hjörtum og hugum þegna sinna um hvað best er að gera í pólitíkinni að hverju sinni.

Við höfum jú umræðuþætti í sjónvarpinu, við lesum skoðanagreinar á netinu og í blöðunum, við spjöllum við nágranna okkar, vini og fjölskyldu um það sem best er að gera — en það sem vantar er erfið, krefjandi umræða um röksemdir og ástæður á landsvísu. Það væri ekki svo vitlaust að velta einhverju á við rökstóladeginum fyrir okkur þegar stjórnarskrárbreytingar koma til umræðu og endurskoðunar í framtíðinni.

Með þessa hugmynd í huga vil ég bera upp aðra hugsun við ykkur, kæru hlustendur. Hvað þýðir það eiginlega að kjósa í lýðræðislegum kosningum? Við höfum þegar komist að því að atkvæði standi fyrir sannfæringu — en sannfæringu um hvað? Sannfæringin hlýtur að vera um það hvaða málefni skipta mann máli og þaðan af leiðandi hvaða flokk mann langar að kjósa… en er sannfæringin ekki dýpri en svo? Erum við ekki sannfærð um það, til að mynda, að okkur finnist þess vert að taka þátt í kosningunum og að ljá einhverjum atkvæði okkar? Það er því hægt að segja að fyrir neðan sannfæringu um ákveðin málefni hvíli sannfæring um málsmeðferð sem slíka — sannfæring um gildi lýðræðisapparatusins. Þetta útskýrir þá kjósendur sem fara á kjörstað og skila auðu — það er til marks um sterka sannfæringu þeirra um gildi lýðræðisapparatusins en einnig til marks um skort þeirra á sannfæringu um hvaða flokkur sé ákjósanlegur.

Hvað þá um fólkið sem fer ekki að kjósa? Er það ekki sannfært um apparatus lýðræðisins? Er það bara latt? Finnst því það kannski ekki eiga erindi við atkvæðiskassann? Kannski má svara öllum þessum spurningum með því að segja „já“. Ég býst við því að hópur þeirra sem tekur ákvörðun um að fara ekki á kjörstað þegar blásið er til kosninga sé fjölbreyttur og innbyrðis mismunandi. Kannski einkennist meirihluti þeirra af pólitískum doða — skynbragðsleysi fyrir því hvað það er að vera lýðræðisþegn. Kannski er einhver hluti þeirra einfaldlega ekki sannfærður um það hvernig farið er að kosningum.

Það má leyfa áhugaverðri spurningu að spretta af þessum vangaveltum: hvaða ástæða fyrir því að mæta ekki á kjörstað er réttlætanleg? Að hvaða marki getum við þrýst á eða jafnvel neytt borgara til þess að fara og kjósa, þótt það sé ekki nema til að skila auðu? Sumar þjóðir hafa lögbundna kjörskyldu fyrir alla kjörgenga þegna sína — og þótt Norður-Kórea sé á listanum þá erum við ekki bara að tala um kommúnísk gerræðisríki þegar við tölum um kjörskyldu. Þvert á móti má telja Belgíu, Ástralíu, Lúxemborg, Lichtenstein og Brasilíu til þjóða sem framfylgja kjörskyldu. Þar sætir maður beinlínis refsingum fari maður ekki á kjörstað.

Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst það talsvert yfir strikið að neyða kjósendur til að fara að kjósa. Mér finnst sem atkvæðið sé réttur fremur en skylda — en enn fremur finnst mér lýðræðisandinn ríkari en svo að hægt sé að láta ríkisvaldið binda mann við ákveðið kosningafyrirkomulag og neyða mann til að taka þátt í því. Er það ekki í anda lýðræðisins að fá að lýsa því yfir að sannfæring manns um siðferðisgildi kosningafyrirkomulagsins sé lítið sem ekkert með því að fara ekki einu sinni og skila auðu? Hvað um þann sem, til að mynda, er sannfærður um að fyrirkomulagið eins og það leggur sig sé úrkynjað — svo dæmi um ástæðu sé nefnt, vegna þess að ekki er lögð áhersla á hlutlæga miðlun sannfæringar þegnanna gegnum rökstólaferli? Ætti að neyða slíkan atkvæðishafa til þess að fara og lýsa því yfir að hann sé sannfærður um kerfið en ekki um frambjóðendurna?

Ég er að minnsta kosti ekki sannfærður um það. Sannfæring mín gæti hins vegar breyst — ef ég hitti rökfastan karl eða konu á rökstóladegi. Gerum í því að reyna að miðla sannfæringu okkar, skíra hana í eldi — það styrkir hana og bætir, jafnvel þótt það þýði að það þurfi að klippa af dauðar greinar eða laufblöð frá meginstofninum. Höldum sannfæringu okkar heilbrigðri og gagnrýninni — hugsum út í hana!

Átök, ábyrgð og ávantanir: Jordan B. Peterson í Hörpu

Átök, ábyrgð og ávantanir: Jordan B. Peterson í Hörpu

Um merkingu, tilvísun, skilning og lýsingu

Um merkingu, tilvísun, skilning og lýsingu