Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Átök, ábyrgð og ávantanir: Jordan B. Peterson í Hörpu

Átök, ábyrgð og ávantanir: Jordan B. Peterson í Hörpu

Þessi pistill var fluttur í útvarpsþættinum Lestin þann 7. júní 2018. Hann fjallar um fyrirlestur kanadíska sálfræðingsins Jordan B. Peterson sem haldinn var í Hörpu þann 5. júní 2018. Undirritaður fékk að fara á fyrirlesturinn á vegum skipuleggjenda, og er þakklátur fyrir það tækifæri. Að neðan má heyra hljóðupptöku af lestri höfundar. Málverkið í haus heitir Komposition 8 og er eftir Vasily Kandinsky frá árinu 1923.


Frægðarsól kanadíska sálfræðingsins Dr. Jordan Bernt Peterson hefur risið jafnt og þétt síðustu tvö árin eða svo. Peterson er fimmtíu-og-fimm ára gamall og hefur lengi starfað sem háskólaprófessor við Toronto-háskóla í Kanada. Hann öðlaðist heimsfrægð, í fyrstu hægt og rólega — en núna fer orðspor hans vaxandi sífellt hraðar. Þessa dagana er hann eftirsóttur viðmælandi fjölmiðlafólks. Hann er fenginn til að láta í ljós skoðanir sínar á hverju sem er milli himins og jarðar. Viðtalana á milli heldur hann fyrirlestra fyrir mannmergðir um það hvernig gott sé að lifa lífinu, og þá í samræmi við reglurnar hans tólf, um hverjar hann hefur skrifað metsölusjálfshjálparbók með sama titli: Tólf lífsreglur, mótefni við glundroða

Peterson-manían hefur gripið um sig hér jafnt sem annars staðar, og eins og ljóst er af titlinum hefur þessi nýja bók hans þegar verið þýdd á íslensku. Tilefni þessarar umfjöllunar er þó ekki íslensk þýðing verksins sem um ræðir heldur fyrirlestrarnir sem höfundurinn hefur haldið í tvígang í Silfurbergi Hörpunnar í vikunni sem leið. Okkur í Lestinni var boðið að koma og hlýða á Peterson og það gerðum við síðastliðinn þriðjudag, 5. júní. Það var þá seinni fyrirlestur sálfræðingsins — og mér skilst að einhver munur hafi verið á efnistaki og umræðuefni hans milli daga. Þessi pistill fjallar því aðeins um þennan seinni fyrirlestur og innihald hans.

Fyrirlestur Peterson var, eins og áður segir, haldinn í Hörpunni — og þegar ég kom þangað rétt áður en viðburðurinn hófst átti ég erfitt með að finna sæti í fyrstu. Krökkt var í salnum — áheyrendur Peterson voru um 850 talsins hvert kvöldið fyrir sig, eða um 1700 í heildina. Mér virtust áheyrendur vera að meirihluta karlkyns — og þar af voru fleiri karlmenn ungir en aldnir. Þrátt fyrir að hægt sé að tala um að karlmenn hafi verið í skýrum meirihluta á samkomunni voru talsvert fleiri konur en ég hafði persónulega búist við að sjá — vegna þess hve karlmiðaður hann á það til að vera, án þess að ég meini það þó á neinn sérstaklega gagnrýninn hátt. Innan skamms fann ég mér þó sæti og kom mér fyrir. 

Ekki leið á löngu þar til Gunnlaugur Jónsson, einn þeirra sem stóðu að viðburðinum og að því að mér skilst var sá sem flaug það upprunalega í hug að flytja Peterson til Íslands, steig á svið og talaði stuttlega um málavöxtu viðburðarins. Gunnlaugur hófst svo handa við að kynna Peterson til leiks. Í stað þess að segja frá því hver hann væri sagði kynnirinn fremur frá því hvað hann væri ekki — og notaði til þess lista af uppnefnum sem Peterson hefur hlotið frá blaðamönnum og öðru fjölmiðlafólki gegnum tíðina. Hann er ekki verndari feðraveldisins, hann er ekki nasisti, hann er ekki hitt-hægrið, hann er ekki hitt og hann er ekki þetta — fullyrti kynnirinn. Ekki er hann heldur gáfumenni heimska fólksins, sem segir raunar lítið um hann sjálfan og meira um ykkur, sagði Gunnlaugur enn fremur, vísandi með handahreyfingu út í salinn. Uppskar þetta talsverðan hlátur.

Að inngangi Gunnlaugs loknum fengu áhorfendurnir svo það sem þeir höfðu beðið eftir og greitt talsvert fyrir að fá að sjá — Peterson steig á svið. Hann var snyrtilega klæddur og bar sig með rólyndi og sjálfsöryggi. Hann þakkaði áheyrendunum fyrir að koma og hugsa um erfiða og mikilvæga hluti með sér þessa kvöldstundina — sem mér fannst fallega og vel orðað, því málefnin sem rædd voru áttu það einmitt til að vera erfið jafnt sem mikilvæg. Peterson hóf mál sitt á því að kynna sig jákvætt, fremur en neikvætt, eins og Gunnlaugur hafði gert þegar hann lýsti því hvað Peterson væri ekki

Hann talaði um það hvernig hann komst í tæri við heimsbókmenntirnar þrettán ára gamall — og taldi þar til Ayn Rand, Aldous Huxley og George Orwell. Í skóla lærði hann svo sögu og kynntist hroðaverkum nasista í Auschwitz, um hver hann skrifaði ritgerð. Hann sagði að þessir sögulegu atburðir og forsendur þeirra hefðu svo setið í sér svo gott sem það sem eftir var og allt til þessa dags — að hans helsta hugðarefni væri að reyna að komast að því hvernig mögulegt væri að hópar á við Þýskaland nasismans eða Sovétríkin gætu verið svo helteknir af morðóðri hugmyndafræði sem raun bar vitni.

Engin slík voðaverk áttu sér stað innan Bandaríkjanna, í Kanada, í Noregi, eða á Íslandi fyrir það — hver var þá munurinn á þessum ríkjum, þessum þjóðum? Munurinn var ekki bara efnahagsskipulagslegur, í takt við það hvort kommúnismi eða kapítalismi var við lýði, segir Peterson — heldur er hann hugmyndafræðilegur: í nasismanum, sem hann taldi til öfga hægrisins, jafnt sem í kommúnismanum eru einstaklingarnir látnir lúta í lægra haldi fyrir heildinni. Það er þeirra meginmein og ástæða alls þess illa sem svo skeði innan þessarra ríkja. Til þess að gera grein fyrir þessum mun skilgreindi Peterson annars vegar einstaklingshyggju og svo félagshyggju, eða á ensku „individualism“ og „collectivism“.

Einstaklingshyggjan grundvallast þá á því að bera ábyrgð á eigin lífi og athöfnum, segir Peterson, og gerir mikið úr þessu hugtaki um einstaklingsábyrgð — meðan félagshyggjuna skortir þessa áherslu á ábyrgðina og einkennist þess vegna af ábyrgðarleysi. Að þessum skilgreiningum gefnum byrjaði Peterson að draga upp hliðstæðu milli tveggja lífsviðhorfa: í fyrsta lagi getur maður verið einstaklingshyggjusinni eins og hann, og tekið á sig hina ægilegu byrði sem er ábyrgð á eigin athöfnum og lífi — og í öðru lagi getur maður verið eins og póstmódernistarnir eða nýmarxistarnir, vinstrið gróflega skilgreint, sem tekur ekki ábyrgð á sjálfu sér, heldur kennir ávallt kúgandi stofnunum vestræns feðraveldis eða kapítalisma um ófarir sínar. 

Skömmu eftir þetta hóf hann umræðu um tjáningarfrelsið. Hann vakti einmitt einna fyrst athygli á sér á heimsvísu eftir að hafa fært rök gegn því að fest yrði í kanadískan mannréttindalagabálk þau lög að einstaklingar yrðu varðir gegn mismunun og hatursglæpum á grundvelli kynvitundar. Peterson taldi þessa breytingu vera brot á tjáningarfrelsinu — og raunar að um væri að ræða knýjandi mál eða tal — á þeim forsendum að mönnum væri þá ekki lengur frjálst að nota hefðbundin persónufornöfn á við „hann“ eða „hún“ um fólk sem ekki samsamaði sig slíkum fornöfnum. Í þessu samhengi ræddi hann um það að tjáningarfrelsið væri með öllu ósnertanlegt — sama hvaða ástæður maður hefði fyrir að vilja krukka í því — maður gerði það bara ekki! Þetta fannst mér lítt sannfærandi röksemdafærsla. Hvað þá um hluti eins og rógburð og hatursorðræðu, tjáningu sem getur beinlínis skaðað raunverulega einstaklinga? Er ekki nauðsynlegt að takmarka tjáningarfrelsið upp að einhverju skynsamlegu marki?

Hann snerti svo stuttlega á þeirri hugmynd, sem mér fannst virkilega áhugaverð og gat sammælst honum um, að rökræður væru mikilvægar, að í þeim fælist bardagi án bardaga, bardagi hugmyndanna eða orðanna, og að það sem við hefðum fram yfir flestar ef ekki allar dýrategundir væri hæfileikinn til þess að geta hermt ákveðnar rökleiðingar í hugum okkar — þar með flýtandi fyrir þróun gegnum náttúruval. Út frá þessu talaði hann svo um það að fáránlegt væri að hægt væri að krefjast þess að loka á rökræðu sökum þess að einhver móðgaðist eða gæti átt í hættu á að móðgast, vegna þess að slík takmörkun á tjáningarfrelsinu gerði okkur ókleift að tala um mikilvæga hluti.

Að þessum bollaleggingum loknum sneri Peterson sér að því að greina Disney-teiknimyndina Konungur ljónanna táknfræðilega. Ljónið táknar konunginn, og illi bróðir konungsins steypir honum af stóli, sem táknar hættuna sem steðjar ávallt að traustum valdastigum, sólin táknar þekkingu okkar eða regluna, meðan myrkrið táknar glundroðann eða hið óþekkta. Ég ætla ekki að þylja upp alla greiningu hans, en hún var um það bil öll á þessa leið. Að lokum spurði Peterson svo að því, hvað þetta ætti allt að merkja. Var þetta ekki bara teiknimynd? Skáldskapur? Abstraksjóna? Jú, segir hann — en stundum eru þessar abstraksjónur sannari en sannleikurinn sjálfur, raunverulegri en raunveruleikinn sjálfur. Hann klykkti svo loks út á því að ferill söguhetjunnar í Konungi ljónanna væri hinn rétti ferill, hin rétta breytni, það sem maður ætti að gera: að gangast undir hina ægilegu ábyrgð sem fylgir því að vera einstaklingur — og fleira háfleygt í þeim dúr.

Að fyrirlestrinum loknum tók Peterson svo við spurningum úr salnum. Hverjum sem er var kleift að senda inn spurningu til sálfræðingsins úr spurningarkerfi í snjallsíma. Þannig svaraði hann sex spurningum sem allar voru handvaldar af kynninum, Gunnlaugi, sem sat hjá honum og las þær upp. Þær sneru meðal annars að málefnum eins og borgaralaunum, greinum sem hafa verið skrifaðar um hann, kjarnorkuvopnum, kynlífsskorti ungra karlmanna og ofbeldi sem á að hljótast þaðan af, marxisma og að lokum um það hvernig honum líkaði Ísland. Að spurningunum loknum settist hann svo fram á gang til þess að árita eintök áheyrendanna af bókinni sinni. Viðburðinum, sem margir höfðu verið svo spenntir fyrir, var nú lokið. Ég rölti hugsi úr Hörpunni og lagði mat á það sem ég hafði heyrt þetta áhugaverða kvöld.

Mörgu er vert að velta fyrir sér varðandi það sem Peterson hélt fram. Nokkuð sem sat í mér var hvernig Peterson minntist stuttlega á það, um það leyti sem hann var að tala um ábyrgð, einstaklingshyggju og félagshyggju, að bókin sem fyrirlesturinn snerist um, Tólf lífsreglur, væri í raun ekki pólitískt verk. Það virðist mér vera augljóslega og ótvírætt ósatt. Fyrirlesturinn sjálfur var virkilega pólitískt hlaðinn — hann hélt því til að mynda fram að tjáningarfrelsið væri handan gagnrýni og handan íhlutunar, sama hvaða ástæður maður hefði fyrir því — síðar meir leiddi hann þá niðurstöðu af greiningu sinni á Konungi ljónanna að einstaklingnum bæri skylda til þess að hrista af sér slen tómhyggjunnar og ganga til verks við að lagfæra og viðhalda hinum hefðbundnu samfélagslegu formgerðum sem sæta árásum spillingar — og enn fremur hélt hann því fram að ójöfnuður væri grundvallarlögmál veruleikans sjálfs. Þræðir verksins sjálfs, sem fyrirlesturinn byggir svo á, eru svo pólitískir á sinn eigin hátt, en okkur gefst ekki mikið ráðrými til að fara út í það hér og nú. 

Punkturinn minn hér er sá að allar þessar afstöður eru rammpólitískar. Það að neita því að mögulegt sé að gagnrýna tjáningarfrelsið virðist mér til að mynda vera undarleg neitandi játun á tjáningarfrelsinu — hvort er það handan rökræðu eður ei? Hið sama gildir um skylduna til þess að varðveita hefðbundnar samfélagsformgerðir — dugir það eitt að þær séu hefðbundnar til þess að okkur beri skylda til þess að varðveita þær? Hví ekki að leyfa þeim einfaldlega að deyja ef okkur finnst þær ekkert framkalla nema þjáningu? Og enn fremur — er það ekki einhver hápunktur pólitískrar hugmyndafræði að halda því fram að ójöfnuður sé ekki aðeins fyrirbæri sem fyrirfinnst hér eða þar, heldur hvorki meira né minna en grundvallarlögmál veruleikans sjálfs? Mér finnst þetta vera pólitískar afstöður — en ætli það megi ekki deila um það.

Nokkuð sem mér fannst sláandi við fyrirlesturinn var hve glatt Peterson fór oft með staðhæfingar sínar. Eitt sinnið fullyrti hann til að mynda að akademísk kynjafræði héldi því fram við karlmenn að hvað sem þeir gerðu séu þeir að varðveita feðraveldið — og að heimild hans fyrir þessu væri sú að hann hefði jú talað við margt fólk og sé einhver ósammála þessu hafi þau bersýnilega ekki talað við margt fólk, eins og hann. Hvernig svarar maður svona röksemdafærslu? Heitir þetta ekki á góðu og gagnrýnu máli að beita persónulegri frásögn sem sönnunargagni?

Upp undir lok viðburðarins tók hann svo við spurningu úr áheyrendahópnum um það hvort marxismi ætti nokkuð erindi við umheiminn — og svaraði þeirri spurningu fremur ófagmannlega, að mínu mati — fullyrðandi um Karl Marx að meginmarkmið hans hafi verið útrýming ójöfnuðar, eins og hann hefði verið sósíaldemókratískur jafnaðarmaður sem gerir endurdreifingu gæða að markmiði sínu fremur en kommúnisti sem vill gerbylta framleiðsluháttum samfélagsins í heild sinni. Peterson hefði gott af því að lesa Athugasemdir við stefnuskrá þýzka verkamannaflokksins, texta frá árinu 1875, þar sem Marx talar um að „réttileg skipting vinnuafrakstursins“ sé burgeisahugtak, og að undir kommúnismanum bæri hinn einstaki framleiðandi nákvæmlega það úr býtum, sem hann hefði lagt af mörkum. Jöfnuðurinn, sem Marx talar um, er því fólginn í því að verðskuldun sé mæld á jöfnum mælikvarða, þeirri vinnu sem hefur verið unnin. Mér virðist sem Peterson hafi að líkindum ekki lesið meira af Marx en ef til vill Kommúnistaávarpið, sé þetta raunverulega skoðun hans. Maður þarf ekki einu sinni að vera neinn kommúnisti til að skilja að þessi túlkun Peterson sé fullkomlega röng.

Sambærilega staðlausa stafi má finna í bók hans um Lífsreglurnar tólf. Þar fullyrðir hann ýmislegt um heimspekinginn franska Jacques Derrida, án þess að svo mikið sem vísa í eitt einasta rit heimspekingsins sér til stuðnings (sjá kafla 11). Í staðinn hefur hann sér til heimildar bókina Explaining Postmodernism eftir heimspekinginn Stephen H. Hicks — bók sem fer með það sem er að mínu mati skelfilega röksemdafærslu um að póstmódernismi sé afstæðishyggja, þegar allt komi til alls, og að póstmódernismi sé eins konar hugmyndafræðileg dula sem vinstrið tók upp eftir fall Sovétríkjanna — en umfjöllun um þá bók eina tæki talsvert meira pláss en ég hef hér. Nú er ég heimspekinemi, og í námi mínu skrifa ég ótal ritgerðir um hugsun ýmissa heimspekinga — og ég get sagt ykkur, kæru hlustendur, að ég kæmist aldrei upp með að fullyrða um heimspekinga á þann veg sem Peterson gerir án þess að vísa til texta þeirra. Það stæðist einfaldlega ekki fræðilegar gæðakröfur. Það væri engin leið fyrir þann sem læsi gagnrýni mína til þess að sannreyna staðhæfingar mínar. Það væru engar sönnur fyrir því að ég væri að glíma við raunverulegar hugmyndir þeirra. Ég væri í reynd ekki að taka mikla ábyrgð á því sem ég segði.

Nú er tími til kominn að hnýta endi á þessa umfjöllun. Það var óneitanlega virkilega áhugavert að fá tækifæri til þess að horfa á þennan snyrtilega og vel talandi mann deila hugmyndum sínum. Mér fannst umfjöllunin örlítið langdregin og leiðigjörn þegar hann talaði um Konung ljónanna — en það var helst vegna þess hve langan tíma það tók hann, og mér fannst ég ekki fá neitt nýtt úr því að hugsa táknfræðilega um Disney-teiknimynd. Ég gat í það minnsta ekki fallist á það án nokkurra frekari röksemda að ég ætti að draga einhvern frumsiðferðilegan lærdóm af kvikmyndinni. Einnig fannst mér spurningarnar sem valdar voru frá áheyrendum fremur bitlausar og leiðinlegar — en auðvitað er það aðeins mitt eigið huglæga mat. Verandi heimspekingur sjálfur vildi ég gjarnan sjá Peterson takast betur á við afstöður heimspekinganna sem hann minnist á í bók sinni og í fyrirlestrinum og ég hafði vonast til þess að fá tækifæri til að spyrja hann út í þetta í spurningatímanum eftir fyrirlesturinn sjálfan. 

Margt væri hægt að skrifa til viðbótar um Jordan Peterson — margt hefur verið skrifað um hann — og margt verður eflaust skrifað um hann héðan í frá. Ég er ánægður með að vitsmunamaður sem Peterson hljóti svo sterkan hljómgrunn sem raun ber vitni — en ég vona einnig að hann fari að bæta vinnubrögð sín þegar hann lýsir áfellisdómum yfir aðra hugsuði.

Þrá-hyggja sálgreiningarinnar: Freud, Lacan og Deleuze & Guattari

Þrá-hyggja sálgreiningarinnar: Freud, Lacan og Deleuze & Guattari

Rökstólalýðræði, sannfæring og kjörskylda

Rökstólalýðræði, sannfæring og kjörskylda