Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um merkingu, tilvísun, skilning og lýsingu

Um merkingu, tilvísun, skilning og lýsingu

Inngangur

Ritgerðirnar „Über Sinn und Bedeutung“ og „On Denoting“ eftir Gottlob Frege og Bertrand Russell eru með frægari heimspekiritgerðum 20. aldar. Í ritgerðunum reyna hugsuðirnir hver fyrir sig að setja saman kenningu um tungumálið; nánar tiltekið hvernig við sköpum merkingu í tungumálinu eða ánöfnum hluti, ef svo mætti komast að orði. Ég hyggst fara stuttlega yfir kenningar þeirra, hvora fyrir sig, með hliðsjónar af meginmarkmiðum kenninganna — þ.e., hvaða vandamálum þeim var ætlað að svara. Að lokum geri ég svo grein fyrir gagnrýni heimspekingsins Peter F. Strawson á tilvísunarkenningu Russell eins og hún birtist í ritgerðinni „On Referring“.


1. Frege: „Skilningur og merking“ og tilvísunarvandinn

Byrjum á Frege. Ritgerð hans, „Sinn und Bedeutung“, hefur verið þýdd á íslensku sem „Skilningur og merking“ af Guðmundi Heiðari Frímannssyni, þar sem „skilningur“ er þýðing á „Sinn“ og „merking“ er þýðing á „Bedeutung“. Ég mun halda mig við þá þýðingu út ritgerðina. 

Ritgerð Frege um skilning og merkingu snýst fyrst og fremst um eðli jafngildissetninga — setninga sem taka á sig formið [a = b]. Að mati Frege sprettur jafngildi setninganna af venslum nafnanna eða táknanna sem við merkjum viðföng okkar með fremur en af venslum milli hluta. Þegar við leggjum tvö nöfn að jöfnu (sbr. setningin „Morgunstjarnan og Kvöldstjarnan eru sama stjarnan“) erum við, samkvæmt Frege, fyrst og fremst að tala um tengsl þessarra tveggja nafna að því leyti sem þau eru orð fremur en að því leyti sem þetta er hlutur sem hefur samsemdartengsl við sjálfan sig. Jafngildissetning lýsir því þá fyrst og fremst hvernig gefin orð „a“ og „b“, í krafti sameiginlegrar merkingar sinnar, hafa sama merkingargildi, þrátt fyrir að vera tvær mismunandi útgáfur af því hvernig merkingin er tjáð. Lýsandi innihald orða kallar Frege skilning þeirra, en það sem orðin vísa til (Venus í tilfelli Morgun- og Kvöld-„stjarnanna“) er merking þeirra. Skilningur orðanna getur þannig verið frábrugðinn hvor öðrum, þrátt fyrir að þau merki sama viðfangið. Þegar við segjum „Morgunstjarnan og Kvöldstjarnan eru sama stjarnan“ er setningin af formgerðinni [a = b] vegna þess að við leggjum tvö mismunandi orðtákn að jöfnu um það hvað þau eiga sameiginlegt í merkingu sinni. Það væri annað að segja eitthvað eins og „Venus er Venus“, sem væri af formgerðinni [a = a], sem er alls ekki upplýsandi og einfaldlega klifun. Fyrri formgerðin, [a = b], er því upplýsandi með tilliti til þess hvaða skilningur er látinn í ljósi, meðan seinni formgerðin, [a = a], er ekki upplýsandi nema á vitagagnslausan hátt. Dómarnir „Viðföngin a og a eru hin sömu“ og „Viðföngin a og b eru hin sömu“ eru því tvenns mismunandi eðlis.

Hvert var markmið Frege með kenningunni um skilning og merkingu? Að hans mati voru jafngildissetningar rökfræðilega vandkvæðasamar vegna þess að til eru rökleiðingar sem hætta að virka þegar maður skiptir út einu jafngildu nafni fyrir annað að öllu öðru innan rökleiðingarinnar óbreyttu: 

𝛂:

1. Sigurður trúir því að Jón Trausti hafi skrifað Heiðarbýlið.

2. Jón Trausti og Guðmundur Magnússon eru sami maðurinn.

3. Því trúir Sigurður því að Guðmundur Magnússon hafi skrifað Heiðarbýlið.

Rökleiðing 𝛂 er ekki gild vegna þess að niðurstöðuna (3) leiðir ekki nauðsynlega af forsendunum; kannski veit Sigurður ekki að Jón Trausti hafi verið rithöfundarnafn Guðmundar Magnússonar og býr þannig aðeins yfir vitneskju um að aðilinn „Jón Trausti“ hafi verið höfundur Heiðarbýlisins. (Ég hef þetta dæmi frá Ólafi Páli Jónssyni úr bókinni Fyrirlestrar um frumspeki en einnig er sambærilegt dæmi um Mark Twain og Samuel Clemens notað í Zalta, Edward N., "Gottlob Frege" á Stanford Encyclopedia of Philosophy). Jafnvel þótt um sé að ræða jafngild nöfn virkar því ekki að skipta út nafninu „Jón Trausti“ fyrir „Guðmundur Magnússon“ eins og mögulegt væri að gera í rökleiðingunni:

𝛃:

1. „200 + 200 = 400“.

2. „200“ er það sama og „100 + 100“.

3. „100 + 100 + 100 + 100 = 400“

Í rökleiðingu 𝛃 er fullkomlega gilt að skipta „200“ út fyrir „100 + 100“ vegna þess að ekki er um margræð orð að ræða og einstaklingsbundinn skilningur Sigurðar kemur ekki inn í jöfnuna. Þess vegna getum við notfært okkur jafngildið úr forsendu (2) til þess öðlast niðurstöðu (3). 

Tvískipting Frege gerir honum því kleift að skilja hvers vegna sumar jafngildisskiptingar eru ógildar: málfræðilegt jafngildi er ekki stranglega séð röklegt jafngildi vegna þess að skilningur er margbreytilegur fyrir hverja gefna merkingu. Látum þetta duga um Frege í bili — hugum nú að hugmyndum Bertrand Russell.


2. Russell: gagnrýnin á Frege og lýsingakenningin

Ritgerð Russell, „On Denoting“ er þýdd sem „Um tilvísun“ af Ólafi Páli Jónssyni. Markmið ritgerðarinnar er að smíða nýja kenningu um tilvísanir sem lendir ekki í ógöngum eins og hann telur kenningu Frege gera. Snertum stuttlega á mótbárum Russell við Frege áður en við könnum tilvísunarkenningu hans.

Gagnrýni Russell á kenningu Frege er tvíbent: í fyrsta lagi gagnrýnir hann það að þegar vísað sé til einhvers sem hafi enga merkingu (t.d. konungur Frakklands), eigi kenning Frege erfitt með að færa okkur greinargóðar skýringar. Lausn Frege er að láta merkingu lýsingarinnar „konungur Frakklands“ vera tómamengið, en þetta telur Russell tilbúning og ekki greiningu á vandanum. Í öðru lagi, hins vegar, eru athugasemdir hans talsvert róttækari — hann telur greinarmun Frege vera allsendis gagnslausan. Samband skilnings og merkingar er samkvæmt Russell óleysanlegt og þegar allt kemur til alls þá hafi kenningin það í för með sér að merking orðsins ein skipti máli. Auk sjálfrar ritgerðar Russell styðst ég hér við umfjöllun John R. Searle; „Russell's Objections to Frege's Theory of Sense and Reference“.

Röksemdir Russell eru (eins best ég fæ skilið) eftirfarandi:

 1. Gefum okkur orðasamband, C. Skilningur þess er „C,“ en merking þess er það sem vísað er til með skilningnum „C“.
 2. Til eru (óendanlega mörg hugsanleg og endurkvæm) mismunandi stig notkunar:
  1. C  merkir orðasambandið.
  2. „C“ er skilningur C í „C merkir orðasambandið“.
  3. Y er skilningur „C“ sem er skilningur C í „C merkir orðasambandið“.
  4. „Y“ er … O.s.frv.
 3. Ef við notum C í jafngildisdómi, t.d. „C = A,“ þá erum við að fella dóm um það sem er merkt með orðasambandinu C. Við fellum ekki dóm um innihald skilningsins „C,“ né heldur um innihald skilningsins Y eða nokkurs annars skilnings. „„C“ = A“ væri alls ekki dómur um C.
 4. Tilgangur skiptingarinnar í skilning og merkingu var skýring samsemdardóma um hlut með eina merkingu en margræðan skilning með tilvísan í mismun tveggja skilninga merkjandi hlutinn.
 5. Samkvæmt (3) hefur dómur um eiginleika C alls ekkert með skilning okkar á C (þ.e. skilninginn„C“) að gera heldur alltaf aðeins með það sem er merkt með C.
 6. Samkvæmt (4) og (5) veitir tvískipting skilnings og merkingar því enga þekkingu á upplýsingagildi jafngildissetninga sem velta á mismunandi skilningi.

Við látum það liggja milli hluta hvort gagnrýnin hafi átt rétt á sér — hvort hún hafi átt við réttmætan lestur á Frege að styðjast — en með gagnrýnina í huga verður okkur auðséð hvaða kosti Russell taldi sig sjá í lýsingakenningu sinni fram yfir það sem kalla mætti tilvísunarkenningu Frege: málfræðilegar lýsingar krefjast ekki þeirrar forsendu að til sé eitthvað röklega nauðsynlegt eða óljóst samband merkingar og skilnings, samband sem Frege tókst ekki að sýna fram á hvernig virkaði að mati Russell. Látum þetta duga um gagnrýni Russell á kenningu Frege og snúum okkur þá að tæknilegum strúktúr lýsingakenningarinnar.

Lýsingakenning Russell skiptist í þrennt: 

 1. Ákveðnar lýsingar
 2. Tómar lýsingar
 3. Óákveðnar lýsingar

Ákveðnar lýsingar eru tilvísunarliðir (lýsandi orðasambönd) sem tiltaka eitt einstakt fyrirbæri í heiminum. Þær fylgja almenna forminu ∃x ((Fx ∧ ∀y (Fyx = y) ∧ Gx): Til er x sem er þannig að x hefur eiginleikann F og fyrir öll y gildir að ef þau hafa eiginleikann F eru þau jafngild x og x hefur eiginleikann G. Enn einfaldar má útleggja þetta sem svo að til sé eitthvað sem hefur ákveðinn einstakan eiginleika sem enginn annar hlutur í veröldinni býr yfir, og að þetta eitthvað hafi einhvern annan eiginleika. Setningin „Konungur Svíþjóðar er gráhærður“ þýðist þá inn í lýsingakenningu Russell á eftirfarandi máta: „Til er x sem er þannig að það er konungur Svíþjóðar, og fyrir öll y gildir að ef y er konungur Svíþjóðar þá er x það sama og y, og x er gráhært.“

Tómar lýsingar eru í reynd ekki af öðruvísi formi en ákveðnar lýsingar, en munurinn er sá að innantómar lýsingar á við „Íslandskonungur“ (til er eitt og aðeins eitt x sem er þannig að það er konungur Íslands… etc) eru einfaldlega ósannar. Tilvistarstaðhæfingin sem felst í lýsingu annaðhvort á annað hvort við eitthvað viðfang í umheiminum eða ekki — það er óþarfi (eins og í kenningu Frege) að vísa í eitthvert dularfullt tómamengi.

Óákveðnu lýsingarnar eru einfaldari. Þær taka á sig formið ∃x (Ax ∧ Bx): Til er x sem er þannig að það er A og það er B. „Til er bústið svín.“ Þetta tilgreinir tilvist án þess að ákveða nákvæmlega hvar tilvistin er staðsett í hlutstæðum veruleika.

Lýsingakenning Russell hefur einhverja kosti fram yfir merkingarkenningu Frege. Til að mynda höndlar hún tómar lýsingar nokkuð betur. Þess að auki er talsvert snyrtilegra að hugsa sér röklegar eindir lýsingarinnar (breytan x, tilvistarfeldirinn, alfeldirinn, föllin) sem brotakennd tákn sem hafa enga „merkingu“ í sjálfum sér heldur geta komið saman til þess að lýsa einhverju í heiminum á fullnægjandi hátt til þess að miðla nægilega upplýsandi setningu sem varðar það sem lýst er. Þessi endurhugsun á setningarbyggingunni hefur það í för með sér að tilvísun (í þeim skilningi að orð „merki“ hluti) víkur í stað lýsingar.

 Látum þetta nú duga fyrir yfirlit okkar um lýsingakenningu Russell. Snúum okkur því næst að gagnrýni P. F. Strawson, heimspekingsins breska, á lýsingakenningu Russell.


3. Peter F. Strawson: gagnrýnin á Russell

Að lokum skoðum við ritgerð Peter F. Strawson, „On Referring“. Þegar Strawson gagnrýndi lýsingakenningu Russell var hún orðin svo gott sem rétttrúnaður, og eins og hann segir í ritgerðinni telur hann sig geta sýnt fram á grundvallarmistök í kenningunni.

Meginpunktur Strawson er að lýsingarkenning Russell, kenning sem greinir setningar niður í tilvistarstaðhæfingu um einn og aðeins einn stakan hlut sem hafandi ákveðinn eiginleika, fangi einfaldlega ekki almenna málnotkun. Hann notast við frægt dæmi Russell um konung Frakklands — og segir að „konungur Frakklands er sköllóttur“ eigi sér mismunandi merkingar eftir því hvenær það er notað, hver notar það, og hvernig það er notað.

Merking setningar, segir Strawson, hefur ekkert með það að gera að tiltekinn málnotandi notist við setninguna til þess að lýsa staðhæfingu um tilvist viðfangs setningarinnar, heldur felst merking setningarinnar í því hvaða málvenjur, reglur og hefðir stýra og viðhalda notkun setningarinnar á hverju notkunartilfelli fyrir sig.

Merking setningarinnar „konungur Frakklands er sköllóttur“ er því ekki einfaldlega engin, eins og Russell myndi halda fram — ef einhver héldi slíku fram við mann myndi maður ekki einfaldlega svara því með „þú hefur rangt fyrir þér,“ heldur myndi maður fremur svara með einhverju á við „Mér virðist þú misskilja. Frakkland er ekki konungsríki. Það er enginn konungur Frakklands.“ Merking setningarinnar „konungur Frakklands er sköllóttur“ í þessu tilfelli væri ekki „ósatt“ heldur væri setningin merkingarbær að því leytinu til sem hún lýsir yfir trú einstaklingsins sem notaði hana við aðstæðurnar sem hún var notuð.

Þegar einhver notast við þessa tilteknu setningu um konung Frakklands eru þau í reynd hvorki að segja satt né ósatt — okkur mistekst að vísa til nokkurs viðfangs í málnotkun okkar.

Þegar allt kemur til alls snýst gagnrýni Strawson ekki um það að neita lýsingarkenningunni algjörlega. Fremur snýst hún um að benda á það að ómögulegt sé að binda málnotkun og merkingu kyrfilega niður í steinsteypt rökform, bundið tilvistarfeldum og efnisleiðingum. Þannig kallast hugmyndir hans á við það sem Ludwig Wittgenstein skrifaði — og réttilega, að mínu mati — um rök- og málspekinga nokkrum árum áður en ritgerð Strawson var gefin út:

It is interesting to compare the multiplicity of the tools in language and of the ways they are used, the multiplicity of kinds of word and sentence, with what logicians have said about the structure of language. (Including the author of the Tractatus Logico-Philosophicus.)
— Wittgenstein, Philosophical Investigations. Bls. 128.
Rökstólalýðræði, sannfæring og kjörskylda

Rökstólalýðræði, sannfæring og kjörskylda

Fáfarinn vegur Parmenídesar

Fáfarinn vegur Parmenídesar