Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Þrá-hyggja og uppruni rökrænunnar

Þrá-hyggja og uppruni rökrænunnar

Ég hef verið að smíða hugtak nýverið. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi hefur ákveðin hugmynd heillað mig mjög lengi: að í manneskju búi einhver vilji. Í öðru lagi hef ég hellt mér inn í lestur á textum um Zen-búddisma upp á síðkastið samhliða hugleiðslu. Í þriðja lagi hef ég verið að lesa mikið af heimspeki frá 19. og 20. öld — Hegel, Nietzsche, Marx, Freud, Lacan, Deleuze & Guattari o.fl. — en allir þessir ólíku hugsuðir eiga sameiginlegan rauðan þráð í hugmyndum sínum um viljann.

Það sem heillar mig svo í öllum þessum ólíku þáttum er nokkuð sem við gefum okkur að sé frekar einfalt, nokkuð sem við gefum okkur sem öruggu á hér um bil hverjum degi: fýsnir okkar, girndir og drifkrafturinn innra. Mér finnst þetta hugtak svo áhugavert vegna þess að ég skil það svo illa — mér finnst eins og það sé ótal margt við það sem ég hef ekki náð neinum raunverulegum skilningi á eins og stendur. Mér finnst ég þó aftur á móti geta skilið nóg til þess að geta byrjað smíðina — maður þarf jú ekki meira en nokkrar fjalir, nagla og hamar til þess að geta hafist handa. Mig langar að deila hérna þessum mínu fyrstu rissum að hugtakinu.

Ég kenni hugtakið við „þrá-hyggju“ — endursögn á gömlu orði sem þýðir helst til „röng hugmynd,“ „della“ eða „röng og óþægileg hugsun sem hverfur manni sjaldan úr huga.“ Hugtakið, þótt það sé leitt af þessu tiltekna orði, hefur þó ekki þá merkingu — bandstrikið undirstrikar nýja áherslu: við erum ekki að tala um meinloku sem hverfur manni ekki úr huga heldur hugmyndafræði þrárinnar, hugarástand þess sem girnist. Þrá-hyggja er einnig tengd öðrum hugtökum: játun og neitun, sannfæringu, dómi. Þegar við dæmum af sannfæringu neitum við eða játum — við greinum, skiljum, fastskipum. Þegar við tölum um sjálf okkur sem sjálf afmörkum við það við líkamlega staðsetningu. Við getum hugsað okkur þessa fastskipun á tungumáli rökfræðinnar, hún birtist í grundvelli skynsamrar umræðu, hún er sjálft Logos. Að segja „α ∧ β“ er festing — það er eitt og það er annað, en það er ekki bæði og það er ekki hvorugt. Að segja „Ég gekk í kjörbúðina“ er margföld festing — það er Égið, gangurinn, kjörbúðin, allt aðskilið og fast í leikmynd hugans.

Skynjun okkar færir okkur viðföng, hólfuð niður í forgrunn og bakgrunn, einingu og hluta, allskyns fjöld og margslungnar upplifanir: „A eða B eða C eða …“ Á hverju einasta ómeðvitaða augnabliki dæmum við um þessa fjöld, við játum henni og neitum samstundis — lyklaborðið mitt er hólfað niður í mismunandi stafi er ég skrifa þetta og ég þarf að beita raðbindingu á hreyfingar mínar, skipta aðgerðum mínum niður og fastbinda þær yfir tíma, til þess að ég geti gert mig skiljanlegan í texta.

Hvar kemur fýsn inn í þetta? Hvers vegna „þrá“-hyggja? Hvað er það að þrá? Hvaðan sprettur þráin? Hugmynd mín er sú að grundvöllur allrar röklegrar skiptingar og fastbindingar sé einmitt þráin, girndin. Þegar maður hugsar það til botns höfum við enga raunverulega tryggingu fyrir því að hin svokölluðu lögmál rökfræðinnar — samsemdarlögmálið, mótsagnarlögmálið og lögmál annars tveggja — sé almennt sönn. Við neyðumst til að gefa okkur það. Við getum ekki sagt „En hvað ef (α ∧ ¬α)?“ vegna þess að það væri hreinlega vitfirring. Það er þó enginn grundvöllur fyrir þessu í heiminum í kringum okkur. Þetta tiltekna α er hvergi að finna — efnisleg viðföng okkar hafa engin eiginleg endimörk. Kaffibollinn á borðinu fyrir framan mig er bara „kaffibolli“ — hlutur/eining með nafn — vegna þess að ég kýs að ljá honum þessa einingu í huga mér, vegna þess að ég skil hann frá borðinu sem hann stendur á. Munurinn á þessum hlutum er samt í grunninn enginn — bæði bollinn og borðið eru sami hluturinn, efni/orka í rúmtíma. Orku má nefnilega einnig lesa sem massa margfaldaðan við hraða ljóss í öðru veldi, eins og flestir vita — hin fræga jafna Albert Einstein, E = mc^2 lýsir einmitt þessari staðreynd og sambandi orku og efnis.

Þráin eða viljinn sem ég vísa til með hugtakinu „Þrá-hyggja“ er því vilji-til-skiljandi. Ég er ekki að vísa til Foucault og  La volonté de savoir með þessu hugtaki — því það er ekki þekking skilningsins (e. Understanding, þ. Erkenntnis) sem ég meina hér. Ég meina einfaldlega skiljandi, sem er tvírætt orð — það vísar bæði til þess að skilja hluti í sundur auk þekkingarfræðilegs skilnings — en lýsir fyrst og fremst hreyfingu viljans, sem byggð er á fýsn eða girnd, til þess að greina hið Algjöra í sundur, skilja það í sundur. Hugtakið um þrá-hyggju vísar þá til þess að lögmál rökfræðinnar og eðli dóms, játunar og neitunar séu öll grundvölluð í þessari tilteknu hreyfingu viljans sem ég kalla skiljandi. Viljinn er það sem skapar merkinguna „α“ og þaðan af leiðandi „¬α ∨ β ∨ γ ∨ (n) ∨ … “ og „α ⊻ ¬α“ (sem útlegðist á mannamáli sem „Ekki-α eða β eða γ eða (n/þetta þarna)“ og „annað hvort α eða ekki α“) — í fyrsta skurðinum skapast fjöldin öll um leið.

Þrá-hyggja lýsir því alltaf einhverjum skapandi aðskilnaði, einhverri skiljandi, tiltekinni sjálfsveru (e. subject) sem skilur sig í tvöföldum skilningi: það er sjálfs-meðvitað (skilur sjálft sig) og það er aðskilið (frumspekilegur/verufræðilegur skilningur, aðskilnaður, aðgreining: skil/sundrung). Þótt ég tali um að sjálfsveran skilji á tvo mismunandi vegu er sjálfs-meðvitundin eða sjálfs-skilningurinn þegar allt kemur til alls bara sundrung og skiljandi að sama leyti og þessi grunnaðgerð viljans sem skapar sér fastskipuð viðföng sundrar og aðskilur — tvíræðnin er því aðeins málfræðileg fremur en falin í hugtakinu sjálfu. Hugtakið svarar aðeins spurningunni: „hvaðan koma dómar, játanir, neitanir og sannfæringar?“ — svar þess er: viljinn framkallar einingar úr Alltinu, hinu óræða, vegna þess að slíkt er eðli viljans.

Spurningin er þá: „hvað er þessi vilji, þessi skiljandi, og hvers vegna er eðli viljans slíkt?“ Þeirri spurningu er ekki auðsvarað. Ég hef hugsað mér viljann til þessa sem e.k. vigur eða beind, eitthvað sem stefnir og hefur kraft. Hér má hugsa sér viljann sem handan tvískiptingar sálgreiningarinnar í Sjálfið og Hittið eða hið meðvitaða og ómeðvitaða — viljinn er fremur líkari lífskraftinum sjálfum, hreyfingunni sem knýr hverja einustu frumu, það sem gerir líf að lífi. Það má lesa þessa hugmynd bæði í sambandi við Fyrirbærafræði andans, Svo mælti Zaraþústra og jafnvel Kapítalismi & geðklofi í hugtökunum Begierde (ísl. girnd), Wille zur Macht (ísl. vilji til valds), La production désirante (ísl. girndar-framleiðsla/fýsnleiðsla/vildarverkun). Það er eitthvað í kjarna manneskjunnar (og lífvera almennt, mögulega alheiminum sjálfum) sem knýr hana (þær/hann) áfram — hvort sem við hugsum okkur viljann sem þekkingarfræðilega hreyfingu úr skynvissu til sjálfs-meðvitundar og aftur til baka, „framleiddan“ eins og úr verksmiðju ómeðvitundarinnar eða er e.k. frumspekileg grundvallarforsenda hreyfingar og verðandi.

Þrá-hyggja er hugtak yfir þetta einfalda sem gerir okkur lífverur, τέλος lífs okkar, drifkraftinn sem er óútskýranlegur á annan hátt en að segja að hann sé drifkraftur. Þrá-hyggja er þetta fáránlega sem liggur að grundvelli alls sem við gerum: girnd, fýsn, þrá. Þráhyggja er undirstaðan fyrir einföldustu og sjálfgefnustu lögmálum hugsunarinnar, lögmálum á borð við „A = A“ og „A =/= ~A“ — þrá-hyggja er undirstaða rökrænunnar sjálfrar. Girnd/fýsn/vilji er samkvæmt þessu frumkategórían, — uppspretta allra annarra kvía (magn, verund, tengsl, háttur eða hvaða kerfi sem manni hugnast) — girndin er, neindin er ekki. Þegar við segjum „A er A“ segjum við samstundis „A er ekki B“ og erum samstundis minnt á túlkun Hegels á Spinoza í Encyclopedia Logic §91: „Omnis determinatio est negatio“ (sbr. bréf Spinoza til Jelles Ep. 50). Játun og neitun haldast ávallt hönd í hönd og eru óhjákvæmilegur fylgifiskur „skiljandinnar“, þess sem greinir hluti í sundur, þess sem „skilur“ hlutina. Skiljandin greinir að, játar einum hlut til þess að neita öðrum og bókstaflega „skapar“ hlutina fyrir skilningnum.

Gluggum nú í Hölderlin, rétt snöggvast — nánar tiltekið textabrotið fræga sem hann hripaði innan á hlífðarkápu bókar (sem gæti hafa verið Wissenschaftslehre Fichtes): Über Urtheil und Seyn. Í brotinu leikur hann sér að orðunum Urteil (dómur) og Ur-theil (frum-aðskilnaður) þannig að lesandinn myndi hugrenningatengsl milli hugtakanna um dóm og aðskilnað. Textabrotið, sem er frá árinu 1795 og skrifað í Jena, ber með sér sterkan keim þýskrar hughyggju — sem gerir það sérstaklega áhugavert vegna þess að Hölderlin er helst þekktur fyrir ljóðverk sín fremur en heimspekiskrif. Hann var þó einmitt herbergisfélagi þeirra Hegel og Schelling þegar þeir lærðu allir guðfræði við Tübingen Stift árið 1790, svo það ætti ekki að koma neinum á óvart að þeir hafi haft áhrif hver á annan og þar með á hugmyndir hvers annars. En snúum okkur nú að textanum:

[1] Being [Seyn] expresses the joining [Verbindung] of Subject and Object. Where Subject and Object are absolutely, not just partially united [vereiniget], and hence so united that no division can be undertaken, without destroying the essence [Wesen] of the thing that is to be sundered [getrennt], there and not otherwise can we talk of an absolute Being, as is the case in intellectual intuition. But this Being must not be equated [verwechselt] with Identity. When I say: I am I, the Subject (Ego) and the Object (Ego) are not so united that absolutely no sundering can be undertaken, without destroying the essence of the thing that is to be sundered; on the contrary the Ego is only possible through this sundering of Ego from Ego. How can I say ‘I’ without self-consciousness? But how is self-consciousness possible? Precisely because I oppose myself to myself; I sunder myself from myself, but in spite of this sundering I recognize myself as the same in the opposites. But how far as the same? I can raise this question and I must; for in another respect [Riiksicht] it (i.e. the Ego) is opposed to itself. So identity is not a uniting of Subject and Object that takes place absolutely, and so Identity is not equal to absolute Being.

[2] Judgement: is in the highest and strictest sense the original sundering of Subject and Object most intimately united in intellectual intuition, the very sundering which first makes Object and Subject possible, the Ur-Theilung. In the concept of division [Theilung] there lies already the concept of the reciprocal relation [Beziehung] of Object and Subject to one another, and the necessary presupposition of a whole of which Object and Subject are the parts. ‘I am I’ is the most appropriate example for this concept of Urtheilung in its theoretical form, but in practical Urtheilung, it (the ego] posits itself as opposed to the Non-ego, not to itself. Actuality and possibility are to be distinguished, as mediate and immediate consciousness. When I think of an object [Gegenstand] as possible, I merely duplicate the previous consciousness in virtue of which it is actual. There is for us no thinkable possibility, which was not an actuality. For this reason the concept of possibility has absolutely no valid application to the objects of Reason, since they come into consciousness as nothing but what they ought to be, but only the concept of necessity (applies to them). The concept of possibility has valid application to the objects of the understanding, that of actuality to the objects of perception and intuition.
— Friedrich Hölderlin. Þýtt af H.S. Harris úr bók hans, Hegel's Development: Towards the Sunlight. Oxford University Press, 1972. ISBN: 0198243588.

Verund, segir Hölderlin, er samtenging eða sam-band (þ. Verbindung) Sjálfsveru og Hlutveru. Hin Algjöra Verund er slík að verði hún skilin í sundur glatar hún eðli sínu — og þessi Algjöra Verund er aðeins til staðar í vitsmunalegu innsæi. Verundin má hins vegar ekki vera samsömuð samsemdinni. Hann byggir þá staðhæfingu á skilgreiningu á sjálfs-meðvitundinni eða „Éginu“: til þess að geta yfir höfuð sagt „Ég“ þarf maður fyrst að slíta það frá sjálfu sér, beita kröftum skiljandinnar á það. Samsemd er því aðeins möguleg eftir aðskilnað, aðgerð skiljandinnar — samsemd er því ávallt aðgerð sem límir saman skorinn hlut fremur en aðgerð sem skapar algjöra heild á ný. Enn fremur, heldur Hölderlin áfram, er þessi „skurður“ upprunninn úr dómnum (þ. Urteil) — upprunalega eru Sjálfsvera og Hlutvera ósnert eining vitsmunalegs innsæis en í frum-skurðinum (þ. Ur-Theilung) verður fyrst aðgreining — eins og áður segir er hér skemmtilegur orðaleikur sem er raunar mjög lýsandi fyrir mitt eigið viðfangsefni: Urteil vs. Ur-Theilung, dómur vs. frum-skurður. Þessi orðaleikur vekur raunar með manni hughrif og leiðir mann til orðsins „úrskurður“ og hlutverks dómstóla (sbr. Salómon konung sem bauðst til að skera barn í tvennt til þess að leysa úr deilu milli tveggja kvenna sem báðar sögðust móðir þess).

Þessi hugmynd um skurðinn og þrána og deildina er því ekki sérlega frumleg, eins og ljóst  er — hana má finna innan heimspekinnar sem og margra fornra trúarbragða, þar á meðal í búddisma þar sem sjálf er skilið frá heild, afleiðing skiljandi sem leiðir af sér bindingu og þaðan þjáningu; í kristni þar sem synd er sundrung frá Guði, sbr. Þegar Adam etur af „skilnings“-trénu; og í esóterískum gyðingdómi, sbr. Ein Sof í Kabbalisma, takmarkaleysi Guðs fyrir bólfestu Hans í takmarkandi andlegum heimi, þeim sem við lifum í. Aðskilnaðurinn er ávallt túlkaður sem neikvæður, meðan eining með heildinni er markmiðið — syndlaust líf í/með Guði, endalok Samsara, hringrásar endurfæðingar og dauða, í uppljómun Búddha, líf í samræmi við Lögmál Guðs í gyðingdómnum. Ég er að einfalda, augljóslega, en það er meginstefna hér sem öll þessu trúarbrögð eiga sameiginlegt sem hugmyndakerfi: neikvæð lýsing á aðskilnaði og jákvætt viðhorf til sameiningar.

Þegar hingað er komið er hollt að spyrja sig: er ég einu sinni að iðka heimspeki lengur — og ef ekki, hvurn fjárann er ég þá eiginlega að gera? Mér virðist þessi hugmynd mín um uppsprettu rökrænunnar óyrðanleg — mér líður eins og ég sitji í könnunargeimskipi á sporbraut um sjóndeildarhring svarthols: vilji ég ljúka sendiför minni og skýra frá niðurstöðum rannsóknar minnar á svartholinu get ég bara farið hringi í kringum það, en sannleikskjarninn er innra, ósnertanlegur nema að ég gefi mig allan undir hann, fari handan sjóndeildarhringsins og þar með handan hins skiljanlega heims. Ég er að reyna að lýsa hinu órökræna sem mótar og skapar rökrænuna — en ég get aðeins yrt lýsinguna með rökrænum orðum og hugtökum, sem gerir mér ómögulegt að fanga kjarnann. Ég er kannski að sökkva dýpra og dýpra í dulhyggju, handan heimspekinnar sem á að heita „vísindi“ og nær heimspekinni sem er „froða.“ Hvað sem það þýðir nú.

Listaverkið í haus, sem er eftir Alphonse Allais frá árinu 1883, ber titil sinn innra með sér, en á íslensku útlegðist hann sem „Fyrsta samkunda ungra, blóðlítilla stúlkna í snjókomu“. Eins og sjá má er viðfangsefnið allt svo hvítt og litlaust að ekkert tiltekið má greina úr myndinni — og mér fannst það frekar viðeigandi fyrir viðfangsefni þessa texta.

Eftir sitja auðvitað margar gagnrýnar spurningar — því eins og ég sagði að ofan er hugtakið langt frá því að vera tilbúið þótt smíðin sé þegar hafin. Til að mynda spyr ég sjálfan mig að því hvort ég sé að skapa einhverskonar tvíhyggju hér — í fyrsta lagi heim hinnar tæru girndar og í öðru lagi heim sjónhverfinga, niðurhólfana, aðgreininga, skiljandinnar. Í öðru lagi væri hægt að spyrja hvernig í ósköpunum maður kemst að því að skiljandin spretti upp úr girnd eða fýsn án þess að nota skiljandina sjálfa, og hvort það sé nokkuð marktækt að tala um uppsprettu rökrænunnar ef hún er órökræn. Ég hef ekki svör á reiðum höndum við þessum spurningum.

Það mætti líta á þennan texta sem framhald af fyrri vangaveltum mínum um rökhugsun og eðli dóma, en ég hef einmitt notað þrá-hyggja í þeim um rökhugsun þar sem ég sagði:

„Hvað er þá hið rökræna — þessi knýjandi rödd sem segir okkur að Hugmynd A sé A, að fyrirbæri B sé B, að Hugmynd A um fyrirbæri A og fyrirbæri A séu einn og sami hluturinn? Hvað er það sem við gerum þegar við hugsum rökrænt? Ég er farinn að hallast að því að það snúi að því að vilja, að þrá. Rökrænan er því mannleg einmitt vegna þess að hún er helber vilji, fýsn. Rökrænan er enn fremur þetta „ætti“: eplið ætti að falla til jarðar. Rökhendan ætti að leiða til nauðsynlegrar niðurstöðu. Það er samt engin trygging fyrir þessu ætti — það er að lokum innantómt ef við reynum að byggja það á einhverju öðru en mannlegri fýsn.

Rökrænan er því þráhyggja. Ekki í sálfræðilegum skilningi orðsins, heldur skipt upp: þrá-hyggja. Fýsin hugsun, vilji í þekkingu, vigri með átt og kraft. Hið rökrétta er það sem við vildum að væri, það sem ætti að gerast. Rétt eins og orsakasamhengi Hume (og ef til vill fæ ég margt lánað frá honum hér) er rökrænan það sem við ímyndum okkur að ætti að gerast út frá því sem hefur og gæti gerst, mögulegar línur framvindu — nánar tiltekið þær mögulegu framvindur sem við viljum. Röksemdir um að þetta fái ekki staðist vegna þess að oft sé hið rökrétta ekki það sem við viljum tel ég ófullkomnar vegna þess að þær gleyma því að þegar allt kemur til alls er rökrænn heimur okkur alltaf ákjósanlegri en heimur sem er það ekki: við þráum rökfasta reglu jafnvel þótt hún komi niður á okkur persónulega af og til. Við þráum að geta þráð — við þráum þrána sjálfa. Flóttinn til hins órökræna er flestum langtum of djúpstæður hryllingur: öll haldreipi laus, fljótandi í myrku tóminu, getulaus og bugaður af auðninni.“

Yfir stendur vinna hjá mér við að smíða fleiri hugtök og útfæra þau sem hafa þegar tekið á sig einhverja heildræna mynd nánar — nánar tiltekið hugtök um hugsandi, skiljandi, hrif, og nú þrá-hyggju. Vonandi get ég birt eitthvað nánar um það von bráðar.

Listræn upplifun og hrif

Listræn upplifun og hrif

Af heybrókum og hraksmánum

Af heybrókum og hraksmánum